Fimmtudagur, 21. október 2010
Rafræn atkvæðagreiðsla
Allt í einu man ég ekki rökin fyrir því að hafa atkvæðagreiðsluna 27. nóvember með blaði og blýanti. Ó, hafa kannski engin rök verið færð fram?
Tölvueign og internetþekking er einstaklega rífleg á Íslandi. Hér er því algjört kjörlendi til að kjósa rafrænt. Mér skilst m.a.s. að sums staðar í útlöndum kjósi menn í gegnum heimabankann sinn, þeir sem hann hafa. Hinir mega þá mæta á kjörstað á kjördegi og krossa fyrir mér.
Ódýrara að kjósa heima.
Fljótlegra að telja. Ódýrara þá líka.
Einu rökin gegn þessari dásemd eru að kosningavakan yrði í styttri kantinum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. október 2010
Barst með vindinum
Heyrði ég rétt þegar vindurinn andaði því framan í mig áðan að á fimmta hundrað umsækjendur slægjust nú um setu á stjórnlagaþingi?
Þá þarf aldeilis að vanda valið - og fyrst út af listanum mínum verða þau sem kaupa heilsíðuauglýsingar í blöðunum og nota 2ja milljóna króna svigrúmið. Hver geta viljað kosta öllum laununum til - öllum hugsanlegu laununum? Þau sem ekki leggja milljónirnar út sjálf. Það held ég. Þau sem ganga erinda hagsmunahópa sem vilja pöpulnum ekki það besta.
Og ég held ýmislegt fleira, s.s. að nú geri ýmis titringur vart við sig víða. 25-31 af 250-310 eru 10% þannig að lægra hlutfall en það fær náð fyrir augum kjósenda.
Ég er ekki frá því að ég finni titringinn alla leið upp á 3. hæð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. október 2010
Lost in Translation
Ég ætlaði ekki að horfa aftur á Rangtúlkun sem var í sjónvarpinu í gærkvöldi. Mér fannst hún leiðinleg á sínum tíma. Hins vegar sá ég nógu mikið til að sjá núna að hlutverki Bills Murrays (hins dýrselda sjónvarpsauglýsingaleikara) svipaði til hlutverks Johns Cleeses fyrir hið hallærislega Kápaling um áramótin 2006/2007. Árið 2004 áttaði ég mig ekki á gildi myndarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 14. október 2010
Litlar gular sítrónur og/eða saffran
Þótt ég geti ekki metið allar þýðingar allra bóka sem ég les (í þýðingu) reyni ég að gefa þeim gaum. Sérstaklega er ég oft forvitin um titlana því að ef þeir eru góðir geta þeir selt, a.m.k. vakið áhuga og þar með er stundum björninn unninn.
Ég kláraði Sítrónur og saffran í vikunni. Létt og sumarleg lesning, gaman að því. Ekkert að þýðingunni (þýðendum er ugglaust meinilla við orðalagið) en ég bar ekki saman við frumtextann - nema titilinn. Og ég get ekki skilið að Små citroner gula sé þýtt sem Sítrónur og saffran BARA Í TITLINUM. Veitingastaðurinn í bókinni fær þetta nafn, Små citroner gula, og í bókinni sjálfri er staðurinn látinn heita Litlar gular sítrónur.
Ég skil að vandinn felst í því að orðin þrjú eru tekin upp úr ljóði sem er tilgreint í bókinni en ég veðja á að ég hefði þýtt línuna í ljóðinu líka með saffraninu.
Jájá, ég veit, sjálf er ég að þýða bók núna sem einhverjir munu finna ýmislegt til foráttu. Ég vona bara að einhver [samnemandi í HÍ] rýni í mína þýðingu og sendi mér rýnina. Ég vil læra af mistökum mínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. október 2010
Fólk á milli tanna
Ég hallast nú að því að það þurfi miklu meira en sterk bein til að hætta sér í sviðsljósið, sbr. athugasemdir við frétt af verslunarmanni, hér um þingmann og svo t.d. um fréttamann. Ég hef séð ljótara, rætnara, ómálefnalegra - kannski satt en samt dónalega framsett. Lágmark væri að fólk skrifaði undir nafni og rökstyddi dómana, þá væri sleggjan ekki eins hróplega mikið aðalatriði.
Þess vegna held ég að framboðið til stjórnlagaþings verði sorglega fábrotið. Fresturinn rennur út á hádegi mánudaginn 18. október, menn þurfa að safna 30 meðmælendum (sem er reyndar mjög hóflegur fjöldi), semja lýsingu á sjálfum sér og kynna stefnumál sín.
Og ef fólk fær fyrst og fremst skít framan í sig fyrir að svara einhverju kalli eftir því að horfa og stíga út fyrir rammann fáum við ekki að velja hæfasta fólkið. Af þeim frambjóðendum sem ég veit um er bara einn sem ég er líkleg til að kjósa. Að vísu eru misvísandi upplýsingar um mannvalið því að þær koma víst ekki frá aðstandendum stjórnlagaþingsins heldur frambjóðendum sjálfum eða áhangendum þeirra.
Ég vil sjá áherslu á að landið verði eitt kjördæmi, aðskilnað ríkis og kirkju, tryggar náttúruauðlindir og endurskoðað hlutverk forsetans. Ég vil ekki endilega að frambjóðendur séu með geirnegldar hugmyndir um allt, óska þess þvert á móti heitt að þeir séu með opinn glugga en vilji tryggja hag landsmanna og gangi ekki erinda annarra hagsmunaafla en pöpulsins. Svo verður stjórnarskráin auðvitað að vera skrifuð á skiljanlegu máli en ekki upphöfnu stjórnsýslumálskrúði.
Góði guð (hver?), ekki láta stjórnlagaþingið floppa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 10. október 2010
Hakkið í Melabúðinni
Ég er að velta fyrir mér hvort ég sé með Stokkhólmseinkenni varðandi mat. Ég keypti hakk í Melabúðinni í síðustu viku og fannst það ekkert spes. Mér finnst fólk samt keppast um að hrósa kjötborðinu, og ekki bara í Melabúðinni heldur í litlu búðunum almennt.
Ég hef gert mig seka um að kaupa sennilega unnara hakk í öðrum búðum og kannski er þetta svona eins og þegar maður fékk lasagna eða pítsu á Ítalíu, það var ekki rétt af því að maður hafði vanist matnum öðruvísi heima.
Ég mun auðvitað slá oftar til því að ég matreiddi það líka öðruvísi - og svo er það afgreitt beint í lítinn poka en ekki í einhvern andsk. frauðbakka sem ég legg mikla fæð á. Grrrr... Skrýtið að allt málgefna fólkið í kringum mig hafi aldrei haft orð á þessum mikla kosti Melabúðarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 9. október 2010
Listamenn eru ekki einsleitur hópur
Ég fór í 100 manna hópi í Hafnarborg í gær þar sem sýningin Að elta fólk og drekka mjólk hangir uppi. Ég hafði gaman af henni, ég er reyndar gamall aðdáandi húmorsins hjá SÚM og Sigurður Guðmundsson á mig með húð og hári síðan ég fletti bók um hann sumarið 2001 (hún var svona löng). Ég man eftir húsi sem hann smíðaði á röngunni, gluggatjöldin blöktu utan á og málverk héngu á útveggjunum. Þetta var lítið hús. Myndin líka. Eða var þetta kannski Hreinn Friðfinnsson? Upplifunin var einlæg hvaða SÚM-ari sem átti í hlut.
Í Hafnarborg er ljósmynd af Sigurði sjálfum að skrifa í minnisbók sitjandi við borð og hesti sem hnusar af borðinu. Ég get ekkert útskýrt af hverju mér finnst þetta skemmtilegt. Svo er t.d. verk eftir Erling Klingenberg sem er gert úr 100 100-króna peningum. Það lítur út eins og koparheili og heitir My Mind Makes Money.
Uppi er síðan heil stofa tileinkuð Snorra Ásmundssyni og þar var mér stórskemmt.
En í rauninni finnst mér ekki skipta öllu máli hvernig einstakar listasýningar eru á listasöfnum. Obbinn af list er í nánasta umhverfi okkar alla daga og blasir við okkur í stólum, bókakápum, fartölvum, eldhúsinnréttingum, sjampóbrúsum, baðvigtinni - allir þeir sem hanna hluti sækja sér menntun og hugmyndir eitthvað.
Þegar menn frussa á orðinu listamenn held ég að þeir séu almennt að tala um tvívíða myndlist sem hangir á listasöfnum. Og mér finnst allt í lagi að hún sé ekki öllum að skapi, ekki frekar en ég fíla ekki ýmsa tónlist og nenni ekki að lesa ýmsar bókmenntir. Og ég kann alls ekki að meta ýmsa list á listasöfnum eða ýmis leikverk. Skárra væri það. Ég mætti kunna gott betur að meta.
Eftir Hafnarborg fórum við í Salinn og hlustuðum á Regínu Ósk og ég varð ekki vör við annað en að hún mæltist vel fyrir sem og tónlistarmennirnir þrír sem spiluðu með. Ég hugsa að ýmsir hafi kunnað betur að meta sönginn hennar - og kynningarnar - en ég en vá, þegar karlaraddirnar bættust við sönginn leið mér vel.
Mér líður vel með að hugsa þetta og skrifa á sjötugsafmæli Johns Lennons sem er sérstaklega fagnað á Íslandi - var hann alltaf vinsæll?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. október 2010
Airwaves
Hef ég tekið skakkt eftir, koma ekki margir til Íslands til að mæta á Airwaves? Skila þeir ferðamenn ekki tekjum í kassann á rólegum ferðamannatíma? Til þess að eignast frambærilega listamenn sem geta laðað til sín áhugasama þarf einhver að kosta einhverju til. Og ég trúi að það geri fyrst og fremst þeir einstaklingar sem leggja fagið fyrir sig.
Ætli ég muni vitlaust að hátíðin Aldrei fór ég suður hafi lyft grettistaki, a.m.k. um páska, á Ísafirði og í nærsveitum? Er það ekki gott fyrir kjördæmið?
Það má alveg ræða listamannalaun, hvað sem þau heita, og bera þau saman við aðrar greiðslur hins opinbera, t.d. landbúnaðarstyrki, greiðslur til háskóla, RÚV og kirkjunnar. En helst æsingarlaust og án stöðugra upphrópunarmerkja. Sá dagur rann ekki upp 6. október 2010. Þann dag var hins vegar enn talað um afskriftir fúlgna vegna auðmanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. október 2010
,,Ég á allt nema bágt"
Þótt þessi setning hafi e.t.v. verið æfð áður en hún féll í Kastljósi kvöldsins verð ég að segja að hún náði mér alla leið. Konan sem hana mælti jós súpu í krúsir og deildi út til gesta og gangandi. Og hvað sem segja má um mótmæli, réttlæti og ranglæti, virðingu, fjölskyldur og kveikta elda eru tímarnir sögulegir og koma manni við.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 3. október 2010
Hófstillt mannréttindi
Ég er hætt að skilja hugtakið mannréttindi.
Snara segir:
tiltekin grundvallarréttindi hverrar manneskju, óháð þjóðerni, kynþætti, kyni, trú og skoðunum (einkum réttur til frelsis, öryggis og jafnræðis)
Hjálpar mér ekki mikið.
Vísindavefurinn leggur heldur ekki lóð á vogarskálarnar:
Ein hugmynd manna um mannréttindi er að þau séu óháð stund og stað, til dæmis óháð þeirri samfélagsgerð eða þeim efnahag sem fólk býr við. Hinn siðferðilegi skilningur á mannréttindahugtakinu samrýmist ágætlega þessari hugmynd. En ef við einskorðum okkur við þennan skilning verður niðurstaðan sú að einungis örfá réttindi séu réttnefnd mannréttindi. Ef til vill stæðu ekki eftir nema þau réttindi sem nefnd eru í þriðju grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: rétturinn til lífs, frelsis og mannhelgi.
Ég skil að allar útgefnar lýsingar þurfa að ná yfir allt sem fólk getur hugsað sér. Þess vegna er skilgreiningin svo víð.
Eru það brot á mannréttindum að láta stefna sér fyrir dómstól? Getur einhver stefnt manni fyrir að vera neikvæður yfirmaður? Klæðast ekki tískulitunum? Lykta illa? Ég er ekki að reyna að snúa út úr, ég er að velta fyrir mér hinni hárfínu línu og hvenær manni væri meinað að ákæra annan.
Eru það brot á mannréttindum að fá ekki vinnu? Fá ekki vinnu við hæfi? Þurfa að sætta sig við samningsbundin laun en fá ekki markaðslaun? Fá ekki að vinna þá einu vinnu sem býðst í sveitarfélaginu? Horfa upp á greifa hrammsa til sín atvinnutækifærin? Flytja þau burt? Eru það brot á mannréttindum að sjá aðra fá afskrifaðan 50.000-kall en þurfa sjálfur að borga dráttarvexti þegar viðkomandi hélt í upphafi að jafnt væri gefið?
Eða er það lögbrot? E.t.v. siðleysi?
Í stjórnarskránni er orðið mannréttindi aðeins notað einu sinni, í 65. gr.:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Er bilið svona mjótt eða nota margir orðið bara í athugunarleysi?
Það er eins og með orðin einelti og þunglyndi sem margir fleygja inn í umræðuna án þess að vita hvað þau fyrirstilla. Það upplifði ég sem kennari.
Og rétt í lokin verð ég að viðurkenna að mér fannst Finnbogi Vikar hljóma í Silfrinu eins og hann vissi hvað hann væri að segja. Það var ígildi margra langra bjartra sumardaga hvað hann var æsingarlaus og skýrmæltur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 30. september 2010
Friðsöm mótmæli?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. september 2010
Sögubókadagur
Landsdómur mun koma saman. Það er ómögulegt að segja hvað hann verður lengi að komast að niðurstöðu. Síðast var kosið (pólitískt) í hann 11. maí 2005 og umboðið rennur því út 11. maí 2011. Mun þetta fólk hafa einhver áhrif á framtíðarvirði Íslands?
Landsdómur (síðast kosið 11. maí 2005).
Kosning átta manna í landsdóm og jafnmargra varamanna til sex ára, skv. 2. gr. laga nr. 3 19. febrúar 1963, um landsdóm.
Aðalmenn: Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, fyrrv. borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson lögmaður, Dögg Pálsdóttir hrl., Brynhildur Flóvenz lögfræðingur.
Varamenn: Ástríður Grímsdóttir sýslumaður, Lára V. Júlíusdóttir lögmaður, Már Pétursson hrl., Sveinbjörn Hafliðason lögfræðingur, Björn Jóhannesson hdl., Magnús Reynir Guðmundsson bæjarfulltrúi, Jónas Þór Guðmundsson lögmaður (kosinn 30. nóvember 2009), Sigrún Benediktsdóttir lögmaður.
Vá, Wikipedia er búin að skrá nýjustu tíðindi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2010
Prófarkalesari sem tekur sig ekki alvarlega
Nei, ekki ég. Ég tek mig mjög alvarlega í vinnu.
Ég rakst á þetta þegar ég var að leita að handhægum upplýsingum um Njálu:
Þeir sem óska eftir frekari upplýsingum um prófarkalestur og/eða tilboðum í einstök verk er bent á netfang fyrirtækisins alvara@alvara.is [feitletrun mín]
Þetta er það fyrsta sem hugsanlegur verkkaupi sér. Kannski er verkkaupinn ekki líklegur til að sjá beygingarvilluna, hahha, og þá sit ég bara uppi með hláturskastið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. september 2010
Kosið á stjórnlagaþingið 27. nóvember
Nú eru rúmar þrjár vikur til stefnu fyrir frambjóðendur til stjórnlagaþings og ég byrjaði í gærkvöldi að velta fyrir mér hvað ég vildi sjá í framboðunum.
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er ekkert sérlega seinlesin enda á hún að vera hverjum læsum manni mjög aðgengileg. Henni á að breyta.
-Styrkja þrískiptingu valdsins?
-Halda forsetanum? Fækka tímabilunum ofan í tvö? Auka ábyrgð hans?
-Fækka kjördæmunum, jafna atkvæðavægið?
-Bæta við grein/um um stjórnmálaflokka?
-Aðskilja ríki og kirkju?
-Hnykkja á eignarréttinum?
-Hnykkja á atvinnufrelsinu?
-Hækka/lækka kosningaaldur og/eða kjörgengi?
-Fiskur, heitt vatn, kalt vatn, olía - þjóðareign/almannaeign? Einkaeign?
Línur mínar eru farnar að skýrast og nú bíð ég spennt eftir framboðunum.
Á einum stað í kynningargögnunum stendur:
Maður má því bara mæla með einum frambjóðanda - en hver frambjóðandi þarf bara 30-50 meðmælendur hvort eð er. Einn skólabekk.
Það er líka ábyrgðarhluti að kjósa til þessa þings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 21. september 2010
Bíllausi dagurinn 22. september
Það er puð að hjóla, sérstaklega upp brekkur. Mér þætti reyndar raunalegra að hjóla í lausu lofti, sem sagt inni í sal. Þess vegna nota ég gripinn til að koma mér á milli staða. Og þá er nú aldeilis hippt og kúlt að hafa hjólavefsjá til að sjá bestu leiðina milli hverfa.
Hef ég sagt nákvæmlega þetta áður?
Nei, ég held að hjólavefsjáin sé ný.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 18. september 2010
Aldrei heyri ég sögusagnir fyrr en þær eru bornar til baka
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 15. september 2010
Fælingarmáttur hótela
Ég frétti af hóteli áðan sem rukkaði 280 krónur fyrir byrjað símtal. Það stóð yfir í u.þ.b. hálfa mínútu og náði úr fastlínu í Borgartúni í fastlínu í Mánatúni. Engar ýkjur. Fór fram á móðurmálinu.
Ein nótt í herberginu kostaði 33.000 krónur. Maður getur spurt sig hver borgi það verð. Svarið er ekkert annað en að það er meint listaverð. Túristar sem frílysta* sig á eigin vegum á Íslandi og detta inn á stað með svona okurverðlagðri þjónustu byrja að tala um það þegar þeir koma heim, segja svo oft og mörgum sinnum frá okrinu.
Þetta er landkynning sem segir STOPP.
*Orðið fer betur í munni en er víst stafsett svona.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. september 2010
Hvort heitirðu A eða Ö?
Ég hef um hríð haft á lofti þá kenningu að fólk skírði börnin sín í auknum mæli nöfnum sem eru framarlega í stafrófinu til að þau þyrftu ekki að bíða lengi eftir að fá að taka leikfimiprófið eða munnlega prófið í ensku. Mér er í fersku minni hvað mér fannst gott að heita alltaf u.þ.b. þriðja nafninu í skóla, var aldrei alveg fyrst en alltaf snemma búin. Kennararnir mínir voru nefnilega mjög ferkantaðir í þessu, byrjuðu fremst og unnu sig niður/aftur stafrófið.
Um helgina spjallaði ég við Þ hjúkrunarfræðing sem man nefnilega hvað það var raunalegt að þurfa alltaf að bíða þangað til hinir voru búnir og þegar á það hefur reynt hjá henni hefur hún lagt sig fram um að byrja stundum aftast, stundum í miðjunni og hafa stundum handahóf. Ef kennarar væru meira vakandi fyrir þessu held ég að Össur, Æsa og Völundur mundu aftur sækja í sig veðrið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. september 2010
Útlenskukunnátta og túlkaþjónusta
Ef svo einkennilega skyldi vilja til að fólkið sem fór í víking til annarra landa skyldi ekki kunna tilhlýðilega mikið í útlenskunni sem það brúkaði meðan það lagði undir sig land og annað væri alltaf hægt að fá hjálp túlka. Kannski ætti að túlka í dómsmálum í útlöndum yfirleitt svo menn geti einbeitt sér á sínu eigin tungumáli við að skýra mál sitt.
Hvernig dettur mönnum í hug að bera fyrir sig svona bull og halda að þeir þurfi þá ekki að svara fyrir sig í dómsmáli?
Hvað vantar í fréttina? Hefur fólk almennt val um að segjast ekki vilja svara ákærum dómstóla?
Eftirfarandi orð féllu í þættinum Víðsjá (sé ekki hvenær):
Þannig er mörgum væntanlega í fersku minni að blessuðum bankamönnunum okkar þótti íslenska til lítils brúkleg í allri útrásinni fyrir nokkrum árum og töldu eðlilegt að taka upp ensku í sem flestum þáttum starfsemi sinnar.
Að vísu má leggja þau út sem skoðun Finns Friðrikssonar en ég held að flestir kannist við hugmyndina. Stjórnmálamenn lögðu þetta líka til í fyllstu alvöru. Enskan sótti verulega í sig veðrið út af nálægð við hinn stóra (viðskipta)heim og íslenskan átti meira og meira undir högg að sækja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 9. september 2010
Væntingastuðull vegna spennubókar
Einhver segði sjálfsagt að ég hefði óalmennilegan smekk (eins og ég hef verið kölluð húmorheft (með snert af kímni samt) fyrir að finnast ekki The Office skemmtilegur þáttur) en nú er ég komin á blaðsíðu 70 í meðmæltri spennubók (sá m.a. þau meðmæli að best væri að byrja ekki fyrr en maður hefði nægan tíma til að lesa lengi) - og ég sofna út frá henni.
Næst verður það eitthvað almennilegt, t.d. Íslandsklukkan, Innansveitarkronika (sem nemandi mælti með við mig (fyrir 14 árum)), Karamazovbræður eða Atemschaukel eftir Hertu Müller. Já, og Grettla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)