Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
Prósent eða prósentustig, þar er efinn
Íslandsbanki ríður á vaðið og lækkar vexti. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 50 punkta, þ.e. 0,5 prósentustig, en Íslandsbanki segist lækka um 0,5%. 0,5% af 10% eru 0,05 prósentustig og engan munar um það þegar 10% verða 9,95%.
Þetta kenndi mér Lárus Ingólfsson í 9.LI á sínum tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Ráðherrann II
Ég skil ekki þögnina um Ráðherrann II. Mér finnst þátturinn frábær. Hann sýnir fyrst og fremst keisarann sem er í engum fötum (stjórnvöld) og barnið (ráðherrann) sem hikar ekki við að benda á hið augljósa. Tvö dæmi:
- sú spilling að vilja frekar farga 2,8 tonnum af lambakjöti en að nýta það. Man einhver eftir smjörfjöllunum?
- íslenskir sendiherrar í löndum þar sem þeir tala ekki tungumálið, þekkja ekki menninguna og verða almennt ekki að neinu gagni. Man einhver tímana þegar við höfðum ekki ekki millilandasíma og internet? Við þóttumst hafa lært það af covid að við þyrftum ekki að skjótast til útlanda á fundi, heldur gætum nýtt tæknina. Mér finnst ótrúlega margir búnir að glutra niður þeirri góðu þekkingu.
Nei, Ráðherrann II er ekki gallalaus þáttaröð. Þáttur nr. 2, þegar Gunnar Hansson elti Ólaf Darra um spítalaganga í búningi þunglyndis meðan eiginkonan, leikin af Anítu Briem, lá á sæng, var fulllangur og ósannfærandi. Já, mér fannst ekki trúverðugt að norrænir ráðherrar og starfsmenn þeirra kæmu með hest inn í fundarsal hótelsins eða kysstu karlmann, löðrunguðu svo og fordæmu í kjölfarið ofbeldi. En þessar smávægilegu ýkjur ná ekki að breyta þeirri upplifun minni að þáttaröðin sé fyrst og fremst ádeila á spillingu, sjálfvirkni og sjálftöku í kerfinu. Af hverju eru menn ekki húrrandi yfir þáttunum öll sunnudagskvöld eins og meðan við höfðum Verbúðina, þá frábæru þáttaröð sem deildi á illa rekinn sjávarútveg?
Við erum þrjú sem ég veit um sem kunnum að meta Ráðherrann II.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. nóvember 2024
Hvað ef Trump hefði unnið 2020?
Ef Joe Biden hefði ekki unnið 2020 og Bandaríkjamenn hefðu haft Donald Trump í stafni í átta ár samfleytt, já, hvað þá? Hvaða frambjóðendur hefðum við haft núna í Bandaríkjunum? Í Bandaríkjunum er hámarksseta átta ár og nú fær Trump seinni hlutann af sínum átta árum.
Fólk sem ég tek mark á spáir dómsdegi, afnámi lýðræðis og mannréttinda kvenna. Verður hægt að endurreisa samfélagið eftir fjögur ár af eyðileggingu?
Hvernig manneskja fæst í endurreisnina?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. október 2024
Ráðherrann II
Nú eru búnir þrír þættir af nýju seríunni Ráðherrann II og enginn að tala um hana! Ég var gagntekin eftir fyrsta þáttinn og okkur tveimur systkinum kom saman um að hann væri frábær. Hann var sýndur sama dag og ríkisstjórninni var slitið. Nánast engin umræða varð nálægt mér um þann þátt, aðeins ég og bróðir minn ræddum hann. Svo leið vika og þá var þátturinn þar sem þunglyndið í gervi blaðberans ásótti ráðherrann mjög líkamlega. Við Trausti alveg dolfallin. Engin umræða í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum eða kaffistofum sem við urðum vör við.
Eftir þáttinn á sunnudaginn var fór ég aðeins að spyrja fólk í kringum mig og þá kom á daginn að öllum sem ég heyrði í og öllum sem þau höfðu heyrt í fannst þátturinn óhemjuleiðinlegur, ósannfærandi og klisjukenndur.
Ég er ósammála. Ráðherrann er með geðsjúkdóm sem er erfiður viðureignar en hann heldur honum í skefjum með lyfjum. Það er áhugavert umfjöllunarefni sem mér finnst nálgast á fallegan og nærfærinn hátt. En aðalefnið finnst mér eiginlega vera að þarna á að vera maður í pólitík með einlægan vilja til að hlusta á fólk og taka ákvarðanir byggðar á almannahagsmunum. Af hverju kveikir það ekki áhuga fólks?
Og Ólafur Darri - maður minn, hann er stórkostlegur leikari. Ég hlakka til að horfa næstu fimm sunnudagskvöld á Ráðherrann II. Ég er líka eins spennt og bogi yfir öllum pólitísku hlaðvörpunum sem hellast yfir okkur nú þegar og verða úti um allt næsta mánuðinn.
Komi nóvember fagnandi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. október 2024
Kosningarnar
Flestum finnst sjálfsagt offramboð af pólitískum þáttum, nýjum og eldri frambjóðendum að kynna sig og misgáfulegum loforðum og stefnumálum, en nú er ég í essinu mínu. Og það sem meira er, ég held að þessar kosningar muni marka vatnaskil.
Næsta ríkisstjórn mun leysa húsnæðisvandann, vaxtavandann og samgöngumálin. Vonandi leysist líka kennaradeilan.
Svo er ástæða til að láta meira til sín taka í utanríkismálum en þar stend ég almest á gati.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. október 2024
Kosningar
Kosningabarátta er mitt bíó. Ég er ekki með Netflix, Viaplay eða Disney+ og sakna þess ekki. Ég horfi stundum með öðrum og hjá öðrum á valið efni en er sem sagt í aðalatriðum með RÚV. Svo er ég með útvarp og hlusta mikið á það meðan ég sýsla við annað.
Núna er hafin nokkurra vikna kosningabarátta. Æsispennandi. En mér líst ekki vel á allt fræga fólkið sem skautar framhjá forvali og prófkjörum og skýst nú í forystusæti flokkanna. Auðvitað fá allir að njóta vafans hjá mér (nema þeir sex flokkar sem ég er þegar búin að útiloka vegna fortíðar þeirra og stefnumála) en ég þarf alveg að hafa fyrir því að opna hugann fyrir fólki sem er sérfrótt á allt öðrum sviðum, fólki sem ég held að hafi jafnvel lítinn skilning á starfi þingmannsins, fólki sem hefur ekki unnið í grasrót flokksins sem það býður sig fram fyrir. Ég hef alltaf verið óvissuatkvæði og alltaf hugsað með mér að ég gæti aldrei verið talsmaður flokks nema ég væri að lágmarki 80% sammála stefnumálum hans. Helst meira en mér finnst óraunhæft að gera þá kröfu að finna flokk sem gengur að öllu leyti í takt við mig. Og ég myndi ekki treysta mér til að ganga til liðs við flokk korteri fyrir kosningar og ætla að gerast helsti talsmaður hans í að minnsta kosti einu kjördæmi.
Vonandi hef ég enga ástæðu til að efast um heilindi fólks sem stefnir nú ótrautt á þingsæti og ráðherradóma með þeim áhrifum sem fylgja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. október 2024
Bakgarðurinn, landsliðin
Ég er búin að horfa með parti úr auga á landsliðskeppnina í Bakgarðinum síðan hún hófst í hádeginu í gær. Af 63 löndum hafa þegar nokkur lokið keppni en á Íslandi eru þau 15 sem hófu keppni öll enn að og ég þori næstum að lofa mikilli samheldni og stemningu. Í gær sá ég að þau fóru bleikan hring, öll með bleika húfu og sum meira, enda átak gegn krabbameini í gangi, og áðan voru þau öll í pífupilsum. Náttúruhlaup halda utan um keppnina og Elísabet Margeirsdóttir er örugglega einstakur keppnishaldari.
Ef að líkum lætur verða þau seigustu að fram yfir hádegi á morgun. Upplagt fyrir hreyfanlegt fólk að kíkja á þau í Elliðaárdalnum. Ég ætla að fara og klappa fyrir þeim á eftir en örugglega þurfa þau mesta hvatningu eftir að það byrjar að dimma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. október 2024
...
Ef hann fer í mál vona ég að hann hafi a.m.k. ekki gjafsókn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. október 2024
The Substance í Bíó Paradís
Nú er ég búin að fara þrisvar í bíó á tæplega hálfum mánuði og enn man ég ekki eftir betri mynd en Ljósvíkingum. Í gærkvöldi fór ég að sjá The Substance í Bíó Paradís sem er uppáhaldsbíóhúsið mitt, mér líður svo vel í þeim húsakynnum. Svo las ég umsagnir um myndina eftir á og fann merkilega margar umsagnir sem ég var sammála. Myndin er næstum tveir og hálfur tími og mér fannst hún ekki of löng í tíma en hún skiptist eiginlega í tvennt. Í fyrri hlutanum er sönn og heiðarleg - og vel gerð - ádeila á fegurðar- og fegrunariðnaðinn, ádeila á kröfur um endalausa og óbrigðula fegurð, ádeila á græðgi æskunnar. Þá varð mér oft hugsað til Myndarinnar af Dorian Gray, um Dorian sem valdi eilífa æsku.
Í seinni hlutanum þótti mér leiðigjarnt og eiginlega óskiljanlegt hve miklu púðri var eytt í dillandi rassa í fegrunariðnaðinum og svo tók við óhemjumikið splatter. Ég vil ekki skemma fyrir hugsanlegum áhorfendum myndarinnar, en það var eins og kvikmyndin ætti að höfða til fjölmargra markhópa. Ég hélt að hálfu fyrir augun drjúgan hluta seinni partinn og ég er aðeins of mikill raunsæispési til að hafa gaman af svona öfgafullu bíói. Í fyrri hlutanum var mjög mikil og frábær gróteska, þegar aðalkallinn í sjóinu borðaði með ýktum smjatthljóðum og þegar við gátum talið nefhárin í nefinu á honum, þar þótti mér vel farið með brellurnar.
Ég held ekki að ég muni hugsa oft til myndarinnar í framtíðinni. Demi Moore var reyndar alveg stórkostleg í sínu hlutverki og ég sé alls ekki eftir að hafa farið í bíó en veit að ég hefði ekki horft óslitið í 140 mínútur í sófanum.
Og ég reynist þá bara slarkfær í ensku, myndin var nefnilega ekki með íslenskum texta sem ég les alltaf þegar hann er í boði en ég tel mig hafa skilið myndina án hans. Spyr samt: Má það? Er ekki málstefna sem segir að allt erlent efni eigi að vera þýtt?
Nei, í fjölmiðlalögum stendur:
29. gr. Tal og texti á íslensku.
Fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. Fjölmiðlar sem miðla hljóði og texta á íslensku skulu í því skyni marka sér málstefnu. Þó skal heimilt að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku.
Hljóð- og myndefni á erlendu máli, hvort heldur sem því er miðlað í línulegri dagskrá eða eftir pöntun, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal fjölmiðlaveita, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa.
Ákvæði 2. mgr. á ekki við um endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Ákvæði 2. mgr. á ekki heldur við þegar viðkomandi hljóð- eða myndmiðill er starfræktur á öðru tungumáli en íslensku, sbr. 1. mgr.
Bíó Paradís er ekki fjölmiðlaveita og engin skylduáskrift er að bíói.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. október 2024
8. október
Í dag eru slétt 23 ár síðan ég byrjaði í vinnu sem ég sinnti síðan í 19 ár. Vinnan hentaði mér svakalega vel, vinnutíminn og allt umhverfið. Launin voru orðin ágæt þegar ég ákvað að hætta. Aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að láta af þessu frábæra starfi (ekki kaldhæðni) er eitt eitrað epli. Ein samstarfskona skemmdi vinnumóralinn að mínu mati með leti og neikvæðni. Yfirmenn litu undan, þótti mér, þjakaðir af meðvirkni - þótti mér - og að endingu ákvað ég að láta gott heita.
Ég skráði mig í nám, enda langar mig helst alltaf að vera í skóla, og í lok vetrar hreppti ég annað draumastarf á stað þar sem ég er núna búin að vera í rúm þrjú ár. Ég gæti ekki verið glaðari með að hafa látið slag standa, stokkið út úr þægindarammanum og tekið minni háttar áhættu.
Fyrir utan hvað ég er í skemmtilegu starfi er ég með sveigjanlegan vinnutíma og get unnið heima þegar svo háttar til. Nægur tími til að einbeita sér og nægur tími (og svigrúm) til að blanda geði við fólk sem er í sömu hugleiðingum og ég.
Launin eru til muna lægri en ég hef efni á því. Lúxusdýr sem ég er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)