Færsluflokkur: Kvikmyndir

Söngfuglinn Meryl Streep

Mikið óskaplega er auðvelt að skemmta mér. Ég hló og hló á myndinni Mamma mia í dag, svo mikið raunar að ég held að mamma sem ég fór með í bíó til að skemmta fylgdist næstum meira með mér en Meryl Streep sem er þó í miklu uppáhaldi hjá henni.

Meryl var eins og spriklandi unglingur og vinkonur hennar sem mættu í brúðkaup dótturinnar drógu heldur ekki af sér í fíflalátunum. Pierce Brosnan sem er tómt útlit getur heldur ekki sungið. Mér leiddist það ekki. Colin Firth fríkkar með hverri myndinni og reyndi ekki að syngja.

Skemmtilegust fannst mér Julie Walters sem er heilt litaspjald af svipbrigðum.

Ég trúi auðvitað ekki á söguþráðinn og hef almennt ekki gaman af söngvamyndum en mikið var samt hollt að hlæja í rigningunni.

Fyrir plötuna (eins og Mattinn segir) kostar 1.000 krónur í Laugarásbíó. Auðvitað hefðum við átt að fara í Regnbogann sem rukkar 650 krónur en ég hélt að ég gæti platað mömmu til að labba í þetta bíó.

Og svo .. neyðist ég líka til að sjá Ferðina inn að miðju jarðar af því að Stína leikur í henni! Þrjár myndir á einu ári, þetta er engin hemja.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband