Pó-li-tík!

Ég er ávallt óvissuatkvæði þannig að ég ætla ekki að fjalla um flokkapólitík, skoðanakannanir eða almennar pólitískar skoðanir þótt ég nefni pistilinn minn þessu nafni. Nei, ég datt inn á Politiken og las grein um smálán. Já, þessi helv. lán tíðkast líka í útlandinu. Í greininni kemur fram að sjöundi hver Dani á aldrinum 18-30 ára eigi í fjárhagserfiðleikum. 

Ég verð svo gröm þegar ég hugsa út í það. Ungt fólk er mótað af samfélaginu sem það elst upp í. Auðvitað er ekki allt ungt fólk eins en í samfélögum eru samt meginlínur. Ef tilhneigingin er sú að fólk eigi að geta eignast margt á unga aldri er erfitt að standa á móti þrýstingnum. Það er tölva, sími, eigið húsnæði (í eigu eða á leigu), bíll, skyndibiti (í einhverju íslensku dagblaði er vikulegt viðtal við eitthvert ungmennið sem á erlendar uppáhaldsborgir og talar um dýra veitingastaði sem staðinn sem það fer iðulega á), já, eilífar utanlandsferðir og það sem mér finnst almennt að fólk eigi að hafa dálítið fyrir að eignast. Það er engum hollt að fá allt upp í hendurnar.

Sem sagt, smálán eru auðfengin en þau eru dýr og þau þarf að endurgreiða. Mér finnst að þau eigi ekki að liggja svona á lausu, mér finnst að löggjafinn eigi að setja okurlánurunum stólinn fyrir dyrnar og mér finnst líka að við eigum að passa okkur á því að mæla ekki upp í ungu fólki hvötina og löngunina til að eignast allt á stundinni.

Guð forði mér frá því að rifja upp þegar ég fékk reiðhjól í sumargjöf þegar ég var 14 ára - en mér fannst ég hafa himin höndum tekið. Sem betur fer þróast tæknin og margt sem var ekki til þegar ég var 14 ára er sjálfsagt í dag en samt vil ég að allt fólk, ungt, miðaldra og gamalt, hafi hæfilega mikið fyrir hlutunum. Og það að hringja eftir lánsfé þegar mann langar í pítsu og súkkulaði eða í bíó eða í helgarferð til Brussel er - ekki - heilbrigt.

Og hananú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband