Þriðjudagur, 28. nóvember 2023
Heimska
Ég er að lesa bók sem heitir Heimska. Hún fær ekki sérlega góðar einkunnir, þar sem ég hef lesið, en ég er ánægð með hana. Ég les hana eins og smásögur, einn kafla á dag, og þar sem ég er í heitu og þurru landi skil ég hana eftir úti á svölum.
Þegar ég fór á fætur í morgun og leit upp á svalir (já, upp hringstigann) var bókin horfin. Ég hafði mávana grunaða eða vindinn en svo reyndist hún hafa lekið aftur fyrir stóran blómapott. En mér finnst ég svolítið heimsk að hafa gónt ofan í húsgrunninn við hliðina á byggingunni í von um að sjá Heimsku bregða þar fyrir.
Mig langar ekki að taka bókina aftur með mér heim en hef ekki rekist á bókasafn hér á Spáni sem myndi fagna henni. Mér finnst óþarfi að eiga margar bækur og allsendis óþarft að eiga aðrar bækur en þær sem höfða eindregið til manns. Og þótt mér finnist sagan af Áka og Lenítu allrar athygli verð er hún ekki eiguleg. Þau eru algjört samtímafólk sem gengst upp í athygli, gjarnan hvort frá öðru en líka frá samfélaginu. Þegar ég leitaði í ofboði að bókinni í morgun bjóst ég næstum við vökulu auga myndavélar að fylgjast með viðbrögðum mínum. En auðvitað var öllum sama, enda er okkur flestum sama um flest fólk.
Við erum föst heima í okkur sjálfum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. nóvember 2023
Spánn
Ég hef núna verið tæpan mánuð á Spáni. Því miður hef ég ekki lært spænsku á þessum tíma og því miður ekki kynnst Spánverjum. Ég hef bara verið í minni íslensku búbblu og með mitt internet.
En það sem ég hef tekið eftir er:
- hvað spænskt fólk klæðist litríkum fatnaði. Bæði hef ég séð fatnaðinn á fólki en ekki síður þvott á snúrum fyrir utan glugga fólks. Þetta á við um margar byggingar líka, enda engin tilviljum að Almadóvar er spænskur.
- fjöldi leikhúsa en ég hef ekki orðið vör við bíóhús.
- að alls staðar nema í strætó virðist hægt að borga með korti. Ég var þeirrar röngu trúar að í bakaríum, á mörkuðum og jafnvel veitingastöðum væri gerð krafa um peninga. Og það virðist ekkert sérstaklega gert ráð fyrir þjórfé. Og nú er evran komin í 154 krónur, var 148 krónur þegar ég fór út. Óttalega sveiflukenndur gjaldmiðill sem við búum við.
- ótrúlegur fjöldi hunda, bæði lausir og í taumi með gangandi, hlaupandi og hjólandi eigendum sínum, og jafnframt mjög margir og mjög ræðnir kettir sem hafa komið mjálmandi til mín eða mjálmað til mín úr gluggakistum.
- brekkur. Ég var í bæ sem heitir Cala del Moral og þar var hægt að hlaupa á ströndinni en um leið og maður beygði ögn til vinstri var komin svívirðileg brekka. Það virðist eiga við um Malaga líka og sannarlega sáum við brekkur, gil, brýr og göng þegar við keyrðum til Córdoba og Granada um daginn.
- við gátum varpað íslenska sjónvarpinu á spænska skjáinn af því að Orange-myndlykill var við sjónvarpið. Við horfðum því á fréttir og Kappsmál í beinni útsendingu! Og í gær hélt áfram mynd í sjónvarpinu sem var þó kirfilega merkt að væri aðeins hægt að horfa á á Íslandi.
- að í íbúðunum sem ég hef leigt hafa verið hringstigar milli hæða, þótt íbúðirnar séu ponsulitlar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. nóvember 2023
Grindavík
Ég hef engar tengingar við Grindavík þannig að ég býð ekki upp á neinar brakandi útlistanir á ástandinu. Ég hef bara undrast að sjá hversu margt áberandi fólk er frá Grindavík, ég var ekki búin að átta mig á því hve margt íþrótta- og stjórnmálafólk er af svæðinu.
Annað sem ég furða mig á er að hafa ekki séð neins staðar áberandi umræðu um millilandaflug. Ég þekki fólk í ferðaþjónustunni sem hefur fengið afbókanir, einkum vegna stórra hópa, sem er alveg skiljanlegt þegar fólk situr í útlandinu og les endalaust um rýmingu bæjar í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöllinn.
Sjálf veit ég um fólk sem hefur flogið burt af landinu eftir að hamfarirnar hófust þannig að ég þykist vita hið sanna í málinu, en það þarf að róa mannskapinn. Eða lokast landið fljótlega eins og Sigríður Hagalín spáði í skáldsögu sinni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. nóvember 2023
Indó
Ég skal svoleiðis segja ykkur það að ég hef samanburð á Indó-korti og öðrum bankakortum í útlöndum. Það eru engar ýkjur að gengisálag upp á 2,5% hjá hinum bönkunum er ekki hjá Indó, a.m.k. ekki enn sem komið er. Ég veit ekki hvort bankinn heldur þetta út til lengdar, minnug þess að Atlantsolía ætlaði að veita hinum bensínsölunum samkeppni en ég held að henni sé ekki lengur til að dreifa.
Nú prófuðum við að kaupa ís upp á 3 evrur. Hjá Indó kostaði hann 449 krónur en 460 hjá hinum bankanum. 11 krónur gera ekki gæfumuninn en þegar til lengdar lætur fer það að skipta máli - og gírugu bankarnir finna vonandi að þeir missa viðskiptavini. Kannski bæta þeir sig þá, en þá ætla ég samt að muna eftir að halda áfram viðskiptum við bankann sem veitti alvörusamkeppni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)