Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Wordfast-þýðingaforrit

Nú er svo komið að ég verð að ljúka nokkru lofsorði á Wordfast-þýðingaforritið. Ég er bara búin að læra á það að hálfu leyti en það er aldeilis dásamlegur helmingur. Og ég hlakka til þegar ég verð á endanum búin að læra hinn helminginn líka.

Wordfast kaupir maður á netinu fyrir 180 evrur eða svo og festir í word-forritinu sínu. Þegar maður sækir útlenskt skjal í word getur maður opnað forritið og þýtt málsgrein fyrir málsgrein. Maður hefur frummálið í einum ramma og það sem maður skrifar sjálfur í öðrum. Þannig geymir maður frumtextann á vísum stað meðan maður vinnur í skjalinu ramma fyrir ramma.

Þegar frumþýðingu er lokið fer maður auðvitað yfir allt aftur, hreinsar svo út frummálið og sendir hamingjusömum verkkaupa.

-Eða hvað segja aðrir þýðendur?

Og sælan verður fullkomnuð þegar ég læri að vista öll ósköpin í minninu líka ...


Er menntun kosningamál?

Ég tók áskorun í hádeginu og mætti á stefnumót við flokkana í Háskóla Íslands. Þau voru fimm og ekkert þeirra stóð sig illa. Þetta er náttúrlega vant fólk.

Spurningin sem skólafólk spyr sig - ekki síst ef draumurinn um að komast á listann yfir 100 bestu háskólana í heimi á að vera raunhæfur - er hvort efla eigi menntun. Og hvernig er hægt að tryggja meiri og betri menntun en nú er?

Ég held að Kristinn Már Ársælsson hafi átt giska góða spurningu úr sal að framsögum loknum: Nú eru um 50 nemendur um hvern kennara en almennur gæðastuðull kveður á um 14-18 nemendur - stendur til að breyta þessu?

Ef það á að breyta þessu verður það aðeins gert með meira fjármagni þannig að hver kennari hafi meiri tíma til að sinna hverjum nemanda umfram „messuformið“ eins og einn frambjóðandi kom að í svari sínu.

Háskóli Íslands hefur þá sérstöðu að vera meiri þjóðskóli, universitet frekar en höjskole eins og annar komst að orði, og þess vegna er ekki hægt að skipa honum til sætis með skólum sem leggja ofurkapp á greinar sem hægt er að kenna með fyrirlestrum einum saman, eða svo gott sem.

Nú stunda ég þýðingafræðinám til meistaraprófs í téðum skóla. Ég sótti fyrsta tímann haustið 2004 og þá gat Gauti Kristmannsson, ljósfaðir námsins, auðveldlega lært nöfnin á okkur öllum. Nú er námið búið að slíta barnsskónum og fjölgun nemenda hefur orðið gríðarleg. Úrval í námskeiðum hefur ekki aukist, kennurum hefur eiginlega ekki fjölgað og ég veit vel að Gauti sér ekki út úr því sem hann vill gera - vegna þess að akademía er meira en að mæta í eigin kennslustundir og fara svo yfir ritgerðir og verkefni.

Ég var í íslenskunni þarna líka forðum daga. Öll árin vann ég næstum 100% vinnu og fór létt með. Ég er auðvitað dugleg, hehe, en þetta segir samt meira um kröfurnar sem voru gerðar.

Á þeim sama tíma þekkti ég auðvitað fólk í öðrum deildum, t.d. raungreinum, sem þurfti að mæta alla daga og vinna verklegar æfingar út í eitt. Ég var ekkert í sama skóla og það fólk þótt öll værum við í Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands er vaðandi í fjölbreytileika og það þarf að hlúa að honum. Ætli það standi til?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband