Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 6. október 2024
Góðir grannar eftir Ryan David Jahn
Lúxusvandi minn er að ég á of mikið af ýmsu, þar á meðal bókum. Nýlega fór ég í flugferð og ákvað að taka með mér eina af bókunum úr Neon-bókaklúbbnum sem ég var í fyrir rúmum áratug. Margar bækurnar hafði ég ekki tekið úr plastinu.
Nokkrar voru alveg álitlegar og ég valdi Góða granna. Hún er skáldaga en byggir á sannri sögu um unga konu sem vinnur á bar og þegar hún er á heimleið eftir langa vakt ræðst á hana maður og stingur. Hann ætlar að drepa hana. Þau þekkjast ekkert. Ekkert.
En þetta er ekki það áhugaverðasta við bókina. Það áhugaverða er að margir nágrannar hennar sem búa í sömu blokkinni í Bandaríkjunum horfa upp á árásina út um gluggana sína. Af því að þau voru svo mörg - þrátt fyrir að glæpurinn væri framinn um miðja dimma nótt - héldu þau að eitthvert hinna myndi hringja á lögregluna eða skakka leikinn með öðrum hætti.
Sagan er í 50 köflum og þeir fléttast á ýmsu vegu. Meðan Kat berst fyrir lífi sínu er okkur sagt frá unga manninum sem annast dauðvona móður sína, sjúkraflutningamanninum sem rekst á geranda sinn, manninum sem kemur hálfur út úr skápnum, hjónunum sem fara í makaskipti og spilltu lögreglumönnunum.
Kannski geri ég mistök í að telja þetta upp vegna þess að það gæti virst eins og höfundur hafi ákveðið að tefla fram mestallri ógæfu sem þjakar mannkynið en allar þessar meinsemdir fá sitt eðlilega rými og flæði. Ég er ekki vel lesin í Ernest Hemingway en mér varð hugsað til hans meðan ég las og Njarðar P. Njarðvík sem kenndi mér ritlist á sínum tíma. Höfundur dregur nefnilega upp skýrar og hnitmiðaðar myndir með hófstilltum texta sínum, matar ekki lesandann heldur eftirlætur okkur að glöggva okkur sjálf.
Ég gáði hvort höfundurinn hefði skrifað fleiri bækur. Já, en þær hafa ekki verið þýddar og eru heldur ekki til á ensku á bókasöfnunum.
Ég vil gjarnan lána áhugasömum lesendum bókina en ég ætla ekki að fara með hana á ókeypis vagninn í Kringlusafni eða Laugardalslauginni eins og sumar aðrar bækur, a.m.k. ekki fyrr en ég hef melt hana aðeins lengur. Og ÞAÐ eru skilyrðislaus meðmæli með bókinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. september 2024
Ljósvíkingar
Þessi mynd! Alltaf varhugavert að kynda undir miklum væntingum en ég er yfir mig hrifin af Ljósvíkingum, söguþræðinum, framvindunni, leiknum, umhverfinu, endinum.
Hver er þessi Snævar Sölvason?
Ég þekkti Björn Jörund, Vigdísi, Ólafíu Hrönn, Helga fokking Björns, Pálma, Gunnar Jónsson og Hjálmar hvítvínskonuna. En ég þekkti ekki Örnu Magneu Danks. Þvílíka stjarnan!
Bónus var auðvitað að myndin var augljóslega tekin þar sem ég rúntaði um í viku í sumar, á Ísafirði og í Hnífsdal.
Ég vil ekki spilla fyrir öðrum áhorfendum en ég hló og grét og salurinn, samt bara hálffullur, marghló svo undir tók í fjöllunum.
Ég hef ekki orðið svona hrifin í bíó eins langt aftur og ég man.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. september 2024
Urðarhvarf eftir Hildi Knúts
Maður skyldi greinilega fara varlega - eða sparlega - í að gleypa heilt höfundarverk þótt fyrstu bækur höfundar sem maður les höfði til manns. Nú las ég Urðarhvarf og var bara ekki hrifin. Úr viðtalinu við Hildi sjálfa fannst mér þessi setning samt áhugaverð:
Ef kettir eru ekki ánægðir heima hjá þér bara flytja þeir annað.
Sjálfboðaliðinn Eik í Urðarhvarfi er heltekin af villiköttum, útigangsköttum, sjálfstæðum köttum og hringir sig inn veika í vinnu til að sitja í bíl og fylgjast með búrum sem í er túnfiskur sem á að laða ketti inn úr kuldanum. Í skáldsögum er auðvitað oft skrýtið og öðruvísi fólk - hver væri annars sagan? - en mér finnst sagan samt hanga á of miklum bláþræði.
Nú hvíli ég Hildi í nokkrar vikur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. september 2024
Spennusaga um svefn
Ekki um svefnleysi, nei, spennusaga um svefn. Ekki fræðibók, nei, heldur skáldsaga. Spennandi hrollvekja um konu í Reykjavík sem sefur.
Hildur Knútsdóttir er loksins komin á radarinn hjá mér. Myrkrið milli stjarnanna er örstutt og fljótlesin saga um örþreytta konu sem sefur ekki vært og rótt. Eiginlega er ekki hægt að segja meira án þess að afhjúpa of mikið af söguþræðinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. september 2024
Bakgarðurinn í Heiðmörk
Mér finnst alveg magnað að einkamiðillinn Vísir sjái um beina útsendingu á Bakgarðinum sem við mörg úr hlaupasamfélaginu höfum áhuga á. Ég segi nú ekki að ég hafi vakað yfir þessu í nótt en að öðru leyti hef ég fylgst frekar vel með útsendingunni í djúpu gluggakistunni minni. Ég er ekki að öllu leyti hrifin af því hvað fólk gerir skrokknum á sér með þessum miklu vökum og nánast ómennsku álagi en ég er ekki búin að sjá neitt um að þetta hafi skaðleg langvarandi áhrif.
Og ég ætla fljótlega í Hlaupár að kaupa mér nýja skó og annað úr þar sem það fyrirtæki stendur þétt við bakið á útsendingunni.
Enn hlaupa sex hlauparar (af 215). Hlaupið hófst kl. 9 í gærmorgun. Og Garpur Ingason Elísabetarson fær risastórt kudos frá mér fyrir íþróttalýsinguna sem er bæði upplýsandi og hófstillt, ekki neinar upphrópanir eða tilgerð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. september 2024
Nýtt merki Alþingis
Mér finnst það flott. Ég er vinur breytinga og mér finnst alveg ástæða til að breyta til þótt ekki sé endilega verið að laga eitthvað bilað eða ónýtt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 18. september 2024
Claire Keegan
Nú er ég búin að lesa tvær bækur eftir hinn rómaða írska höfund sem m.a. fékk mikið uppklapp í Kiljunni í fyrra. Þær voru svo leiðinlegar og fyrirsjáanlegar og óáhugaverðar að ég þurfti að pína mig til að klára þær þó að þær voru hvor um sig bara um 100 síður.
Ef ég væri að skrifa um þær fyrir eitthvert blað eða tímarit myndi ég rökstyðja þessa skoðun en nú læt ég duga að segja að það er ekkert lögmál að við séum öll hrifin af sömu bókunum. Hún Ingibjörg Iða í Kiljunni sem geislar af áhuga, lestrargleði og mildi hefur bara annan smekk en ég. Ég hrífst oft af hennar hrifningu en það dugir ekki til. Mig minnir að hún hafi líka verið hrifin af DJ Bamba sem mér finnst búa yfir áhugaverðum söguþræði en stíllinn svæfði mig trekk í trekk.
Vandinn er samt væntingastjórnun. Nú fer ég að vara mig ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. september 2024
Höfundurinn Hildur Knútsdóttir
Ég las Möndlu um daginn og varð alveg hugfangin. Hún er örstutt skáldsaga, rúmar 100 síður, og ég gat ekki lagt hana frá mér. Ég er frekar mikill lestrarhestur þannig að ég er dálítið hissa á mér að hafa ekki lesið fyrri bækur Hildar. Kannski er það af því að ég hélt að hún væri unglingabókahöfundur. Okkur systkinum kom saman um að hún væri ungmennabókahöfundur, þ.e. skrifaði fyrir þau sem kallast á ensku young adults. Og ég er þá líklega þar ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. september 2024
Prisons and jails
Kappræður Donalds Trumps og Kamölu Harris voru að byrja. Hún skelfur að sönnu meira í röddinni en hann talar um fólk sem kemur úr prisons and jails. Ég er ekki fullnuma í ensku, hehe, og spyr: Er einhver munur á prison og jail?
...
Já, þetta var lærdómsríkt. Jail er fangelsi þar sem fólk stoppar stutt en prison er fangelsi þar sem fólk er lengur en eitt ár. Af hverju er gerður greinarmunur á þessu í ensku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. september 2024
Línuskiptingarstrikið sem hverfur
Nei, þetta er ekki upphafið að sakamálarannsókn. Þegar maður skrifar texta í word verða línur ójafnar ef maður hefur vinstri línujöfnunarstillingu eða stundum gisnar þegar maður hefur miðjulínujöfnun. Ég er svo mikill fagurkeri, hoho, að ég get ekki horft upp á þetta og skipti þá orðum á milli lína. Ef textinn skyldi svo breytast seinna, já, eða línurnar leggjast ólíkt í annarri tölvu (ég treysti mér ekki til að útiloka það) er trixið að halda Ctrl niðri á lyklaborðinu um leið og maður ýtir á bandstrikið. Þá hverfur línuskiptingarstrikið ef allt orðið skyldi rúmast í einni línu.
Mér finnst að þetta ætti að vera kennt á öllum word-námskeiðum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)