Kjarabarátta

Ég er í kjarabaráttu fyrir hönd leiðsögumanna sem felldu jólasamninginn í síðustu viku. Það að vera leiðsögumaður er algjör aukageta hjá mér, eins og mörgum þar sem háönnin er enn á sumrin, og nú hef ég ákveðið að selja mig ekki fyrir minna en 40% hærri laun en taxtinn kveður á um.

Það þýðir að dagvinnutaxti minn sem launþega verður með öllum undirbúningstíma (sem er annars ekki greiddur), orlofi, desemberuppbót og fata- plús bókakostnaði kr. 2.700 í dagvinnu. Þá veikist ég á eigin kostnað, tek áfram frí heilan launalausan dag ef ég þarf að fara til tannlæknis, fæ ekkert launað orlof eins og aðrir launþegar og er til staðar á kvöldin í hringferðum af því að ég hef ekkert val um að fara heim til mín, knúsa mína nánustu, setja í þvottavél eða hringja úr heimasímanum.

Þetta eru hóflegar launakröfur af því að ég vorkenni svolítið ferðarekendum sem eru búnir að verðleggja ferðirnar í ár. Samt er viðbúið að þeir vilji ekki kaupa af mér þjónustu af því að enn eru í umferð eftirlaunaþegar og húsmæður með fyrirvinnu.

Þetta hljómar kannski beiskt en ég veit að ég stend þrátt fyrir allt bara næstum jafnfætis körlum í launum af því að forverar mínir í kjarabaráttu unnu fyrir mig. Ég ætla að reyna að tryggja næstu kynslóð leiðsögumanna boðleg laun. Það kemur enginn með jafnréttið og sanngirnina á silfurfati og réttir okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband