Færsluflokkur: Dægurmál

Barnamálaráðherra

Ásthildur Lóa gerði vel í að segja af sér ráðherraembætti, annars hefði enginn friður orðið um góð störf nokkurs í ríkisstjórninni, en ég vil segja þetta:

Árið 1990 urðu börn fyrr fullorðin, að lögum. Því miður finn ég ekki barnalög sem kveða á um aldurinn og ég man hann ekki, en það er klárt að börn hættu fyrr að vera skilgreind börn fyrir þessum áratugum.

Þess eru fjölmörg dæmi að 15-16 ára stelpur voru með 20-25 ára strákum og eignuðust með þeim börn. Það er sjaldgæfara að stelpan sé eldri. 

Þegar ég var einu sinni fararstjóri í sumarbúðum barna, árið var víst 1992, var þar 15 ára fullorðinslegur strákur sem dró einn fararstjórann, finnska konu, á tálar. Við vorum vissulega mjög bit á henni. 

En þessi fyrirsögn Heimildarinnar er fyrir neðan allar hellur:

Barnamálaráðherra eignaðist barn með barnungum pilti

Enginn lesandi sem ekki hefur séð eitthvað á undan lætur sér detta annað í hug en að núverandi barnamálaráðherra hafi NÚNA eignast þetta barn. Barnamálaráðherra eignaðist auðvitað ekki barn sem barnamálaráðherra.

Vísir er skömminni skárri:

Barna­málaráðherra eignaðist barn með tánings­pilti þegar hún var 22 ára

Þessi fréttaflutningur gerir samt í því að kasta skömm á viðfangsefnið frekar en að upplýsa lesendur um sannleikann. Og ég get alveg játað það að ég ætla ekki að sitja í neinum fílabeinsturni og benda fingri á ráðherrann fyrrverandi. 


Flug til Ísafjarðar, flug frá Ísafirði

Hvað verður um sjúkraflugið þegar Icelandair hættir að fljúga til og frá Ísafirði?

Og hvernig eiga ömmur Ísafjarðar að komast til læknis í Reykjavík?

Þessar fréttir dyndu varla á okkur ef annað flugfélag flygi til og frá Ísafirði. Eða flýgur einhver á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur þegar Bogi Nils selur vélina sem hentar þröngri aðkomunni á Ísafirði?


Nanna gagnrýnir RÚV á Vísi

Ég horfði á fyrsta matarsöguþáttinn á RÚV fyrir mánuði og mér fannst hann svo ótrúlega lélegur og óspennandi að ég hafði orð á því í spjalli við nokkrar vinkonur. Þær höfðu ekki horft nema ein sem var sammála mér þannig að ég vissi ekkert um almenna skoðun og veit svo sem ekki enn, en nú tjáir sig einn viðmælandi úr þáttunum. 

Helsti matargúrú samtímans býsnast yfir notkun myndefnis í þáttunum. Ég tók mjög eindregna ákvörðun um að horfa ekki á fleiri af þessum tilgerðarlegu og uppskrúfuðu þáttum þannig að ég vissi ekki hvort þetta hefði haldið áfram en mig grunar það eftir lestur þessarar skoðunar Nönnu.

Nú væri freistandi að nota ferðina og tala um lélega dagskrá RÚV en ég læt duga að segja:

- Fækkaðu endurtekningunum, Stefán.

- Hættu að láta kynninn (af spólum) kynna efni ofan í efnið, Stefán.

- En takk fyrir handboltann í janúar, Stefán.

Ég er ekki áskrifandi að Stöð 2 en ef ég þyrfti að velja á milli fréttatíma Stöðvar 2, sem er í opinni dagskrá, og RÚV myndi ég velja Stöð 2. Það eru margir fínir fréttamenn á RÚV en stundum vantar bara aðeins of mikið upp á (frásagnar)gleðina.

 


Framkvæmdastjóri SA

Skiljanlega þarf framkvæmdastjóri SA að vera með góð laun en eins gott að hún leiði ekki launaþróun í landinu vegna þess að þá myndum við öll hækka um 600% í launum. Og við vitum að hún er að lágmarki sex manna maki þegar kemur að afköstum og gæðum, viðmóti og launaþokka.

Ég myndi glöð lækka um 10-20% í launum svo hún hefði efni á að skipta um föt í hádeginu líka og henda alklæðnaðinum sem hún er í á morgnana.

Og við vitum að B.Sc. í rekstrarfræðum, með áherslu á markaðsfræði, frá Háskólanum á Akureyri hefur ekki verið ókeypis þannig að væntanlega er hún drekkhlaðin námslánaskuldum. Hún hefur varla getað greitt almennilega inn á höfuðstólinn af sínum 2,3 milljónum útborguðum á mánuði. Þvílík lúsarlaun hjá aumingja framkvæmdastjóranum enda er auðveldlega innstæða fyrir þessum aurum í samfélaginu.

Ég finn svo til með henni að ég vaknaði kl. 6 í morgun í kvíðakasti.

--- 

Tek fram að ég er ekki kennari en stend með kennurum, en samt ekki lötu kennurunum ...


Ég trúi kennurum

Ég er lærður íslenskukennari og var kennari í nokkur ár, hætti fyrir rúmum 20 árum. Ég forðaði mér úr stéttinni fyrir rúmum 20 árum af því að ég var aldrei búin í vinnunni. Ég var alltaf að lesa námsefnið, pæla í innlögn, skoða vettvang, semja verkefni eða fara yfir verkefni, sem sagt þegar hinni eiginlegu kennslu sleppti. Ég hefði viljað vera meira í stofunni með nemendum og minna í að fara yfir stafsetningarstíla. Sumir samkennarar mínir hefðu viljað skipta við mig en kerfið bauð ekki upp á þess háttar lúxus.

Ég man ekki launin sérstaklega en ég man kvöld, helgar og meint páskafrí. Ég man samviskubit. En ég man líka skemmtilega nemendur sem náðu árangri, nemendur sem mættu sjálfviljugir í tíma, voru spurulir, áhugasamir og skapandi. Það var bara ekki nóg þegar ég var sífellt hlaupandi. Sérstaklega átti það auðvitað við um fyrsta árið mitt, árið sem ég var úti á landi, árið sem ég kenndi 34 tíma á viku, árið sem ég var með svo stóra bekki að ég þurfti bíósalinn fyrir hópinn, árið sem ég þurfti að leggja mig yfir borð nemendanna yst í röðinni til að ná til nemendanna innar í röðinni.

Ég er samviskusöm og var áhugasöm. Auðvitað eru til kennarar sem undirbúa sig bara í eitt skipti fyrir öll. Í öllum stéttum eru slóðar en við getum ekki ákvarðað laun og önnur kjör út frá þeim einstaklingum.

Þegar ég heyrði í fréttum áðan að ríki og sveitarfélög hefðu ekki viljað samþykkja innanhússtillögu ríkissáttasemjara - sem kennarar höfðu samþykkt - varð ég ekki hissa. Stéttin er mannmörg og kostnaður við að borga mörgu fólki sómasamleg laun er mikill. Þess vegna þurfa samninganefndirnar að vera skapandi í hugsun. Ég geri að tillögu minni að skólaárið verði lengt, sérhver vinnuvika kennara verði stytt og annað það gert sem þarf til að þessi stétt sitji við sama borð og aðrar vinnandi stéttir. En eins og aðrar vinnandi stéttir þurfa þá kennarar líka að geta farið í stuttar borgarferðir eða vikulöng skíðafrí á miðjum vetri. Kennarar ættu ekki að þurfa að taka öll sín frí á dýrasta tíma.

Svo gætum við tekið fyrir vinnutíma þingmanna.


Deyjandi ömmur í Vatnsmýrinni

Guð. minn. góður. Guðmundur Fertram Sigurjónsson var í Silfrinu í fyrrakvöld grátklökkur að tala um mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýrinni. Ekki væri hægt að senda ömmur utan af landi með flugi (frá Ísafirði þaðan sem ekki er nærri alltaf hægt að fljúga) til Keflavíkur - hvernig ættu þær að komast til Reykjavíkur?!

Ha, hvernig eiga ömmur að komast með lest, strætó eða einkabíl milli bæjarfélaga eða hverfa? Nei, þær komast með naumindum upp í flugvél, lenda svo í Vatnsmýrinni - og hvernig eiga þær þá að komast til augnlæknisins í Kringlunni eða Mjóddinni? Væntanlega með annarri flugvél þá, nema þyrla sé.

Ég þurfti að halda mér svo ég dytti ekki um kaffibollann minn meðan ég hlustaði á tilfinningaklámið því að þetta var hreinræktað tilfinningaklám í manninum.

Fólk deyr nefnilega ekki af því að flugvöllurinn sé ekki á ákveðnum stað. Það deyr, þegar svo háttar til, af því að það kemst ekki undir læknishendur. Þó að flugvöllurinn yrði um aldur og ævi í Vatnsmýrinni er ekki öruggt að fólk komist undir læknishendur ef það kemst ekki frá staðnum sem það ætlar að fljúga frá. Og það er ekki heldur banvænt að komast ekki til gigtarlæknis á núll einni.

Ég er alltaf til í að hlusta á rök fyrir einhverju sem ég er ekki sammála, en þessi maður tefldi ekki fram neinum rökum, nema raki í augnkrókunum teljist með.


Bankarnir

Ég er svo mikill greifi að ég er með fjögur bankaöpp í símanum mínum og viðskipti við fjórar fjármálastofnanir: Arion, Auði, Íslandsbanka og Indó. Gamli Búnaðarbankinn er uppeldisbankinn minn en ég er algjörlega laus við trygglyndi þegar mér finnst gengið á minn hlut sem Arion hefur svikalaust gert við öll tækifæri mörg síðastliðin ár. Ég ætla þess vegna að láta núverandi kreditkort renna sitt skeið og ekki endurnýja það að því loknu. Hugsanleg sameining Arion og Íslandsbanka hefur þannig engin áhrif á mig persónulega vegna þess að ég er á hraðri leið í burtu frá þeim báðum.

Er engin von til þess að neytendur standi saman, taki slaginn og gangi keikir frá borði? Erum við svo átthagabundin, ýmist vegna trygglyndis eða vegna þess að flutningur lána milli fjármálastofnana er svo djöfullega kostnaðarsamur?


Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni

Ég samgleðst öllum sem lifa af hremmingar, hvort sem eru óvænt veikindi, slys eða ofbeldi. Ég samgleðst öllum sem ná árangri, hvort sem er í vinnu, námi eða öðru einkalífi. Ég samgleðst öllum sem eiga góðar stundir með fjölskyldu, vinum eða samstarfsfólki.

Mér finnst bara mjög auðvelt að gleðjast yfir því sem vel gengur, hvort sem er hjá sjálfri mér eða öðrum, og finna til með fólki sem líður illa eða þjáist, hvort sem er andlega eða líkamlega.

En mér finnst alltaf fráleitt að stilla því upp að flugvöllur í Vatnsmýri bjargi lífum og flugvöllur úr Vatnsmýri grandi lífum. Ég ætla ekki að tengja í frétt af því af því að þetta er of persónulegt fyrir viðkomandi. Auðvitað hafa líf bjargast vegna þess að það fólk sem hefur verið í lífshættu kemst undir læknishendur. En þurfa þessar læknishendur að vera við Hringbrautina?

Er ekki hátæknisjúkrahús í Keflavík? Veikist fólk ekki á Ísafirði? Verða ekki slys í Neskaupstað? Af hverju er ekki betri aðstaða víðar um land? Mega Reykvíkingar sem búa í aðflugslínu flugvélanna ekki allt eins krefjast þess að friðhelgi þeirra heimila verði virt?

Ég hef ekki heyrt það núna í dágóðan tíma en það flaug fyrir fyrir nokkrum árum að fólk í Vesturbænum vildi geta flogið norður á Akureyri með morgunvélinni og til baka með síðdegisvélinni og helst án þess að skipta úr inniskónum. Ef við erum að tala um aðgengi mætti þá spyrja hvort fólk í Andrésbrunni ætti ekki að geta gengið á inniskónum út í flugvél sem flytti það milli landshluta. Væri ekki líka næs fyrir landsbyggðarfólkið - sem alltaf er talað um eins og því finnist það engan rétt eiga - að geta flogið að norðan, lent í Keflavík og gengið beint í flugvél sem flytur það til útlanda?

Mér finnst vanta alla ró í umræðuna og ég hef enn ekki séð neina þarfagreiningu. Getur einhver hér t.d. sagt mér hver borgar megnið af innanlandsfluginu? Eru það farþegarnir sjálfir eða eru það skattgreiðendur?


Trén í Öskjuhlíðinni

Ég hef skipt um skoðun. Reyndar á aukaatriði en samt má segja að ég hafi skipt um skoðun. Ég er enn á því að flugvöllurinn eigi að fara úr Öskjuhlíðinni og held enn að hægt sé að gæta að öryggisþættinum varðandi sjúkraflugið annars staðar, en ég sé að í ágúst 2023 hef ég ekki viljað láta fella tré í Öskjuhlíðinni sem ég man gjörla að okkur var sagt í leiðsögunámi mínu á sínum tíma að hefðu vaxið þar af miklu harðfylgi frá miðri 20. öld.

Út frá minni persónulegu skoðun og upplifun vil ég segja að mér er alveg sama þótt skógurinn verði grisjaður. Ég fæ innilokunarkennd þarna og villist alltaf. Á sólardögum nær sólin hvorki niður á kollinn á mér né í smærri plöntur sem veitti ekki af.

Mér er sjálfri því alveg sama þótt 1.400 tré verði felld. Ég hef hins vegar ekki skipt um skoðun á veru flugvallarins og hef enga trú á að meiri hluti borgarstjórnar hafi steytt á þessu máli sem allir hlutaðeigendur hafa vitað um.


Hildur eftir Satu Rämö

Í mér var góður slatti af eftirvæntingu þegar ég opnaði Hildi. Ég hafði ekkert heyrt nema gott, m.a. frá finnskri vinkonu minni sem hefur verið búsett á Íslandi álíka lengi og Satu, höfundurinn. Ég náði að lesa fyrstu 100 síðurnar af 370 en þá var fullreynt með að höfundur hætti ekki að útskýra alls konar og ýmislegt. Ég trúi alveg að útlenskir lesendur, sem eru auðvitað markhópurinn, kunni að meta frásögnina en þetta er erfitt fyrir fólk sem þekkir til. Glæpasagan hélt samt og þess vegna las ég síðustu 50 síðurnar.

Ég eftirlæt öðrum að lesa hinar sögurnar sem Satu er líka búin að skrifa og gleðst yfir að hún eigi orðið stóran lesendahóp vegna þess að ég held að bókin henti fullkomlega öðrum lesendum en mér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband