#þöggun #eðaekki

Ég held að fyrir lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum hljóti að vaka að uppræta þöggun þegar hún biður upplýst fólk um að þegja um glæp sem framinn er í skjóli skemmtunar. Viðbrögðin eru auðvitað alveg sjálfgefin, háreysti. Fólk andæfir henni. Fólk stekkur upp á nef sér. Fólk vill umræðuna. Ég vil umræðuna af því að umræðan getur unnið gegn glæpum, ef vel tekst til nær hún til hugsanlegra gerenda sem verða fyrir vikið ekkert gerendur ofbeldis.

Ég veit ekki hvernig þolendum kynferðisglæpa líður almennt, hvorki strax á eftir né næst þegar þeir fletta blöðum eða internetinu. Það er ekki fráleitt að þolendur endurlifi ofbeldið og upplifi með röngu skömm fyrir að hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldismanni. Og fyrstu fréttir af útihátíðum eru oft af því sem fór verr en vel.

Ég undrast oftlega þegar ég heyri fréttir af umferðarslysum eða óhöppum þar sem fólk slasast eða bíður bana. Halda fjölmiðlar að þeim beri að upplýsa vandalaust fólk um banvænt bílslys á stundinni? Ekki mig, það get ég fullvissað ykkur um.

„Ég hef ákveðið í samráði við áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar að lögreglan mun ekki veita upplýsingar um kynferðisbrot til fjölmiðla þessa helgi frekar en gert er á öðrum tímum.“

Eigum við að reikna með að áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustan í bænum gangi erinda þeirra sem halda hátíðina? Eða gerendanna? Ég ætla ekki að trúa því að svo stöddu. Ég ætla að prófa að ganga út frá því að viðbragðsaðilar beri hag þolenda fyrir brjósti. En þá koma forvarnir til sögunnar. Þeim hefur verið flaggað upp á síðkastið með #myllumerkingarbyltingunni, umræðunni og upplýsingunum. Vökulir og afgerandi einstaklingar þurfa að vera á vettvangi og hafa djörfung til að grípa inn í þegar ástæða er til. Það er örugglega vandaverk. Hefur verið hugsað fyrir því, Páley? Eru ráðgjafar tiltækir? Hvernig er lýsingin?

Þetta skil ég ekki:

„Það er lagaskylda á lögreglu að upplýsa um kærur sem berast og almenningur á ekki heldur heimtingu á slíkum upplýsingum.“

Er þetta ekki mótsögn?

Við vitum að við erum ekki glæpalaust samfélag en við eigum að leggja okkur öll fram um að koma í veg fyrir ljóta glæpi sem leggja líf fólks í rúst. Hvernig væri að blaðamenn spyrðu Páleyju út í forvarnir. Eða viljum við bara gefa okkur það versta og velta okkur upp úr vandlætingunni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heil og sæl Berglind. Það er margt sem þú segir er rétt. Hinsvegar vekur það upp spurningu mína. Hver fyrir skipaði þessa hugmynd að stöðva fréttir af ofbeldi gegn konum. Það sama á við Innanríkisráðherra sem neitar að tjá sig um málið.Hvaða þöggun er í gangi.

Jóhann Páll Símonarson, 30.7.2015 kl. 11:17

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég veit það ekki, var bara rétt í þessu að lesa frétt um að tvö lögregluumdæmi ætluðu ekki að segja frá (http://www.visir.is/tvo-umdaemi-segja-ekki-fra-naudgunum/article/2015707319971). En eins og sést á lifandi umræðu er erfitt að þagga svona mál niður þannig að máttur almennings hefur sannað sig. Vonandi dugir svo umræðan til að koma í veg fyrir ljóta glæpi. 

Svo er hér líka nokkurra mínútna viðtal sem Harmageddon tók við lögreglustjórann í Vestmannaeyjum í gær: 

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP38061

Berglind Steinsdóttir, 31.7.2015 kl. 07:38

3 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heil og sæl Berglind Steinarsdóttir. þessi umræða hefur skapað umræðu um þessi mál sem betur fer.Ég tel að öll umræða sé að hinu góða og hefur fælingarmátt í sér. Hinsvegar hefur það komið upp að rangir menn hafa verið sakfeldir sem er heldur ekki gott. Það vekur athygli mína hvað þessi vörn þeirra sem vilja ekki upplýsa nauðgunarmál er sterk. Það er talað um þöggun og bæjarstjóri Vestmanneyja bregst hinn versti við þeim ummælum og fer í þá gryfju að verja kerfið. Það er margbúið að segja og skrifa um þessi mál að það eigi að birta mynd af þessum ofbeldisfólki

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 31.7.2015 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband