Færsluflokkur: Dægurmál

Fánadagurinn

Vigdís Finnbogadóttir á afmæli í dag og þar af leiðandi var 15. apríl fánadagurinn á árabilinu 1980-1996. Frambjóðendur sem leiða kosningabaráttuna sem ekki er hafin eiga afmæli 2. janúar, 25. janúar, 1. febrúar og 12. mars. Ég á afmæli í október - eins gott að ég blandaði mér ekki í baráttuna.


Launamunur í læknastétt

Það er ekkert lát á undrunarefnum í henni veröld. Nú kemur á daginn að kvenkyns læknar raðast sjálfkrafa neðar en karlkyns læknar hjá Landspítalanum. Hvernig getur þetta gerst? Sem betur fer eykst hröðum skrefum meðvitund þeirra sem eru órétti beitt.

Ég hef örugglega rifjað þetta hér upp áður en ég geri það samt aftur. Sumarið 1984 var ég sumarstarfsmaður hjá Nóa-Síríus. Vinnan var skemmtileg og samstarfsfólkið líka, ljúfur yfirmaður og vinnutíminn bara ágætur. En þegar ég fékk útborgað sá ég að ég fékk borgað eftir unglingataxta sem var ekki til, fékk sem sagt lægra borgað en var leyfilegt. Ég veit ekkert hvað strákarnir fengu. Að auki tók ég tvo sumarfrísdaga um sumarið og þeir voru bæði dregnir af laununum og orlofinu sem ég hefði annars safnað upp. Ég leitaði til stéttarfélagsins sem stóð með mér og ég fékk leiðréttingu með hjálp þess fyrir mig og þrjár aðrar stelpur sem voru líka sumarstarfsmenn um tvítugt.

Já, ég fékk 918 kr. ávísun - en mér bauðst ekki jóla-, páska- eða sumarvinna þarna framar. Það kostar að standa í afturlappirnar. Mér sveið það þá en mig hefur samt aldrei skort verkefni.  


Forsetakosningarnar

Korteri áður en Jón Gnarr bauð sig fram spáði ég því að hann myndi bjóða sig fram. Ég kýs því að líta svo á að í mér búi ponsulítil spákona, en bara agnarsmá. Ég spáði honum þá 23% atkvæða og ætla ekki að bakka með þá spá að svo stöddu.

Nú eru línur aðeins farnar að skýrast og stjórnmálafræðingur „segir líklegast að Katrín Jakobsdóttir, Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr muni heyja baráttuna um Bessastaði“. Ég vil núna bæta Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra við púllíuna og held að þau verði stoðirnar fjórar, ekki endilega þannnig að atkvæði muni skiptast nokkurn veginn jafnt á milli þeirra en hvert þeirra um sig gæti komið á óvart.

Og ég spái því að forseti verði kosinn með 25% atkvæða. Nú er ég orðin mjög spennt fyrir að fá kosningabaráttuna í maí og sjá svo úrslitin eftir kjördag, 1. júní nk.

 


Auður Haralds 1947-2024

Ég er mjög roggin af að hafa sjálf uppgötvað Auði Haralds á sínum tíma og skrifað BA-ritgerðina mína um Hvunndagshetjuna, að vísu dálítið löngu eftir að hún kom út. Auður bjó þá á Ítalíu og ég sendi henni bréf þangað og fékk annað til baka, átta vélritaðar A4-blaðsíður að lengd ef ég man rétt. Ég hendi ógjarnan pappír þannig að ég hlýt að eiga það einhvers staðar.

En nú er hún öll og ég var loksins að hlusta á drellifínan þátt um hana í spilara RÚV. Hún átti merkilegt lífshlaup og stórkostlegan rithöfundarferil.


Sjálftaka Arion banka

Það hvarflar ekki að mér að Arion banki sé eini spillti og sjálfhverfi sjálftökubankinn en hann er bankinn sem ég lenti hjá. Ég var alltaf í Búnaðarbankanum en flutti mig yfir til sparisjóðs fyrir 20 árum. Viðskiptin fluttust svo aftur í Arion banka án míns vilja en nú er nóg komið. Ekki aðeins það sem ég skrifaði um páskana, heldur fékk ég 

a) ekki svar við póstinum mínum

b) ekki lækkun á útskriftargjaldinu

c) ekki einu sinni helvítis skuldfærsluna sem mér var þó sérstaklega boðin í fyrri pósti.

Nei, ég fékk hnipp í appinu um að ég væri að gleyma mér! Ég er náttúrlega búin að borga skrambans reikninginn og senda annan póst með boðaðri uppsögn. Nú er ég spennt að vita hvort bankinn hefur fyrir því að taka við uppsögninni eða hvort hann mun halda áfram að rukka mig um árgjald og útskriftargjald eftir að ég hætti alveg að nota kortið.

HFF


Arion banki

Dæs. Þetta er leiðinlegt umfjöllunarefni, en bankarnir líta greinilega ekki svo á að þeir séu í þjónustuhlutverki gagnvart kúnnanum sem borgar reikningana. Ég er með VISA-kort og hef í mörg ár borgað 340 kr. í útskriftargjald í hverjum mánuði. Ég hef aldrei vitað fyrir hvað og sendi á endanum fyrirspurn til bankans og bað um útskýringar. Þá var mér sagt að ef ég veldi beingreiðslu, þ.e. að reikningurinn væri greiddur sjálfkrafa út af reikningi, væri hægt að lækka þetta gjald, mig minnir um 200 kr. á mánuði. Ef við hugsum okkur að ég hafi verið með kort í 30 ár, þá 360 mánuði, er munurinn einn og sér 72.000 kr. Og ég kannast ekki við neina þjónustu fyrir þennan pening. Ég borga árgjald og það er jafn hátt hvort sem verið er að útbúa nýtt kort eða ekki. Ef ég skyldi ekki borga á réttum tíma (sem gerist aldrei) væri ekki hikað við að rukka fulla dráttarvexti. Bankinn er alveg tryggður.

Fyrir mánuði fékk ég þau svör að búið væri að setja reikninginn í beingreiðslu en viti menn, ég fæ enn 340 kr. rukkun sem verður þeim mun hlálegri þegar upphæðin sem að öðru leyti er skuldfærð á reikninginn er langt undir 10.000 kr. Auðvitað endar það með því að ég hætti þessum viðskiptum eins og þau leggja sig og ég vildi óska þess að fleiri gerðu það vegna þess að bankinn á að þjóna okkur. 

Ég er búin að skrifa bankanum tölvupóst og tímastilla hann í fyrramálið þannig að hann týnist vonandi ekki í reiðipóstunum sem bankanum hljóta að berast í tugavís alla daga, líka um páska sem ber upp á um mánaðamót.


Gunnar Þórðarson

Guð minn góður, hvað þættirnir um Gunnar Þórðarson eru frábærir. Þeir voru sýndir á RÚV í gærkvöldi og fyrrakvöld. Ágúst Guðmundsson og Jón Þór Hannesson eru skrifaðir fyrir þeim og á einhverri spjallsíðu las ég að Ágúst hefði tekið viðtölin. Þótt ég hefði vel þegið að sjá Ágústi bregða fyrir er ég samt svo þakklát þegar stjórnandi og spyrill heldur sig til hlés.

Og þá að efni máls. Gunnar Þórðarson verður áttræður í byrjun næsta árs og þá verður örugglega eitthvert húllumhæ þannig að það er frábært að vera aðeins á undan skriðunni. Ég get ekki bætt neinu við afrekaskrána hans eða það sem viðmælendur sögðu um hann. Ég er sjálf mjög gefin fyrir talað mál og lítið fyrir að velja mér tónlist. Ég veit þó sannarlega að lífið væri litlausara án tónlistar og þekki auðvitað öll helstu lög Gunna en ekki öll þau 500 sem hann hefur samið. Það sem viðmælendur sögðu og hrósuðu Gunna fyrir var svo dásamlega efnisríkt og laust við mærð að ég varð raunverulega miklu nær um tónlist og manneskju.

Hattinn ofan fyrir þessu páskasjónvarpi.

 


Á ferð með mömmu - bíómynd

Ég er ódugleg að fara í bíó og sá Á ferð með mömmu ekki í bíó. Ég ætlaði að horfa á hana í flugi með Icelandair í ágúst í fyrra en þá var sjónvarpið bilað þannig að ég sá ekki myndina fyrr en á RÚV í kvöld.

Hún er stórkostleg og það var bara ágætt að ég skyldi sjá hana í rólegheitum í sófanum mínum. Hún er hæfilega súrrealísk og ég gengst alveg inn á það að líkið tali og að sonurinn, Jón Arnfirðingur, sé algjörlega skilningslaus durtur annað slagið en bæði málgefinn og flinkur að veita tilsögn hitt slagið. En samtölin, maður minn, og leikurinn, aðallega auðvitað hjá Þresti Leó Gunnarssyni og Kristbjörgu Kjeld - þetta var klárlega með því besta sem ég hef séð í bíó. Handritið sjálft sannfærandi og með gott flæði og tilsvörin svo vel flutt og leikin, alltaf eins og þau væru bara í þessum kringumstæðum.

Vendipunkturinn var óvæntur og það var reyndar annar massífur kostur, þ.e. hvað framvindan var óvænt.

Mæli svo mikið með myndinni.


Sveinsbakarí í Skipholti

Brauðmeti í bakaríum er dýrara en brauðmeti í stórmörkuðum. Ég hef af og til fengið stórgott brauð í Nettó á frekar góðu verði en ég geri mér grein fyrir að sérverslanir þurfa að verðleggja sig hærra.

Í morgun fór ég í Sveinsbakarí, sem er hvað næst því að vera hverfisbakaríið mitt, af því að ég hef stundum fengið þar normalbrauð sem mig langar stundum alveg óskaplega mikið í.

Normalbrauð var ekki til í morgun og sú sem var þarna að afgreiða sagði að það fengist aldrei. Hvorki brauð né sætabrauð var verðmerkt og engar lýsingar fylgdu heldur. Klukkan var ekki orðin margt þannig að ég lét kyrrt liggja. Verra var að sú sem afgreiddi mig var önug og var í símanum á meðan. Mér fannst ég vera að ónáða hana.

Ég hef ekki verið fastagestur í Sveinsbakaríi en nú er líka alveg ljóst að það verður löng bið á að ég fari þangað aftur að biðja um normalbrauð eða til vara annað þétt brauð vegna þess að páskabrauðið sem ég bar með mér heim var næstum óætt.

Einhverjum kynni að finnast eðlilegra að ég léti Sveinsbakarí vita en ekki bloggsíðuna mína en ég fékk nett á tilfinninguna að konan ætti bakaríið sjálf þannig að líklega er henni sama.


Svörtusandar

Ég kom fljúgandi heim frá Orlando í morgun. Áður en ég fór úr vélinni í Orlando fyrir rúmri viku var ég búin að ákveða að horfa á Svörtusanda á leiðinni heim. Ég hefði sjálfsagt sofnað ef ég hefði lokað augunum en ég ákvað að hámhorfa á þessa þáttaröð sem ég held að ég gæti ekki séð annars staðar. Og þeim tíma var ágætlega varið þótt lopinn væri teygður dálítið vel á köflum. Ég sá fyrsta þáttinn þegar ég flaug út og var spennt að sjá fleira meinafræðilegt sem ég heyrði meinafræðing segja í fyrra að væri bara nokkuð sannfærandi.

Nema bara hvað, endirinn kom alveg smávegis á óvart (nei, ég kjafta engu) en sérstaklega var ég ánægð með að hann byrjaði í þriðja síðasta þætti. Mér finnst leiðinlegra þegar allar þræðir rakna í sundur á síðasta korterinu.

Nema bara hvað, leikararnir stóðu sig að mínu mati vel þótt Aníta (Aldís Amah Hamilton) væri fullvanstillt fyrir minn smekk. Ævar Þór Benediktsson (Gústi) kom stórkostlega á óvart, ég vissi ekki að hann léki hlutverk, heldur bara vísindamann. Þór Tulinius (Raggi) þótti mér stjarnan, ég trúði öllu alltaf sem hann sagði. Burt séð frá því öllu samt sýna meðfylgjandi myndir setningar sem ég hef lengi haft dálæti á (eða ekki), nefnilega hugmyndinni um hina góða konu.

Góð kona

Góða konan

Nema bara hvað, sá sem segir að kona sé góð, eða hafi verið þegar hún er látin, getur ekki hrósað konunni fyrir neitt annað en að vera góð sem er meinlausasta, hlutlausasta, leiðinlegasta og e.t.v. rangasta hrósið sem hægt er að gefa manni. Grínið hjá mér hefur sum sé löngum verið að á mínum legsteini eigi að standa: Berglind var ekki góð kona, þá í þeirri von að ég geti kallast gáfuð, skemmtileg, frumleg eða vinsæl. Ekki að ég sé að leggja ykkur línurnar ...

Nema bara hvað, ég sá síðustu 10 mínúturnar á síðasta korteri flugsins og var orðin hrædd um að ég næði ekki að horfa til enda. En ég náði því!

Góðar stundir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband