Áheit? Ha?

Það er göfugt að fólk vilji koma vel fram við aðra og gera þeim greiða. Á laugardaginn hlaupa þúsundir í Reykjavíkurmaraþoninu, vonandi sér til skemmtunar í frábæru hlaupaveðri eins og ég hef í hyggju. En nú dynja á manni auglýsingar um „áheit“ til styrktar hinu og þessu. Á Facebook tilkynnir fólk líka um áheitahlaup og hvetur vini sína til að heita á sig.

Áheit felur í sér, samkvæmt Snöru, „loforð um e-ð (ef bæn eða ósk rætist)“. En það fylgist enginn með því hvort fólk komist í mark eins og það lofar. Fólk er því í raun að biðja um styrki fyrir hin tilteknu félög eða einstaklinga sem eiga um sárt að binda. Göfugt, ég ítreka það, en mér finnst vettvangurinn rangur.

Engu að síður gerðist ég meðvirk og „hét á“ þrjá hlaupara. Sjálf kaus ég hins vegar að slást ekki í hóp þessara fjögurra þúsunda sem kalla eftir framlögum - enda hafa margir hlauparar safnað 0 krónum.

Sannfæring mín er sú að skattar eigi að standa undir velferðarkerfinu. Mér finnst það sárt og súrt að ef einhver lendir í slysi, jafnvel vinnuslysi eins og dæmi eru um, þurfi viðkomandi að safna sjálf/ur peningum til að borga fyrir batann ef hann er kaupanlegur. Dæmi um svoleiðis er handlangarinn Guðmundur, hörkuduglegur gaur sem kann að koma fyrir sig orði og heilla áheyrendur. Mér finnst að skattarnir mínir eigi að fara í að búa hann undir aðgerð með þeim kostnaði sem er óhjákvæmilegur en að hann eigi ekki að þurfa að safna fénu sjálfur.

Kannski er tíkarlegt af mér að segja þetta en svo skil ég ekki að fólk læki statusa á Facebook um svona „áheit“ án þess að leggja þá til pening. Það er ansi áreynslulaust að smella á lækhnappinn einan saman. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband