Stefán Jón í Vikulokunum

Ég trúi ekki að ég hafi misst af Þjóðarsálinni á Rás 2 í gær en guðsblessunarlega er hún geymd í Sarpinum þannig að ég get hlustað á eftir. Og guðsblessunarlega er Stefán Jón í Vikulokunum núna með Björgu Evu og Þorgeiri, án þess að ég sé að halla á þau, því að Stefán Jón er svo einstaklega lausnamiðaður. Hann er alltaf með staðreyndir á hreinu og ég trúi því þegar hann segir að framtíðarsýnin sé sú að sameina RÚV Stöð 2 (Þorgeir gæti stöðu sinnar vegna ekki talað svona þótt hann væri jafn sannfærður og Stefán Jón) og Skjánum og setja undir peningaöfl. Landsbankann?

Þetta er ekki samsæri, þetta er veruleiki sem er til þess fallinn að hafa áhrif á skoðanir fólks. Það er áhyggjuefni og nú er ég skelkuð. Niðurskurðurinn á RÚV stafar ekki af peningaskorti - enda ekki kurl komin til grafar með fjárlagafrumvarpið sem enginn veit fyrir víst hvenær verður rætt og svo samþykkt og þá í hvaða mynd.

Ég sá þetta ekki strax, en er þetta ekki það sem Helgi Seljan spurði útvarpsstjóra um?


Verkalýðinn má skikka

Þegar kom fram á ofanverða 19. öld var barlómur bænda sakir vinnuhjúavandræða svo hávær að Alþingi afréð að lögfesta lausamennsku. Tilskipunin um lausamennsku 1863 mælti svo fyrir að hver sá sem ekki hefði fimm hundruð á landsvísu í árságóða af fasteign eða öðru fé væri skyldur til að ráða sig í vist eða leysa lausamennskubréf að öðrum kosti. Engin önnur stétt í landinu varð að þola viðlíka frelsisskerðingu og alþýðufólk sem átti hvorki fasteignir né fé í lausum aurum og varð að velja á milli vistar hjúsins eða öryggisleysis lausamennskunnar.

Við brún nýs dags - saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906-1930, bls. 25

Mér finnst ég sjá eitthvað þessu líkt í dílnum milli ferðaskrifstofa og leiðsögumanna. Leiðsögumaður getur fastráðið sig upp á sultarkjör (262.000 á mánuði í efsta flokki og kannski bara frá maí fram í október) eða harkað. Vandinn er samt sá að harkið gefur ekkert endilega meira í aðra hönd að öðru leyti en því að menn geta á vissum árstímum unnið myrkranna á milli. Og það dimmir frekar seint á sumrin ...


Í fréttum er ýmislegt

Nú er engin gúrkutíð. Borgarbúar eru heilt yfir ánægðir með borgarstjórann. Berlusconi skandalíserar. 9.300 eru án atvinnu. ASÍ (leiðsögumenn meðal annarra) stefna að árskjarasamningi (sem sagt stuttum) við SA vegna óvissu í efnahagsmálum. Verða verkföll? Hvað eru kennarar að hugsa? St. Jósefsspítali stendur enn tómur og tappalaus í Hafnarfirði. Björt framtíð vill leyfa foreldrum að skíra börnin sín Y eða @. Ókei, ég er trúlega að oftúlka. Ég heyrði frétt af svínshausum sem voru skildir eftir á lóð múslima í Safamýri en nú finn ég hana hvergi. Ég fordæmi þá hegðun en kannski skýrist hún af því að vitleysingar eru á sveimi. Vitleysislega hegðun má samt ekki leiða hjá sér í þeirri von að fólk vitkist og verði skynsamt og hæfilega umburðarlynt án tilsagnar.

Frétt dagsins er samt af uppsögnunum hjá Ríkisútvarpinu. Ég var búin að fá áskorun um að skrifa undir mótmælaskjal áður en ég vissi almennilega hvað var í gangi. Ef ég hefði lesið fjárlagafrumvarpið almennilega hefði ég sennilega vitað af niðurskurðinum en samt ekki endilega vitað af viðbrögðum Páls Magnússonar. Reyndar stendur bara í lið 02-971 að rúmlega 3,5 milljarðar séu greiddir úr ríkissjóði en ekki hvað var í fyrra þannig að þótt ég hefði lesið frumvarpið eitt og sér hefði það ekki dugað til.

Og hvað er þá í gangi? Ríkisútvarpið fær minna til ráðstöfunar en það hefur haft. Útvarpsstjóri segist forgangsraða og ekki skera flatt niður. Hvað velur hann að skera niður? Það ætti að vera áhugavert fyrir alla að skoða og nú ætla ég að reyna að glöggva mig á þessu út frá sjálfri mér eins og ég sé að margir hafa gert í dag.

Ég hlusta mikið á útvarp, helst talað mál. Ekki lesið mál, ekki tónlist, ég hlusta mest á talað mál. Þar er áhugasvið mitt. Ég hlusta á spjallþætti, bæði morgun- og síðdegisútvarp RÚV og Bylgjunnar. Ég á marga uppáhaldsþætti, s.s. Órangútaninn á Rás tvö á laugardagsmorgnum, Vikulokin á Rás eitt á laugardagsmorgnum (innbyrðis samkeppni þar), Grínista hringborðsins (samt mistækur þáttur), horfði alltaf á Silfur Egils, hlusta alltaf á Villa naglbít á sunnudögum - ókei, ég er ansi mikill notandi. Ég á eftir að sakna Jóhannesar Kr. og mjög mikið Margrétar Erlu Maack, dálítið Guffa og Lindu. Ég sé núna að breytt dagskrárgerð á eftir að hafa áhrif á líf mitt.

En mín vegna hefði mátt leggja íþróttadeildina niður. Hver var eiginlega Páli til ráðgjafar í þessu máli? Ég hefði aldrei lagt til að hætt yrði að segja íþróttafréttir þótt mér sé sjálfri sama um þær, ég hefði bara tónað þær niður í 5-10% af því sem nú er. Upptalning á markatölum er hvort eð er meira fyrir skrifuðu miðlana, ekki þar sem textinn er fluttur af munni fram.

Nefskattur, afnotagjöld, framlög, beingreiðslur - ég er búin að sjá umræðu um að það hafi verið óráð af leggja af afnotagjöldin. Voru þau eyrnamerkt Ríkisútvarpinu?

Af því að ég er hvort eð er komin út um víðan völl ætla ég að láta eftir mér að hugsa þetta upphátt: Hefði ekki verið nær að draga úr framlögum til þjóðkirkjunnar? Margt í útvarpinu hefur meira sáluhjálpargildi fyrir mig en illa sóttar messur í nafni guðs sem ég trúi ekki á.

Og nú var verið að benda mér á að laun útvarpsstjóra voru leiðrétt, eins og það heitir, vorið 2012 þannig að hann lepur ekki dauðann úr skel. Er hann verðugur? Gerir hann gæfumuninn? Léttir hann mönnum lífið, styttir hann stundirnar fólki sem situr heima hjá sér og getur ekki annað?

Ég er farin að hallast að því að það sé vitlaust gefið í þessum útvarpsmálum og er ég þó að reyna að vera umburðarlyndið uppmálað.

... sagð'ún meðan hún hlustaði á næturútvarp Ríkisútvarpsins. Skrens, engar fréttir klukkan eitt eftir miðnætti?


Að læka eða ekki að læka

Allir eiga rétt á skoðunum sínum. Reyndar finnst mér hvað dýrmætast í fari fólks að það hafi skoðanir en auðvitað er ég ekki alltaf sammála öllum, skárra væri það. Ég ætlast heldur ekki til að fólk hafi skoðanir á öllum sköpuðum hlutum en stundum skautar fólk framhjá því að hafa eðlilega skoðun og láta hana í ljósi. Það vottar sossum fyrir því að fólk vilji ekki axla ábyrgð á skoðunum sínum og þykist þess vegna ekki hafa þær.

Það held ég alltént.

En felur læk á Facebook ekki í sér skoðun? Hvati fólks getur verið ýmis, það kinkar kolli til pennans og segist hafa lesið eða séð færsluna. Ef það lækar til að styðja viðkomandi vin, fjölskyldumeðlim eða félaga hlýtur það að minnsta kosti að vera þeirrar skoðunar að viðkomandi penni hafi nokkuð til síns máls, í það skiptið eða allajafna.

Ég er nefnilega enn að hugsa um leiðara Friðriku Benónýsdóttur í Fréttablaðinu í morgun. Ég sleppi því stundum að læka eitthvað af því að ég óttast - já - að það mætti rangtúlka. Ég er í þannig stöðu að ég kæri mig ekki um að vera stimpluð á þennan eða hinn veginn án þess að fá tækifæri til að standa fyrir máli mínu. Læk eru lögð út, það er óhjákvæmilegt. Þess vegna finnst mér að fólk eigi að hugsa sig vel um áður en það lækar andúð, köpuryrði, stóryrði, ávirðingar - og mér finnst auðvitað að fólk eigi ekki að slá fram sleggjudómum, haturspósti, órökstuddum yfirlýsingum og fúkyrðum.

Samt finnst mér að fólk eigi að segja það sem því finnst - bara með rökum. 


Dagskrárgerð RÚV

Ég get fyrirgefið sjónvarpinu ýmislegt eftir að hafa horft á Orðbragð í gærkvöldi. Hugmyndaflugið, grafíkin, útskýringarnar, húmorinn - má ég fá meira að heyra, takk.

Sveinsstykki Arnars Jónssonar

Það var með hálfum huga sem ég fór á Sveinsstykkið í Þjóðleikhúsinu. Fyrst aðalgagnrýnin: Hljómburðurinn var ekki nógu góður, ég heyrði ekki alveg allt og mamma mín sem er aðeins farin að tapa heyrn missti af ansi miklu. Eins manns sýning á stóra sviðinu þar sem hann talar inn á milli inn á við kallar á betri hljóðmögnun (ef hún var einhver).

Textinn, uppbyggingin, andstæðurnar í Sveini Kristinssyni, yfirlætið í bland við uppgjöfina - allt þetta fannst mér ganga upp. Það er frontur á okkur öllum, við viljum að minnsta kosti flest koma vel fyrir og ég trúi flestum til að fegra aðstæður aðeins. Sveinn gerði það svikalaust en þegar hann horfði inn á við og lét sér áhorfendur í léttu rúmi liggja kom á daginn að margt hafði verið honum mótdrægt. Titlar geta verið svo grefilli innistæðulausir.

Arnar sjálfur var hylltur í lokin (ein sýning eftir) og hann átti klappið skuldlaust. Mér fannst honum ekki liggja nógu hátt rómur, eins og fram er komið, en fjölbreytni í raddbeitingu og hollningu, látbragði og leik var öll til fyrirmyndar. Ég trúi að hann hefði hangið á löppunum í leikfimigrind ef leikstjórinn hefði sett honum það fyrir, svo lipulega kemur hann mér fyrir sjónir.

Ég er ekki lítið ánægð með að láta telja mig á að fara í Þjóðleikhúsið í kvöld.


Leiðsögumenn kosta

Ég var að leita að viðtali við sjálfa mig og fann í leiðinni grein eftir mig sem birtist í Mogganum 2005. Það er sárt að horfast í augu við það að kjör leiðsögumanna hafa ekki skánað hætishót. Ætli það verði aldrei nóg að beita rökum og málefnalegum skrifum? Þarf verklegar aðgerðir?
 
Leiðsögumenn í lausagangi
FÖSTUDAGINN 8. júlí birti Morgunblaðið grein eftir mig um kjör leiðsögumanna. Ég var ranglega titluð formaður Félags leiðsögumanna en að öðru leyti var allt rétt sem þar kom fram.

Laust fyrir hádegi sama dag var hringt í mig frá ferðaskrifstofu sem hafði bókað mig í dagsferð sunnudaginn 10. júlí og mér sagt að ekki yrði þörf fyrir mig. Frómt frá sagt hentaði það prýðilega og ég sagði glaðlega: Er ég í fríi á sunnudaginn? Já, sagði stúlkan, og bætti svo við að hugsanlega þyrftu þau mig ekki heldur þann 4. ágúst. „"Við verðum bara að sjá til.“

Gefum okkur að uppsögnin stafi ekki af því að ég hef sagt skoðun mína á kjörum leiðsögumanna. Þá útskýrir þetta dæmi prýðilega atvinnuóöryggi leiðsögumanna. Á vorin eru leiðsögumenn nefnilega beðnir um að skrá sig í ferðir sem þeir vilja fara í, dagsferðir eða lengri ferðir. Í byrjun sumars eru þær meira og minna staðfestar og svo gerist það iðulega að þeim er sagt upp þegar líður nær brottfarardegi. Segi ferðaskrifstofan langferð upp með fimm daga fyrirvara er hún laus allra mála, ef styttra er í brottför þarf hún að borga leiðsögumanninum laun eða útvega honum aðra ferð.

Þegar um dagsferðir er að ræða nægir að segja leiðsögumanni upp hverri ferð með 20 tíma fyrirvara. Þannig getur launasumarið farið í súginn ef bókanir eru minni en áætlað er. Maður gæti ætlað að þessu öryggisleysi og dauðum tíma væri mætt með hærri launum en eins og lesendur fyrri greinarinnar og allir leiðsögumenn vita er sú ekki raunin.

Í viðleitni til þess að hefja umræðuna upp fyrir persónu mína vil ég taka fram að leiðsögumenn með langtum meiri reynslu en ég sitja líka við þetta sama borð. Sumir sátu áður við þetta borð en eru staðnir upp frá því - þegjandi og hljóðlaust hafa þeir horfið úr stéttinni vegna þess að þeir hafa, sumir hverjir, uppgötvað það eftir dygga þjónustu að þeir eiga engan rétt. Við erum öll meira og minna í lausagangi. Leiðsögumaðurinn er eins og bíll í hlutlausum alla háönnina og það ræðst af bókunum og e.t.v. geðþótta ferðarekenda hvort hann er settur í gír og honum ekið eða drepið á vélinni. Og mig undrar ef leiðsögumenn láta bjóða sér það öllu lengur.

Ég get nefnt dæmi um leiðsögumann sem starfaði hjá sama ferðaþjónustufyrirtækinu í tæp 20 sumur, tók svo rútupróf og starfaði í nokkur ár við ökuleiðsögn. Hann var heppinn og veiktist aldrei en svo slasaðist ungur sonur hans og lá í nokkra daga á gjörgæsludeild. Viðbrögð vinnuveitandans voru þau að greiða honum einn og hálfan dag í lok þeirrar ferðar sem hann varð að fara úr en síðan ekki söguna meir.

Öryggisleysið var algjört og hann ákvað að hverfa úr stéttinni, orðalaust.

Ég er svo heppin að vera í öðru starfi, gríðarlega skemmtilegu og gefandi starfi þar sem ég nýt menntunar minnar. Ég hef bara verið við leiðsögn í fríunum mínum og fundist það líka mjög skemmtilegt. Þeir sem hafa unað sér á vertíðum ættu að geta skilið þegar ég segi að tilfinningin hefur stundum verið eins og maður sé að bjarga verðmætum, svo gegndarlaus er ágangurinn í þjónustu leiðsögumanna á álagstímum. Það er dásamlegt að hitta forvitna útlendinga sem verða agndofa yfir náttúru landsins, sögu þess og þrautseigju Íslendinga, svara spurningum og leggja til samhengi hlutanna. Það er líka ögrandi að lenda í vandræðum með útbúnað, t.d. rútuna sjálfa, takast á við þau og hafa betur, gaman þegar manni tekst að sætta gestina við að hótelglugginn snúi út að bílastæðinu en ekki fjallinu. Allir leiðsögumenn hljóta að þekkja vellíðunina sem fylgir því að ná árangri þegar vel tekst að finna lausnir. En oftast reynir ekki á þann þáttinn, oftast nær finnst mér fólk staðráðið í að eiga ánægjulegan tíma í fríinu sínu.

Og það er gaman að taka þátt í því.

Þess vegna er leiðinlegt að hverfa úr starfi sem í eðli sínu er svo skemmtilegt og gefandi. Og það er sorglegt fyrir ferðaþjónustuna þegar hæft fólk dregur sig þegjandi í hlé. Er ekki tímabært að breyta ástandinu?

Höfundur var formaður Félags leiðsögumanna.


Viðsemjandi minn, Samtök atvinnulífsins

Nú er ég spennt. Samtök atvinnulífsins auglýsa, kannski smátúlkað, að allt umfram 2% launahækkun hleypi af stað verðbólgu og taki launahækkunina strax til baka; stöðugleikinn og kaupmáttur - ha? - verði aðeins tryggður með hóflegum launakröfum.

Auðvitað vil ég alls ekki verða persónuleg þannig að ég ætla að taka dæmi af öðrum leiðsögumanni en mér. Sá leiðsögumaður vinnur 173,33 dagvinnutíma í mánuði og fær brúttó fyrir 262.000 - æ, fyrirgefið, 334.000 með orlofi, útlögðum kostnaði vegna fata- og bókakaupa (endurnýjunar er þörf á skóm, úlpum, kannski kortum og áttavitum), orlofsuppbót, desemberuppbót og veikindadögum. Kostnaðarliðirnir eru m.a.s. skattlagðir sem hlýtur að vera einhvers konar sniðganga við skattalög.

Leiðsögumaðurinn í sýnidæminu er heppinn, fær vinnu alla dagana í janúar, veit m.a.s. 5. janúar að hann fer í Borgarfjörðinn 25. janúar, getur spókað sig á sandölum í 20°C, þarf aldrei að gera sér aukaferð (launalausa í greiðaskyni) á ferðaskrifstofuna til að sækja gögn, systkini hans fara í foreldraviðtölin vegna barnanna og ferðirnar byrja alltaf á sama staðnum og á sama tíma.

Þegar búið er að reikna skattinn og launatengd gjöld frá fær hann u.þ.b. 245.000 útborgað. Nú, hva, hann á íbúðina skuldlausa þannig að hann þarf bara að borga mat, rafmagn, hita og kostnað vegna barnanna og á 100.000 krónur afgangs eftir mánuðinn sem hann getur lagt fyrir til að gera eitthvað með börnunum næsta sumar. Það er alveg hellingur sem hægt er að gera fyrir 100.000 krónur því að kaupmátturinn er svo mikill vegna stöðugleikans - eins og við vitum.

Það er verst að í febrúar er hann ekki svona heppinn. Þá verður eldgos sem skelfir hópana sem hann átti að taka á móti og hann vinnur bara 10 daga þótt hann sé búinn að gera allar sömu ráðstafanir nema núna ætlar pabbi hans að hlaupa í skarðið þegar börnunum liggur mikið á. Bömmer, þvottavélin bilar og hann þarf að láta gera við hana. Honum er illt í einni tönninni en hann er svo  heppinn að vera í launalausu fríi og geta farið með 15.000 á greiðslukortinu til tannlæknisins síns. Útborguð laun verða 122.000 og hann þarf að taka af því sem hann lagði til hliðar í janúar.

Ég þekki engan leiðsögumann sem vinnur 8 tíma á dag í 21,7 daga í mánuði, frekar en endilega í öðrum stéttum. Dagsferðirnar eru oft 10 tímar, allt upp í 16 tíma á einum og sama deginum í hvataferðunum. Þetta er hálfgerð tarnavinna sem sumum hentar ugglaust mjög vel en er dálítið óheppileg fyrir fjölskyldufólk. Ókei, þá er kannski bara fínt að fólk sem á engin eða uppkomin börn sinni leiðsögn. Er það rökrétt? Smækkar það ekki tæknilega fullmikið úrvalið og er álíka rökrétt og að aðeins morgunhanar mæti í vinnu fyrir klukkan níu á morgnana?

Ég virðist kannski komin út fyrir efnið en man þó enn hvað ég var að hugsa þegar ég byrjaði að skrifa áðan. Fólkið í framvarðarsveit Samtaka atvinnulífsins er færra en mannmörgu stéttirnar í Starfsgreinasambandinu, hjúkrunarstéttirnar, kennarar og meira að segja í Félagi leiðsögumanna, en það hefur fín laun út af ábyrgð, löngum vinnudögum og fjarvistum frá heimili og fjölskyldu - en býr hvorki við kröpp kjör né óvissu um atvinnuástandið á morgun eða í næsta mánuði. Það þarf ekki einu sinni að kaupa pennana, skrifblokkirnar eða snjallsímana sína sjálft. Er ég að ýkja eitthvað?

Ykkur að segja trúi ég ekki stöku orði úr þessari auglýsingu. Og þar að auki koma laun leiðsögumanna að utan. Vegna okkar kemur meiri gjaldeyrir inn í landið. Átta Samtök atvinnulífsins sig ekki á þessu? 


Meðvirkur leiðsögumaður

Sá leiðsögumaður, eða hvaða láglaunaþegi sem er, sem rukkar ekki unninn tíma af því að hann „nennir því ekki“ er meðvirkur. Af hverju nennir hann því ekki? Af því að atvinnuöryggið er lítið og sumir leiðsögumenn sem hafa sagt: „Ég var ekki búin/n í vinnunni fyrr en kl. 23 af því að ég átti að fara með farþegana í siglingu / út að borða / í göngutúr eða þurfti að sinna veikum/slösuðum farþega og fer fram á að fá tímann greiddan“ hafa kannski fengið tímann greiddan eftir eitthvert nöldur - en svo er ekki hringt meir.

Obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn/verkefnaráðinn og þótt hann standi sig vel er ef til vill gengið framhjá honum ef hann fer fram á að fá greidd laun fyrir raununninn tíma. Í hringferðum erum við ekki á bakvakt alla nóttina þótt sumt starfsfólk ferðaskrifstofa líti svo á að það eigi að geta náð í leiðsögumanninn sinn hvenær sem er.

Ég heyrði alls kyns sögur á félagsfundi Félags leiðsögumanna í kvöld og hallast að því að við séum ansi meðvirk. Ég er sjálf að gefast upp á þessari skemmtilegu vinnu og leyfi mér að gera talsverðar launakröfur ef einhver vill ráða mig í verkefni. Sum ferðaþjónustufyrirtæki hafa metnað fyrir hönd fyrirtækja sinna og ráða skólagengna og vana leiðsögumenn og borga sanngjarnt en sum reyna endalaust að koma sér hjá því. Ég veit um fyrirtæki sem sprakk á limminu eftir að hafa ráðið ómögulega manneskju af því að það vildi ekki borga það sem þurfti og manneskjan sem tók hringferðina að sér kunni ekki almennilega tungumálið og klikkaði á ýmsu smálegu sem varð - 10 fingur upp til guðs - til þess að erlenda ferðaskrifstofan fann sér annan samstarfsaðila á Íslandi.

Vonandi tekst leiðsögumönnum og SAF að ná þannig lendingu í kjaraviðræðunum að ekki flýi fleiri leiðsögumenn.

1.512 krónur í efsta dagvinnuflokki er alltof lágt kaup. Það þýðir 262.075 krónur í mánaðarlaun. Lágmarkslaun hjá Eflingu eru 211.941 krónur á mánuði og þá verður starfsmaðurinn að vera orðinn 18 ára. Leiðsögumenn hafa verið í eitt til eitt og hálft ár í leiðsögunámi, þurfa að kunna skil á ýmsu, tala tungumál og vera minnst 21 árs - og leiðsögumenn sem eru í efsta flokki eru alla jafna bæði eldri og reyndari en svo. Og lausráðnir með sveiflukennd verkefni. Okkur telst að auki til að upp undir 80% leiðsögumanna séu með háskólagráðu í einhverju fagi.

Jamm, við erum meðvirk að sætta okkur við eina einustu klukkustund á 1.512 krónur á tímann, að ég tali ekki um tímana sem við sinnum farþegum án þess að fá greidda eina krónu. Og lausnin er ekki að þessi eða hinn leiðsögumaðurinn hætti, túristarnir halda áfram að koma og hver á að sinna þeim og skemmta ef allir forða sér bara úr stéttinni? 

Spurningin sem ég spyr mig er: Hvað er ásættanlegt?


Löggilding löggjafans

Leiðsögumenn hafa barist fyrir löggildingu áratugum saman. Auðvitað lítum við svo á að kjör okkar myndu batna við að fá starfsheitið löggilt þannig að menntaðir leiðsögumenn hefðu ótvíræðan forgang að störfunum og að starfsöryggið myndi þar með aukast, en við erum líka með hag ferðaþjónustunnar og náttúrunnar í huga.

Samvinna í ferðaþjónustu skiptir máli. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og spár eru um framhald þar á. Ferðamenn koma margir á sumrin en þeim fjölgar hratt á veturna líka. Mér skilst að í fyrrakvöld hafi einir 30 leiðsögumenn verið í norðurljósaferð. Ég hef ekkert sérstakt dálæti á þeim sjálf, maður fer út í myrkri og oft kulda og svo er undir hælinn lagt hvort maður finnur einhver ljós. Ef þau sýna sig verða þeir glaðir sem komu til að sjá þau - en ef ekki þarf að útskýra fyrir mörgum hvers vegna þau héldu sig til hlés og skemmta þeim með einhverju öðru. Ferðirnar geta teygst upp í eina sex tíma og ég hef sossum heyrt um norðurljósaferð með ein hjón sem endaði á Akureyri. Þau lögðu af stað frá Reykjavík. Þetta var langtímadraumur hjóna á brúðkaupsafmælinu og leiðsögumaðurinn vissi hvar ljósin voru líkleg út frá norðurljósaspá og eigin reynslu og hann uppfyllti drauminn. Þau borguðu uppsett verð, það vantaði ekki í því tilfelli, en þetta er ekki alveg í boði þegar maður fer af stað með 60 manns í 70 sæta rútu.

Samvinna í ferðaþjónustu skiptir máli, sagði ég. Það reynir á starfsfólk á ferðaskrifstofunum sem hannar ferðirnar og selur þær, leiðsögumenn, bílstjóra, kokka, þjóna, þernur og miðasölufólk. En svo ég einbeiti mér að leiðsögumönnum þurfum við að kunna það tungumál sem við leiðsegjum á, þurfum að kunna skil á jarðfræði, jurtum, dýralífi, sögu, menningu, fréttum, líðandi stund, tónlistinni, fótboltanum, landinu þaðan sem fólkið kemur, lífeyriskerfinu, þjóðsögum og bröndurum. Við erum spurð um lyf sem eru unnin úr hrauni, verð á fræjum, flekakenninguna, Sigur rós, Of Monsters and Men, Evrópusambandið, hersetu - ha, enginn her? - almenningssamgöngur, verð í samanburði við hitt og þetta, uppskriftir, mosann, hraunið, hita sjávar, flóð og fjöru, elsta tréð, hæsta fjallstind, aðgengi að netinu, læsi - Hvað gerir fólk í þessum afskekktu sveitum eiginlega? - Hvernig getið þið átt svona marga stórmeistara í skák? - Af hverju flutti Bobby Fischer hingað og af hverju tókuð þið við honum? - Hvar á ég að borða í kvöld? - Hvernig er heilbrigðiskerfið/skattkerfið/skólakerfið? - Hvar er eiginlega kreppan? - Á ég að gefa þjórfé? - Hvar er verslun sem selur Nikita-vörur?

Ef einhver veikist þurfum við að veita lágmarkshjúkrun, skilning og samúð. Í kvöldmatnum á hótelunum í hringferðunum útskýrum við hvað er í matnum. Í morgunmatnum svörum við spurningum um hvað er framundan þótt við höfum tíundað það á leiðinni í náttstað deginum áður. Fólk er í sumarfríi og tekur ekki eftir öllu. Það er ekki í prófi og dettur út á mismunandi stöðum. - Á ég að hafa sunddótið uppi við í dag? Gönguskóna? Hvernig verður veðrið? - Sum þjóðerni skilja ekkert nema sitt eigið tungumál, t.d. Ítalir og Spánverjar, og þá vill það fólk hafa leiðsögumanninn með í hestaferðinni, siglingunni, jöklaferðinni á kvöldin - eftir kvöldmatinn ef því er að skipta.

Vondir dagar eru ekki í boði. Við verðum alltaf að vera í góðu skapi, taka öllum spurningum fagnandi og ekki svara í (of) löngu eða fræðilegu máli nema endrum og eins. Það er ekki gott að verða andvaka því að þá erum við illa upplögð daginn eftir, við megum ekki sofa yfir okkur því að þá er allt í voða. Við förum ekki til læknis í vinnutímanum - nei, þá tökum við frídag í það - við útréttum ekki í matartímanum því að þá erum við kannski að skoða eggin á Djúpavogi eða bryggjuna á Höfn í Hornafirði, að tygja okkur í göngu upp að Svartafossi eða erum í sjoppunni í Vík með farþega sem langar í heita súpu í hádeginu en kemst ekki að í annarri röð en þeirri sem selur íspinnana.

Ókei, ég skal láta gott heita.

Ef þú ert ekki  leiðsögumaður er eðlilegt að þú hugsir: Af hverju hættirðu ekki í þessu starfi? Af hverju fórstu í leiðsögunám? Og jafnvel: Geturðu þetta yfirleitt allt saman, veistu það sem þú telur upp?

Auðvitað eru leiðsögumenn mistækir og sumir verða aldrei góðir þótt þeir fari í skólann. En á góðum dögum er þetta svo skemmtilegt af því að veðrið er gott, ferðamennirnir glaðværir og áhugasamir og maður sjálfur sérlega í essinu sínu. Maður fær að miðla því sem manni finnst skemmtilegt, heldur við tungumálinu, fer úr bænum, gengur í fallegu náttúrunni með áhugasömu, fróðleiksfúsu, vel gefnu fólki og kynnist heimi annarra.

En fyrir 1.512 krónur á tímann í hæsta flokki í dagvinnu eru samt takmörk fyrir því hvað maður nýtur skemmtilegu daganna. Þess vegna er hröð velta í stéttinni, þess vegna stoppar margt fólk í eina viku eða eitt sumar, þess vegna tapast reynsla úr stéttinni, þess vegna eru svo margur nýútskrifaður leiðsögumaður á ferðinni á hverju sumri þangað til veruleikinn glottir við honum - hann lifir ekki af þessum launum á ársgrundvelli.

Við erum næstum öll lausráðin, réttara sagt verkefnaráðin, og án þeirra réttinda sem fastráðnir starfsmenn hafa. Og það kostar okkur mörg hundruð þúsund að læra til þessa starfs, 760.000 hjá Endurmenntun Háskóla Íslands en eitthvað minna hjá Leiðsöguskóla Íslands sem er hýstur í MK. Starfsöryggið er ekkert, (næstum) enginn er fastráðinn, veikindaréttur enginn.

En hey, félagið semur bara um lágmarkslaun og öllum leiðsögumönnum er guðvelkomið að semja um hærra kaup - ef ferðaskrifstofan vill borga meira.


Tímakaup lausráðins leiðsögumanns

Ferðaþjónustan er að verða heilsársatvinnugrein. Ferðaþjónustan er orðin stoð undir efnahagnum, skaffar gjaldeyri og er mikilvægt fag sem reynir á vetur, sumar, vor og haust. Sumarið er vissulega enn þyngst en nokkur fyrirtæki eru með dagsferðir árið um kring og ég þekki marga leiðsögumenn sem eru í lengri og styttri ferðum yfir vetrartímann, aðallega ökuleiðsögumenn. Nýliðinn október var til muna annasamari en október 2012. Sjálfsagt hafa fleiri og fleiri ráð á frekari ferðalögum, eru með óreglulegan vinnutíma, langar að sjá norðurljósin og svo held ég að tónlistarhátíðir eins og Iceland Airwaves skipti verulegu máli í því að laða fólk hingað á jaðartímum.

Ég er komin í kjaranefnd Félags leiðsögumanna og við erum að semja kröfugerð. Félagsmenn vilja hærri laun, (meira) starfsöryggi, undirbúningstíma greiddan, raunvinnutíma greiddan, lengri uppsagnarfrest ef ekki verður af ferð og orlofslaun greidd inn á sérstakan reikning. Leiðsögumenn komast ekki til læknis á vinnutíma, ekki með börn til læknis, ekki tannlæknis, geta ekki ráðstafað matartímanum að vild og geta ekki fylgt fólki til grafar. Ef við viljum gera þetta sem ég taldi upp verðum við að gera það á launalausum frídegi. Meira að segja veikindadaga þarf að sækja sérstaklega til félagsins en ekki vinnuveitandans af því að obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn. Sem betur fer er sístækkandi hópur í vinnu við leiðsögn allt árið - en samt lausráðinn.

Og taktu nú vel eftir: Tímakaupið fyrir leiðsögumann í efsta flokki er kr. 1.512.

Tímakaup fyrir lausráðinn leiðsögumann í efsta flokki með undirbúningstíma, bókagjaldi, fatagjaldi, orlofi, orlofsuppbót og desemberuppbót er kr. 1.930.

Ef við reiknum mánaðarlaun lausráðins leiðsögumanns, 173,3 tíma, eru dagvinnulaunin kr. 334.469 og þá, eins og fram er komið, förum við til læknis og allt það í okkar eigin tíma og fáum ekki greiddan orlofstíma. Ef við reiknum með að leiðsögumaður taki 24 daga sumarfrí eru mánaðarlaunin 303.653 krónur fyrir skatt (237.888 ef ég reikna kostnaðarliðina frá). Og það er algjörlega undir hælinn lagt hvort lausráðinn leiðsögumaður „fær“ vinnu alla þá daga sem hann vill vera í vinnu. Svo þarf hann að hafna vinnu þegar hún býðst af því að hann er búinn að ráðstafa deginum. Á annatíma yfir sumarið fá margir leiðsögumenn mörg símtöl sem hafa ekki í för með sér vinnu af því að við getum ekki verið í tveimur ferðum á sama tíma.

Starfsfólk á ferðaskrifstofum er líka hætt að vera hissa þegar því tekst ekki að manna ferðir. Ferðaskrifstofur eyða fúlgum fjár í að leita uppi leiðsögumenn á öllum tímum, mest þó sjálfsagt á álagstímum yfir sumarið. Það kostar bæði mannskap og símtöl sem þarf að borga fyrir beinharða peninga.

Er ekki tímabært að snúa olíuskipinu? Ég sé ekki alveg tilganginn í verkfalli, ég vil að menn ræði sig að niðurstöðu með rökum og í sátt. Allir sem þekkja til vita að launin eru of lág og starfsöryggið alltof lítið.


Hagræðingartillögur hagræðingarhópsins

Ég opnaði spennt skjalið með tillögunum 111 og skautaði yfir það. Ég viðurkenni að ég bjóst við tölulegum tillögum mældum í milljörðum en svo er ekki. Gott og vel. Ég er mjög skotin í tillögu 16:

16. Greiðslur til stjórnmálaflokka verði endurskoðaðar samhliða endurskoðun á lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

Eru stjórnmálaflokkar ekki frjáls félagasamtök sem ættu að fjármagna sig eins og önnur slík? Jæja, ég er alltént spennt að sjá hvað verður um þessa tillögu. Hins vegar sakna ég þess sárt að sjá ekki tillögu um sameiningu sveitarfélaga, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Myndi það ekki auka skilvirkni og spara pening að hafa einn Reykjavíkurhrepp frekar en sjö: Seltjarnarnes, Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ? Er Kjalarnes sá sjöundi eða misminnir mig með fjöldann? Álftaneshreppur er náttúrlega kominn í eina sæng með Garðabæjarhreppi.

Kirkjan nýtur ekki náðar niðurskurðarins og mér er fyrirmunað að skilja það. Eða ætlar einhver að segja mér að hún bjargi geðheilbrigði fjölda fólks?

Sjálfsagt gæti ég komið með fleiri gagnlegar tillögur ef ég læsi allar síðurnar 14.


Rómeó og Júlía eftir Lars von Trier

Undarlegt er það að Brimbrot hafi verið til í 17 ár og ég hafi fyrst núna séð hana. Emily Watson leikur meistaralega með svipbrigðunum í andlitinu og annarri hollningu og aðrir leikarar eru alveg á hælum hennar. Mögnuð saga, sem margir eru auðvitað löngu búnir að uppgötva, um ást, trú, undirgefni og dómhörku. Líkindin við Rómeó og Júlíu ná ekki allt til enda en mikið svakalega spannar sagan breitt bil.

Og ég er ekki að segja að Bess hafi breytt rétt.


Helgi Hrafn og Bubbi; Björk og Brynjar

Guðisélof fyrir netið, ég hefði ógjarnan viljað missa af Sunnudagsmorgni gærdagsins. Ég er forfallinn áhugamaður um spjallþætti ef í þeim er pólitískt ívaf (þarf ekki að vera flokkspólitískt) og þátturinn í gær var uppfullur af skoðunum. Gerður Kristný, Hugleikur og Ragna voru öll ágæt til að byrja með þótt ég hefði langmest gaman af Hugleiki. Ég veit ekkert hvort hann var einlægur en hann virtist vera það þegar hann spurði af hverju pólitík - sem væri það mikilvægasta í heiminum - væri svona leiðinleg og þegar hann sagðist síðan hafa þurft að gúggla KSÍ. Ég hló mér til óbóta.

Ég er enn ekki komin til neins botns í sambandi við stóra niðurhalsstuldsmálið, veit þó að mér finnst eðlilegt að tónlistarmenn, málarar og aðrir skapandi menn fái laun fyrir að gleðja mig en samt vil ég ekki gerræðið og stóra bróður á öxlina. Annar í þeim kafla heillaði mig upp úr skónum fyrir málefnalega nálgun, kurteisi og rökvísi.

Hispurs- og teprulaust tal um vændi hélt mér líka fanginni. Bæði Brynjar og Björk höfðu skoðanir - og ég gef mikið fyrir það almennt séð - en hvaða skoðanir hafa þau sem stunda vændi? Og hvort þessara tveggja ætli þekki betur til? En það þarf ekki að eiga í hörðum skoðanaskiptum með hundshaus og í fýlu og þeim tókst báðum að slá á létta strengi. Ég veit alveg hvort mér fannst marktækara en held auðvitað áfram að fylgjast með og skipti um skoðun ef ástæða er til.

Grímur, Sóley og Unnsteinn tóku svo Airwaves í lokin sem von er í lokin á Airwaves-helgi. Mikil snilld er sú hátíð þótt ég hafi látið hana fara framhjá mér í heilu lagi. Ég nýt góðs af því að aðrir gleðjist þar.

Eini alvörugallinn á þessum þætti var að GM talaði of hátt. Einhver hlýtur samt að segja honum fljótlega til hvers míkrófónninn er. 


Árásir í Kringlunni algengar? Neei, fjandinn fjarri mér.

Ég hlýt að hafa tekið skakkt eftir í fréttatímanum. Það var talað við tvær manneskjur í Kringlunni út af einhverri árás einhvers þar. Sá sem kom til hjálpar sagði, eða mér heyrðist það, að það væri í eðli Íslendinga að grípa inn í ef einhver þyrfti hjálp en svo bætti hann við að fleiri Íslendingar mættu taka sér þessa breytni til fyrirmyndar.

Svo var kona sem vinnur í Kringlunni spurð út í málið og hún sagði, eða mér heyrðist það, að þetta væri alltaf að gerast en sér væri verulega brugðið (eins og þetta væri mikil nýlunda).

Það veit sá sem allt veit að ég veit ekki um allar þær þversagnir sem yltu upp úr mér í beinni útsendingu eftir geðshræringu - en ég spyr samt, hafi ég tekið rétt eftir: Hvað er hið rétta? Eru árásir daglegt brauð í Kringlunni og hlaupa þá Íslendingar til eða var þetta undantekning og - hvað?

Kannski var ég bara svona utan við mig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband