Hemmi Gunn

„Örlögin settu Son þjóðar í hendurnar á mér. Alla mína ævi hef ég auðvitað vitað af sameigninni Hemma Gunn og kannski las ég bókina af því að Hemmi lést óvænt í fyrra og af því að umtalið var enn meira en annars hefði verið. Ég er ekki mikið í ævisögunum og síst ævisögum samtímamanna.

Fyrst vil ég segja að mér blöskrar ekki að höfundur hafi ákveðið að skrifa eftirmála út frá því samkomulagi sem hann segist hafa gert við bókarefnið um að segja allt og draga ekkert undan. Hann hafði líka heimildarmenn fyrir því sem hann sagði. Ef við getum talað um einhvern lærdóm af æviferli Hemma er það sá að  vert er að taka þennan kaleik frá þjóðareignum, fólki sem þjóðin álítur sitt, að fólk í almannaeigu þurfi að vera fullkomið. Hemmi féll í fjölmargar gildrur frontsins, þess að líta út eins og fólk vildi, hegða sér fyrir vandalaust fólk, þrátt fyrir hina miklu einlægni og heiðarleika sem fólk ber honum góða sögu um.

Auðvitað var fjölmargt í bókinni sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég vissi ekki að Hemmi hefði í raun verið stutt í íþróttum. Ég vissi ekki að hann hefði reykt alla ævi. Ég vissi ekki að hann hefði verið svona eðlislatur en samt hrikalega vandvirkur þegar hann tók eitthvað að sér. Ég vissi ekki að hann hefði verið svo vanafastur að hann fór ALLTAF í hádeginu að hitta vini sína, grjónapungana, til að borða með þeim. Ég vissi ekki einu sinni að hann hefði verið hrekkjalómur (fela buxur í flugi, símaöt) og þaðan af síður að hann hefði verið hörundsár og tekið illa gríni sem beindist að honum.

En ég hef heldur ekki mikinn áhuga á upptalningu um líf fólks, mér finnst áhugaverðara að heyra um skoðanir og rök fyrir þeim. Og Hemmi virðist hafa forðast að taka afstöðu, kannski af því að hann var þjóðareign og vildi engan styggja.

Sterka hliðin hans finnst mér hafa verið fallegu samtölin sem hann átti við börn fyrir þættina sína.  Trúlega hefur áfengið spillt alltof miklu af því góða sem hann bjó yfir. Hann tókst á við það böl en samt var áfengissýkin stóra og langvarandi vandamálið allt hans líf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband