Vöxtur í ferðaþjónustu

Ég veit, ég er alltaf að klappa sama steininn. Núna er ég loks að hlusta á vikugamalt viðtal á Rás 2 við formann Félags leiðsögumanna. Örvar Már Kristinsson stendur sig svakalega vel í djobbinu og þessu viðtali líka.

Er eitthvert lögmál að störf í ferðaþjónustu séu láglaunastörf? Á leið minni í vinnuna í morgun (gangandi, að vanda) mætti ég leiðsögumanni og bílstjóra sem ég þekki úr ferðaþjónustunni. Þeir eru alltaf í vinnunni og þannig ná þeir að skrimta. Þetta komst til tals úti á götu í morgun því að þetta er stórt mál hjá fólki sem nær ekki endum saman nema með herkjum.

Ég veit ekki hvort árviss fjöldi ferðamanna verður milljón innan skamms eða hvort náttúrupassinn kemur og hvort hann mun þá virka en ég veit að ég hef ferlegar áhyggjur af þessari aukningu, átroðningi, græðgi „landeigenda“ og framtíð ferðaþjónustunnar heilt yfir ef ekki verður mörkuð stefna í henni.

Svo hvet ég áhugasama til að hlusta á tæplega korterslangt viðtal við formanninn minn. 


Rukkanir í ferðaþjónustunni

Kannski er eitthvert langlundargeð að bresta þótt þetta virki á mig eins og flumbrugangur. Ég hugsa með hryllingi til þess að rukkunarskúrum verði tildrað upp úti um allt land, fólk standi í löngum biðröðum eftir að komast inn á svæðin, borgi fyrir hvert og eitt – og stoppi þá kannski lengur á viðkvæmum svæðum og traðki meira niður af því að það er búið að borga fyrir aðganginn.

Ég veit ekki hvort boðaður náttúrupassi er rétta leiðin en ég er gallhörð á því að gjaldtakan verður að vera í eitt skipti fyrir öll, ekki 5 evrur eða 800 krónur hér og þar og alls staðar.

Ferðaþjónustan verður að hugsa heildstætt og vera samstiga í þágu hennar sjálfrar. 


Bifreiðagjöld og -tryggingar

Eftir því sem ég kemst næst borga menn lægri tryggingar og minni gjöld af bílunum sínum í Bretlandi ef þeir nota þá lítið. Væri ekki ráð að taka það upp hér líka? Sá sem keyrir lítið er síður líklegur til að lenda í slysi eða valda tjóni.

Þá gæti maður átt bíl til utanborgaraksturs án þess að borga endilega á annað hundrað þúsund á ári fyrir það eitt að eiga bílinn. 


Samfélagssáttmáli

Í gær las ég pistil Ylfu Mistar um þá áskorun sem það er að eiga barn og koma því til manns. Hún er móðir liðsstjóra ræðuliðs MÍ í MORFÍS (eins og má lesa um í pistlinum). Ég þekki til hennar í gegnum leikfélagið sem við vorum báðar í um tíma en soninn þekki ég ekki neitt.

Ég trúi hverju orði sem hún skrifar og hygg að mörgu foreldrinu hafi verið svipað innan brjósts á lífsleiðinni. Nú reynir á hvernig rætist úr í framtíðinni og ég er full bjartsýni eftir lestur pistilsins.

Áhyggjuefni mitt snýst núna miklu fremur að þeim samfélagssáttmála sem virðist ríkja um óæskilega hegðun. Ylfa var líka í fréttum um daginn þegar hún sagði frá þorrablóti í sveitinni þar sem einhleypu og fráskildu fólki væri meinaður aðgangur. Miðað við pistilinn mætti hún á eitthvert þorrablót þar sem orðræðan var fyrir neðan allar hellur (ég vísa enn í pistilinn sjálfan) og ég spyr mig: Af hverju líðst það?

Það er kannski ekki nema von að óharðnaðir unglingar telji sér heimilt og sjálfsagt að ganga um með á dónaskap á vörunum og í puttunum ef samfélagið samþykkir þá hegðun hjá fullorðnu fólki. Stúlkan sem veist var að gerði náttúrlega stórkostlega vel í að standa með sjálfri sér, kynsystrum, kynslóð og öllu fólki  og nú þurfum við öll að halda vöku okkar.

Við ráðum nefnilega orðræðunni sjálf, hvað við líðum og hvað ekki. Og þessi brandari á þorrablóti er fjandakornið ekki í lagi:

karlmannlegt að míga standandi þegar nóg sé til að kvenfólki til að þrífa upp eftir þá 

Ha?


Landverðir - eða ekki

Umhverfisstofnun var gert að spara. Miðað við umræðuna var ákveðið að gera það með því að fækka landvörðum til muna.

Hvað gera landverðir?

Samkvæmt heimasíðu landvarða eru verkefnin fjölþætt:

Meginhlutverk landvarða er: 

  •     að gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt á hverju svæði fyrir sig.
  •     að taka á móti gestum og veita þeim nauðsynlegar upplýsingar og kynna þeim umgengnisvenjur og reglur hvers svæðis.
  •     að fræða fólk um gönguleiðir, náttúrufar, staðhætti og sögu.
  •     að sjá um að halda svæðum hreinum, þ.e. tjaldsvæðum, göngustígum og bílaplönum, sem og klósettum og kömrum; náttúruvættum og náttúru þess svæðis sem þeir vinna á.
  •     að merkja göngustíga, leggja nýja og halda þeim við.
  •     að vera til aðstoðar þeim sem á svæðunum dvelja.
  •     að hafa eftirlit með umferð og umgengni ferðamanna.
  •     að vera til taks þegar slys ber að höndum, veita fyrstu hjálp og kalla á lækni, lögreglu eða björgunarsveitir ef ástæða er til.
  •     að stjórna fyrstu aðgerð við leit ef einhver týnist á svæðinu, kalla til lögreglu og björgunarsveitir og aðstoða þær ef með þarf.


Áhersla er lögð á að hægt sé að leita til landvarða hvenær sem þörf krefur, allan sólarhringinn. 

Að sönnu er einhver skörun við önnur störf, s.s. leiðsögu- og lögreglumanna og björgunarsveita, en miðað við ágang undanfarinna ára og boðaðan aukinn straum ferðamanna er óviturlegt að skera niður í þessum störfum.  

Núverandi umhverfisráðherra spurði fyrir rúmu ári þáverandi umhverfisráðherra um fjölda landvarða. Ég ætla ekki að gera honum upp að hann hafi þá séð einhverjum ofsjónum yfir kostnaði við þá, enda held ég að hann sé í skötulíki miðað við margt annað. Ég leitaði reyndar að launataxtanum á vef Starfsgreinasambandsins en fann ekki.

Ollu kannski hálaunaðir landverðir á hálendinu hruninu 2008? Hmm. 


Ferðaþjónusta er burðarstoð

Í gær var ferðaþjónustan rædd á þingi. Víða er ásókn í ferðamannastaði til vandræða en samt stefnum við á meiri fjölda og höldum áfram að vera láglaunaland sem lætur traðka á auðlindinni. Enn er verið að ræða salernismál og göngustíga. Enn er verið að ræða um innviðina sem eru í molum.

Og hvað á að gera?

Ég legg til að við tökum hluta af framlegð greinarinnar í að treysta innviðina þannig að við getum kannski tekið með sæmd á móti milljón manns eftir nokkur ár. Það á að rukka á klósettin. Til dæmis mætti rukka inn á þau í sjoppunum og svo gæti fólk notað miðann til að versla út á og þá verða allir glaðir.

Það þarf að leggja betri vegi. Og það þarf að vera hæft fólk í stéttinni, bæði á hótelunum/veitingastöðunum sem og í rútunum og á öllum áfangastöðum. Þótt laun tryggi ekki 100% gæði eru meiri líkur að fá gott starfsfólk ef launin laða það að.

Ég er ekki bara að tala um okkur leiðsögumenn, ég er líka að tala um laun bílstjóra. Ég hef keyrt með mörgum frábærum bílstjórum en ég óttast að margir góðir hafi líka horfið á braut. Sum rútufyrirtækin eru líka með liðónýta bíla í umferð. Af hverju er það?

Það má aðgangsstýra fjöldanum til landsins með verðlagningu. Náttúran er takmörkuð auðlind og því miður komast ekki allir allt sem þeir vilja öllum stundum. Víða um heim er fólki bannað að fara um viðkvæm svæði nema í litlum hópum. Við verðum að gera eitthvað róttækt, því ekki aðgangsstýra? 


Leiðsögumenn borga ekki matarkörfuna með starfsánægjunni

Fréttablaðið birti fyrir mig grein um störf og kjör leiðsögumanna á föstudaginn:

Leiðsögumenn eru oft spurðir hvort það sé ekki gaman í vinnunni. Við virðumst þykja öfundsverð af starfinu og við erum það. Stundum er svo hrikalega gaman að vera á ferðinni; akandi eða gangandi, siglandi, ríðandi eða fljúgandi. Í hvataferðum fáum við að fljúga útsýnisflug, elta uppi hvali, fara á hestbak, busla í Hvítá og borða humar, naut eða skötusel.

Í hringferðum gefst tækifæri til að standa aftan á heyvagni á leið út í Ingólfshöfða, ganga upp að Svartafossi, stinga berum tánum í Atlantshafið í Reynisfjöru – æ, nei, má ekki, það er hættulegt – horfa á Geysi gera búbblur, horfa á Deildartunguhver gera minni búbblur, finna ölkelduvatn í Mýrasýslu, finna fyrir Walter Mitty í Stykkishólmi, sviðsetja Íslendingasögu í Borgarvirki, leika hest og tölta á mölinni, þefa af hvernum í Námaskarði, spila á trompet í Ásbyrgi og syngja Sofðu, unga ástin mín hjá Laxamýri.

Ég verð alltaf málóð þegar ég byrja á þessari umræðu en ætla að láta hér staðar numið í hugmyndunum. Sannarlega er oft gaman. En ekki alltaf. Stundum eru einstaklingar eða hópar til vandræða. Stundum heimta hvatahóparnir að fá að reykja inni á veitingastöðunum þótt það sé ekki í boði. Stundum gangast hópstjórar upp í leiðindum.

Stundum verða slys. Stundum er veðrið svo slæmt að engan langar út að skoða Dettifoss eða ganga niður Almannagjá. Einstaka sinnum er maturinn vondur eða ekki það sem pantað hafði verið. Það kemur fyrir að við þurfum að miðla málum, taka á honum stóra okkar og margendurtaka það sem við vorum búin að útskýra í smáatriðum. Stundum týnist einn farþegi af 60 og þegar hann finnst hvessir hann sig við leiðsögumanninn og segir að sér hafi ekki verið sagt að rútan yrði á hinum endanum eftir gönguna.

Eiga að fá sanngjörn laun
Þrátt fyrir marga ánægjustundina í vinnunni, þrátt fyrir góða veðrið sem var allan fyrsta áratug aldarinnar (misminni?) og þrátt fyrir náttúrufegurðina er það vinna að fara um landið með útlendinga, sýna þeim fegurðina, bæta við hana með fróðleik og sögum, ganga upp að jökli eða fossi með suma dálítið fótafúna, streða við að komast í einhver matarinnkaup í hádeginu á fjölförnum stöðum og uppörva fólk ef því er eitthvað mótdrægt.

Í ferðaþjónustunni eru margar mikilvægar stéttir sem eiga að fá sanngjörn laun. Ein þeirra er stétt leiðsögumanna sem verja löngum stundum í að lesa sér til, undirbúa sig af kostgæfni og kosta til þess fé og tíma. Reikningarnir okkar lækka ekki og við getum ekki borgað húsnæðislánin eða matarkörfuna með brosinu einu saman.


262.000 krónur fyrir heilan mánuð eru ekki sanngjörn laun. Þess vegna erum við í kjarabaráttu.

Ég verð að standa með sjálfri mér og stéttinni. Og ferðaþjónustunni. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband