Kallinn í kassanum

Er api í búrinu?

Ein elsta minning mín í fóðurhúsum er gagnrýnið tal um brauð á sýningu sem myglaði eftir því sem leið á sýninguna og um heybagga sem var komið fyrir einhvers staðar (á Skólavörðuholtinu?) og grotnaði niður og varð engum til gagns eða gleði.

Nú er myndlistarnemi á 1. ári búinn að dvelja í litlum glerkassa í Listaháskólanum í tæpa viku. Mér heyrist fólk ekki mikið þora að gagnrýna og alls ekki lýsa yfir velþóknun eða mæla athæfinu bót. Það fólk sem ég heyri í vandar sig við að hafa ekki skoðun á gjörningnum.

Ég hef kíkt reglulega á Almar í kassanum alla vikuna. Ég hugsa með hryllingi til þess að vera lokuð inni, velja að þegja, lesa ekki samfélagsmiðlana, striplast fyrir framan óteljandi margt fólk – og ráða engu. Mér finnst tilhugsunin um að framselja allt ákvörðunarvald yfir matnum mínum, lesefninu, félagsskapnum og almennt öllu alveg gríðarlega fráhrindandi.

Ég veit auðvitað ekkert hvað vakir fyrir Almari. Ef hann heldur áfram í þessu námi er alveg pottþétt að hann græðir á þeirri athygli sem hann fær út á verkefnið. Vonandi verður hann einhvers vísari um lífið, tilveruna og sjálfan sig. Ég er alveg búin að máta mig í kassann og veit að ég vil vera utan hans.

Ég sá viðtal við Godd í vikunni sem fannst forvitnilegast að sjá viðbrögð annarra nema í Listaháskólanum sem fylgdust með Almari á YouTube í stað þess að fylgjast með honum í kassanum sem var steinsnar frá. Niðurstaða mín: Það er forvitnilegt að fylgjast með fólki fylgjast með kallinum í kassanum, eins og að fylgjast með börnum horfa á myndir sem skemmta þeim eða vekja með þeim óhug. Ég hef stundum haft meira gaman af að fylgjast með viðbrögðum annarra við bíómyndum en að fylgjast með bíómyndinni.

Almar er aukaatriði, viðbrögð okkar eru málið. Það hvarflar hins vegar ekki að mér eitt einasta augnablik að það sé létt að vera í kassanum í heila viku. *hrollur*

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband