Hreinsun náði mér á endanum

Í kringum Norðurlandaráðsþingið hér í nóvember var heilmikil umræða um Sofi Oksanen. Auðvitað þurfti ekki heilt þing til en hún fékk verðlaun þess ráðs fyrir bók sína, Hreinsun.

Ég eignaðist bókina þá strax og heyrði heilmikið um hana, fannst hún of þykk til að voga mér að lesa hana með öðrum lestrarönnum og byrjaði á henni á jólunum. Eftir fyrstu 30 blaðsíðurnar leiddist mér óhemju, eftir 80 blaðsíður var ég alveg að gefast upp. En þá kom nýtt tímabil, ekki lengur Vestur-Eistland 1992 heldur fyrirstríðsárin og síðan var heilmikið flakkað í tíma. Fólk skýrðist, athafnir þess skildust, dagbókarfærslur bóndans smátt og smátt - og þess hryllilega raunalega og vel skrifaða saga vatt upp á sig sem bandhnykill væri.

Ég man ekki eftir að hafa kúvenst svona í skoðun á bók en þegar ég var búin með hana í vikunni byrjaði ég strax á henni aftur. Nú skil ég flugurnar og Aliide, Zöru og flóttann.

Það breytir því ekki að mér finnst hún dálítið stirðbusaleg í gang, um það hef ég sannfærst þegar ég les byrjunina aftur. Mér fannst það að nota orðið vöndul fyrir fullvaxna manneskju truflandi og finnst það enn. Mér finnst enn einstaka vondar málsgreinar en er nú opin fyrir fallegum líka:

Loks tókst henni að reisa sig upp og standa í fæturna en leit enn ekki framan í Aliide heldur þreifaði á hári sínu og strauk það yfir andlitið þó að það væri blautt og klístrað, breiddi hárið fyrir andlitið eins og druslulegar gardínur á eyðibýli þar sem ekki er lengur neitt líf sem þarf að draga fyrir (bls. 16).


Um handbolta (og Eistland)

Ég held að ég hafi meðtekið það rétt að RÚV sýni ekki frá handboltakeppninni í ár, heldur geri Stöð 2 það. Útvarpsstjóri allra landsmanna gerði víst útvarpsstjóra sumra landsmanna tilboð í síðustu viku sem sá síðarnefndi gat ekki annað en hafnað. Hins vegar sýnir útvarpsstjóri allra öllum þátt UM handbolta þar sem menn TALA um íþróttina. Með ívafi af snögggirtum köppum.

Og mér finnst þetta fyndið. Það minnir mig nefnilega á mann sem hefur svo lengi horft á knattspyrnu en aldrei sparkað í bolta. Að minnsta kosti ekki að mér ásjáandi.

Og ég sé að íþróttamenn eldast eins og við hin.

Stórskemmtilegt. Og þá er best að klára Hreinsun. Ég á enn eftir 40 hraustlegar blaðsíður. Ég var búin að skrifa góðar blaðsíður en á síðustu 40 var sagt frá svo viðbjóðslegu lífi að ég geri ekki ráð fyrir að gleðjast mikið við lesturinn. Nú er þó svo komið að ég þori að mæla með að menn kynni sér þetta eymdarlíf sem lýst er í bókinni (eftir fyrstu 40 síðurnar var ég að hugsa um að láta gott heita vegna leiðinda).


Fasteignagjöld 2011

Fasteignamat flestra eigna sem hækkaði skart á þenslutímanum lækkar núna. Skv. síðu Reykjavíkurborgar lækkar álagningin núna líka - sem kemur frekar flatt upp á mig. Ég hélt að sveitarfélög myndu nota tækifærið til að hækka hlutfallið og fá svipaða krónutölu. Ef eitthvað er að marka þetta lækka fasteignagjöld á 30 milljóna kr. eign úr 120.000 kr. í 67.500. Er það sennilegt?

Eða er meiningin að fá mismuninn inn á sorphirðugjaldinu? Er það e.t.v. lóðarleigan? Þarf maður kannski að hringja í Ráðhúsið eða bíða til þeirra mánaðamóta þegar fyrsti greiðsluseðillinn dettur inn til að fá skýrt svar?

Alveg er ég viss um að landfræðingur sem ég þekki veit svarið við þessu.


Hraðnámskeið í Shakespeare

Ég var að lesa leikdóma Jóns Viðars um Shakespeare-jólasýningar stofnanaleikhúsanna, bæði um Lé konung og Ofviðrið (Þegar Shakespeare sofnaði, ekki kominn á vefinn). Það hefur verið ósköp tilviljanakennt hvað ég hef séð og heyrt til Shakespeares og þess vegna er kærkomið að fá hann settan hér upp. Ég sá Ofviðrið, reyndar lokaæfingu og reyndar á 1. bekk, en var hálfmiður mín yfir því að vera ekki heilluð. Leikritið er auglýst sem húmorískt lokastykki meistarans og svo var það aðallega bara pínulítið fyndið og ekki vel skiljanlegt.

Jón Viðar fær heila síðu í DV fyrir dómana sína og hann notar þær vel. Hann fer í gegnum verkið, setur í samhengi við önnur verk og aðrar uppsetningar, varpar sögulegu ljósi á það og útskýrir síðan á góðu mannamáli hvað honum finnst gott og hvað slæmt. En þótt honum finnist rigning Lés ekki góð þýðir það ekki að aðrir eigi ekki að fara og sjá sýninguna og upplifa sjálfir. Ég hugsa að ég fari, bara betur undirbúin en ella. 


Fíllinn vari sig á gráa litnum

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég er sammála Pawel sem er einhver eindregnasti opinberi talsmaður gangandi og hjólandi í umferðinni. Kannski að viðbættum Gísla. Pawel gagnrýnir það að fólk á fæti eigi að bera alla ábyrgð á því að bílarnir sjái það og varist að keyra það niður. Á sama tíma er bílunum gert auðveldara að aka hraðar og af meiri óvarkárni. Þegar ég hjólaði um daginn inn í Kringlu sá ég Pawel með barnavagn á gangi þannig að ég þykist vita að þessi gagnrýni sé ekki í nösunum á honum. Þetta er lífsstíll, sá sami og ég aðhyllist.

Alltof víða er líka of stuttur tími til að komast gangandi yfir á grænu ljósi og alltof víða eru fláar af gangstéttum niður á göturnar of miklir stallar en ekki aflíðandi, eins og til að hægja á hægfara hjólreiðamönnum (mér). Og núna um áramótin fannst Strætó bs. líka tilhlýðilegt - til að spara - að hækka gjöldin (svo að fólk kaupi sér frekar bíla) og fækka ferðum (svo að fólk hætti alfarið að nenna að lesa leiðatöflurnar).

Einmitt núna þyrftum við að nýta meðbyrinn til að hvetja fólk til sjálfbærra samgangna.


Lesarinn á ensku

Helsti ljóðurinn á frábærri sunnudagsmyndinni var að hún skyldi ekki vera á þýsku. Ég las Lesarann þegar hún kom út á íslensku 1998 í Syrtlu-útgáfunni og fannst frábær, stutt saga og áhrifamikil. Ég fylgist ekki nógu vel í kvikmyndaheiminum og vissi ekki að hún hefði verið kvikmynduð.

Kate Winslet var aldeilis stórfenglega góð, stráksi líka. En þegar ég hugsa betur um það finnst mér enn meiri synd að hún skuli ekki hafa verið leikin á þýsku - ég veit, þá hefðu hvorki Kate né Ralph verið með - heldur einhverjir góðir þýskir leikarar kannski. Myndin var að öllu leyti þýsk en textinn enskur.

Ég hitti vinkonu mína frá Austur-Þýskalandi á götu í gær og hún sagði mér að í hennar umgangshópi hefðu verið ákveðnir fordómar gegn því að lögfræðiprófessorinn Bernhard Schlink skrifaði bók og þess vegna hefði hún ekki verið lesin í þeim umgangshópi. Ég kannast alveg við svona, en skelfing hafa þau misst af miklu.

Það er vendipunktur í myndinni/bókinni sem ég vil ekki tala um ef einhver sem ég þekki skyldi eiga eftir að sjá myndina eða lesa bókina. Það er þess virði.


,,Það er eitthvað svo rangt við þetta"

Á það ber að líta að ég hef oft verið ánægð með áramótaskaupið. Í fyrra var ég miklu meira en ánægð og nú er ég búin að horfa tvisvar á skaupið 2010 (þökk sé Láru Hönnu sem setti það inn á Facebook) og er ógurlega ánægð. Höfundar láta ýmsa finna fyrir því en eru samt fyndnir.

Ég sé þó að þeir sem ekki eru netvæddir missa af ýmsum bröndurum, eins og þeim gegnumgangandi úr landkynningarátakinu Inspired by Iceland sem kom mér ósjaldan til að hlæja í gær.

Ég er ánægð með að hafa marga leikara sem eru valdir eftir hlutverkunum frekar en að hlutverkin séu samin handa þeim, t.d. sá ég ekki betur en að Hjalti Rögnvaldsson léki Árna Johnsen í Sandeyjahöfn og aðeins það hlutverk. Víkingur Kristjánsson er frábær leikari í sketsunum og Þorsteinn Bachmann kom líka sterkur til leiks. Ágústa Eva er mér líka að skapi og var sérlega glæsilegur lokapunktur. Það var einn leikari sem mér fannst sérlega yfirdrifinn í einu hlutverki, kann ekki við að nefna nafnið enda er bara um smekk að ræða. Svo var hann ágætur í öðrum. Kreditlistinn í lokin var þó greinilega ekki til aflestrar hvað sem veldur, svo hratt rann hann yfir og með svo smáu letri.

Skrúðkrimmarnir eru ekki sloppnir. Endurskoðendur og skilanefndir hafa bæst í hópinn.

Vonglatt nýtt ár!


Flugeldasala til styrktar yngri flokkunum?

Ég get ekki skilið að fólk kaupi vitandi vits flugelda með 300% álagningu (ef flugeldasala björgunarsveitanna í fjóra daga tryggir starfið allt árið hlýtur álagningin að vera drjúg sem mér finnst í lagi enda fjáröflun í leiðinni) af seljendum sem bera enga samfélagslega ábyrgð. Nema ef það er pabbi manns, þá get ég skilið að maður freistist.

Björgunarsveitir fara ekki bara á jökla og bjarga fólki úr sprungum ef einhver skyldi hugsa að þetta kæmi sér ekki við - nei, þær koma líka á vettvang þegar þök rifna af húsum í mannabyggðum. Við getum öll orðið þiggjendur.

Og það þarf ekki að kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitirnar. Peningur er peningur þótt hann sé einfaldlega gefinn. Og ábyggilega er hægt að fá uppgefið bankanúmer Björgunarfélags Akraness ef maður vill sýna í verki að manni finnist maður eins og Þórður Guðnason skipta máli.

Hjá Landsbjörgu er hægt að velja milli fleiri slysavarnadeilda og björgunarsveita en ég treysti mér til að telja.


Hann Prosperó

Ég er ekki nógu verseruð í Shakespeare til að bera saman en get sagt að ég hélt að mér yrði meira skemmt á Ofviðrinu. Ég sá lokaæfingu þannig að sýningin á eitthvað eftir að þéttast. Ég get ekkert að ráði sett út á leikarana, skil bara ekki almennilega hvað Jörundur er eintóna (af því að ég kann ekki að meta þennan eina tón). Hilmir kom mér á óvart, ég þekkti hann ekki einu sinni og fyrir það fær hann feitan plús (eða ég feitan mínus). Mér fannst Prosperó sjálfur ekki nógu mikið í leiknum en það er leikritið sjálft, ekki uppsetningin í Borgarleikhúsinu.

Danssýningarhlutinn var fallegur, sjónarhornið samt heldur verra af 1. bekk þar sem ég horfði næstum undir leikinn (og dansinn), og ég held að mat mitt fyrir mig verði að sýningin er prýðileg fyrir augað. Stundum fannst mér samt eintölin keppa fullmikið við myndmálið, kannski best að einbeita sér að því að horfa bara ...

Ofvidrid_450x236

Framboð og eftirspurn á hátíðum

Ég skrönglaðist í sund eftir hádegi (enda ekki opnað fyrr) og hélt að ég ætti svæðið í lægðinni. Því var aldeilis ekki að heilsa, það var maður við mann á brautunum, í barnalauginni og í pottunum, og á bílastæðinu sýndist mér líka bíll við bíl. Mikið kynni ég að meta lengri afgreiðslutíma um jólin og að fleiri laugar væru opnar. Ekki að ég sé neitt að heimta en eftirspurninni er greinilega til að dreifa. Ég staldraði skemur og synti styttra en ég ætlaði mér.

Samt alveg gleðileg jól.


Þýðandi Tívolí ehf. (BÍÞ)?

Ótrúlega jólalega innrættri heimildamynd um bandarískan kór lauk á RÚV rétt í þessu. Ég hlustaði aðallega meðan ég undirbjó jólin en sá einmitt hver þýddi (fylgdist ekki með þýðingunni samt) og sýndist standa: Þýðandi Tívolí ehf. (BÍÞ).

Hvað í greflinum á það að fyrirstilla ef satt er? Þýðingin hlýtur að vera unnin af manneskju (BÍÞ þá) en ekki fyrirtæki eða vél. Fyrirvarð þýðandinn sig fyrir verkið eða vill fyrirtækið ekki leyfa honum að fá heiðurinn?

Tek ekki dýpra í árinni svona rétt fyrir jól.


Fjáröflun dómstólanna?

Hvert fara tryggingagreiðslurnar? Ef stuðningsmenn Julians hefðu ekki aflað tryggingafjárins hefði hann setið inni eitthvað áfram. Hve lengi? Var hann yfirleitt ákærður? Og hvernig geta tryggingagreiðslur tryggt eitthvert réttlæti? Ef einhver getur riggað upp peningnum, er hann þá minna sekur? Ef sekur yfirleitt sem er auðvitað stóra spurningin í ásakanamálum. Tryggja 40 eða 400 milljónir króna sakleysi?

Ég hef bara ekki áttað mig á því fyrr hvað þetta er órökrétt.


Ökuskattur

Mér er til efs að ég geti orðið sammála hugmyndum um að rukka fólk sérstaklega fyrir að keyra Hellisheiðina eða í uppsveitum Mosfellsbæjar. Í sjálfu sér finnst mér eðlilegt að við greiðum fyrir það sem við notum, og þá hvað sem er, en í fyrsta lagi held ég að innheimtan sjálf gæti kostað, í öðru lagi þarf að bjóða upp á skýran valkost, t.d. öflugar almenningssamgöngur, og í þriðja lagi búum við þrátt fyrir allt í samfélagi manna en ekki forsniðnum kassa með engum leyfðum frávikum.

Ef ég réði öllu mundi ég ekki hika við að taka einokunarvaldið af bensínsölunum og þannig tækist mér strax að þrýsta niður eldsneytisverði til allra. Úr því að við búum við bensínsölueinokun hvort eð er má allt eins hafa eitt ríkisverð og sleppa allri yfirbyggingu og meintri samkeppni. Þá gæti ég lækkað verðið umtalsvert en samt haft afgang til að byggja vegi fyrir. Hins vegar trúi ég því líka að tvöföldun vegarins yfir Hellisheiði mundi auka hraðann og þá á kostnað umferðaröryggis sem fólk þykist bera fyrir brjósti. Þess vegna veldi ég 2+1. Og svo þarf að bjóða upp á strætó út og suður og helst líka jarðlestir. Og ekki rukka 350 krónur fyrir eina ferð allra undir 70 ára aldri.

Og ef við ætluðum að gæta jafnræðis í ökusköttum vegna samgöngumannvirkja, tjah, hvað þyrfti ég þá að rukka marga 7-kalla hjá þeim sem rúlla gegnum Héðinsfjarðargöngin?

Það verður aldrei hægt að rukka upp á aur fyrir það sem fólk fær. 100% jafnræði er ekki til, annars værum við öll jafn falleg og vel innrætt.

Annars er svolítið merkilegt að fréttir af meintum fyrirhuguðum veggjöldum eru ekki fluttar í hlutlausum stíl. Ég leitaði á vefnum hjá RÚV og fann tvær nýlegar, önnur var fyrst og fremst tilvísun í íbúa á Selfossi sem keyrir daglega til höfuðborgarinnar og hin í stjórnmálamann í Árborg sem mislíkar tvískattlagning. Allt í lagi með þau sjónarmið en eru engar almennar fréttir af meintum fyrirætlununum? Kannski er leitarorðið hjá mér ekki nógu öflugt.

Til að öllu sé haldið til haga á ég ekki bíl en slíka græju á hins vegar margt gott fólk í kringum mig.


Árviss jólalesning af Háaleitisbrautinni

Nú ber nýrra við. Í jólabók ársins 2010 leggur SUS til að framlög til stjórnmálaflokka verði skert um 100%. Það var ekki í fyrra, ég gáði að því þá.

 

Framlög til stjórnmálaflokka

304,2

-100%

-304,2

Ég las tillögurnar ekki frá orði til orðs (obbann samt) en leitaði að atvinnuleysistryggingasjóði eða vinnumálastofnun og fann ekkert. Þau vilja leggja niður fjölda starfa eða flytja til einkaaðila, s.s. söfn og rannsóknir, en gera ekki ráð fyrir að atvinnuleitendum fjölgi við það. Smáskekkja í bókhaldinu.

Ég er galopin fyrir öllum tillögum en ef allar þessar næðu fram að ganga byggjum við ekki í samfélagi. Samt vantar aukin framlög til lögreglunnar sem þyrfti að margfalda þegar frumsjálfsbjargarhvötin færi að gera vart við sig í frumskógi Reykjavíkur og nærsveita. Og einhvern veginn sýnist mér ekki hróflað við auðlindum sjávar sem þó gætu fært pöpulnum talsvert að bíta í.

En þau vilja taka stjórnmálaflokkana alfarið af fjárlögum og minnka framlög til ríkiskirkjunnar um ein 20%.

Ég bíð spennt eftir atvinnutillögunum sem boðaðar voru í jólabókinni 2009. Felast þær nokkuð bara í skattalækkunum?


Fyrsti kjánahrollurinn

Kannski þarf ég að éta ofan í mig alla bjartsýnina út af stjórnlagaþinginu. Kannski voru of margar prímadonnur valdar þarna inn. Kannski getur þetta fólk ekki unnið saman.

Mér finnst Neskirkja ekki rétti staðurinn fyrir óformlega spjallfundi tveimur mánuðum áður en stjórnlagaþingið hefst en mér finnst heldur ekki ástæða til að gera mál úr því. Ég held hvorki með Erni né Silju, er ekki á móti þeim heldur. Mér finnst hins vegar dapurlegt og til viðbótar kjánalegt ef fólk er byrjað að þræta núna.

Kannski þetta sé allt DV að kenna?

Og bara svo ég leggi púður í tunnuna: Hvað með þessi þrjú utan af landi? Komust þau á fundinn?


Fórnarkostnaður

Stundum þarf maður að vera vondur til að vera góður, segja t.d. nei við barn þótt það langi til að maður segi já. Þetta vita allir.

Maður getur þurft að klúðra bakstri og eldamennsku nokkrum sinnum áður en maður nær fullkomnun en eftir það sér maður ekki eftir nokkrum klúðurstundum, brunnum gráðaosti og mygluðum tómötum. Gott væri samt að eiga svín sem tekur við öllu á þeim stundum.

Stundum þarf líka að eyða peningum til að afla peninga. Það á t.d. við þegar fyrirtæki er stofnað, þá þarf maður að eiga startfé og leggja út í kostnað áður en tekjurnar skila sér.

Núna þurfti samninganefnd að sitja með Bretum og Hollendingum á löngum og ströngum fundum til að knýja fram niðurstöðu sem mér heyrist frá hægri og vinstri vera góð og jaðra við hamingjustund, tvær fyrir eina ... Ekkert var hún útlátalaus, trúi ég. En allra peninganna virði, heyrist mér af fréttum.

Duga ekki þessi rök líka á stjórnlagaþingið? Lýðræðið kostar. Kannski fáum við fullkomna stjórnarskrá sem allir verða lukkulegir með. Peningalegur fórnarkostnaður er varla skotsilfur í vösum helstu glæpamanna úr bönkunum. Má ekki senda reikninginn til Tortólu?


Þrjú stjórnlagaþing

Hafi Svavar Halldórsson farið rétt með í fréttum RÚV áðan (eðlislæg varkárni mín hefur hér orðið, sjálf trúi ég Svavari) stal PH í Fons ígildi þriggja stjórnlagaþinga (þá miða ég við efri fjárhæðina og sennilega fjögurra mánaða þing) á lánadegi. Með dyggri aðstoð trúrra vina sinna.

Peningar eru ekki verðmæti, þeir eru ávísun á verðmæti. Hvað stálu PH og vinir hans hins vegar mörgum heilbrigðisvöktum, mikilli heimahjúkrun, mörgum sérfræðilæknum, mörgum listamannalaunum, mikilli menntun, mörgum þyrluígildum, mörgum stöðugildum, miklu öryggi, mikilli vellíðan - MIKILLI HELVÍTIS HAGSÆLD?

Geta menn verið svo miklir glæpamenn að þeim standi á sama um orðspor sitt og viðmót almennings til barna sinna? Horfa þeir glaðir upp á vanlíðan fólks sem hefur misst vinnuna og á yfir höfði sér að missa ofan af sér? Hvar villtust venjulegir Íslendingar svona hrikalega af leið?

 


Hjólum meira

Sá þessa fínu mynd á síðu pólitíkuss sem ég held að meini það þegar hann hvetur fólk til að hjóla (og ganga með hundinn sinn).

List og hönnun selur

Og Viðskiptablaðið hafði þegar í síðustu viku orð á því.

Sjálf hef ég oft spekúlerað í þessu, t.d. í vor, en aldrei séð upphæðina í spákúlunni minni. Markaðurinn hefur talað.

 


Af hverju er þekkta fólkið þekkt?

Þar sem ég er ekki fullkomin get ég ekki gert kröfu um að aðrir séu það heldur. Mér finnst eðlilegt að gera kröfu um að fólk geri sitt besta og láti almenna hagsmuni ráða. Og læri af mistökum sínum, jafnvel annarra. Og ég geri 100% kröfu um að það sé ekki spillt og skari ekki eld að eigin köku. Svo vildi ég gjarnan að það notaði almenningssamgöngur og færri plastpoka en þar er ég e.t.v. komin á hálan og heimtufrekan ís.

Nú sé ég að fólk gagnrýnir valið á stjórnlagaþingið fyrir að þekkt fólk veljist á það. Höfum við ekki öll tækifæri til að verða þekkt í þessu örsamfélagi? Ég þekkti fyrir 22 af 25. Getur verið að það sé vegna þess að það fólk hefur tekið þátt í umræðunni hingað til? Verið virkari þátttakendur í samfélagsumræðunni en t.d. ég?

Af hverju er þekkta fólkið þekkt?

Og eru menn búnir að telja allt þekkta fólkið sem náði ekki kjöri?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband