Hvað á nú að segja útlendingum?

Ég var komin til vits og ára (miðað við aldur) þegar Gjálpargosið varð 1996. Ég man samt ekki eftir því. Þá átti reyndar ekki hartnær hver einstaklingur sinn eigin fjölmiðil og kepptist við að segja manni undan og ofan af persónulegum högum jafnt og yfirvofandi brúarföllum og milljarðatjóni.

Ég man eftir Eyjafjallajökulsgosinu fyrir fjórum árum. Það kom lóðbeint ofan í kynningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í apríl sem kom beint ofan í óvænt gosið á Fimmvörðuhálsi í mars. Ég var ekkert á leiðinni til útlanda þannig að hræringarnar snertu ekki mitt daglega líf að öðru leyti en því að einhverjir ferðamenn sem ég ætlaði einhvern tímann um sumarið að fara með eitthvað um landið skiluðu sér ekki. Eldgos hræða. Fréttaflutningurinn líka.

Nú keppast menn við að segja ekkifréttir af gosinu og hvað það kemur til með að valda miklu tjóni. Það rústar Dettifossi. Eða ekki. Það leggst yfir Kárahnjúka. Eða ekki. Erlendir ferðamenn breyta ferðaáætlunum sínum.

Ég er kannski óttalega forhert og víðáttukærulaus en ég held bara mínu striki, mæti í vinnuna, les bækur, spjalla fjandann ráðalausan um fjallgöngur í fortíð og framtíð, geng á hóla, fer í sund, elda og borða mat, les vefinn, skrifa á vefinn ...

Ég mun engin áhrif hafa á gang Bárðar en segi til öryggis að þið eruð öll æði.

#djók 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband