Hvaða orð ber að varast?

Sum orð eru ofnotuð. Sums staðar heyri ég fólk oft segjast gera hluti með þessum eða hinum hættinum. Það verður að gera hlutina „með sjálfbærum hætti“. Sérstakan hroll fæ ég þegar einhver vill gera eitthvað með skynsömum hætti. Ég veit, persónugerving er til en háttur getur í besta falli verið skynsamlegur. Svo finnst mér galið hvað skýrslur segja mikið. Hins vegar er margt hægt að segja í skýrslu af skynsemi og svo stunda sjálfbærni eða sýna hyggjuvit.

Þú veist hvað ég meina. 

En ég hef aðallega verið með böggum hildar síðan Bragi Baggalútur stútaði „upplifun“ í Orðbragði. Við erum búin að leita dyrum og dyngjum að orði sem kæmi í staðinn fyrir það en „reynsla“, sem kemst næst því, kemst samt ekki nálægt því. Ég mun því halda áfram að upplifa hitt og þetta, t.d. með ferðamönnunum, en alls ekki með neinum tilteknum hætti ...

Orðin sem ég myndi setja lóðbeint í tætarann ef ég réði nokkru væru „snilld“ og „snillingur“ sem væri synd vegna þess að stundum eiga þau rétt á sér. En aldrei, hygg ég, síðustu fimm árin eða svo. Foreldri lætur ferma barnið sitt á Facebook og umsvifalaust segir vinahópurinn: „Snillingur.“ Kommon, krakkinn sagði já þegar það átti við og lærði kannski eitt vers eða heilræði. Ekki þar fyrir, ég gleymdi næstum að standa upp á viðeigandi stað þegar ég var fermd ...

En til að ókunnugt fólk haldi ekki að ég amist við fermingarbörnum, vinahótum, Facebook eða glensi legg ég til að fólk prófi að sletta dönsku og gratúleri með fermingarbörnin. Fer ekki annars sá tími að renna upp?    


Bloggfærslur 9. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband