Hvað segir aðkomumaðurinn?

Ég fór á ferðaráðstefnu Landsbankans í gærmorgun. Helst vildi ég vera eilífðarnámsmaður en það er víst ekki í boði. Þá er næstbest að mæta af og til á stuttar ráðstefnur og námskeið. Ef ég kem út með eina nýja hugsun eftir tvo tíma er til einhvers farið. Þegar ég sæki erindi sem vekja áhuga minn hef ég eðlilega einhverjar hugmyndir um efnið og í bland er líka gott að fá staðfestingu á því sem maður vissi og að maður sé ekki á villigötum.

Og mér leið ljómandi vel undir fyrirlestrinum sem Doug Lansky flutti. Hann sagði mér að samfélagsmiðlarnir virkuðu ekki almennilega sem auglýsing - nema maður hefði upp á eitthvað að bjóða. Sum lönd eru með skrilljón læk á Facebook en ekki marga ferðamenn einhverra hluta vegna og önnur litla athygli á Facebook og Twitter en stríðan straum ferðamanna. Orðsporið, ánægði viðskiptavinurinn, selur. Og hann sýndi okkur tæplega þriggja mínútna myndband sem ferðamenn höfðu gert sjálfir af sínu eigin glæfralega teygjustökki. Fólk vill upplifun, ævintýri, nýjung - og staði sem eru ekki yfirfullir af öðru fólki.

Það er háskalegt að fegra og gylla áfangastaðinn, þá verður fólk vonsvikið þegar það mætir. Sá sem reiknar með fagurbláum sjó og gylltri strönd verður svekktur þegar sjórinn er drulluskítugur. Hins vegar getur, ehemm, drullan verið aðlaðandi ef hún er markaðssett sem slík. Og dettur mér þá í hug mýrarboltinn fyrir vestan sem er auglýstur með „Drullaðu þér vestur“. Doug vissi sennilega ekki af því góða átaki en hann sagði okkur hins vegar frá öðru athyglisverðu framtaki, poo bus, strætó sem var settur á götuna í Bretlandi í nóvember sl., strætó sem gengur fyrir lífrænum úrgangi. Og strætóinn er myndskreyttur á viðeigandi hátt.

Þegar ég sagði frá þessu heima í gærkvöldi var ég eðlilega spurð: En hvað með lyktina? Úps, ég gleymdi að spyrja um hana eða velta henni fyrir mér. Hvað stendur í Guardian? Ekki orð. En liggur ekki svarið bara í því að metan er lyktarlaus gastegund?

Hin sjálfsögðu sannindi eru þessi: Í Jökulsárlóni, við Dettifoss, í Ásbyrgi, í Landmannalaugum, við Gullfoss og Geysi og á Laugaveginum er komið of margt fólk. Það þarf að fjölga áfangastöðum og það þarf að styrkja innviðina.

Bingó.

Ég sá bæði ferðamálastjóra og framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar í Silfurbergi í gærmorgun þannig að nú hlýtur að draga til tíðinda ...

Og ekki eru síðri tíðindin sem bárust af Alþingi seint í gærkvöldi. Þá var útbýtt þingmannafrumvarpi um leiðsögumenn ferðamanna. Tíu þingmenn úr fimm flokkum leggja til lögverndun starfsheitisins leiðsögumaður ferðamanna! Félag leiðsögumanna hefur barist fyrir þessu sjálfsagða öryggisatriði frá stofnun þess, 1972. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni, maður lifandi.

Kveðja,
uppgefni leiðsögumaðurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband