Stemningshlaupið á hálum?

Ég skráði mig í litahlaupið þegar það var fyrst kynnt til sögunnar. Í mörg herrans ár hef ég tekið þátt í keppnishlaupum án þess að æfa nokkru sinni. Mér hefur þótt gaman að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni, Jónsmessunæturhlaupi, Fossvogshlaupi, Rauðakrosshlaupi o.s.frv. af því að þar er sjálfsprottin stemning. Ég hef ekki haft metnað til að slá neinar sérstakar keilur, bara viljað hafa gaman. Þegar 6. júní 2015 nálgaðist og litahlaupið var auglýst alveg botnlaust runnu á mig tvær grímur hið minnsta og ég missti áhugann, og það þótt „ágóðinn ætti að renna til Unicef“ eða hver þiggjandinn átti að vera og hvernig sem það var orðað.

Ég var í miðbænum á laugardaginn og sá eitthvert brot af hlaupinu og síðan sá ég mjög mikið til þess á Facebook. Sem betur fer hafði fólk augljóslega gaman og það er frábært. En kostnaður við hlaupið, auglýsingar, litapúðrið, starfsmenn, bolir og verðlaun, hefur væntanlega tekið kúfinn af „ágóðanum“ þótt keppendur/þátttakendur hafi trúlega í mörgum tilfellum borgað 3.500 og 6.500 með glöðu geði í trausti þess að góðgerðarsamtök fengju góðan skerf af þátttökugjöldunum. Eða kannski er alls kyns fólk ekkert að velta þessu fyrir sér þótt Unicef sé veifað eins og gulrót framan í það.

Kannski man ég bara of vel spillingarfréttir af fjársöfnun kirkjunnar til að treysta því í blindni að markaðsmenn sem fara af stað undir því fororði að láta Unicef og Rauða krossinn njóta góðs af svona átaki meini það sem þeir segja og segi það sem þeir meina. Og Stundin teflir fram slíkri frétt í dag. Er bókhaldið uppi á borðinu? Getum við fengið að vita hversu hátt hlutfall söfnunarfjár fer þangað sem það nýtist best?

En ég hef ekki heyrt neinn keppanda kvarta svo því sé haldið til haga. Þetta er sennilega bara meinbægni í mér ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband