Litlu og meðalstóru fyrirtækin

Sigmar Vilhjálmsson, Simmi, rekur fyrirtæki sem er(u) með rúmlega 100 manns í vinnu. Hann var gestur í þættinum Harmageddon í gærmorgun og talaði alveg umbúðalaust um nýjustu sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda sem þýða að veitingastaðir geta ekki lokað og fengið lokunarstyrki (sem hann vill heldur ekki) heldur er starfsemin takmörkuð mjög mikið en samt þarf fyrirtækið að borga sömu launin og sama rekstrarkostnaðinn við að halda fyrirtækinu gangandi með langtum minni tekjur.

Ég er oft búin að hlusta á Simma upp á síðkastið og hann er einfaldlega rökfastur og algjörlega laus við væl. Hann bendir á fílinn í postulínsbúðinni sem er að Icelandair (aðaldæmið en þau eru fleiri) fær gríðarlega meðgjöf frá skattgreiðendum til þess að skerða þjónustu. Samt skildist mér á honum að flugi væri haldið áfram til Boston án þess að fólk mætti fara þangað. Þegar ég hef kíkt á flugáætlun í Keflavík (án þess að vera neitt á förum) hefur megninu af fluginu verið frestað eða hreinlega aflýst. Ég veit þess dæmi að maður hafi verið kominn til Oslóar til að fara í flug en verið sendur til Frankfurt og mér skilst að það sé til þess að safna öllum farþegum frá Evrópu í eina vél. En er flogið til og frá Boston með tómar vélar á kostnað skattgreiðenda? Ég fullyrði ekki neitt en væri til í að fá svör við ýmsum spurningum um rekstur Icelandair.

Peningar eru ekki allt en þeir eru samt hreyfiafl margra hluta. Ef eigendur fyrirtækja fara á hausinn missa starfsmenn vinnuna og Ábyrgðasjóður launa hleypur undir bagga en það tekur ábyggilega tímann sinn.

Ég er ekki með svörin, enda hef ég ekki aðgang að öllum upplýsingum, en hyggjuvit mitt segir mér að fyrirtæki sem missir helming veltu sinnar kemst að öllum líkindum í fjárhagsvandræði.

En við höldum áfram að borga forstjóra Icelandair fínu launin sín -- og svo voru launin hækkuð hjá manninum sem er með 2,5 milljónir á mánuði fyrir að stýra fyrirtæki sem er með fákeppnisstöðu á orkumarkaði.

Það er stórkostlega vitlaust gefið í sanngirnismálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband