Munum við glutra niður ferðaþjónustunni á Íslandi?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að leiðsögumenn hafa ekki fengið löggildingu á starfsheiti sitt. Rökin gegn því eru fánýt og engin man ég önnur en þau að fái leiðsögumenn löggildinguna setji það annálaða kunnáttumenn til hliðar. Sjálf sæi ég enga sérstaka meinbugi á að Ari Trausti og Arthúr Björgvin fengju að taka stöðupróf og hljóta þannig náð fyrir augum löggildingarstimpilsins.

Ég réð engu um málið meðan ég var í stjórn Félags leiðsögumanna og engu ræð ég núna.

Nú er allt útlit fyrir frekari ógnir við fagið og stéttina. Stefán Helgi Valsson flytur okkur fregnir af því að lektor í ferðamálafræðum sjái fyrir sér að erlend stórfyrirtæki kaupi upp fyrirtæki á Íslandi í ferðaþjónustu. Öll fyrirtæki í bisniss vilja græða þannig að verði þessi veruleiki ofan á hér má búast við enn þrengri stakk sem okkur verður sniðinn.

Ég er svo lítið verseruð í viðskiptum að ég átta mig líklega ekki til fullnustu á gróðamöguleikunum í ferðaþjónustu á Íslandi. En ætli þeir séu ekki þó nokkrir?

Í öðrum löndum er sums staðar mikið lagt upp úr fagmennsku. Ég sé þann kost helstan við löggildingu að hún ætti að ábyrgjast það að sá stimplaði kynni til verka, vissi viti sínu um staði, fólk og ástand ásamt því að skilja það umhverfi sem gestirnir koma úr. - Tryggir löggildingin það? Nei, en hún ætti þó að geta síað burtu lakara starfsfólk. - Er útilokað að hæft fólk sinni starfinu án þess að vera löggilt? - Vitaskuld ekki, en ef löggildingunni fylgir hærra kaup og meira starfsöryggi eru umtalsverðar líkur til að fleira hæft fólk veljist í stéttina.

Það held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Það er klárt ef leiðsögumenn fá löggildingu þá náum við að sigta það fólk út sem kemur erlendis frá aðeins til að leiðseigja um landið þó það hafi aldrei komið hingað áður og viti lítið sem ekkert um landið.  Ég hef farið með svoleiðis plat leiðsögumanni í viku ferð og var það mjög svo skrautlegt þar sem hún vissi aldrei hvar hún var stödd og þurfti ég að segja leiðsögumanninum hvert fara ætti daginn eftir og hvar staðirnir væru sem við áttum að stoppa á.  Farþegar fá aldrei góða mynd af landinu þegar svona leiðsögumenn eru í ferð. 

Ég vona að löggilding náist í gegn.  þeir sem hafa unnið við þetta lengi en hafa ekki farið í gegnum skólann ættu allavega að geta farið í stöðupróf til að fá löggildingu. 

Þórður Ingi Bjarnason, 10.12.2007 kl. 20:59

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Og bílstjórar eiga að hætta að aumka sig yfir þá sem fylgja sendingunni að utan. - Ekki satt, Þórður?

Ég hef heyrt margar sögur um bílstjóra sem hafa þurft að hafa sig alla við að bjarga (erlendum fararstjórum) í horn.

Berglind Steinsdóttir, 10.12.2007 kl. 22:09

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek undir með þér, Berglind. Bílstjórar eiga að hætta að leiðsegja erlendum leiðsögumönnum sem vita ekki hvar þeir eru staddir, hvað þá eitthvað um landið sem þeir eiga að vera að leiðsegja í. Þá kannski fá erlendu ferðaskrifstofurnar kvartanir frá farþegunum og hugsa sig tvisvar um næst!

Á eftir að lesa fréttina hans Stefáns sem þú vitnar í.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.12.2007 kl. 22:55

4 identicon

Það sem Anna Karlsdóttir talaði um á ráðstefnunni hefur blasað lengi við þó ekki væri nema vegna þess að fjármagn leitar þangað sem gróðavon er. Það er ekki leyndarmál að langflest íslensk ferðaþjónustufyrirtæki er lítil og berjast í bökkum og þess vegna er hættan á því að þau "þiggi" fé að utan enn meiri en ef þau stæðu styrkum fótum.

Þú þekkir það vafalítið að í mörgum löndum er ferðaþjónustan að miklu leyti í eigu erlendra fyrirtækja. Hættan af því er ekki bara sú að töluvert af þeim fjármunum sem greinin aflar fer úr landi, heldur og ekki síður er það alvarlegt að þekking sem safnast innan ferðaþjónustunnar er í höndum eigendanna (útlendinga) og ákveði eigendur að leggja reksturinn niður þá taka þeir þekkinguna með sér. Hættan sem Anna talar um er því margs konar. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími fyrir leiðsögumenn, Ferðamálastofu, ferðamálafræðinga og síðast en ekki síst SAF (Samtök ferðaþjónustuaðila) um að taka höndum saman um að vinna gegn ýmsu sem steðjar að ferðaþjónustunni, þ.e. hættunni að utan sem þú talar um en ekki síður hættunni hér innan lands sem má kalla virkjanafíkn og stóriðju.

Óskandi að væntanlegt nýtt fagráðuneyti ferðamála (iðnaðarráðuneytið) standi sig betur f.h. ferðaþjónustunnar en forveri þess samgönguráðuneytið hefur gert.

Í lokin nokkuð sem ég velti stundum fyrir mér! Er ekki mikilvægara fyrir leiðsögumenn að fá það í lög að á Íslandi starfi aðeins innlendir leiðsögumenn en að knýja í gegn löggildinu á starfsheitinu?

Helga (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 03:44

5 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Jú Berglind Bílstjórar eiga ekki að fræða erlenda leiðsögumenn, Það var eitt sinn kvartað yfir mér því ég neitaði erlendum leiðsögumanni að koma við á Dettifossi frá sel hótel til Akureyrar.  Ég sagði við leiðsögumaninn að það væri ekki í leiðini. Þá sagði hún það er í lagi þetta er svo stutt.  Eftir smá þref og hún búinn að hafa samband við skrifstofuna úti þá var ákveðið að fara að Dettifossi en leiðsögumaðurinn þurfti að kvitta fyrir auka km.  Þegar við vorum á leiðin fór hún að skoða kortið og líta á klukkuna því þetta var ekki svo stutt.  Þegar hún sá svo þann km fjölda sem hún átti að skrifa undir þá varð hún dálítið vandræðileg.  Næsta kvöld beið mín fax á hótelinu sem við gistum á, þetta var frá ferðaskirfstofuni úti þar sem hún var að biðja mig afsökunar að hafa komið með kvörtun þar sem leiðsögumaðurinn hafi hlaupið á sig.  Í dag stendur í leiðavísi með ferð frá þessari skrifstofu DETTIFOSS EKKI INIFALINN.  Er þetta breiðletrað og undirstrikað.  Leiðsögumaðurinn var eins og lamb sem eftir er þegar hún varð að betra að var hlusta á bílstjóran heldur en að skipa honum hvað hann á að gera.

Þórður Ingi Bjarnason, 11.12.2007 kl. 07:41

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Helga, hvað get ég annað en kinkað kolli ótt og títt yfir því sem þú segir? Ég vona að hlutaðeigendur taki höndum saman og hugsi til framtíðar. Ég er reyndar ekki orðin fráhverf því að löggilding sé lóð á vogarskálar fagsins, hins vegar hvarflar ekki að mér að það sé alfa og omega framþróunar, fjarri því.

Það sem bæði Lára Hanna og Þórður tala um er líka mikilvægt, nefnilega það að menn snúi ekki blinda auganu að vandamálinu, bílstjórar t.d. með því að draga endalaust að landi fólk sem er ekki starfinu vaxið. Við vitum að ferðaþjónusta er víða láglauna...iðnaður (eins og fólk hneigist til að kalla greinina) - en er það eitthvert lögmál?

Stundum þarf að vera vondur til að vera góður - mikið væri óskandi að starfsfólk í ferðaþjónustu sneri göddunum út tímabundið. Til lengri tíma litið er það áreiðanlega affarasælast af því að okkur vantar stefnumótun og staðfestu.

Berglind Steinsdóttir, 11.12.2007 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband