Færsluflokkur: Dægurmál

Þversögn stjórnarandstöðunnar

Ég skil að sumir þingmenn eru á hærri launum hjá stórútgerðinni en á þingi. Ég skil að sumir einstaklingar hafa ekki metnað fyrir hönd þjóðarinnar. Ég skil að fólk sé ósammála mér. Ég get skilið það allt.

Það sem ég skil ekki er þegar þetta sama fólk reynir ekki að vera sannfærandi í málflutningi sínum. Nú talar sama fólkið um að það verði að ræða og samþykkja fjármálastefnu og/eða fjármálaáætlun sem fjárlagagerðin byggi á, það talar um að mörg brýn mál bíði sem komist ekki að vegna þess að ríkisstjórnin vilji fyrst afgreiða veiðigjaldsfrumvarpið sem þorri landsmanna vill að verði samþykkt. Og núna þegar á einmitt að forgangsraða í þágu þessara sjónarmiða með því að greiða atkvæði um mál sem meiri hlutinn er einhuga um kemur sama fólkið og mótmælir sínum eigin sjónarmiðum.

Ég var búin að stinga upp á að hinir fáu andstæðingar þess að fiskurinn verði í sameign þjóðarinnar myndu biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu og það er sjálfsagt enn hægt.

Kjarnorkuákvæði 71. gr. þingskapa er of stórt orð fyrir þá hugsun að takmarka óhóflegar umræður þegar öll sjónarmið eru komin fram. Norrænu þingin eru með skipulag um sínar umræður og nú er lag að gera eins. 

---

Einn þingmaður sem hefur talað í marga klukkutíma kallar veiðigjaldið núna eitt lítið skattahækkunarmál. Þá hló ég upphátt.


Veiðigjaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu

Ég man árið 2004 þegar þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, svokallað frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993. Því var útbýtt 28. apríl, tæpum mánuði eftir síðasta dag, rætt 3., 4., 11.-15., 19., 21., 22. og 24. maí þegar það var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 30 og einn þingmaður sat hjá. Þá var mikið talað um að í Noregi hefði svipað frumvarp verið undirbúið og rætt í fjögur ár.

Mér finnst vissulega gaman að gramsa í vef Alþingis og rifja upp en nú háttar svo til að ég sé lausn á þrætunni um veiðigjaldið. Ef frumvarpið verður núna borið undir atkvæði verður það auðvitað samþykkt af meiri hlutanum sem stendur með því en svo getur forseti neitað að skrifa undir það og skotið til þjóðarinnar.

Tillagan mælir með sér sjálf og nú er bara að skjóta þessu að þinginu.


Þingmenn eru þingmönnum verst

Algjörlega óháð uppistandinu og gríninu sem ég fylgist samviskusamlega með á Alþingisrásinni er ég á því að þingmenn geti sjálfum sér um kennt þegar fólk segist lítið mark geta tekið á þeim. Þau tala:

a) eins og starfið snúist um að þau komist í sumarfrí, jólafrí, páskafrí - eða heim! eins og þingmenn séu hlekkjuð við vinnustaðinn allan sólarhinginn á vinnutíma. Það er löngu tímabært að einblína á verkefnin en ekki klukkan hvað þeim lýkur.

b) eins og þau séu ekki í vinnunni nema í þingsal. Allt sanngjarnt fólk áttar sig á að þingstörfin felast ekki í ræðuhöldunum, aftur burt séð frá málþófinu. Ræðurnar eiga að kjarna þær skoðanir sem einstaklingar eða eftir atvikum flokksheildirnar hafa. Megnið af vinnunni á sér stað hjá frumvarpshöfundum og svo í nefndavinnunni.

Og þetta á ekki við um þennan meiri hluta og þennan minni hluta sem eru núna á Alþingi.

Að lokum óska ég þess að þingmál megi lifa á milli þinga. Ef því hefði verið breytt einhvern tímann væri hægt að kæfa þennan málþófseld núna og endurvekja hann um miðjan september. Ef málið verður hins vegar ekki afgreitt fyrir annan þriðjudag í september þarf að mæla fyrir því að nýju, hvernig sem því yrði breytt og jafnvel þó að ekki staf yrði breytt, og þá gæti hringekjan farið aftur af stað.

Nördinn í mér hefur gaman af þessum fíflagangi en vitsmunirnir í mér hrópa að nú verði að fara að sinna brýnum hagsmunum alls almennings og þá er ég ekki að tala um sumarfrí þingmanna.


Málþóf fyrir lengra komna

Við sem erum komin af barnsaldri munum margt málþófið. Ég man líka að sömu þingmenn hafa stundum verið í stjórn og stundum stjórnarandstöðu. Ég gæti auðvitað aldrei verið á þingi, það þarf breitt bak, loðnar axlir og hæfilega ófyrirleitni til að halda út misgóða daga. En þessi grein var skrifuð fyrir sex árum. 

Lengi vel þótti það vitnisburður um elju og þrótt að vinna langa daga, en sú skoðun hefur á undanförnum árum látið undan þar sem við horfum til afkasta í stað vinnustunda. Umræðan á íslenskum vinnumarkaði snýst sífellt meira um framleiðni, þ.e. afköst á hverja vinnustund, og er framleiðniaukning ein af forsendum styttingar vinnuvikunnar. En eins og afköst geta aukist á hverja vinnustund, þá geta þau dregist saman. Því höfum við fengist að kynnast síðustu daga á Alþingi, þar sem fámennur hópur þingmanna hefur tekið afgreiðslu þingmála í gíslingu með málþófi. Það er nefnilega ekkert í þingsköpum sem bannar þingmanni að flytja sömu ræðuna tvisvar, eða í tugi skipta, sé út í það farið. Málfrelsi þingmanna er mikilvægt og er það sérstaklega varið í flestum þjóðþingum heims.

En málþóf á ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði, og þekkist nánast hvergi utan Íslands. Málþóf er séríslenskt fyrirbrigði. Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður. En vinnustaður er hann engu að síður, þar sem vanda þarf mjög til verka til að tryggja góða lagasetningu. Þegar andstæð sjónarmið hafa komið fram í þingsal er nauðsynlegt að leiða mál til lykta, ýmist með málamiðlunum eða með atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. Hvort sem þingmenn verða undir eða yfir í einstaka málum er óumdeilt að þetta er skilvirk og sanngjörn aðferð til að komast að niðurstöðu. Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið. Þrátt fyrir að túlka megi þingsköp, sem skapa rammann um hvernig þinghaldi skuli háttað, með þeim hætti að þingmönnum sé frjálst að halda uppi umræðu endalaust, þá er þar kveðið skýrt á um að andsvör séu aðeins heimiluð með leyfi forseta. Þá er einnig að finna heimild í 71. gr. þingskapalaga til þess að takmarka umræður.

Ég tel rétt og eðlilegt að þingheimur hugi að þessum heimildum til framtíðar. Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.

Ef þið smellið á krækjuna sjáið þið það sem þið vissuð fyrir, viðkomandi þingmaður er nú í grimmu málþófi.

Þingmanninum var greinilega bent á þessa grein vegna þess að hún varði sitt eigið málþóf í ræðu seinni partinn, kl. 14:57.

Ef þingið hefði komið því í verk fyrir nokkrum árum að breyta lögum þannig að mál lifðu milli þinga horfði málið allt öðruvísi við. Ég er ekki flokkspólitísk en ég vil rukka auðugu útgerðirnar sem maka krókinn. 


Þingeyri > Ísafjörður - sjálfsagt óvinsæl skoðun

Mér finnst ég skilja að fyrirtæki vilji hagræða í rekstri. Ég veit ekkert um Arctic Fish eða neina þá fyrirgreiðslu sem fyrirtækið kann að hafa fengið. En gefum okkur að fyrirtækið hafi byggt sig upp með engum eða hóflegum stuðningi og sjái nú sóknarfæri með því að sameina alla starfsemi fyirrtækisins á einum stað í einu húsnæði. Gefum okkur það. Þá finnst mér þessi gjörningur ekki óeðlilegur eða óskiljanlegur.

Ég fann tæplega 60 blaðsíðna skýrslu um Arctic Fish en ég finn ekkert um spillingu eða hagsmunapot. Þangað til annað kemur í ljós ætla ég að gefa mér að spillingu sé þá ekki til að dreifa. Er þá ekki eðlilegt að fyrirtækið hagi eigin seglum eftir vindi?

Til vara: Ef þetta er svívirðilegur gjörningur sem bitnar á brothættri byggð hljóta þingmenn kjördæmisins að hefja upp raust sína, ekki síst þau sem hafa haft hátt um hækkun veiðigjalds.

Eruð þið ekki öll búin að vera að hugsa um þetta í dag? 


Veiðigjaldið - hver veit hvað?

Ég er ekki andvíg málþófi. Málþóf er filibuster á ensku og mér skilst að það sé mikið notað í Bandaríkjunum, eða hafi a.m.k. verið. Málþóf þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á umdeildum málum, tefja, fá umræðu í samfélaginu og upplýsa. En öllu má ofgera.

Nú er þetta haft eftir Karli Gauta úr ræðustól Alþingis:

Þeir sem þekkja frumvarpið illa að eigin sögn, frú forseti, eru þrisvar sinnum líklegri til að styðja það. Þrisvar sinnum líklegri til að styðja það! Þeir sem segjast þekkja það vel eru tvöfalt líklegri til að styðja það. Hvaða tilhneiging er þetta, frú forseti? Þeir sem ekkert vita um þetta mál þeir styðja það. Eftir því sem þeir vita meira því meiri líkur eru á að þeir styðji það.

Þeir sem segjast þekkja það vel eru tvöfalt líklegri til að styðja það? Þrefalt og tvöfalt líklegri en hvað? spyr ég. Eftir því sem þeir vita meira því meiri líkur eru á að þeir styðji það?

Annaðhvort er rangt skrifað upp eftir þingmanni Miðflokksins eða hann orðinn mjög aðframkominn, en ég spyr í fullri alvöru: Halda menn að stuðningur fólks við eðlilegar greiðslur fyrir afnot af þjóðareign snúist um útreikninga í frumvarpi?! NEI, ég er ekki flokkspólitísk en er lengi búin að vera þeirrar skoðunar að frjálsa framsalið hafi verið mistök og að útgerðarfélögin sem fjárfesta í óskyldum rekstri eigi að borga sanngjarnt verð fyrir aðgang að auðlindinni okkar.

Og mér finnst líka rangt gefið í ferðaþjónustunni og í henni starfaði ég í rúman áratug.

Sveitarfélögin sem skila inn neikvæðum umsögnum um veiðigjaldsfrumvarpið gætu vel verið undir hælnum á sínum eigin Bogesen. Rafvirkinn í þorpinu getur orðið uggandi yfir að fá ekki lengur yfirvinnu hjá frystihúsinu af því að hann veit um sporsluna sína upp á þúsundkall en ekki að bærinn fær hundraðþúsundkall þegar útgerðarbóndinn borgar eðlilegt veiðigjald.

Umsagnir eru góðra gjalda verðar en þær verður að skoða í samhengi hlutanna.

Og það er rétt sem lesandi kann að hugsa, ég hef ekki reiknað út gjaldið, ekki frekar en í nokkru öðru frumvarpi. Almenningur setur sig ekki inn í löggjöfina, við myndum okkur skoðanir á öðru en einstökum excel-skjölum. Og ég held að við vitum öll að það er rangt gefið í þessum efnum. 


Ekki nóg að hlutirnir séu réttir ... veiðigjaldið

Einu sinni álpaðist ég til að bjóða mig fram til formanns í stéttarfélagi. Ég fékk óánægjufylgi vegna þess að aðeins innsti hringur þekkti mig en fjöldinn kaus mig til að fá ekki hinn frambjóðandann. Ég var haldin mikilli ábyrgðarkennd og vandaði mig og vandaði mig og vandaði mig svo aðeins meira. Árið sem tók við var hræðilegt. Ég lagði mig svo mikið fram að ég gekk fram af mér. Að vísu var óeining í félaginu, eins og alltaf, en frambjóðandinn sem ekki var kosinn hringdi stöðugt í mig til að spyrja mig um hitt og þetta og aðallega eitthvað úr fortíðinni sem kom minni formennsku ekki við. Það var alveg freistandi að segja: Þetta átt þú að vita, en ég puðaði við að ná í upplýsingarnar annars staðar (fyrir tíma gúgls) til að láta hann ekki hanka mig á neinu.

Núna þegar ég fylgist samviskusamlega með Alþingisrásinni sakna ég þess stundum að menn vandi sig meira. Ég er ekki hrifin af stjórnarandstöðunni en mér finnst að stjórnarliðar ættu líka að hugsa: Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir, þeir verða líka að líta út fyrir það.

Stjórnarliðar allra tíma þurfa að svara betur og oftar. Það verða alltaf einhverjir sem fara að trúa því að Kiddi Mýfluga á Kópaskeri eigi að borga veiðigjaldið hans Valda koppasala á Kvíaskeri.


Lengsta þingræðan: Jóhanna Sigurðardóttir 1998

Ég var að hlusta á Vikulokin. Þar töluðu saman Diljá Mist EinarsdóttirPawel Bartoszek og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þátturinn var óvenjulega hressilegur og gestir skorinorðir. Meðal annars lýsti Ingibjörg Sólrún eiginlega yfir stuðningi við mótmæli á Austurvelli 17. júní. En það sem ég staldraði við var þegar Diljá talaði um lengstu þingræðuna, þá sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti 14. maí 1998 um húsnæðismál. Jóhanna hafði áhyggjur af að verið væri að

slá af, með litlum fyrirvara og litlum undirbúningi, félagslega húsnæðiskerfið.

Í byrjun ræðunnar kemur fram að hún fékk aukaborð undir gögnin sem hún ætlaði að leggja út af í ræðu sem hún var búin að ákveða að yrði löng. Ég hef ekki lesið hana í heild sinni en mér er sagt að Jóhanna sé með vel byggða ræðu, lausa við endurtekningar, og ég veit að eftir að ræðan hafði verið skrifuð upp las hún hana sjálf yfir og gerði lítils háttar athugasemdir á stöku stað. Útprentuð ræðan var einu sinni til sýnis á opnu húsi í Alþingishúsinu í heild sinni.

Það sem Diljá sagði áðan var að ræðan hefði hafist á hádegi 14. maí og staðið yfir til miðnættis daginn eftir. Ég skil Diljá þannig að hún haldi að ræðan hafi staðið yfir í um 36 klukkustundir. Hið rétta er að hún stóð 14. maí 1998

kl. 12:27-12:59
kl. 13:34-19:05
kl. 20:31-00:38

þar sem tvö matarhlé voru þegar á dagskrá þingsins. Samanlagður fjöldi mínútna var þá 32+331+247 mínútur, samtals 610 mínútur, þ.e. 10 klukkutímar og 10 mínútur.

Mönnum ofbauð einnig þegar Ögmundur flutti löngu hlélausu ræðuna sína um RÚV 4. apríl 2006 sem stóð frá kl. 23:10 til kl. 5:12 næsta morgun. Þess vegna var á endanum þingsköpunum breytt og tekið fyrir eins langar ræður og fólk gat flutt án þess að nærast eða fara á náðhúsið.

Ég skil vel að málþóf, það að þæfa málið, geti átt erindi en þegar fólk endurtekur sig í sífellu verður það leiðigjarnt. Og þegar þingmenn gjaldfella vinnuna sína með því að tala mjög mikið um að þingið þurfi að komast í sumarfrí sem standi þá frá miðjum júní til fyrsta þriðjudags í september geta þau sjálfum sér um kennt þegar allur almenningur hneykslast á lítilli skilvirkni þingsins og háum launum þingmanna.

 


Þingfundur á sunnudegi

Ég fylgist auðvitað með fundarstjórnarumræðum á Alþingisrásinni. Á sunnudegi. Ég ætti að poppa en ég tími ekki að missa af neinu.

Ég er á móti þingfundum á sunnudögum og líka á laugardagskvöldum og reyndar held ég að allir þingmenn gætu stytt mál sitt til muna alla daga. En það sem hlýtur að verða fréttapunktur í fjölmiðlum er athyglin sem öll önnur helgarstörf fá, þar sem fólk hefur ekki val um að vinna ekki á sunnudögum. Við getum talað um verslanir, þ.m.t. bakarí sem opna dyr sínar fyrir allar aldir og hafa þá þegar framleitt ógrynni af nýmeti, sjúkrahús, öldrunarheimili, ferðaþjónustu og ylströndina. 

Ég veit alveg að þingmenn vinna um helgar, semja frumvörp og nefndarálit, lesa skýrslur, hitta kjósendur og ganga um Þingvöll. Ég veit líka að þingmenn hafa mikið frítt spil og ráða vinnutíma sínum þegar fundartíma sleppir, bæði á þingfundum og nefndarfundum.

Ég gæti rantað lengi um umræðuna sem nú hefur staðið yfir í tæp þrjú korter, en ég tek undir með Bryndísi Haralds sem sagði áðan að málið um bókun 35 leysist ekki í þingsalnum. Ég held að þessi þingfundur sé fyrst og fremst til að skemmta okkur skrattanum vegna þess að ég hef stundum gaman af rugli og þótt ég nái ekki að poppa sit ég hér við minn indæla suðurglugga og klóra ketti á enninu meðan ég fylgist með fundinum.


Óli Lokbrá

Við þekkjum öll Óla Lokbrá. En ég áttaði mig á því í þessari viku að lokbrá er kvenkyns. Óli er hins vegar karlkyns. Svona getur maður orðið samdauna.

Kannski er það svipað og að fólk segir kyrrþey þótt það eigi að vera í nefnifalli og þá kyrrþeyr og svo er berjamór þannig í nefnifalli þótt flestir fari í berjamó.

En að ég skyldi aldrei leiða hugann að Óla sem ætti eiginlega ekki að vera lokbrá. En hvernig er lokbrá á dönsku? Ég finn það engan veginn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband