Þegar ég var kennari

Ég hætti í kennslu fyrir rúmum 10 árum, ekki vegna launanna heldur af því að ég var aldrei búin í vinnunni. Launin voru svo sem ekki í samræmi við tímann sem ég varði í vinnuna þannig að kannski hætti ég svolítið vegna launanna.

Þar sem svo langt er um liðið veit ég ekki nákvæmlega hvernig aðbúnaður og kjör eru núna í reynd en á sínum tíma þurfti ég að deila tölvu og borðplássi með fleiri kennurum sem þýddi einfaldlega að ég fór heim með verkefnin, undirbúninginn og úrvinnsluna. Það þýddi að ég sat með spekúlasjónirnar í fanginu og höfðinu fram eftir kvöldi og stundum fram á nótt. Stundum var ég auðvitað óöguð og kom mér ekki að verki. Í staðinn hafði ég hraustlegt samviskubit. En stundum var flókið og tímafrekt að meta ritgerðir og önnur skrifleg svör.

Ég veit ekki hvaða laun þyrftu að koma til svo ég færi aftur í kennslu. Mér finnst enn gaman að standa fyrir framan hóp af fólki og „kenna“, miðla, segja frá, upplýsa. Þess vegna fór ég út í leiðsögn og þess vegna kom ég mér í það verkefni í núverandi vinnu að ég „kenni“ stundum.

Kennsla er svakalega skemmtilegt starf en stundum var ég að bilast yfir því hvað kerfið var ferkantað. Ég hefði viljað vera meira í kennslustofunni og minna í að fara yfir stíla. Af hverju mátti ég ekki skipta við kennarann sem var búinn að vera í 100 ár og skildi ekki lengur unglinga en vildi sitja inni í herbergi og fara yfir stílana? Af hverju var ekki (og er kannski ekki enn) meiri viðvera í skólunum þannig að menn ynnu meira saman, jafnvel þvert á fög?

Ég hef enga trú á kerfisbreytingu sem geri nemendum kleift að ljúka námi á þremur árum af því að þeir geta það nú þegar. Ég bið hins vegar um meiri sveigjanleika og alveg áreiðanlega mættu kennarar koma til móts við viðsemjendur. Margir kennarar eru mjög excel-miðaðir og margir kennarar ættu að vera löngu hættir en ég held að alltof margir skólar og kerfið almennt stíli inn á vondan ramma sem enginn græðir á.

Kennarar eru of lágt launaðir og þurfa að hækka í launum en sumir kennarar þurfa líka að sýna meiri sveigjanleika.

En hvað ætli ég viti svo sem, ég sem lifi og leik mér alla daga í skemmtilegri vinnu? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband