Nei við reiðhjólahjálmi

Því miður finnst mér Hjólað í vinnuna orðið dálítið staðið verkefni. Ég heyrði viðtal við verkefnisstjóra í útvarpinu í gær sem sagði að fjöldi þátttakenda hefði stigið stöðugt fyrstu árin, væri nú komið í kyrrstöðu þegar það væri búið að vera svona lengi í gangi, frá árinu 2003, en vonandi næðist áfram 10.000 manna þátttaka. Ég fer mjög mikið fyrir eigin vélarafli þannig að átakið hefur aldrei haft nein áhrif á raunþátttöku mína, bara skráninguna. Og nú nenni ég ekki lengur að skrá mig þótt ég sé á 100 manna vinnustað og við séum hvött til þess að „vera með“. Ég hjóla í vinnu og ég hjóla úr vinnu. Það þýðir tvær skráningar í verkefninu. Ég veit ekki hvernig það er núna en maður þurfti að minnsta kosti alltaf að velja upp á nýtt ef maður fór ekki hjólandi, síðasta val kom ekki sjálfkrafa upp, og maður var beðinn um veðurlýsinguna - en hún átti að vera sú sama fyrir báðar ferðir. Instagram getur kannski bjargað einhverju í ár en annars er blessað verkefnið alveg að geispa golunni.

Nóg um það.

Ég las viðtal við Gísla Martein í gær um notkun hjálma. Eða ekki. Það er útbreiddur misskilningur að maður þverskallist við að nota reiðhjólahjálm af því að það sé ekki kúl, að það hafi með útlit að gera. Það er ekki málið. Mér hefur alltaf þótt óþægilegt að vera með húfu, mér finnst óþægilegt að vera með annað en kannski úlpuhettuna á hausnum. Þegar ég fer ofan í hella er ég samt með hjálm af því að þá er það raunverulegt öryggisatriði. Þegar ég hjóla eftir stígum eða í rólegum hliðargötum er ég ekki í meiri hættu en gangandi vegfarandi. Ef fleiri hjóluðu að staðaldri en nú er væru færri bílar á götunum en þessi eilífa krafa sumra um að maður hjóli með hjálm fælir of marga frá reglulegum hjólreiðum og eykur þar með slysahættu ef eitthvað er.

Ég segi eins og píratinn: Að auki legg ég til að fólk hætti að amast við hjálmlausu hjólandi fólki (hann er að vísu með annan baráttutón í lok hverrar ræðu).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála með hjálmana - og hef lengi verið í hjálmlausa liðinu og finnst að hver eigi að velja fyrir sig (og ekki mig) í þessu. 

Líka sammála með hjólað í vinnuna. Það er líka verið að skipta um áherslur í herferðinni og að hluta hefur það verið gert. Núna er t.d. ekki lagt upp úr lengd ferðanna þannig að fólk getur hætt að fara í kaffi úti á Álftanesi á morgnana í keppni um kílómetrana. 

Svo erum við ekki lengur á "target" listanum í þessari keppni enda löngu löngu farnar að hjóla í vinnuna. 

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 16:11

2 identicon

 En deildu þessari færslu þinni endilega á facebook - þá fyrst færðu viðbrögð.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 16:12

3 identicon

Ég er sammála þér með Hjólað í vinnuna. Ég hjóla alltaf til og frá vinnu og hef tekið þátt í átakinu en nenni því ekki lengur. Ég er með eigin skráningar, markmið og annað í þeim dúr og mér finnst bara vesen að skrá þessa keppni líka. Svo er þetta orðið svolítið þreytt og staðnað. En það er frábært hvað það er mikil vakning í samfélaginu og kannski er átakið búið að skila sínu, þ.e. fólk lítur á það sem raunverulegan kost að hjóla eða fara öðruvísi en með einkabíl til vinnu.

Ég skil hins vegar ekki þessa umræðu um hjálmana. Ég las líka viðtalið við Gísla Martein og las ekki betur en hann væri að færa rök fyrir því að það ætti ekki að skylda neinn til að vera með hjálm á hjóli. Ég túlkaði það þannig að hann notar ekki hjálm því hann vill ekki að það sé skylda. Ég er sammála því að það ætti ekki skylda neinn að nota hjálm. En það er bara þannig að hausinn á þér er töluvert betur settur inni í hjálmi ef þú lendir í slysi. Þessi röksemd um að ef ég hjóla hægt þá þurfi ég ekki hjálm er eins og að segja ég þarf ekki að nota öryggisbelti því ég keyri svo hægt. Ég vinn með hausnum og á lífsviðurværi mitt undir því að hann sé í lagi. Þess vegna hjóla ég með hjálm. Ég hjóla líka með hjálm því ég og þú og Gísli Marteinn erum fyrirmyndir. Fyrirmyndir barnanna minna, barnanna í hverfinu og fyrir allskonar aðra. Ég vil að börnin mín noti hjálm og læri að passa sig og sitt. Reiðhjólahjálmar eru áhrifarík og ódýr öryggistæki sem er sjálfsagt að nota. Mér er til efs að margir láti reiðhjólahjálma fæla sig frá hjólreiðum, það væri a.m.k. gaman að sjá gögn sem styðja þá kenningu.

Björgvin Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 10:06

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Áhugavert. Það er reyndar til svokallaður ósýnilegur hjálmur sem mér þætti skemmtilegra að nota: 

https://www.youtube.com/watch?t=211&v=CMAhptqk-4Q

Hrannar Baldursson, 12.5.2015 kl. 16:35

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Skrambans, Björgvin, þér tekst næstum að sannfæra mig. Ég hef ekki séð neinar rannsóknir sem styðja fælingarkenninguna, ég bara man að Pawel Bartoszek skrifaði stundum um þetta og hann var ekki vanur að fara með fleipur, en mér finnst röklegt að ef fleiri hjóla og færri keyra er minni hraði alls staðar og minni hætta. Ég var að spjalla um þetta við vinkonu í búð í gær og afgreiðslumaðurinn blandaði sér í umræðuna og tók undir með einum sem ég var að vísa í og sagði að maður yrði að detta á hausinn, ekki andlitið, til að hjálmur bjargaði í raun. Eins og gefur að skilja amast ég ekki við að aðrir noti hjálm en mér finnst tímabært að fólk hætti að segja við mig að ég vilji ekki vera með hjálm af því að það sé ókúl (þú hefur ekki gert það). Það hefur ekkert með útlit að gera heldur óþægindi.

Hrannar minn, ég fékk upp mjög skrýtna mynd á YouTube og sá ekki hjálminn ...

Berglind Steinsdóttir, 14.5.2015 kl. 09:55

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, maður þyrfti að vera með mótorhjólahjálm og hlíf fyrir andlitinu ef maður ætlar að vera öruggari en hjálmlaus, það varð niðurstðan hjá okkur í búðinni.

Berglind Steinsdóttir, 14.5.2015 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband