Sorp og umhirða í 101/105 miðbæ

Ég fór á ákaflega málefnalegan og hreinlega skemmtilegan hverfisfund á Kjarvalsstöðum í gærkvöldi. Umræður urðu fjörugar, fólk var jákvætt og lausnamiðað en sú tillaga sem situr mest í mér er sú sem kaupmaðurinn í Kokku kom með, að ökukennarar fengju kort í bílastæðahúsin og bættu því inn í ökunámið að kenna nemendum sínum að leggja þar. Hún sagði að sumt fólk væri hreinlega hrætt við húsin. Ég nýti mér þau lítið og kannski ekki neitt en ég er líka lítið á bíl í miðborginni þar sem ég bý svo nálægt.

Svo var heilmikið talað um almenningssamgöngur og Airbnb sem mér heyrist komið til að vera.

Ása Hauksdóttir sagðist ekki með góðu móti getað tekið strætó þar sem upplýsingarnar væru svo flóknar – og hún væri bæði Íslendingur og miðborgarbúi. Ég tek svo heils hugar undir það, það er mjög mikil fyrirhöfn að finna út úr upplýsingunum á strætó.is. Og hvernig á þá að vera hægt að koma útlendingunum með strætó í Árbæjarsafnið, Grafarvogslaugina eða á Úlfarsfell? Nútímaferðamennska er ekki að stíga inn í rútu sem sækir mann heim að hóteldyrum og keyrir Gullhringinn.

Og ég er full bjartsýni á að pólitíkusinn hafi farið glaður af fundinum með hollar ábendingar íbúanna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband