Krosseignatengsl, ástarsamband viðskiptalífs og stjórnmála, skuldabréfavafningar og skatturinn

Ég hef ekkert þrek í að útlista borgarafundinn í smáatriðum. Gunnar Axel Axelsson, Óli Björn Kárason og Jakobína Ólafsdóttir voru frummælendur og til svara voru síðan þau og Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.

Mér fannst Gunnar Axel grímulaus í skoðunum sínum á óhæfi Byrs og margra annarra fyrrverandi sparisjóða sem hafa látið samfélagshugsunina lönd og leið. Stofnfjárfestar sem svo eru kallaðir núna voru áður kallaðir ábyrgðarmenn og höfðu fyrst og fremst táknrænt hlutverk. Meiningin var aldrei að gróðapungar tækju sér arð úr sparisjóðunum. Mér er málið sérlega hugleikið þessa dagana því að eitthvert útlit er fyrir að Íslenskum verðbréfum/Byr takist að knésetja mig  og kúga til að sætta mig við 71% útgreiðsluhlutfall úr peningamarkaðssjóði og afsala mér frekari hlutdeild með undirskrift - ella er undir hælinn lagt hvað og hvort og þá hvenær eitthvað verður greitt út. Í einkasamtali við annan fundargest eftir fundinn kom okkur saman um að sparisjóður væri illskásta viðskiptabankaformið að svo stöddu. Svo mikið er fokið í flest skjól.

Óli Björn skóf heldur ekkert utan af því þegar hann útlistaði hvernig Jón keypti í Jóni og seldi síðan Jóni Jón (auðvitað táknrænt nafn að mínu vali). Hann sagðist hafa sofið á vaktinni en væri farinn að rumska. Þegar fyrirspurnir hófust spurði Eiríkur Stefánsson, óþreytandi áhugamaður um breytt fiskveiðistjórnarkerfi, hvort hann hefði ekki sofið fullfast meðan kvótakerfið var fest í sessi með rangindum. Óli sagðist vilja breyta ýmsu í viðskiptalífinu þrátt fyrir að aðhyllast augljóslega almennt frelsi, en hann væri hlynntur kvótakerfinu. Tilfinning mín var eindregin sú að hann ætti sér formælendur fáa í þeim efnum. Einn hnykkti á spurningu Eiríks og sagðist undrast það að frjálshyggjumaður eins og hann sætti sig við kerfi sem væri skuldsett um 500 milljarða umfram stál og steypu.

Ætli þurfi ekki sérstakan borgarafund um fisk og ný atvinnutækifæri?

Nú er ritþrek mitt að syngja sitt síðasta í bili. Mér tókst að draga karl föður minn á fundinn og honum þótti bara gaman (sem mér fannst heldur vond viðmiðun) en mest gaman held ég að honum hafi þótt að hitta Einar Má Guðmundsson sem bjó í götunni okkar þegar ég var krakkaskratti.

Einar Már og pabbi

Es. Merkilegt, RÚV segir að fundurinn hafi verið í Háskólabíói - er önnur nákvæmni eftir þessu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Neddi

RÚV má samt eiga það, þrátt fyrir að vera örlitið áttaviltir, að þeir eru einir um að segja frá fundinum.

Neddi, 18.12.2008 kl. 09:40

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þennan fréttapistil af fundinum Vonandi nær ritþrekið þitt sér á strik fljótlega!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.12.2008 kl. 14:48

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jæja, Neddi, þá eitt klapp fyrir RÚV. Voru hinir miðlarnir að eltast við íþróttaviðburði? Eða kannski einhverja vafninga? Ég er bara að verða svo stúrin yfir árangursleysinu. Hvað haldið þið að gerist í janúar og febrúar þegar fólk fer verulega að finna fyrir tekjuleysinu? Heimildir mínar innan RKÍ herma að þar sé farið að hugsa um súpueldhús.

Berglind Steinsdóttir, 18.12.2008 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband