Verkfallið bannað - frjálsir samningar?

Verkfall flugmanna í FÍA var bannað með lögum laust eftir hádegið. Rökin eru aðallega þau að svona aðgerðir loki landinu og það hafi víðtæk efnahagsleg áhrif. Almannahagsmunir? 

Ég þekki leiðsögumenn sem hafa orðið af einhverjum verkefnum, vinnu í einhverja daga án launa og án nokkurra bóta. Sjálfsagt detta út fleiri ferðir í sumar af því að einhverjir túristar hafa getað hætt við, einhverjir sem hafa skipulagt ráðstefnur eða stóra viðburði snúið sér annað.

Þetta á líka við um aðra í ferðaþjónustu og svo sem ýmissi þjónustu í landinu.

Almannahagsmunir?

Ég veit ekki hvað flugstjórar, flugmenn og flugfreyjur/flugþjónar eru með í laun, hvorki í grunnlaun né heildarlaun. Einhver sagði að flugmenn væru með milljón. Fyrir hvað? Ég þekk flugmann sem hætti fyrir u.þ.b. 10 árum af því að atvinnuöryggið var ekkert, hann fékk reglulega uppsagnir og svo vildi atvinnuveitandinn senda hann út í Langtíburtistan og hann gat ekki boðið sjálfum sér og fjölskyldunni upp á það. 

Hvað á svoleiðis að kosta?

Stórtjón hefur orðið af þessu og annað eins fyrirsjáanlegt án inngrips, sagði einhver. Milljarður á dag, heyrðist mér. Misheyrðist mér? Aldrei heyri ég nokkurn í nokkurri starfsgrein tala um stórgróða þegar allt leikur í lyndi en alltaf er stórtjón þegar eitthvað bjátar á.

Ef verkfall er löglegt og löglega er staðið að boðun þess finnst mér algjört neyðarbrauð að gefa upp á nýtt og banna með lögum það sem áður var heimilt að lögum. Þá væri nær að stéttir sem geta valdið þessu STÓRtjóni hefðu ekki verkfallsrétt,  heldur væru kjörin ákveðin af gerðardómi eða kjaradómi eftir atvikum. 

Hvað gerist núna í deilu grunnskólakennara og sjúkraliða? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

http://kvennabladid.is/2014/05/15/afnemum-verkfallsrett-kennara/

Ég er mjög sammála Evu í greininni sem ég tengi hér við. Hvað eru „almannahagsmunir“? Er það bara þegar fólk tapar peningum? Er allt í lagi að sjúkraliðar fari í verkfall og fólk liggi í legusárunum sínum? Er allt í lagi að börn verði án kennslu og án þess að fá mælingu á getu sinni, t.d. nemendur í 10. bekk sem eru að fara að sækja um framhaldsskóla? Hvenær eru almannahagsmunir svo ríkir að réttlæti inngrip?

Svarið er: Þegar peningar eru í húfi.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þegar landinu er næstum lokað bitnar það á fleirum en mestu auðmönnunum - en ferðamönnum hefur samt fjölgað of hratt undanfarin ár. Og hvað varð um fyrirhyggjuna?

Berglind Steinsdóttir, 17.5.2014 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband