Er ég á bleikum launum?

Ég veit það ekki. Ég geri ráð fyrir því. Þótt strangt til tekið ríki ekki launaleynd á Íslandi er fátt meira feimnismál en laun og peningastaða fólks. Kannski höldum við að við verðum aðhlátursefni fyrir að sætta okkur við lág laun. Kannski höldum við að einhver annar beri sig saman við okkur og fari fram á hærri laun en viðkomandi er með. Kannski óttumst við að einhverjum finnist við ekki verðskulda svona há laun.

Þegar fólk er spurt um launin man það yfirleitt ekki hvað það er með. Ég spyr svo sem ekkert í sífellu en ég get horft mörg ár aftur í tímann og ég fullyrði að fólk svarar oft svona: Ég man nú ekki heildarlaunin/útborguð laun/grunnlaunin. Hins vegar þekki ég mann sem sagði inn í 10 manna hóp eða svo seint á síðasta ári að launin hans losuðu milljón og hann kæmist ekki af með minna. Húrra fyrir heiðarleikanum. En hvað er að „komast af með“? Fólk sníður sér stakk eftir vexti og sumir „verða“ að eignast allar nýjustu græjur í sportinu sínu, fara reglulega dýrt út að borða, fara í utanlandsferðir, eiga risastórt hús, 39 milljóna króna bíl, snjósleða, frumútgáfur bóka og listaverka. Ég veit, ég er svolítið farin að ýkja en fólk „kemst samt af“ með minna en milljón á mánuði. Það bara leyfir sér ekki allt sem því dettur í hug.

Ég hef verið mjög andvaralaus gagnvart bleika skattinum, ég er greinilega bæði samdauna og meðvirk þegar ég borga fyrir „dömu“klippingu. Tvær vinkonur mínar eiga tvær dætur hvor og þær eru fyrir löngu búnar að átta sig á að „strákasokkar“ eru ódýrari en „stelpustokkar“ þótt þeir séu alveg eins. Nærbolur „handa stelpum“ er kannski með lítilli slaufu í hálsmálinu og verðið er 50-100% hærra. Þær geta stundum keypt „stráka“vöruna en ekki alltaf.

Ég ætla hvorki að fría stjórnmálamenn né karla sérstaklega en ég þarf líka að líta inn á við og minna mig sjálf á hvers virði ég er og gera kröfur í því ljósi. Konur verða að standa með sjálfum sér. Líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband