Röskur atvinnurekandi óskast

Röskur* kennari, læknir, leiðsögumaður, bílstjóri, ferðamálastjóri, háseti, framkvæmdastjóri, vefhönnuður, forseti, ritari, garðyrkjumaður ... óskast. Hvað er að orðinu röskur? Mér finnst þetta viðkvæmni í þeim sem kvörtuðu. Það að vera röskur þýðir ekki að viðkomandi þurfi að vera fljótfær eða að aðrir megi ekki líka láta hendur standa fram úr ermum.

Ég man að auglýsingin var samin í Hafnarfirði en ég man ekki hverjir kvörtuðu undan notkun orðsins.

* ötull, vaskur, hvatur, snar, duglegur, tápmikill, röggsamur


Gettu betur heldur áfram

Í kvöld keppa átta framhaldsskólar í spurningakeppninni sívinsælu. Ég er með hjartslátt af spenningi, einkum yfir gengi Vestmannaeyja. Ég vex ekki upp úr áhuga á vitsmunalegri keppni og þótt ég eigi eftir að kortleggja spurningahöfundinn Pál Ásgeir Ásgeirsson betur líst mér ágætlega á það sem ég hef heyrt, ekki síst um náttúru landsins og einhvern karlakór ... sem hann er sérfróður um ... Vona þó að hann hætti að spyrja út í auglýsingar sem virka sem auglýsingar fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga.

Þangað til klukkan slær hálfátta ætla ég að hugsa spekingslega um hæfi og hæfni til mannaráðninga og hvort fólk geti hugsanlega í viðtalinu heillað þann sem útdeilir starfinu. Ég vil halda í þá trú að fólk sé ráðið út á verðleika sína og að það geti slegið í gegn með frumlegum og útpældum hugmyndum í viðtölunum sem eiga að skera að einhverju leyti úr um hæfni þess til að gegna starfi.

Meðfram ætla ég að skæla dálítið yfir því að fá bara þrjá fjórðu út úr prófi sem ég hélt að ég hefði náð a.m.k. 85% í. Ég hélt að ég væri svo flink í þýðingum en Gauti deilir ekki þeirri skoðun til fulls. Fá rökstuðning?


Baggalútur rokkar

Jólalegri verð ég ekki!


Um mengun af ferðaþjónustu

Mér var bent á 17 ára gamla ræðu þáverandi umhverfisráðherra sem sagði:

Mig langar bara til þess að minna á að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur beint þeim tilmælum til allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að draga úr ferðamannaþjónustu og minnka straum ferðamanna til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna vegna þess að ferðamannaþjónusta er einhver mest mengandi atvinnugrein sem fyrirfinnst á jörðinni. Ferðamannaþjónusta, t.d. eins og hún er er rekin á Spáni, hefur valdið meiri umhverfisspjöllum á Spáni heldur en öll álver í Evrópu samanlagt. Ferðamannaiðnaður og ferðamannaþjónusta t.d. í Miðjarðarhafslöndunum hefur valdið svo rosalegum umhverfisspjöllum að það er núna yfirlýst stefna umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að beina þeim tilmælum eindregið til allra aðildarríkja: Dragið úr ferðamannaþjónustu, reynið að minnka straum ferðamanna til landanna til þess að koma í veg fyrir þau umhverfisspjöll sem ferðamenn valda.

Sannlega sannlega segi ég .. að þetta þyrfti Birna G. Bjarnleifsdóttir að rifja upp. Alveg áreiðanlega las hún þetta og lagði út af þegar ræðan var flutt 18. mars 1991, einkum orðinu ferðamannaiðnaði sem gefur sterklega til kynna að ferðamenn séu fyrirbæri á færibandi, eins og hver önnur kókdolla, vara sem ekki þarf að gefa sérstakan gaum eða sinna sem einstaklingum.

Svo hef ég fyrir satt að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi bara aldrei mælst til þess arna. Það væri alveg einstaklega heimskulegt, fólk var þá, er núna og verður áfram á faraldsfæti. Þetta er meðal lífsgæða fólks - að fara að heiman í lengri eða skemmri tíma, upplifa nýja hluti, stækka heiminn, bæði í eigin landi og öðrum. Og hvort sem fólk er heima eða að heiman þarf það að nærast og hreyfa sig, fótumtroða jörðina og slíta henni einhvers staðar. Það þýðir ekki að snúa sér undan og vona að vandamálið hverfi, miklu nær er að standa uppréttur, fagna áskoruninni og finna viðunandi lausn fyrir verkefnið.

Þrátt fyrir auðheyrðan titring yfir ráðningu nýs ferðamálastjóra bind ég miklar vonir við framtíðina, að mörkuð verði stefna í ferðaþjónustu, vegir bættir, gistipláss um allt land aukið, afþreyingarmöguleikum bætt við - og eftir frétt af nýársdagsraunum fullorðinna erlendra ferðamanna í spreng óska ég þess heitt að þeim líkamlegu þörfum fólks verði hægt að mæta framvegis, líka á helgidögum. Lifi björgunarsveitin sem aumkaði sig yfir fólkið! Auðvitað er ekki háleitt að fjalla um klósettþarfir fólks en skv. þarfapíramída Maslows nýtur fólk ekki æðri gæða ef grunnþörfum er ekki sinnt. Og tilkomumikill Seljalandsfoss í ljósaskiptunum getur átt sig ef þvagblaðran er farin að þrengja að augunum.

Seljalandsfoss


Mig dreymdi Michael Moore

Það hlýtur að vera út af forkosningunum í Bandaríkjunum.

Við vorum á Akureyrarflugvelli á leið til Vestmannaeyja og í einu horninu sátu Michael Moore og fleiri þekktir Bandaríkjamenn. Einhverra hluta vegna var ég með í skjóðu minni bók sem MM hafði skrifað og með hjartslætti bað ég hann að árita! Svona grúppíutaktar eru annars mjög fjarri mér.

Ég spái því að John Edwards vinni demókratamegin og vinni repúblikann sem verður ekki Rudy Guiliani. Ég held að Hillary Clinton og Barack Obama taki hvort frá öðru (þarf ekki miklar gáfur til að sjá það) og að obbi Bandaríkjamanna sé ekki tilbúinn í svona miklar breytingar. Þá sígur JE fram úr.

Þetta hefst upp úr því að dreyma mótmælanda Bandaríkjanna.


Hvað eiga topppunktur og stássstofa sameiginlegt?

Öndvegisfrændi minn sem alinn er upp á Selfossi heldur þessi misserin til erlendis þar sem hann þóttist ætla að skrifa Flórdæla sögu (meðfram sálfræðinámi sínu). Ekki ætlar hún að verða burðug þar sem hann hefur ekki skrifað í hana nýjan kafla í bráðum fimm mánuði. Þegar maður horfir ekki fram fyrir sig svínar maður á aðra

Þegar hann var í jólaheimsókn sinni hittumst við og að vanda tókum við upp mikið og giftusamlegt hjal um tungumálið. Við reyndum að þýða búðarheitið fat face með öðru en feitafés, t.d. búldubolla - eða nei, líklega fundum við ekkert orð fyrir andlit sem byrjaði á b, við hefðum bara svo gjarnan viljað detta niður á góða stuðla. Svo sagðist hann langa að finna fleiri orð eins og topppunkt (úr stærðfræði) en héldi að aðeins eitt orð annað uppfyllti það.

Nú er ég komin á blaðsíðu 101 í stórfróðlegri bók um samsveitung Gumma Torfa og þar kemur við sögu stássstofa - sem uppfyllir leit Gumma.

Geta nú t.d. Ásinn, Laufið, Stína og Habbs rifjað upp fyrir mig fleiri (samsett) orð þar sem sami stafurinn kemur fyrir þrisvar í röð?

Og má kannski biðja um að veðrinu fari að slota svo að hríslurnar stækki ekki það mikið að þær nái að dangla í rúður á þriðju hæð? Ha, er ekki hægt að fara að fá svefnfrið fyrir allt-um-kring-garranum?


Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu

Fyrir rétt tæpum 5 árum var reiknaður út fyrir þingmann hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu. Þótt svarið sé frá febrúarmánuði 2003 er áætlað hlutfall frá árslokum 2001 - og það er 5%!

Ef stefnumótendur halda að tekjurnar séu ekki nema 5% af heildartekjum - eða kannski rúmlega það núna - er kannski minni furða að þeir haldi að sér höndum.

Í svarinu er líka forvitnileg tafla um hlutfall tekna eftir atvinnugreinum:

AtvinnugreinHlutfall tekna
Ferðaskrifstofur 100%  
Gististaðir 90%  
Flugsamgöngur 80%  
Samgöngur á landi 58%  
Veitingastaðir 30%  
Sala sport- og minjagripa 18%  
Menning og afþreying 12%  
Blönduð verslun 9%  
Samgöngur á sjó 4,5%  

Upplýsingar er víða að finna og nú ætla ég að reyna að upplýsa mig frekar á næstu vikum. Sumarið brestur á fyrr en varir þótt bévítans veturinn reyni af hörku að telja mér trú um annað. Hjá Hagstofunni er t.d. hafsjór fróðleiks.

Hver notar hann?


Búið að velja ferðamálastjóra

Mér finnst ljótt að segja manni að ráðningin sé frá 1. janúar og svo birtast engar fréttir fyrr en 2. janúar. Ég man eftir Ólöfu úr íslenskunni og hef séð hana keppa í Útsvari, fyrir hönd Garðabæjar.

Að öðru leyti hef ég ekki annað um ráðningu hennar að segja en að hún leggst vel í mig. Við munum allmörg fylgjast spennt með nýjum ferðamálastjóra eftir svo sem eins og 100 daga.


Mamma mín er sætust

Mamma átti stórafmæli í gær í góðum félagsskap. Trausti bróðir, elstur systkinanna, benti á hið augljósa - að hún er best - og ég tók myndir af því augljósa - að hún er sætust! Hverjum finnst það ekki um mömmu sína?

Svo er hún rökleg (að öðru leyti en því hvernig hún x-ar á kjördegi) og hvetur börnin sín þegar þau þurfa á að halda. Hún var heimavinnandi húsmóðir (sér til lítillar gleði) meðan við uxum úr grasi, menntuð sem kennari en með enga almennilega barnagæslu fyrr en ég kom til sögunnar. Þá var það Brákarborg, ekki ég sem passaði eldri systkini mín ...

Ég held að hennar helsti harmur sé að vera ekki lengur á vinnumarkaði því að hún er kjarnorkukerling og gæti vel dugað til ýmissa verka. Ég get svo sem spurt hana en stundum þekkir maður foreldra sína betur en þeir sjálfir, hmm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði við Guðna Ágústsson í Kryddsíldinni sem ég sá í endurflutningi í dag að hann vissi meira um hann en hann sjálfur.

Ég er afskaplega heppin með foreldra og get ekki nógsamlega þakkað hvað þau halda góðri heilsu - líka geðheilsu, hehe.

Eiginlega verð ég að nota tækifærið og þakka góðum gestum fyrir heimsóknina í gær. Þá má alla finna í albúminu sem ég stofnaði utan um gærdaginn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband