Fimmtudagur, 14. maí 2009
Arður 2007
Er frumskylda OR virkilega að greiða eigendum sínum arð? Ég átti verðtryggðan reikning og ríkisbankinn leit ekki á það sem frumskyldu sína að greiða mér vexti - og mér finnst það eðlilegt þegar ávöxtunin er neikvæð og þegar síðasti mánuður einkenndist af verðhjöðnun. Ég get viljað gera eitthvað í því, breyta forsendum sjálfrar mín, endurraða, hagræða í rekstri - en þegar OR ætlast til þess af starfsfólki sínu að laun verði lækkuð ofan á kaupmáttarrýrnun alls almennings hljómar mjög undarlega að greiða Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð ARÐ. Arð!
Arð af hverju? Eigið fé hefur minnkað. Guðlaugur Sverrisson svaraði í fréttum RÚV kl. sex eins og sá sem valdið hefur - þó ekki frá mér - og María Sigrún Hilmarsdóttir lét gott heita.
2007 lemur mann enn í hausinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Baráttulaus barátta?
Jafnrétti felst ekki bara í kynjun, en líka. Það verður aldrei allt jafnt, sumir eru fallegir, sumir gáfaðir, sumir fyndnir, sumir allt og aðrir ekkert. En barátta hefur aldrei unnist baráttulaust, ásættanlegur vinnudagur, veikindafrí og veikindafrí barna, laun og orlof. Kannski eru réttindi orðin of rík, kannski finnst það einhverjum, en getur einhver haldið því fram að frá 1904 til 2009 hafi aldrei nein kona verið hæf um að veita íslensku þjóðinni forystu? Eða að allir karlarnir sem völdust hafi verið hæfustu einstaklingarnir sem í boði voru hverju sinni?
Jöfn réttindi koma ekki á silfurfati þótt við höldum sum að þau séu sjálfsögð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. maí 2009
Borgarafundur í Borgartúni í kvöld
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 10. maí 2009
Við erum landbúnaðarþjóð!
Það var hressandi að lesa pistil Hannesar Péturssonar í Mogganum í gær, um meint fæðuöryggi og íslenskan mat, íslenskt kaffi og fleira sem maður leggur sér til munns. Hannes tekur sér reyndar það skáldaleyfi að eftirláta lesendum að glöggva sig á hvað hann raunverulega meinar en mér sýnist hann mæla ESB-aðild bót.
Ástæðan fyrir því að mér var svo skemmt við lesturinn var að hann vandaði heiðarlega um við okkur með vel völdum orðum. Við erum roðhænsn.
Ég hefði hins vegar ekki stoppað við fyrirsögnina þannig að það var gott að aðrir urðu fyrri til að lesa pistilinn þar sem Hannes Pétursson les okkur pistilinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. maí 2009
Spá og spá
Vita menn ekki að spár um athafnir manna hafa áhrif, rétt eins og skoðanakannanir? Spár um gang himintunglanna geta haft eitthvert gildi af því að þau láta sér í léttu rúmi liggja hvað háskólar hugsa. Hvað halda menn hins vegar að hugsanlegir kaupendur geri um mitt ár 2009 ef Seðlabankinn spáir að fasteignaverð lækki um 46% frá hæsta verði árið 2007 til ársloka 2010? Ég giska á að þeir bjóði verð í samræmi við framtíðarspá með vísan til hennar.
Þorleifur Arnarsson leikari setti sig í spámannslegar stellingar í Spjalli Sölva Tryggvasonar í gærkvöldi og þóttist hafa verið spámaður með varnaðarorð sem voru flutt á fjölmennum fundi á Norðfirði. Mikið vildi ég að spádómar og skoðanakannanir væru geymdar með öðru ruglandi einmitt þar. Á hverju byggir spádómurinn um frekara fall krónunnar? Og hvernig bregðast menn við? Hamstra?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. maí 2009
Að fara í fatabúðir er leiðinleg iðja
Eftir viku fer ég í partí með indversku þema. Er nóg að mála blett á ennið? Eða verð ég að læra sanskrít og að tilbiðja kýr? Hafna ásatrúnni? Verða hlédræg?
Ef ég þarf að vera prúð og stillt get ég eins sleppt því að fara, eins mikill extróvert og ég er. Hmm. Ég læt ytra byrðið duga í þemanu og veðja á að ég finni slæðu eða mussu sem sleppur fyrir horn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 6. maí 2009
Ofgnótt 2007?
Mikið hafði ég heyrt um Konur eftir Steinar Braga en ekkert af því bjó mig undir lesturinn. Kunningi minn las hana og vildi helst ekki tjá sig fyrr en barnsmóðir hans væri búin að lesa hana. Hann lét að því liggja að hún væri svo kvenfjandsamleg. Vinkona mín rétti mér eintakið sitt og sagðist ekkert ætla að segja fyrr en ég væri búin að lesa hana en ýjaði samt að því að hún væri andstyggileg við konur. Ragnheiður felldi dóm um hana strax eftir jólin og fannst hún ruglingsleg. Á baksíðu kiljunnar eru sögunni gefnar allt að fimm stjörnum og þar gefur að líta gnótt lofsyrða.
Framan af er kynning á Evu sem virðist hafa klúðrað sambandi sínu við Hrafn alveg skiljanleg. Hún er verklítil, gefin fyrir sopann og síögrandi sínu nánasta umhverfi. En það virðist vera holur rammi utan um framtíð hennar í glæstu fangelsi Skuggahverfisins þar sem einhvers konar fjárglæframenn vilja gera hana að viðfangi sínu.
Mér er fyrirmunað að skilja söguna sem ádeilu á það bruðl og óhóf sem kennt er við árið 2007 þótt bankabéusar komi við sögu og flottræfilsháttur. Eva virðist vera tilfallandi fórnarlamb fólks sem hefur nægan tíma, nægt fé og gríðarlegt hugmyndaflug.
Aðallega er ég líklega vanþakklát því að ég þurfti að þræla mér í gegnum síðustu 80 blaðsíðurnar. Gerði það tvisvar og var engu sáttari í seinna skiptið.
Kannski er framboðið á 2007 bara svo yfirþyrmandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 4. maí 2009
Flensa skrensa
Tortryggni mín gagnvart meintri grísaflensu er svo megn að ég sleppi engu tækifæri til að hlaupa upp um hálsinn á fólki.*
*Þar sem ég skil sjálf varla þessa ljóðrænu færslu ætla ég að hnykkja á með því að segja og halda til haga að ég held að fregnir af henni séu orðum auknar (eins og af andláti Marks Twains) og að þessum fréttafaraldri hljóta að linna hvað úr hverju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. maí 2009
Dagvakt Ragnars Bragasonar
Nú er ég hálfnuð með seríuna sem gerist á Hótel Bjarkalundi og álit mitt á Ólafíu Hrönn hefur enn aukist. Hún er Gugga. Jón Gnarr og Jóhann Pétur slá heldur ekkert af og fleiri eiga mjög góða spretti.
Var að velta þessu fyrir mér mér heiðurslistamannalaunin - er ekki aldurslágmark ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 2. maí 2009
Eigendavald eða ekki
Þeir sem ekki hafa unnið á ritstjórnargólfi gera sér kannski ekki grein fyrir því, en almennt líta blaðamenn skelfing mikið niður á viðskiptahlið útgáfunnar.
Þetta er undir lok skoðunar Jóns Kaldals í Fréttablaðinu í dag þar sem hann ber blak af blaðamönnum sem njóta ekki trausts nema tæplega helmings í samfélaginu í dag. Mér finnst Jóni ekki lukkast meint ætlunarverk. Það þarf enga sérstaka prófgráðu til að skilja að það sem á að seljast þarf að vera seljanlegt. Hins vegar getur verið að það sé meiningarmunur hvort Ásdís Rán selji meira eða minna en Jón Baldvin, umfjöllun um húsbúnað eða úttekt á kosningaloforðum, svínaflensa eða útrás blávatns. Eða teiknimyndasögur.
Menn tala um sjálfsritskoðun á blöðum. Ég kýs að trúa að blaðamenn upp til hópa vilji vel og ætli að vanda sig. Hins vegar er grunnt á sjálfsritskoðuninni af því að margir vilja ekki stuða um of og svo hafa menn ekki alltaf nægan tíma eða aðgang til að grufla nógu mikið í vafamálum til að vera skotheldir með umfjöllun sína.
En Jón sannfærði mig ekki um neitt í ritstjórnarpistli sínum.
Ég ætti kannski að grufla meira í fortíðinni og fjarlægum skjölum áður en ég set svo vafasama skoðun í umferð að blaðamönnum séu mislagðar hendur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. maí 2009
Verðbólgan orðin neikvæð
Það er ástæða til að hvetja skuldara til að gaumgæfa rukkanir sínar nú um mánaðamótin. Ég á verðtryggðan reikning sem er uppfærður um hver mánaðamót og nú í lok apríl var peningur tekinn út af honum - af því að hann er verðtryggður. Að sönnu voru tveir í fjölskyldunni búnir að segja mér að fara í bankann og breyta reikningnum en þar sem gróðavilji minn er ekki nægilega einbeittur lét ég það undir höfuð leggjast. Því fóru 0,5% innistæðunnar aftur inn í Kaupþing í gær, 1. maí. Og þar af leiðandi hljóta skuldarar að fá 0,5% felld niður af höfuðstól skuldar sinnar og ég fagna því. Viðurkenni samt að ég ætla í bankann eftir helgi.
Er ekki núna lag að bylta verðtryggingarmynstrinu sem hefur sligað fólk?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. apríl 2009
Mitt 2007
Gildismat fólks virðist vera að breytast og ég heyri fólk á öllum aldri flissa að 2007 með tilvísan til þess hvað allt hafi verið of. Ég afvegaleiddist líka þótt mér finnist ég auðvitað svakalega skynsöm, jarðbundin - og djúpt á femínunni í mér. Ég dró loks í dag fram uppáhaldsstígvélin mín, Timberland sem ég keypti 2006, sleit þannig að rennilásinn gaf sig 2007, fór með í viðgerð, sótti í viðgerð - og setti beint í skápinn en ekki á fæturna, fór til útlanda og keypti mér lekker stígvél með hælum - sem eru svo ekki ég.
Nú fékk Timberland að spásséra milli hverfa í dag - og mitt 2007 var velkomið aftur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 29. apríl 2009
Karlar sem hata konur
Nei, auglýsing Samtaka iðnaðarins er mér ekki efst í huga. Þó vil ég geta þess að tengiliðir mínir í auglýsingaheiminum líta svo til að börn hafi verið á vakt á auglýsingastofunni þegar auglýsingunni var hleypt áfram. Tortryggnin er orðin svo allsráðandi að mér datt fyrst í hug að auglýsandinn hefði viljað fá umtal með góðu eða illu.
Og mér er svo sem ekki dottið það úr hug ennþá.
Enda fengu samtökin umtal sem er á við margar auglýsingar. Og hvernig geta hinir viðskotaverstu sniðgengið samtökin? Maður getur látið ógert að kaupa álegg frá kjötframleiðanda sem niðurlægir einhvern, bíl frá bílaumboði sem manni mislíkar - en þetta?
Nei, ég er sko ekki að hugsa um auglýsinguna, ég er að hugsa um höfundinn sem hefur farið sigurför um Ísland, á sænsku, norsku og íslensku. Kannski ensku líka.
Fyrsta bókin, sú eina sem ég er búin að lesa, Karlar sem hata konur, er vel á sjötta hundrað blaðsíður og ég náði engu sambandi við Mikael, Eriku og Lisbeth fyrr en í fyrsta lagi eftir svona 100 síður. Kannski var það eitthvað í þýðingunni, kannski einbeitingarskortur, kannski hæg uppbygging.
Þetta finnst áreiðanlega fleirum.
Svo jókst spennan og síðustu kílómetra bókarinnar spretti ég vel úr spori. Hins vegar þoli ég ekki að Bjartur skuli hafa sparað síðustu próförkina. Ég heyri fólk tala um að þýðingin sé ógóð. Ég held að hún sé ekki vond, þýðanda sjálfsagt mislagðar hendur en heildaráhrifin á mig eru ekki þannig enda reyndi ég að lesa söguna (atvinnusjúkdómur að vanda um við einhvern í textagerð). Ég hjó hins vegar eftir þessu (bls. 94):
Harriet kom hingað á eyjuna þegar klukkan var svona tíu mínútur yfir tvö. Ef við teljum með börn og einhleypa lætur nærri að um þetta leyti dags hafi um það bil fjörutíu manns verið saman komin á eyjunni.
Stoppar þú ekki líka?
Nokkur dæmi um óverjandi frágang:
(bls. 125):
46 prósent kvenna í Svíþjóð hefur orðið fyrir ofbeldi karlmanns
(hins vegar bls. 255):
13 prósent af sænskum konum hafa orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi utan ástarsambanda
(bls. 282):
Mikael týndi út spjöldin með myndunum sem hinn ungi Nylund hafði tekið og raðaði þeim á ljósaborðið þar sem hann grandskoðaði hvern myndaramma fyrir sig.
(bls. 302):
Hún hafði grafið upp rokkhljómsveitina hans, Bootstrap, sem varla nokkur lifandi sála í dag rak minni til.
(bls. 329):
En ég vil fyrir alla muni ekki að þú vekir einhverjar faslvonir hjá honum.
(bls. 330):
Lisbeth Salander náði í Kawasaki hjólið sitt kvöldið fyrir miðsumarshátíðina og var svo fram eftir dagi að yfirfara það.
(bls. 443):
Hann veitt eitthvað.
(bls. 463):
Hún hugsaði um Martin Vanger og Harriet fokking Vanger og Dirch fokking Frode og alla þessa fokking Vangerfjölskyldu sem sat í Hedestad og drottnaði yfir litla heimsveldinu sínu og reyndu að níða skóinn hvert af öðru.
(bls. 507):
Nýjasti tölvupósturinn., smáskeyti um einhverja smámuni hafði verið sent klukkan tíu um kvöldið.
(bls. 527):
Sú spurning sem eftir var stóð snerist um hversu langt hennar eigin rannsókn ætti að ná.
Bókin er að sönnu orðmörg en listinn minn er heldur ekki tæmandi. Framan af var ég ekki með blýant við höndina og dæmin mín eru bara dæmi. Þá kemur það ekki skýrt fram í stuttum dæmum að gæsalappir eru notaðar í óbeinni ræðu, ósamræmi er í beygingum nafna, til Birgers og til Birger og gott ef ekki Birgis líka einu sinni (þá var ég ekki með blýantinn innan seilingar), Wennerström og Wennerströms í eignarfalli o.fl.
Kannski ég reyni að lesa Flickan som lekte med elden frekar en að lesa Stúlkuna sem lék sér með eldinn.
Ég á þýðinguna ef einhver vill fá lauskrotað eintak lánað ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 25. apríl 2009
Prósent vs. prósentustig
Þegar 50% hlutdeild minnkar um 10% fer hún ofan í 45%, þ.e. 10% af 50. Ef hlutdeildin minnkar um 10 prósentustig fer hún ofan í 40%. Þegar fólk talar um að krónan hafi veikst um 16% veit ég ekki hvort það notar prósentuna rétt eða eins og margir eru farnir að nota hana, vitlaust. Mjög ergilegt enda er reginmunur á þessu.
Nú er frétt á RÚV um kjörsóknartölur, m.a.
Í suðvesturkjördæmi eða kraganum höfðu, klukkan 15 í dag, 21.100 manns kosið eða rúm 36%. Það er 2% meira en í kosningunum árið 2007.
Hafi kjörsókn þá verið 34% (sem mig grunar að sé tilfellið) ætti hún núna að vera 34,68% (miðað við 2%) en ekki 36%. Svo leiðist mér líka þessi notkun samtengingarinnar eða.
Að öðru leyti hef ég það bara gott á kjördegi, ræræræ.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. apríl 2009
Dagur þýðinganna á Gljúfrasteini
Sem forsvarsmanni Babels var mér boðið í Gljúfrastein í dag til að vera við afhendingu þýðingaverðlauna Bandalags þýðenda og túlka.
Spennandi.
Ég er bara svo þrjósk að ég ætlast til þess að ég komist leiðar minnar á höfuðborgarsvæðinu á strætó. Þegar ég fletti þessum áfangastað, Gljúfrasteini, upp á vef Strætós fékk ég hins vegar fyrst upp að það tæki mig tæpar 300 mínútur að komast á áfangastað (bið í Háholti í meira en 200 mínútur). Þá þyrfti ég samt að labba tæpan hálfan kílómetra að heiman og á brottfararstað og aðra 400 metra frá Laxnesi (veit ekki hvar stoppistöðinni hefur þá verið plantað).
Mig grunar að strætó viti að það er sumardagurinn fyrsti þótt það komi ekki fram á vefnum hans og þess vegna breytti ég í helgidag --- nei, ég reyndi að breyta í helgidag, hið sjálfvalda form leyfði mér það ekki. Hins vegar skoðaði ég sérstaklega leið 27 og sá að á helgidögum fer sá vagn af stað fjórum sinnum alls. Klukkan hálfeitt, hálffimm, hálfníu og hálfellefu. Þótt ég kæmist á staðinn kl. 13:15 yrði ég að reyna að tefja dagskrána - eða fá far með einhverjum sem á alltaf að vera þrautalendingin.
Ég held að vandamálið hjá Strætó bs. sé ekki það að fólk víli fyrir sér að nota almenningssamgöngur í leiðinlegu vetrarveðri - ég held að viðmótið á vefnum og arfaslök tíðni eigi mestan þátt í að fæla fólk frá þessari samgönguleið.
Gleðilegt sumar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Gini-stuðullinn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Endurvekja skattstofna ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. apríl 2009
Truflun af klappliðunum á kosningafundum
Að horfa á kosningasjónvarp er góð skemmtun. Ég fylgdist spennt með útsendingunni frá Selfossi - og hefði poppað ef ég væri ekki nýbúin að brjóta jaxl - og fannst hann fínn, fólk er duglegt að spyrja hæfilega markvisst og gagnrýnið en mikið grefilli leiðast mér klappliðin. Það er eðlilegt og fínt ef fólk skellir upp úr þegar því er skemmt og klappar þá sjaldan svar er algjörlega stórkostlegt eða óvænt en gestir (les: klappliðin) settu í mörgum tilfellum sjálfstýringuna á.
Og ég kýs ekki einu sinni í Suðurkjördæmi ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 20. apríl 2009
Spurt og svarað
Það er magnað hvað fólk hringir mikið í útvarpsstöðvarnar þegar frambjóðendur sitja fyrir svörum og spyr skynsamlegra spurninga. Var þetta alltaf svona? Mér finnst það hafa aukist að fólk spyrji skýrt og fari fram á skýr svör.
Núna er ég með Bylgjuna í gangi í morgunsárið og svo verður spennandi að fylgjast með borgarafundi frá Selfossi í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. apríl 2009
Máttur umræðunnar
Þegar ég fékk bréfið í síðustu viku frá LOGOS um að BBR gerði mér yfirtökutilboð í hlut minn í Existu varð mér fyrst fyrir að skella upp úr. Ég var búin að afskrifa þessa eign í huga mér (greinilega enn dálítið meðvirk) og 4 krónur eru vitaskuld ekki umræðunnar virði.
Nema nú er umræðan í fjölmiðlum, þ.m.t. bloggsíðum, búin að afhjúpa hvernig í landinu liggur. Eign sem var metin mikils virði fyrir ári er nú metin lítils virði af þeim sem vilja eignast hana.
Hvað þarf ég að gera til að koma í veg fyrir að Bakkavararbræður geri sér mat úr brunarústunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)