Hafði Davíð rétt fyrir sér?

Ég las aldrei yfir mig um Icesave. Ég fylgdist ekki nógu vel með frá degi til dags til að fá ógeð á umræðunni. Og nú er henni líklega allri lokið, eða verður það þegar menn hafa hælst nógu mikið um.

Dómurinn í dag er vissulega ippon. Við Frónverjar hljótum öll að fagna henni. Ég geri það. En ég er mér samt meðvituð um að ég vissi aldrei nóg. Hver var gerandinn og hver þolandinn? Hvert var fórnarlambið? Voru Bretar og Hollendingar gráðugir? Voru boðnir vextir í London frámunalega háir? Voru það óreiðupésar einir saman sem lögðu fé inn á Icesave-reikninga?

Sigurjón Árnason og Björgólfur Björgólfsson kættust í dag, að vonum. Þýðir það að fullt af fólki hafði þá fyrir rangri sök? Voru þeir alltaf bara góðu gæjarnir í eðlilegum viðskiptum? Er til peningahimnaríki? Fór framliðna féð þangað og beið eftir að gírugu útlendingarnir kæmu að sækja það?

Ég leit inn á vefútgáfu Guardians og sá meðal annars þetta:

"We have decided that we are not going to pay the foreign debts of reckless people," David Oddsson, then head of Iceland's central bank, told Iceland in a televised address.

Ég man eftir þessu Kastljósi þegar þáverandi seðlabankastjóri var á því að útlendingar fylgdust ekki með íslenskum spjallþáttum.

Ég fagna, já, en ég hef samt samúð með innstæðueigendum sem voru í góðri trú og töpuðu, sumir, miklu af ævisparnaðinum. Ég tek undir með Skúla Magnússyni, við getum ekki júbilerað eins og um vel heppnaðan handboltaleik væri að ræða.

Við viljum áfram vera siðuð þjóð meðal siðaðra þjóða. Er orðsporið óskaddað? Erum við hvítskúraðir englar og svömlum um í himnaríki fjárfestanna? Erum við bráðum laus við gjaldeyrishöftin? Njótum við trausts vandalausra?

Hafði Davíð rétt fyrir sér? Erum við skuldlaus og kvitt við alla dauðlega menn? Er allt hinum að kenna?

- Ég held að Icesave-umræðan sé ekki alveg búin. Þegar til stykkisins kemur snýst hún ekki bara um aura og sent.


Blaðamennska kostar

Jón Trausti bloggaði um orð á dv.is í gær. Ég hef lífsviðurværi mitt af því að rýna í orð og þykjast hafa vit fyrir öðrum. Ég veit vel að mér getur skjöplast og stundum fæ ég gagnrýni fyrir að sletta en fari Jón Trausti rétt með staðreyndir í pistlinum, og ég leyfi mér að trúa honum, er eitthvað alveg stórkostlega mikið að í orðafari Hæstaréttar (reyndar er Hæstiréttur varla nefndur í pistlinum).

Á morgun ætla ég að gerast áskrifandi að DV þótt ég geti lesið blaðið annars staðar. Fólk sem stígur réttlætishjólið af svo mikilli ákefð á að minnsta kosti það skilið að ég snúi pínulítilli sveif með því.


Þöggun í samfélaginu

Samkvæmt upplýsingum frá kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefur brotamálum rignt yfir deildina síðustu vikurnar. Og nú ríður á að menn bregðist rétt við. Ekki veit ég hvernig á að gera það en alveg áreiðanlega er það ekki með því að þegja málin í hel og ekki heldur með því að fjargviðrast of mikið.

Ég held að þetta sé spurning um forvarnir og upplýsingagjöf.

En það er ekki eins og það sé eitthvað einfalt. Ekki má hræða börn og unglinga frá því að umgangast allt fólk. Fjölskylduvinir geta líka verið háskalegir, það kemur á daginn aftur og aftur. Væntanlega verður aldrei hægt að komast fyrir svona brot með öllu. Fleiri starfsmenn en færri þar sem börn eru samankomin gætu samt verið góð byrjun. Eða hvað?

Annars rifjaðist upp fyrir mér í gær að þegar DV-forsíðan um ísfirska kennarann birtist, var það ekki 2005, var hálfþrítugur karlmaður sem ég þekkti á þeim tíma svo hneykslaður á DV (eins og ég fleiri, ég veit) að hann neitaði að lesa blaðið. Af þessari ástæðu einni saman. Og hann vildi forða öðrum frá blaðinu. Ég þakka þó mínum sæla fyrir að ég fordæmdi ekki boðbera illra tíðinda.

Og nú er ég að velta fyrir mér hvort það fólk sem bregst illa við tíðindunum, ekki atburðanna vegna heldur fréttanna af þeim, sé annars konar en það fólk sem verður sorgmætt yfir miskunnarleysi mannanna. Sjálf er ég svolítið meðvirk, þegar ég sé vesalinga teymda inn í lögreglubíla vorkenni ég þeim fyrir að vera vesalingar og aumingjalegar og held að brotaviljinn sé ekki einbeittur.

Já, og ég velti enn fyrir mér hvort við þyrftum ekki öll að vera aðeins meira vakandi fyrir sjúkdómseinkennunum og táknunum. Erum við ekki fullmeðvirk og jafnvel aðeins of löt til að sjá það sem gerist í kringum okkur? Og þá er ég ekki bara að tala um okkur Íslendinga ... Hvað voru Bretar að hugsa? Já, af hverju segir fólk ekki frá?

Þegjum aðeins minna um það sem skiptir máli.


Kuldi Yrsu

Það voru nokkrir góðir sprettir í bókinni en aðalvandinn er að hún segir svo miklu meira en hún sýnir. Hún útskýrir hvers vegna Rún hryllir sig og Óðinn sniðgengur Diljá og slær svo úr og í. Óðinn vill allt fyrir dóttur sína gera, líður illa heima en vill helst ekki fara út. Þetta gæti virkað hér eins og eðlileg þversögn en er það ekki.

Endirinn kom mér þó á óvart, hann má eiga það, en draugaleg er bókin ekki og í engu til þess fallin að vekja með mér kulda. Samt er enginn hlýlegur ...


1.55

Það er kominn 23. janúar. Ég ætla nú ekki að þykjast muna þessa stund fyrir 40 árum en það er samt ekki laust við að mér finnist ég hafa lifað söguna. Manni er hollt að staldra við á svona tímamótum og hugsa til þess að Ísland er eldfjallaeyja, síkvikt náttúruafl, og við hin bara meinleysisleg peð, stjórnlaus og áhrifalítil.

Eldgos á Heimaey 1973


Lífið er tilgangslaust (í eðli sínu)

Við fæðumst og við deyjum, það er segin saga. Þar á milli er tími sem við getum varið að vild. Að minnsta kosti höfum við eitthvert val um stefnu og strauma í eigin lífi. Nám, vinna, fjölskylda, frí, metnaður, átök, álag, markmið, fréttaflutningur, fréttamat.

Jaríjarí hjá mér núna, heimspeki, geimspeki.

Undir helgi náði Vilborg Arna Gissurardóttir merkilegu markmiði sínu með þrautseigju og góðan undirbúning í vopnabúrinu. Jákvæðni, áræðni og hugrekki eru gildin sem hún hefur valið sér. Hún ögrar sér og virðist vita hvað hún vill. Ég get ekki betur séð en að hún hafi þegar haft áhrif á aðra sem vilja taka sér dugnað hennar og einurð til fyrirmyndar.

Það þarf ekki að vera tveggja mánaða ganga á ísbreiðu. Ekki einu sinni eitt fjall. Við gætum sennilega öll byrjað á því að vera aðeins jákvæðari, bjartsýnni, upplitsdjarfari, kannski vinnusamari (þá meina ég ekki að vera lengur í vinnunni alla daga), óhræddari við nýjungar, samvinnufúsari, gjafmildari - lífið er í eðli sínu tilgangslaust þannig að við ættum sennilega að hafa gaman af því og reyna að vera sæmilega skikkanlegar manneskjur.

Og RÚV lét undir höfuð leggjast að segja frá þessu ótrúlega afreki hennar Vilborgar á föstudaginn. Það er fréttamat sem ég skil ekki en til að taka jákvæða pólinn í hæðina verð ég að lýsa yfir skilningi á því að VAG hafi ekki passað inn í 22 mínúturnar sem fréttastjórinn Óðinn Jónsson, vaktstjórinn Ingólfur Bjarni Sigfússon, útsendingastjórinn Ragnar Santos og tæknistjórinn Sæmundur Sigurðsson höfðu til ráðstöfunar ... 

Stuð sé með oss.


Þegar Google er spurður (spurð?)

Ég er búin að gúgla alls konar mat upp á síðkastið, nota reyndar Google alla daga í alls konar, og upp á síðkastið er mér í sífellu vísað inn á bland.is. Ætli sú síða hafi gert eitthvað sérstakt til að tengja sig inn á leitarsíður?

Nei, þetta veit enginn ...


Að nefna eftir eða láta skíra í höfuðið á

Ég er að reyna að læra þetta. Ef barn er nefnt nafni einhvers á lífi er það skírt í höfuðið á þeim einstaklingi, annars heitir það eftir (hinum látna). Eða hvað?

Ég er búin að kynna mér að þetta er mörgum tamt á tungu en ég hef enga sérstaka tilfinningu fyrir þessu. Er það ekki ábyggilega þannig að maður skíri á höfuðið á þeim sem lifir en eftir hinum látna?

Ojæja, þetta dugir kannski ekki til að ég leggi það á minnið ef ég er enn í vafa ...


Japönsk hrísgrjón, hrár fiskur - og umbúðir

Ég ákvað að bjóða upp á hráan fisk í kvöld. Hvað heitir hann? Sushi? Súshí? Sushi? Sússí? Kemur ekki fram í orðabók. Fyrst var hugmyndin að kaupa tilbúið hjá Tokyo í Glæsibæ en svo ákváðum við að græja hann sjálf. Já, er það hægt? spurði ég. Og svo: Fjúff, ég þoli ekki allar þessar umbúðir, allt þetta plast sem nýtist ekki í neitt annað, sojasósa í aggalitlum flöskum og svona.

Og ég fór í Nóatún og fiskbúðina og keypti fisk og alls konar og allt margpakkað í plast og frauð og pakka og pappa og umbúðir og fleiri umbúðir. Vasabí og ediksleginn engifer í plasti og pakka. (Ofnota ég nokkuð orðið og?)

Þetta var athyglisverð tilraun og kannski get ég þetta síðar meira sjálf (ég ofsauð og vansauð hrísgrjónin smá) en djö eru miklar umbúðir í samfélaginu.

En það var auðvelt að hrista þau - bannað að margtaka lokið af (eins og ég gerði)

Allt að gerast í japönsku vefjunum ...


Tekur kirkjan of langan matartíma?

Ekki amast ég við góðverkum, göfugri hugsun eða örlæti. Ég fetti ekki einu sinni fingur út í markaðssetningu eða ímyndarherferð. Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir, þeir verða líka að líta út fyrir það. Góður og agaður launamaður getur „þurft“ að taka tvöfaldan matartíma stöku sinnum á móti þeim skiptum sem hann hefur ekki komist í mat og þá reynir hann að gera það þegar vel stendur á fyrir báða aðila. Sá sem verður þessa eina matartíma var sem er langur gæti ranglega haldið að framkoman væri gagnrýnisverð.

Ég fylgist ekki nógu mikið með kirkjunni til að meta matartímana hennar. Ég þekki (auðvitað) til presta sem eru áhugasamir, fullir af náungakærleik, vaktir og sofnir yfir sóknarbörnunum, ýta öllu frá sér til að sinna starfinu/kölluninni. Já, þá getur það bitnað á einhverjum öðrum, t.d. fjölskyldulífinu ef heimilið er undirlagt heilu sunnudagana af syrgjendum, hinum leiðu. Þetta þekkja flestir foreldrar, þessa togstreitu milli einkalífs og starfslífs.

Ég hef haldið að kirkjan væri stofnun, m.a.s. ríkisstofnun á fjárlögum án þess að hafa gaumgæft þau. Ég setti þjóðk í leitarorð í nýju lögunum og fann þetta:

7.4 Að semja um afhendingu kirkjulóða og kirkjugarða á ríkisjörðum til þjóðkirkjunnar. (bls. 12)

Undir innanríkisráðuneyti er þetta:

06-701 Þjóðkirkja

Þar má skilja að almennur rekstur á biskupi Íslands sé upp á 1.676 milljónir en vegna sértekna sé kostnaður ríkissjóðs 1.439 milljónir.

Aðeins neðar er liðurinn:

06-735 Sóknargjöld

Og neðst í honum:

Greitt úr ríkissjóði . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  . . . . 1.994,0

Liðurinn 06-736 Jöfnunarsjóður sókna fær 310,8 milljónir.

Á bls. 174 er séryfirlit um hagræna skiptingu gjalda í A-hluta 2013 og þar er liðurinn

Framlag til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga .......................................... 2.545,0

Mér finnst mér töluverð vorkunn þótt ég hafi haldið að kirkjan væri á forræði ríkisins. Og nú væri vel þegið að rannsóknarblaðamenn, eða bara blaðamenn, færu á stúfana og kæmust að því, fyrir mig, af hverju kirkjan á svo margar og stórar jarðir, m.a. skilst mér Garðabæ og Seltjarnarnes, af hverju gerður var eilífur samningur árið 1996 um að ríkið hafi afnot af kirkjujörðum en greiði í staðinn laun presta, af hverju ríkið innheimtir sóknargjöld (eins og hver annar banki), heldur 20% eftir og skilar kirkjunni bara 80%. Eða leiðrétti mig hafi ég tekið skakkt eftir eða fengið rangar upplýsingar úr nærumhverfi mínu.

Ég ber ekki traust til kirkjunnar sem stofnunar þótt ég viti um margt gott fólk innan vébanda hennar. Það kemur mér fyrir sjónir sem skinhelgi þegar hún ætlar að safna fyrir Landspítalann - nema hún skeri verulega niður eigin útgjöld og láti það fé af hendi rakna til þess sama Landspítala.

Næst reikna ég með að kirkjan safni fyrir Rauða krossinn nema Rauði krossinn safni kannski fyrir þjóðkirkjuna.


Ein af bókunum

Þvílík vonbrigði. Þegar ég byrjaði á Unu var ég full eftirvæntingar og var þá ekki einu sinni búin að sjá þetta myndbrot sem ég hlekkjaði hér í. Tryllir, spennusaga, Óttar, flinkur penni, bráðskemmtileg saga hafði einhver sagt. Ó, en dapurlegt að vera svo á öndverðum meiði.

Sagan byrjaði ekkert illa. Fyrstu 20 blaðsíðurnar lofuðu frekar góðu. Það er að hluta til smekksatriði hvernig manni finnst takast til með bókmenntir en ég trúi ekki að nokkur myndi deila í fyllstu alvöru við mig um það að í bókinni Unu er alltof mikið útskýrt, tilfinningar túlkaðar, lesandanum sjálfum látið of lítið eftir af upplifuninni.

Söguþráðurinn er ótrúverðugur en það er allt í lagi, hann á að vera draugalegur og skáldsagnakenndur. Una er tæplega þrítug og á son á fimmta árinu sem hún „týnir“ í skyndilegum snjóbyl á Reykjanesi. Næsta árið gerir hún næstum ekkert annað en leita hans, fer iðulega á staðinn og skoðar gjótur og sprungur í kring, fer á lögreglustöðina með nýjar upplýsingar og spyr um nýjustu upplýsingar lögreglunnar sem eru aldrei neinar, er vakin og sofin - já, ekki síst sofandi einmitt að leita Péturs.

Það er víst byrjað að kvikmynda söguna og sýnishornið lofar góðu. Kvikmyndir geta verið lélegar en þær geta ekki gengið eins langt og skrifaður texti í að mata áhorfandann á tilfinningum þannig að ég held enn að myndin geti orðið spennandi.

Æ, ég er eitthvað svo sorrí yfir að hafa ekki kunnað að meta Unu. 


Grúppía Johnsdóttir - Ingimaría Öndólfsdóttir - Þúfa Mekkinósdóttir - Stefanía Elvisdóttir

Mannanafnanefnd starfar eftir lögum nr. 45/1996. Í 5. gr. stendur:

Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Þetta síðasta er augljóst smekksatriði og það er ekki hægt að deila um smekk. Er það nokkuð?


HÍ að safna fyrir HR?

Skattar eiga að fara í samneysluna og til að rétta hag þeirra sem koma mjög óréttir út úr lífsbaráttunni. Þar á meðal er sjúkrahúsþjónusta.

Það finnst mér.

Ef kirkjan ætlar að leggja gott til Landspítalans á hún bara að taka af aflafé sínu. Það að kirkjan ætli að ganga um með bauk fyrir Landspítalann er álíka krúttlegt og að Fjölskylduhjálpin stæði fyrir söfnun handa mæðrastyrksnefnd eða sundlaug Álftaness safnaði fé handa grunnskólanum í Garðabæ.

Ég borga skatta og það með gleði. En ég sé samt eftir aurunum mínum sem fara í yfirbyggingu þjóðkirkjunnar.


Að rökstyðja - eða ekki

Mér finnst áherslan á rök og málefni hafa verið gegnumgangandi í skólagöngu minni, hvort sem ég hef verið nemandi eða kennari. Að vísu dettur mér núna fyrst í hug undantekning þar á. Í ensku í 2. bekk í menntaskóla lásum við einhverja sögu um mann sem vildi helst flytja úr dreifbýli til höfuðborgarinnar en foreldrar hans vildu að hann tæki við búskapnum. Kennarinn spurði: Hvað á ungi maðurinn að gera? Ég man ekki lengur söguna svo gjörla en sagði að mér fyndist að hann ætti að gera það sem hugur hans stæði til, ef til vill með þeim rökum að hann yrði aldrei almennilegur bóndi ef hann hefði ekki áhuga á því hlutskipti.

Kennarinn: Nei, svarið er rangt.

En sem sagt, almennt séð hefur áherslan verið á rök og kennarar mínir verið til í að skoðanir nemenda væru aðrar ef einhverjar málefnalegar ástæður væru fyrir því. Og þannig minnist ég sjálfrar mín sem kennara og þannig held ég að ég sé þenkjandi.

Þess vegna hefur mér líka alltaf fundist dálítið sérkennilegt að þegar maður er ánægður, t.d. með bíómynd eða leiksýningu, gerir fólk sig bara ánægt með það „svar“ en ef maður lýsir yfir óánægju er spurt hvað hafi verið að.

Þetta fór ég að hugsa þegar ég las beittan og meitlaðan pistil Sifjar Sigmarsdóttur í Fréttablaðinu áðan. Orðfæri í áramótaskaupinu sem tekið var beint úr athugasemdakerfi DV fór fyrir brjóstið á ýmsum áhorfendum. Það er ekkert skrýtið en vandinn er ekki miðillinn heldur fólkið sem talar svona og skeytir engu þótt tilfinningar séu særðar og sóma ofboðið. Og pistill Sifjar er um Hildi Lilliendahl, venjulega reykvíska konu sem lætur ekki ganga yfir sig heldur svarar fyrir sig með jafnrétti og heiðarleika að leiðarljósi. En þegar ég á að rökstyðja af hverju mér finnst Hildur vel komin að titlinum hetja ársins - að öðrum hæfum ólöstuðum vitaskuld - er það dálítið vandasamt.

Ég þekki Hildi ekkert nema í gegnum vefmiðla, hef aldrei hitt hana og veit ekkert hvernig hún er á heimili eða í vinnu. En hún virðist réttsýn og í jafnvægi, full af baráttuþreki og samt með húmorinn í lagi og í Kastljósi kvöldsins kom hún mér fyrir sjónir eins og manneskja með fæturna á jörðinni. Ég veit það ekki, kannski er þetta varla rökstuðningur af því að ég þekki hana bara úr fjarlægð en dáist samt að því sem hún lætur sig varða og hvernig hún gerir það. 

Mér finnst það sannarlega ekki um allt fólk sem er áberandi í þjóðlífinu en læt mér samt ekki detta í hug að skíta það út, síst af öllu með dylgjum og fúkyrðum - og síst af öllu á netinu sem geymir allt og er vitnisburður um manns innri mann.


Fálki bjálki og björgunarsveitirnar

Það er skemmtileg tilviljun að tvisvar á ári skuli einmitt 10 vandaðir einstaklingar eiga skilið að fá fálkaorðuna á Íslandi. Eina huggun mín er að ég kannast bara við tvo einstaklinga núna og þá er von til þess að útvaldir hafa fengið hana í alvörunni fyrir að gera eitthvað af hugsjón og ekki bara fyrir að mæta í vinnuna sem ég hef svo lesið um í blöðunum.

Einhvern veginn finnst mér Reykvíkingur ársins fanga betur þessa viðurkenningarhugsun og það endist sennilega bara í nokkur ár, þá verður sú viðurkenning líka orðin að stofnun.

Núna um áramótin hefur mikið verið skrafað um björgunarsveitirnar og kaup á flugeldum, fólk verið hvatt til þess að skipta við björgunarsveitirnar úr því að þær væru ekki á fjárlögum. Og sumir hafa hvatt til þess að þær færu á fjárlög. Þá hafa aðrir orðið til þess að benda á að slökkvilið (sem einu sinni var víst skipað sjálfboðaliðum) og lögreglan væru á fjárlögum og sættu þar miklu fjársvelti og niðurskurði.

Almennt séð finnst mér að almannaþjónusta eigi að vera greidd af ríkinu, sköttunum okkar, en sá kraftur sem einkennir björgunarsveitirnar sem sjálfsprottin samtök er svo fagur og verðskuldar svo mikla samkennd frá okkur hinum sem ekki erum í þeim að við verðum bara að styrkja þær beint.

Þetta finnst mér eftir að hafa hugleitt málið um áramótin.


,,Með einum eða öðrum hætti"

Mál málanna á nýársdegi, áramótaskaupið.

Mér finnst að í áramótaskaupinu eigi að vera eitthvað fyrir alla aldurshópa, kannski ekki öll áhugasvið en það á að vera fjölskylduvænt. Mér finnst að pólitískir brandarar þurfi helst að vera í tveimur lögum, efnislegir og útlitslegir, þannig að þeir sem fylgjast með pólitík nái hinu efnislega en hinir geti að minnsta kosti hlegið að einhvers konar fíflalátum.

Ég sé á Facebook að menn hafa skiptar skoðanir á þessu og eins og gefur að skilja eru menn ekki á einu máli um fynd skaupsins.

Nú kann að vera að ég setji mig á háan hest en mér var oft skemmt í gærkvöldi. „Ólafs Ragnars style“ fannst mér fyndið og ég er ánægð með að höfundar hafi notað þessa nálgun. Mér finnst Sigrún Edda hins vegar ekki nógu lík Dorrit. Jóhannes Haukur náði til dæmis Má seðlabankastjóra alveg yfirgengilega vel og þau atriði fannst mér alveg fyndin líka. Flestir unglingar vissu hins vegar (örugglega) ekkert hvað var í gangi.

Athugasemdakerfi DV er oft yfirfullt af hroða (en hvað með Eyjuna eða Pressuna?) en mér hefði fundist nóg að segja þann „brandara“ einu sinni. Ég veit bara ekki hvort þeir sem á þurfa að halda taki hann til sín.

Það er æ erfiðara að halda dampi í þessu árvissa gríni þegar menn grínast opinberlega allt árið, sbr. Spaugstofuna, Spurningabombuna, Hraðfréttir, íþróttafréttir RÚV (múhahhaha, samt aðeins of oft), Mið-Ísland, Villa naglbít og Útsvar (hmm).

Það er samt frekar auðvelt að gera mér til hæfis ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband