Hetja Sumarhúsa

Ég var svo heppin að fá að sjá Sjálfstætt fólk á þéttu og góðu rennsli í dag. Ég var dálítið tortryggin áður en sýningin byrjaði þar sem ég held að ég sé eini leikhúsgesturinn 2013 sem kunni ekki að meta Engla alheimsins. Áhyggjur mínar voru óþarfar (en ábyggilega hjálpaði það mér að sitja á 4. bekk frekar en 24.), ég skemmti mér konunglega. Þegar ég skemmti mér konunglega þarf ég ekki að hlæja óslitið í tvær og hálfa klukkustund en ég hló oft og mikið og táraðist líka stundum. 

„Allir“ þekkja söguna af Guðbjarti Jónssyni sem lagði allt upp úr sjálfstæði sínu og sinna. Ég veit um nokkur eintök af Sjálfstæðu fólki sem hafa fengið reisupassann og illa meðferð af því að þráhyggjan og meinlokan í Bjarti hefur gengið svo fram af lesendum. Það er augljóst að maður sem metur líf gimbrarinnar meira en líf konu sinnar og ófædds barns, stefnir öllu í tvísýnu til að öðlast og halda meintu sjálfstæði sínu og tekur engum rökum hlýtur að mælast illa fyrir.

Ég hef séð að minnsta kosti eina aðra uppfærslu af Sjálfstæðu fólki og man sumt úr henni. Hún var áreiðanlega frekar hefðbundin og trú sögunni og til samanburðar við nýju sýninguna verulega alvarleg. Leikmyndin í dag sem þjónaði mestmegnis sem húsakynni Sumarhúsa var uppfull af tilfinningum, draugagangi þegar þurfti, var margs konar fæðingarrúm enda fæddist Bjarti margt barnið og svo almennt sem samkomustaður. Mér fannst magnað hvernig dyrnar til hægri voru notaðar til að sýna stöðu fólks, fyrir sumum var upp lokið en aðrir máttu húka öllum stundum fyrir innan. Rauðsmýrarfólkið var beinlínis hafið upp yfir Sumarhúsafólkið. Burstin þjónaði sem rúm og fleira snart taugar í mér. 

Leikarar. Viðkvæmt. Ég var mjög lukkuleg með Atla Rafn. Hann var svo laus við háttvísi að hann klóraði sér í rassinum á viðkvæmum stundum og nuddaði á sér nefið beint á eftir. Textameðferð til fyrirmyndar. Rustahátturinn skilaði sér svikalaust og svo kom hann líka út á mér tárunum þegar mikið lá við. Konurnar hans tvær, Vigdís Hrefna held ég að hafi áreiðanlega verið sú fyrri og Lilja Nótt var hin síðari, voru það algjörlega og heilt yfir allir leikarar góðir - fannst mér - nema mér fannst Guðrún og Eggert ekki fara vel á þessu sviði. Hallbera hefur nokkrar þungar setningar í sögunni en þótt Guðrún fari vel með texta fannst mér hann alveg missa marks. Ég veit ekki af hverju, kannski af því að það var glettilega mikill léttleiki í verkinu og svo kom hún með þessar merkingarbæru setningar og ætlaði að soga allt leikverkið til sín. Eggert var ekki með mikinn texta en hann var í hvert skipti í einhverju öðru verki. - Ég get átt eftir að skipta um skoðun eða þurfa að umorða þetta en þau tvö náðu mér síst. Synir Bjarts sem þurftu að kljást við Kólumkilla - og sinn útúrborulega föður - voru aldeilis frábærir, auðvitað of gamlir en ég gat alveg sætt mig við það. Elmu Stefaníu hef ég ekki séð áður á sviði en hún fangaði blessunina hana Ástu Sóllilju með varnarleysið sitt og hið ömurlega veganesti - frelsi og sjálfstæði framar öllu, ÖLLU - afar vel.

Eitt að lokum. Íhaldssamir munu ekki kunna að meta tilvísanir til samtímans en ég gerði það. Segi ekki hvað það er.

Mæli með Sjálfstæðu fólki 2014-2015. Hjálpar verulega að þekkja til sögunnar samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband