Ólögleg gjaldtaka eða ekki

Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn sem ekki vill að náttúruauðlindum sé haldið við. Allir vita að það kostar peninga að gera og halda við stígum og girðingum, tæma ruslatunnur og þrífa klósett. Sennilega eru allir sammála um að þá þurfi að afla fjár.

Það er hægt að gera með því að rukka fólk fyrir þjónustu, leggja á skatta, komugjöld, selja passa eða ræna það. Kannski er fleira í stöðunni. En um það sem verður ákveðið þarf að vera samkomulag og ríkja sátt.

Og hringlandaháttur er harðbannaður. Hvað sem öðru líður á Geysi er fráleitt, FRÁLEITT, að rukka ekki í gær, sunnudag, af því að „allir“ hafi ætlað að taka þátt í kynningarátakinu Leyndardómar Suðurlands en svo verði aftur rukkað í dag eins og ekkert hafi í skorist.

Þeim sem þarf að borga aðgangseyri finnst sér mismunað þegar hann fréttir af næstu gestum sem hafa ekki þurft að borga af því að allir starfsmenn hafi „þurft“ að mæta í eitthvert hóf. Og svona nokkuð spyrst út.

Já, ég held að „landeigendur“ við Geysi hafi verulega vondan málstað að verja og ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær þeir sjái að sér.

Hitt er allt annað mál að það þarf að finna framtíðarlausn á uppbyggingarvanda margra fjölsóttra staða á Íslandinu góða. Hver ætlar að gera það og hvenær?

Ég er líklega hætt að vera leiðsögumaður vegna launa og vegna skipulagsleysis en ef ég væri á leiðinni á hverasvæðið veit ég að ég veit ekkert hvað ég ætti að segja túristunum um þessi mál. Og þetta hefur líka verið vandamál á Hakinu á Þingvöllum en þar hefur þó aðeins verið rukkað fyrir þjónustu - KLÓSETTFERÐIR. 


Bloggfærslur 31. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband