Samúel í Brautarholti og Gísli á Uppsölum

Nú er búið að dreifa og ræða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Meðal þess sem hefur borið á góma er að styrkir sem ferðamannastöðum hefur verið úthlutað til uppbyggingar hafa ekki verið nýttir og þeim þarf að skila. Ég heyrði að um helmingur hefði ekki lokið því sem til stóð á síðasta ári og að á mörgum hefði ekki verið byrjað.

Hmm.

Sveitarfélög (og félög/fyrirtæki) þurfa að leggja fé á móti framlagi frá ríkinu og þar stendur hnífurinn víst í kúnni.

Í sumar er ég búin að þvælast meira um Vestfirðina en fyrri ár. Sunnan megin, ekki á Stór-Ísafjarðarsvæðinu, eru vegirnir hrein hörmung og ég held að það ástand sé aðalástæða þess að ferðaþjónustufyrirtæki geta illa skipulagt ferðir þangað. Massinn fer að minnsta kosti ekki á staðinn. Á veturna er háskalegt að fara um Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

Um síðustu helgi var ég til dæmis á Bíldudal sem er mikið að byggjast upp þessi misserin vegna þörungavinnslu. Íbúafjöldi hefur sveiflast eftir atvinnuástandinu og nú er sveiflan upp á við. 25 km lengra er Selárdalur, einn af Ketildölunum við sunnanverðan Arnarfjörð, og þar er Brautarholt, bærinn sem Samúel Jónsson, listamaðurinn með barnshjartað, byggði af vanefnum en mikilli ástríðu um miðja síðustu öld. Listaverkin hans eru geymd úti og lágu undir skemmdum (hann dó 1969) en fyrir 10-15 árum var byrjað að endurgera þau og nú er björgulega um að litast. Þangað væri gaman að koma með áhugasama ferðamenn. Á Bíldudal er Skrímslasetrið sem tengist þjóðsögum af skrímslum. Ferðamenn hafa gaman af sögum sem virðast upplognar. Á Patreksfirði er góð sundlaug og á Tálknafirði er Pollurinn. Okkur finnst alltaf gaman að busla.

Þarna sjást - held ég - ekki margir ferðamenn. Kannski mega heimamenn prísa sig sæla en ferðamaðurinn fer á mis við mikið.

Pollurinn rétt utan Tálknafjarðar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þarna hef ég auðvitað baðað mig í góðum félagsskap franskra ferðarmanna. 

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 30.9.2015 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband