Djúpivogur og aðrar litlar sjávarbyggðir

Ég er loks búin að horfa á myndbandið frá Djúpavogi sem byrjar á því að stúlka les upp úr lögum um stjórn fiskveiða.

 

Það er mjög auðvelt að skilja að fólk tengist heimaslóðunum og vilji halda þar til. Það er mjög auðvelt að skilja tilfinningaleg, efnahagsleg og byggðaleg rök fyrir því að fólk vilji ekki láta bola sér að heiman, selja húsnæðið fyrir slikk, rífa börnin upp, missa nándina, missa ræturnar. Það er hægt að skilja að stóreigendur eða meintir eigendur auðlindar vilji hámarka arðinn þótt mér finnist erfitt að skilja að fólk geri það án þess að hugsa um heildarsamhengið.

Það sem ég get samt ekki skilið er að hver sem er geti ekki skilið að okkur sem samfélagi er betur borgið með byggð í öllu landinu. Ekki í hverjum firði, ekki í hverri vík sem nú er eyðivík eða eyðifjörður en þar sem nú er blómleg byggð og gott mannlíf, nóg viðurværi og góð afkoma. Sjálfbært samfélag.

Nóg er túrisminn lofaður upp í hástert þessi misserin. Ef við höfum ekkert mannlíf að sýna og enga þjónustu að bjóða víða um landið verður heimsóknin ekki eins góð. Fossar eru frábærir en fimmtándi fossinn bætir ekki svo miklu við þann fjórtánda. Það er mikil gæðastund að stoppa á bryggjunni með útlendingana sína og leyfa þeim að horfa upp í karfa eða þorsk. Það eru ekki bara börnin sem ljóma upp við að sjá ketti, hunda, geitur, hænur og lömb á hlaðinu við bóndabæinn. Þýsk borgarbörn uppveðrast við að komast í tæri við heilan KÁLF. Ég brosi líka hringinn.

Mannlífið er auðlind. Byggð um land allt er auðlind sem er greinilega erfitt að verðleggja. 

Það eru sem sagt skýr efnahagsleg rök með því að leyfa byggðunum að njóta sín. Líka á Djúpavogi. Hvað er flókið við það?


Athyglivert? Athyglisvert? Athygli vert?

Tungumálið er skrýtin skepna og stundum órökrétt. Athygli er kvenkynsorð og beygist ekki í eignarfalli athyglis. Nei, þá væri það karlkyns. Leikfimi er líka kvenkyns sem og gagnrýni og vandvirkni. Samt eru mjög margir, flestir líklega, sem tengja þau við seinni hlutann með s-i.

Mér finnst tilgerðarleg ofvöndun að segja að eitthvað sé athyglivert. 

Svo eru mörg fleirsamsett orð sem fá tengi-s (vegna eignarfalls), fiskútgerð en bolfisksútgerð, fiskréttur en saltfisksréttur. 

Fleiri órökrétt orð: hársbreidd, hárlengd og hársídd; fasteignaskattur og eignarskattur.

Sumt er svo sem ákvörðun mannanna en margt hefur fyrst og fremst helgast af hefð.  

Svo hnaut ég um annað skemmtilegt nýlega sem varð til þess að ég ákvað að skrifa þetta hjá: frídagar en sumarfrísdagar.

Hefðin helgar svo margt og lætur rökvísina lönd og leið. Samt er málfræði vísindagrein, bara ekki raunvísindagrein ...


Bloggfærslur 23. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband