Múgsefjun

Ég hef ekkert á móti því að fólk sýni andúð sína á hryðjuverkum með því að breyta um prófílmynd á Facebook. Skárra væri það. Eða þótt það sé með því að sýna frönsku þjóðinni stuðning. Ég er hins vegar of þvergirðingsleg til að stökkva á svona vagna. Hryðjuverkin eru að sjálfsögðu óverjandi, hroðaleg, skelfileg, ógnandi og hafa í för með sér óréttlætanlegt mannfall, skelfingu, vanmátt, uppgjöf að hluta og ótta við framtíðina.

Ógeðslegt.

Og því miður alltof algengt athæfi. Það eru því miður stríð úti um allan heim og hafa verið um langan aldur. Hvað er gert til að uppræta svona vonsku? Kannski róa menn stöðugt að því öllum árum á leiðtogafundum heimsins og vissulega hafa æðstu menn þjóða stigið fram og hvatt menn til að elska friðinn. Ég geri ekki lítið úr því sem hefur verið gert en greinilega er ekki nóg gert úr því að ekki tekst að uppræta þetta.

Ég man enn fyrstu færsluna mína á blogginu fyrir tæpum níu árum. Þá höfðu líka verið framin ódæðisverk og þá ruku líka einhverjir upp og höfðu skoðun og ég held að það hafi verið vegna þess að gjörðin hjó nærri okkur sjálfum. Það er erfitt að hafa stjórn á 8 milljörðum manna, ég skil það, en sýna ekki verkin merkin? Er ekki vandinn sá að voldugir menn berjast um auð og áhrif? Hvaða áhrif hafa vopnaframleiðendur? Hvað veldur því að unglingar fremja svo viðbjóðslegan verknað eins og raunin varð í París?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband