Fimmtudagur, 28. júlí 2011
Hótelhringnum lokað
Hótel Gígur - Icelandair á Akureyri - Hótel Hamar - Hótel Selfoss - Hótel Höfn - Fjarðahótel.
Fólkið mitt var kátast með Mývatnssveitina og almennt með Norðurland, enda rigndi fyrir sunnan. Því fannst maturinn alls staðar í hringnum góður og sleikti næstum súkkulaðikökudiskana hreina á Reyðarfirði í gærkvöldi. Ég leifði þeirri köku, enda kann ég ekki gott að meta þegar um er að ræða súkkulaðikökur.
Undrunarefni mitt í þessum hring var að sjá afar fáa bíla og verulega fáar rútur. Samt fannst mér ég fara öfugan hring, þ.e. fór frá Egilsstöðum í Mývatnssveitina og svo áfram. Það getur ekki verið að eldsneytisverðið hafi svona mikil áhrif. Er það Múlakvíslin? Ég fór yfir bráðabirgðabrúna í gær og hugsaði hlýlega til Vegagerðarinnar eins og ég hef gert alveg frá því að fyrstu fregnir bárust. Hins vegar var ég mjög ergileg þegar við tókum stefnuna á nýju brúna yfir Hvíta, á leið frá Gullfossi í Friðheima, og allt það umhverfi var ómerkt með öllu. Bílstjórinn minn var fínn en hann var útlenskur og gat hvergi dregið mig að landi þannig að ég tók sénsinn og slapp fyrir horn - yfir ána.
Dettifoss var ekki svipur hjá sjón undir vökulu auga björgunarsveitarmannanna í síðustu viku. Kannski fannst mér bara svona gaman að tala við þá - en fólkið mitt lagði af stað til baka langt á undan mér og fannst Dettifoss hálfgert rusl vestan megin. Þjóðgarðurinn seldi Ridley Scott tvo daga yfir hásumarið og getur lagt stíga þvers og kruss fyrir peninginn skilst mér.
En þetta er töff og smart og kúl land sem við eigum og áhugi minn á því glæðist stöðugt. Ef eldsneytisverðið heldur áfram að hækka og fólk tímir ekki eða hefur ekki efni á að ferðast um það verður kannski gott pláss fyrir mig á hjólinu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. júlí 2011
Fréttamat
Ég var úti á landi og ætlaði að hlusta á fréttir einn morguninn kl. 7. Þá var norskur fréttamannafundur í beinni útsendingu sem stóð yfir allan tímann sem ég hafði. Ég hef vitaskuld samúð með fórnarlömbunum en ég skil samt ekki hvernig hægt er að sleppa öllu öðru sem hugsanlega telst fréttnæmt.
Það er við svona tækifæri sem sniðugir almannatenglar senda óvinsælar fréttir á miðlana. Af hverju misstum við?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. júlí 2011
Milljarðarnir
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. júlí 2011
Prómeþeifur lokar Dettifossi ...
Það fyndnasta við þessa frétt er í lokin:
Þór Kjartansson hjá kvimyndaþjónustufyrirtækinu [sic!] TrueNorth segir að þeim tilmælum verði beint til ferðafólks að það taki ekki ljósmyndir við fossinn en mikil leynd hvílir yfir myndinni. Í sárabætur fær það gefins geisladiska með ljósmyndum af Dettifossi.
Ég á svo ótrúlega erfitt með að ímynda mér að fólk taki þessum tilmælum af mikilli alvöru. Og hvað skyldi Þór reikna með að gefa marga diska? Og í hverju felst leyndin?? Er verið að gera mig forvitna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. júlí 2011
Fjallabak syðra
Eftir fjögurra daga ráp við áttunda mann um Fjallabak syðra út frá Dalakofanum er mér fyrirmunað að skilja fólksfæðina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. júlí 2011
Ævintýraferðamennska
Þótt ég starfi í ferðaþjónustunni fer því svo fjarri að ég eigi allt mitt undir henni og að vanda slæ ég þann varnagla að ég get ekki sett mig í annarra spor. Og kannski má væna mig um skort á stéttvísi þegar ég garga hér hljóðlega yfir vandlætingu ferðaþjónustunnar þegar Vegagerðin leggur sig alla fram um að leysa málin. Og ef það er rétt haft eftir að menn séu farnir að tala um tap upp á milljarða spyr ég hvort þeir sömu aðilar hafi líka hagnað upp á milljarða þegar vel árar. Ekki hef ég orðið vör við að ferðaþjónustan flaggi því og svo sannarlega sér þess ekki stað hjá launþegum í bransanum.
Ég óska okkur öllum þess að brúargerð gangi hratt og örugglega, að menn verði ekki strandaglópar, að ferðaþjónustunni blæði ekki út - en kommon, það þýðir ekki að garga á innanríkisráðherra og skamma hann fyrir að hafa ekki Kötlu í taumi. Kannski fæðast hér nýir möguleikar og kannski er þetta dálítið ævintýri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 10. júlí 2011
Áhættufag
Störf í ferðaþjónustu eru orðin ansi áhættusöm. Ég er bara pínulítil í þeim heimi en er þegar búin að missa tvo hópa vegna náttúruhamfara og allt stefnir nú í að hópur sem ég átti að fara með hringinn eftir tæpan hálfan mánuð komist ekki hringinn. Hvað þá?
En ég er í alvörunni pínulítil í heimi ferðaþjónustunnar og finn bara mikið til með því fólki sem situr nú í súpunni en veitir þjónustu á ársgrundvelli og er tilbúið að leggja nótt við nýtan dag á sumrin til að allir fari sælir áfram. Það er ekki hægt að kenna neinum um, spár eru ekki nákvæmari og viðbrögð í samræmi við það.
Og gaus Katla? Það er ekki óyggjandi.
Til langs tíma litið hafa svona fréttir auglýsingagildi og eru góðar en ferðasumarið er í uppnámi og ekki bara austan Kirkjubæjarklausturs.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. júlí 2011
Skásta úrræðið?
Fjölmiðlar segja aldrei nema hálfa söguna ef þeir þá ná því. Ekki skil ég neitt í því sem gerðist við Hótel Frón um helgina annað en að þetta er skelfilegur harmleikur. Hélt móðirin virkilega að þetta væri skásta úrræðið? Og er skásta lendingin að vista hana í fangelsi?
Þegar ég heyrði fréttina fyrst hugsaði ég að þrátt fyrir að fólk armæddist yfir ýmsu á Íslandi í bráð og lengd kannaðist ég þó ekki við að börn væru óvelkomin, ekki óvænt börn, ekki börn einstæðra foreldra, ekki börn barna, engin börn. Þetta kemur mér helst fyrir sjónir sem skelfilega sorglegt - en hvað veit ég um það sem fjölmiðlarnir upplýsa okkur ekki um?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 3. júlí 2011
Verðvitund gefið langt nef
Nú er hætt að verðmerkja vörur sem ekki eru staðlaðar í þyngd, s.s. osta og kjöt, eins og lítið hefur verið í umræðunni. Boðið er upp á verðskanna í búðum sem mig grunar að séu of fáir og sumir kannski ekki í lagi. Niðurstaðan óttast ég að verði verri verðvitund.
Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 2. júlí 2011
Alhæfingar um dómstól götunnar
Stundum heyrir maður sums staðar fólk tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Stundum eru þær byggðar á þekkingu, stundum ekki. Sumir alhæfa stundum. Stærsta alhæfingin sem ég heyri núna of oft er að bloggheimar eða netheimar logi af vandlætingu, dómhörku og þekkingarleysi.
Ég les ekki eins mörg blogg og þeir sem lesa mörg blogg daglega. Ég sé ekki réttlætingu fyrir alhæfingu af þessu tagi og skil ekki af hverju menn tala ekki bara um einstaklingana sem fara offari sem slíka. Er ekki hvort eð er verið að tala um fólk sem er þjóðþekkt, ýmist fyrir þessar skoðanir eða annað?
Fólki svíður að heyra um glæpi, ekki síst gagnvart börnum og öðrum varnarlausum sem vita ekki hvenær er brotið á þeim. Ekki þekki ég persónulega neinn sem vill sniðganga réttarríkið og hengja menn án dóms og laga. Hins vegar halda sumir að það séu gloppur í réttarríkinu og mál tefjist óþarflega lengi, öllum til vansa. Er ekki bara svolítið til í því?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. júní 2011
Ferðasumarið mikla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26. júní 2011
Ábyrgð hvers? Og hver geldur fyrir?
Ekki ætla ég að þykjast vita nokkurn skapaðan hlut um deilurnar milli flugmanna og Flugleiða, hvað ber í milli eða hvort hollið er ósveigjanlegra en hitt. En ég get leyft mér að hafa áhyggjur, t.d. af ferðaþjónustunni. Ég hef þegar lent í því í vor að hópur sem ég hafði verið ráðin til að sýna eitthvað af landinu kom ekki vegna eldgoss. Það voru náttúruhamfarir sem enginn réði við, óþarfur ótti hópsins en skiljanlegur, ekki síst í ljósi þess að ýmsar flugleiðir tepptust lengi í fyrrasumar út af gosinu í Eyjafjallajökli.
Þessi töf og skortur á þjónustu framundan er núna af mannavöldum. Ef leið mín ætti að liggja til Fjarskistans myndi ég ábyggilega velta fyrir mér hvort það væri óráð ef ýmislegt bent til þess að ég yrði strandaglópur í miðju einskis.
Mér finnst tímabært að bæði holl nái samningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 22. júní 2011
Danslärarens återkomst
Ég held að ég hafi bara ekki lesið neina bók eftir Henning Mankell fyrr en ég las núna Danskennarinn snýr aftur. Samt held ég að ég eigi nokkrar af bókum hans á sænsku og þarf þá að gá að þeim því að hann var alveg prýðilegur.
Drifkraftur bókarinnar er illska, mannfjandsamlegheit, fyrirlitning og dramb sem höfundur eignar þjóðernissósíalisma sem er þýðing á nasisma. Ég man eftir fréttum af hakakrossi í mótmælum á Austurvelli í fyrrahaust og ég man að okkur þótti sumum sem fáninn fengi ekki næga athygli, að tilvist hans væri ekki gagnrýnd nægilega. Ég er illa lesin í nasískum fræðum en þykist vita að þau sem aðhyllast þau telji sig öðrum kynþáttum og ýmsu fólki æðri. Áhangendur í bókinni telja sig hafa fullt umboð til að uppræta óæskilega þjóðfélagsþegna og ráða, deila og drottna.
Ég er sjálf vafin í svo mikla bómull að ég þekki ekki þessi sjónarmið nálægt mér og hef greinilega tekið hraustlegt athyglishlé í öllum tímum þar sem fjallað var um þessar kenndir því að líklega hef ég allt mitt litla vit um málið úr sjónvarpsþáttum eins og Helförinni, bókum og svo heimsókn í útrýmingarbúðir. Ég hef kannski aðeins of litlar áhyggjur af því að ég trúi ekki að fólk geti verið mjög ógeðslegt. Nú orðið.
Danskennarinn er auðvitað líka hlaðinn alls kyns hliðarsögum, s.s. af krankleika lögreglumannsins, Stefans Lindmans, hvort keiluspil geti upprætt streitu, skælum móttökustúlkunnar á hótelinu, rauðeygðum Guiseppe - hvernig getur Svíi heitið það? - og konunum sem bíða heima.
Ég mun þó líklega forðast sambærilega þýðingu aftur. Bókin er að sönnu á fimmta hundrað síður en ásláttarvillur samt of margar og orðaröð of víða óíslenskuleg. Og því ekki að halda sænskunni sinni við?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 21. júní 2011
Spennandi glæpasaga eða ekki
Nú er kominn Blóðdropi ársins. Ég las vinningssöguna mér til sárra vonbrigða í febrúar og hlýt að undrast þetta val. Ég er líka búin að lesa Morgunengilinn, Aðra Líf og nú síðast Snjóblindu sem allar eru tilnefndar og hefðu verið betur að Blóðdropanum komnar. Ég hugsa að ég hefði valið bókina hans Árna af því að mér finnst samfélagspælingin svo mikill aukabónus og eiga fullt erindi til útlanda.
Ég las líka Martröð millanna en finn enga umfjöllun hjá mér um hana. Mér þótti hún eins og uppkast og Óskari var enginn greiði gerður með því að setja hana svona hráunna í prentun.
Framlagið er skrifað af konu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. júní 2011
,,Hjólið var af merkinu Harley-Davidson"? (bls. 210)
Tímamismuninum hafði hann aldrei alveg áttað sig á.
(bls. 245)
Ég kann ekki við að segja í hvaða bók þessar skrýtnu þýðingar eru, en bókin er augljóslega þýdd úr skandinavísku tungumáli. Ekki satt?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. júní 2011
Ekki gaus í dag
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. júní 2011
Að lesa timarit.is er góð skemmtun ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. júní 2011
Hvað mér finnst um Snjóblindu (bókina)
Eftir Dalalíf, maraþonlestur, varð á vegi mínum Snjóblinda, ný spennusaga eftir íslenskan lögfræðing. Mér fannst hún spennandi, óvæntar fléttur sem gleðja mig alltaf, hnökralaus stíll og frágangur.
Það eina sem ég saknaði var svolítill húmor, bókin var öll svo alvörugefin, tók sig fullhátíðlega. Ég veit ekki hvort Ari er líka aðalpersónan í Falskri nótu en sá karakter fannst mér hvað minnst sannfærandi, munaðarlaus og vonlítill guðfræðinemi á þrítugsaldri sem vorkennir sér, er óhress með einstæðingsskapinn en óttast fast samband sem hann þó þráir. Hættir flestu sem hann byrjar á en leysir samt gátuna. Meiðist í öxlinni en hummar fram af sér að kippa vandanum úr umferð vegna þess að það er svo mikið að gera en situr svo og lætur sér leiðast eða hangir á vinnustaðnum á frívöktum.
Með meiru.
Kannski er ég að stinga upp í sjálfa mig með því að tíunda þversagnirnar því að við erum öll full af þeim. Mér finnst Ari og húmorsleysið samt helstu gallar þessarar býsna sannfærandi spennusögu sem tilfallandi gerist á Siglufirði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. júní 2011
Þarf ekki að skera utan af engifer þegar maður eldar?
Hnaut um þessa mynd á matarbloggi
og fór að hugsa hvort ég hefði eytt mörgum klukkutímum af lífi mínu til einskis. Þarf ekki að afhýða engifer?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. júní 2011
Á hvítasunnudegi
Mér skjöplast verulega ef sólin lét ekki verða af sumarkomu sinni, varanlegri, á þeim drottins dýrðar hvítasunnudegi, sagði hin heiðna, og rifjaði upp að á þriðjudaginn verður málþing kirkjunnar um embættisfærslur þjóna hennar.
Það þarf einhvern trúaðri en mig til að finna eitthvert samhengi í þessu, en við góða veðrinu fúlsa ég ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)