Reynsla mín af lögreglunni

Hún er sem betur fer næsta lítil. Fyrir sjö árum átti ég svarinn óvin sem hringdi sí og æ til að ergja mig. Það er náttúrlega ekki lögreglumál, en eina nóttina hringdi hann úr óskráðu símanúmeri og hótaði mér ýmsu illu í talhólfinu. Ég geymdi upptökuna eins lengi og ég gat og spilaði hana fyrir lögregluna. Um svipað leyti voru skorin dekkin á bílnum mínum.

Enn er ég á lífi og við góða heilsu þannig að kannski hefur mat lögreglunnar verið rétt þegar hún svo gott sem sagði: Við höfum ekki áhuga. Orðalagið var samt meira eins og: Við höfum ekki mannskap og ekki tækjabúnað til að rekja svona. Láttu hengja númerið upp hjá símanum og þá er *hóst* hægt að rekja það ef viðkomandi hringir aftur.

Skömmu síðar hætti ég í vinnunni sem ég hafði þá gegnt í rúmt ár og ofsóknunum létti. Ég er auðvitað 100% sannfærð um hver maðurinn var en ég gat ekki þá og enn síður núna sannað hið sanna. Og þótt ég hafi ekki beðið óbætanlegt tjón var margur nætursvefninn tekinn af mér og um stundarsakir kom það niður á skapsmunum mínum.

Það er í mér ein taug sem vorkennir lögreglustéttinni sem er áreiðanlega undirmönnuð og sér fram á verri tíð með arfa í haga. Ég held samt að oft bíði borgarar óþarft tjón vegna þess að lögreglan ákveður að eitthvert mál sé óvinnandi. Um það sannfærðist ég þegar ég stóð á skrafi við Hermann á Laugaveginum í dag. Ég vona að hann segi sína sögu hvað úr hverju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hugsaðu þér hversu mikið af svona stöffi væri bara í lagi ef eitt helsta forgangsverkefni lögreglunnar væri ekki að skamma hasshausa út um allan bæ, eða nánar til tekið handtaka, bóka, setja á sakarskrá, sekta og jafnvel fangelsa samkvæmt fíkniefnalöggjöfinni. Sem betur fer er löggan ekki næstum því jafn hörð og hún þykist vera í því að berjast gegn dópinu, þeir taka ekki næstum því allt sem þeir gætu, vegna þess að það er ekki innrætt í manneskju með venjulega siðferðisvitund, að taka einhvern sem augljóslega á þegar skelfilega bágt og er með meira af stöffi á sínum herðum en hægt er að búast við af nokkurri manneskju, og gera líf hans ennþá verra, niðurlægja hann aðeins meira.

Þetta dópstríð er svo ósiðlegt, ekki vegna þess að dóp er bara hið besta mál, heldur vegna þess að það getur verið svo skelfilegt líka.

Úff, þetta átti nú ekki að vera punktur minn, en þú'st, þeir eru settir í ótrúlegustu smámuni á meðan hún hefur ekki við að sinna þörfum borgaranna. Er það bara ég sem finnst þetta svolítið... snælduklikkuð forgangsröðun? 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 23:07

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jahhá, er það aðalvinna lögreglunnar? Ég var ekki búin að átta mig á þessu. Væri þá lausnin að leyfa væg fíkniefni? Hass eins og brennivín?

Berglind Steinsdóttir, 17.3.2008 kl. 07:31

3 identicon

Lögreglumenn eiga alla mína samúð. Þeir þurfa t.d. oft að fara í ógeðsleg útköll (segi ekki frá því á prenti, Berglind) og fást við mjög erfitt fólk sem vill ekki fá þá í heimsókn. Nú er að auki þrengt enn frekar að með fækkun í liðinu, hundarnir orðnir færri  og nýr dómur vegna árásar á rannsóknarlögreglumennina er algjör hneisa. Ég skil því vel að þeir verði að forgangsraða og komist ekki í sum útköll.

Mér fannst reyndar frekar óhugnanlegt að lenda í því að vera ekki svarað þegar ég hringdi í 112 rétt eftir áramót. Sem betur fer leystist málið að sjálfu sér en ég hef oft hugsað eftir þetta: Hvað ef einhver hefði verið í bráðri lífshættu þegar ég hringdi!?

Á (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 11:28

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, það er svakalegt ef ekki er svarað í neyðarsímann. Er ekki heildarniðurstaðan sú að það þurfi að fjölga frekar en fækka í lögreglunni? Því miður.

Berglind Steinsdóttir, 17.3.2008 kl. 16:08

5 Smámynd: Hermann Bjarnason

Nú, er ég inndreginn í málið!!? Mikið rétt að það var ég sem stóð á spjalli bið þig Berglist fyrir utan gleraugnabúð á Laugarvegi. Nákvæmlega á þeim stað þar sem ég fyrir nokkrum árum fékk gleraugun þrykkt inn í andlitið, en því miður hef ég ekki enn getað séð tilefni til að fá mér tvö fyrir eitt því að Armanígleraugun mín létu ekki á sjá þá og ekki síðar heldur. Reynsla mín af lögreglunni var áþekk því sem fórnarlömb ofbeldis lýsa oft og kannski oftast, og þakka ég forsjóninni að ég var og er jafnvel enn fullfrískur hvítur karlmaður, að þurfa að lenda í svona og þá er ég ekki bara að meina ofbeldi heldur í lögreglunni líka.

Hermann Bjarnason, 18.3.2008 kl. 22:47

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Einhvern veginn er lýsingin hérna ekki eins lýsandi og á Laugaveginum á sunnudaginn. Þú nefnir t.d. ekki ónákvæmnina í skýrslugjöfinni sem gerði það að verkum að ekkert vitni gat séð ástæðu til að gefa sig fram, ekki heldur blóðuga slóðina (kannski misminni) og alls ekki glersallana sem eru fastir í auganu. Ég get hins vegar vottað að gleraugun eru eins frísk og þú sjálfur.

Berglind Steinsdóttir, 19.3.2008 kl. 00:00

7 Smámynd: Hermann Bjarnason

Já, það er kannski best að ég standi fyrir frásögninni sjálfur, Berglind mín. Ég vissi ekki hvað blóðþorsti þinn var mikill. Hins vegar finnst mér reyndar þín saga áhugaverðari, og óhugnanlegri, einna líkast Cape Fear eða bíó hreinlega. Þú hafðir líka í höndunum símskilaboð sem ætti að hafa nægt til rannsóknar. Þó að maður geti vissulega haft samúð með lögreglunni í einstaka tilvikum þá er þjónustan við almenning fyrir neðan allar hellur.

Hermann Bjarnason, 19.3.2008 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband