Færsluflokkur: Ferðalög

Umræðunnar virði

Auðvitað þurfum við á öllum tímum að velta fyrir okkur hvernig við stöndum að uppbyggingu landsins og ferðamannastaða, þá ekki síst hvernig við fjármögnum viðhald og framþróun.

Mín fyrsta tilfinning er samt óþægindi. Ef það á að rukka inn á Gullfoss/Geysi og Skaftafell þarf að girða af, ekki satt? Þurfum við þá að fara í gegnum hlið? Eða á að treysta fólki til að gera hið rétta? Verður tímanum eytt í biðraðir í dýrmætum dagsferðum?

Hver verður kostnaðurinn við innheimtuna?

Ég er ekki búin að lesa Moggann í dag, bara sjá þessa netfrétt, en ég sé ekki aðferðina blasa við.

Og ef ekki beina innheimtu, hvað þá? Ég skrifaði þvert í hina áttina nýlega og sagðist vilja engan aðgangseyri að söfnunum. María Reynisdóttir væri kannski á sömu skoðun þar sem söfnin eru ekki vinsælustu ferðamannastaðirnir.

Við höfum verið hreykin af aðgengi okkar að perlunum. Við höfum verið heppin með það að slys eru fátíð. Víðáttan og frelsið hafa verið aðalsmerki. Sjálfsögðustu nauðsynjar eru hér dýrari en í flestum löndum og ég viðurkenni að ég hef áhyggjur af svona hlutum og að við verðum of commercial. Hvert fer annars núna obbinn af framlegðinni af þeim fjórum milljörðum sem Magnús Oddsson ferðamálastjóri boðaði fyrir hálfum mánuði nánast sléttum?

Kannski á ég bara eftir að heyra sannfærandi rök fyrir þessari innheimtuhugmynd.


mbl.is Gjald inn á ferðamannastaði raunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hákarlaverkun hverfandi atvinnugrein

Ég kveikti á Rás 1 í dag sem ég geri alltof sjaldan. Vítt og breitt var í gangi og í þættinum var tekið hús á Hildibrandi Bjarnasyni í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Hann er snilldarfýr, einn af sárasárafáum sem enn kann að verka hákarl.

Hann býr þarna í Bjarnarhöfn og verkar hákarl en er líka búinn að koma sér upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum. Mig minnir að ég hafi aðeins einu sinni farið til hans með farþega, en ég held að þrátt fyrir stórfengleika Snæfellsnessins hafi heimsóknin á hákarlasetrið staðið upp úr.


Fjáröflun íþróttafélaga og kóra

Já *grmpf*, ég veit að málstaðurinn er góður en ég vil ekki kaupa misgóðan klósettpappír fyrir okurverð af því að einhver í fjölskyldunni er að fara í leiðangur til Færeyja. Ég hef alveg gert það og setið uppi með vondar birgðir í langan tíma. Ég keypti líka einu sinni Heimaeyjarkerti og stóð í þeirri meiningu að þau væru góð - en meira að segja þau brunnu illa.

 


Hálendisvegur vs. Biskupstungnavegur

Af því að ég er leiðsögumaður sem bara kjafta (ólíkt þeim sem líka keyra) verð ég að segja hér og nú (þrátt fyrir að upphækkaður Kjalvegur sé dottinn (niður) úr umræðunni) að vanir bílstjórar hafa margir áhyggjur af því að vegir í byggð nálægt Kjalveginum bæru ekki þá umferð sem óhjákvæmilega færi þar um. Þeir vísa þá til þungaflutninganna sem myndu freistast þessa leiðina. Og nóg er níðst á vegunum samt.

Nú er mikil umræða um umhverfisvernd og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnuvegur og gjaldeyrisskapandi. Eyðileggjum ekki fyrir okkur með meintri styttingu vegalengdar fyrir lítinn hóp.

Að auki legg ég til að fólksbílar eftirláti rútunum miðbæ Reykjavíkur á háannatíma í ferðaþjónustunni. Til vara: að þeir sýni okkur tillitssemi. Til þrautavara: að þeir séu ekki tillitslausir ...


Bronwyn

VW 053Ég var skírð Bronwyn upp á velsku í gær. Bretarnir sem ég umgekkst lungann úr helginni og sem ég umskírði með jafngildum íslenskum heitum beittu sama bragði á mig. Það var um það bil það skemmtilegasta við heimsóknina.

Ég er greinilega ekki víkingur (og þaðan af síður þeir) því að mér varð kalt inn að beini á föstudaginn þegar ég hossaðist um Langjökul og ég er enn að þiðna. Kalda sjávarréttaborðið jók á hrollinn. Gunni og Doddi sem eru á myndinni voru alls óbrúklegir til varmagjafa og ef ég væri eigingjörn myndi ég óska mér hnatthlýnunar í auknum mæli og 25 stiga meðalhita á Íslandi - en ég veit að það kæmi ekki öllum heiminum jafn vel. Sniff.


Swine Valley

Og ekki orð um hann meir.

...

Eða jú, ég mæli með að allir sem vettlingi geta valdið fleygi frá sér öllum meintum skyldustörfum um stund og stormi út úr bænum með 6-8 góðvinum sínum úr menntaskóla til einnar nætur dvalar. Það er hægt að borða lítilræði eins og skinkuböku, chili con carne með guacamole og sýrðum rjóma á eftir ostasalati og kexi, skola niður með stífluðu heitu vatni úr pottinum, stinga í munninn bláberja......... og Neuhaus með hátíðarkaffi á eftir og læra svo magadans þangað til maður sofnar.

Vakna næsta morgun og stöffa sig með beikoni og eggi, hjala meir eins og maður gerir til upprifjunar á þeim árum sem liðin eru frá menntaskólaútskrift, hugsa gott til glóðarinnar að í hópnum skuli vera tvær hjúkkur og einn geislafræðingur ef heilsan bilar í 100 km fjarlægð frá Reykjavík, taka sig upp og millilenda í Mosfellsbænum til að sækja rafmagnslausan bílinn sinn. Kjörið tækifæri fyrir aðra að læra á húddið á bílnum sínum - allt leggur maður á sig - og eiga síðan bæði minningar um menntaskólaárin og útstáelsið þótt helgin sé bara hálfnuð.

Verst að vera send með gráðostasósu sem tók fjóra tíma að búa til úr gráðosti og matargerðarlist og -lyst og finna henni ekki pláss á matseðlinum. Sakar þó ekki að eiga hana eftirleiðis í frysti (meðan hann verður ekki rafmagnslaus aftur) því að hún kvað ganga með öllu.

Einhvern veginn grunar mig að Árdís, Berglind, Ella, Inga, Kristín, Rannveig og Sólveig - að ógleymdri Shakiru - eigi eftir að hleypa þessum heimdraga aftur síðar. Þá má líka mikið vera ef Erla og Rut reyna ekki að slást þá í hópinn. En stóridómur er ekki fallinn, tengdafjölskylda Kristínar á eftir að koma að bústaðnum í þeirri mynd sem við skildum hann eftir í ...


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband