Djúpivogur og aðrar litlar sjávarbyggðir

Ég er loks búin að horfa á myndbandið frá Djúpavogi sem byrjar á því að stúlka les upp úr lögum um stjórn fiskveiða.

 

Það er mjög auðvelt að skilja að fólk tengist heimaslóðunum og vilji halda þar til. Það er mjög auðvelt að skilja tilfinningaleg, efnahagsleg og byggðaleg rök fyrir því að fólk vilji ekki láta bola sér að heiman, selja húsnæðið fyrir slikk, rífa börnin upp, missa nándina, missa ræturnar. Það er hægt að skilja að stóreigendur eða meintir eigendur auðlindar vilji hámarka arðinn þótt mér finnist erfitt að skilja að fólk geri það án þess að hugsa um heildarsamhengið.

Það sem ég get samt ekki skilið er að hver sem er geti ekki skilið að okkur sem samfélagi er betur borgið með byggð í öllu landinu. Ekki í hverjum firði, ekki í hverri vík sem nú er eyðivík eða eyðifjörður en þar sem nú er blómleg byggð og gott mannlíf, nóg viðurværi og góð afkoma. Sjálfbært samfélag.

Nóg er túrisminn lofaður upp í hástert þessi misserin. Ef við höfum ekkert mannlíf að sýna og enga þjónustu að bjóða víða um landið verður heimsóknin ekki eins góð. Fossar eru frábærir en fimmtándi fossinn bætir ekki svo miklu við þann fjórtánda. Það er mikil gæðastund að stoppa á bryggjunni með útlendingana sína og leyfa þeim að horfa upp í karfa eða þorsk. Það eru ekki bara börnin sem ljóma upp við að sjá ketti, hunda, geitur, hænur og lömb á hlaðinu við bóndabæinn. Þýsk borgarbörn uppveðrast við að komast í tæri við heilan KÁLF. Ég brosi líka hringinn.

Mannlífið er auðlind. Byggð um land allt er auðlind sem er greinilega erfitt að verðleggja. 

Það eru sem sagt skýr efnahagsleg rök með því að leyfa byggðunum að njóta sín. Líka á Djúpavogi. Hvað er flókið við það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki skil ég þetta væl í ykkur austfirðingum. Þið hafið forsætisráðherran með lögheimili í túnjaðri hjá ykkur, og ekki nóg með það að þið senduð 4 þingmenn framsóknar á þing fyrir ykkur plús 2 þingmenn íhaldsins.

Þannig að þið eruð vel mannaðir þinglega séð. En vitið þið ekkert um stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í fiskveiðimálum? Það er verið að framkvæma stefnu þessa flokka með því að nota hagræðingu sem skálkaskjól. Þið austfirðingar kusuð þetta og svo klórið þið ykkur í hausnum og botnið ekkert í því að kvótinn er farinn. Ég hef því miður enga samúð með ykkur þetta er ykkar val.

Sigurður H.Einarsson (IP-tala skráð) 24.5.2014 kl. 00:08

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Óttalegur dóni ertu, maður. Mér er skapi næst að kalla þig líka vitleysing en ég ætla að leyfa þér að njóta vafans, kannski varstu bara einstaklega illa fyrirkallaður í gær.

Hvernig færðu það út að ég sé Austfirðingur? Ég er það ekki. Hvar sérðu flokkspólitíska skoðun í textanum mínum? Hún er hvergi. Kannski er ferðaþjónustupólitísk skoðun þarna. Því miður hefur vantað stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi til langs tíma, væntanlega alltaf. Hvaða flokkum er um að kenna?

Áhyggjur mínar af byggðinni í landinu eru vegna þess að ég er borgari hér og mér stendur ekki á sama um framtíðina. Ég held að það að slíta hjartað úr byggðunum sé ávísun á verri ferðaþjónustu og hún á að ver(ð)a svo mikil burðarstoð fyrir efnahaginn.

En ég þakka þér fyrir að skrifa undir nafni, Sigurður. Það bendir til þess að þú sért maður en ekki tröll þótt ég þekki þig ekki.

Berglind Steinsdóttir, 24.5.2014 kl. 08:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband