Veikleikavæðing

Enn og aftur vakna ég til umhugsunar um eitthvað sem ég veit lítið um. Björk Vilhelmsdóttir sagði í viðtali í gær að of mikil tilhneiging væri til að einblína á veikleika fólks sem á undir högg að sækja frekar en að gefa styrkleikum þess gaum. Mín fyrstu viðbrögð voru að kinka kolli. Ég þekki ekki mörg dæmi en ég þekki þess þó dæmi að býsna frískt fólk hafi hálft um hálft verið komið á framfærslu borgarinnar af því að eitthvað var að. Já, einbeitingarskortur, sveimhygli, einhver sérhlífni – en í viðkomandi var og er líka mikið listfengi og einbeittur áhugi á sköpun og frumkvæði. Það koðnaði niður af því að endalaust bárust boð um úrræði sem fólu í sér aðgerðaleysi viðkomandi. Ég er með unga manneskju í huga, manneskju sem getur ýmislegt en er ekki alveg á bóknámslínunni, manneskju sem getur plumað sig með smávegis aðstoð, já, kannski léttu myndrænu sparki, en þarf ekki að láta rétta sér allt upp í hendurnar.

Svo les ég meira og fer að velta fyrir mér hvort Björk sé fullharðorð, samherji er ósammála henni. En Björk talaði ekki um aumingjavæðingu heldur veikleikavæðingu. Mér finnst munur þar á. Aumingi er manneskja, veikleiki er eiginleiki. Ég reyni sjálf að horfa meira á sterku hliðarnar en þær veiku. Þegar ég var kennari og gaf umsagnir um ritgerðir hampaði ég því sem vel var gert til að örva fólk til dáða. Það kemur þó ekki í veg fyrir að maður reyni að leiðbeina fólki eða hjálpa því áfram.

Maður Bjarkar segist ekki að öllu leyti sammála henni um framfærslumálin. Hann er læknir og þarf stundum að meta starfsgetu fólks. Annað þarf ekki að útiloka hitt. Fólk getur þurft stuðning, bæði hjálp við framfærslu og stuðning til sjálfshjálpar. Það er auðvitað til fræg hugmynd um aðstoð: Það er nær að kenna fólki að veiða fisk en að veiða fiskinn fyrir það og færa því.

Ég man líka gjörla að Pétur H. Blöndal heitinn talaði oft og mikið um starfsgetumat frekar en örorkumat. Ég held að langflestir vilji vera sjálfbærir og ala önn fyrir sér sjálfir, en vitaskuld er líka til fólk sem eru því miður allar bjargir bannaðar og það þarf mikla aðstoð.

Svo les ég blogg Ragnars Þórs sem er ávallt rökfastur. Honum er, eins og Björk, uppsigað við lært hjálparleysi en er ósammála þeim aðferðum sem hún talar fyrir og gagnrýnir bæði hana og yfirvald borgarinnar. Og þá verð ég aftur efins af því að ég er ekki innsti koppur í búri Ráðhússins. Hefur verið mjög illa haldið á málum í borginni? 

Ég mun fylgjast með umræðu næstu daga og vikna og mynda mér skoðun þegar fleiri kurl verða komin til grafar. En akkúrat núna held ég að Björk hafi stigið gáfulegt skref og vakið okkur betur til umhugsunar um hvort hægt sé að gera meira í því að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband