Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
Prósent eða prósentustig, þar er efinn
Íslandsbanki ríður á vaðið og lækkar vexti. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 50 punkta, þ.e. 0,5 prósentustig, en Íslandsbanki segist lækka um 0,5%. 0,5% af 10% eru 0,05 prósentustig og engan munar um það þegar 10% verða 9,95%.
Þetta kenndi mér Lárus Ingólfsson í 9.LI á sínum tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Ráðherrann II
Ég skil ekki þögnina um Ráðherrann II. Mér finnst þátturinn frábær. Hann sýnir fyrst og fremst keisarann sem er í engum fötum (stjórnvöld) og barnið (ráðherrann) sem hikar ekki við að benda á hið augljósa. Tvö dæmi:
- sú spilling að vilja frekar farga 2,8 tonnum af lambakjöti en að nýta það. Man einhver eftir smjörfjöllunum?
- íslenskir sendiherrar í löndum þar sem þeir tala ekki tungumálið, þekkja ekki menninguna og verða almennt ekki að neinu gagni. Man einhver tímana þegar við höfðum ekki ekki millilandasíma og internet? Við þóttumst hafa lært það af covid að við þyrftum ekki að skjótast til útlanda á fundi, heldur gætum nýtt tæknina. Mér finnst ótrúlega margir búnir að glutra niður þeirri góðu þekkingu.
Nei, Ráðherrann II er ekki gallalaus þáttaröð. Þáttur nr. 2, þegar Gunnar Hansson elti Ólaf Darra um spítalaganga í búningi þunglyndis meðan eiginkonan, leikin af Anítu Briem, lá á sæng, var fulllangur og ósannfærandi. Já, mér fannst ekki trúverðugt að norrænir ráðherrar og starfsmenn þeirra kæmu með hest inn í fundarsal hótelsins eða kysstu karlmann, löðrunguðu svo og fordæmu í kjölfarið ofbeldi. En þessar smávægilegu ýkjur ná ekki að breyta þeirri upplifun minni að þáttaröðin sé fyrst og fremst ádeila á spillingu, sjálfvirkni og sjálftöku í kerfinu. Af hverju eru menn ekki húrrandi yfir þáttunum öll sunnudagskvöld eins og meðan við höfðum Verbúðina, þá frábæru þáttaröð sem deildi á illa rekinn sjávarútveg?
Við erum þrjú sem ég veit um sem kunnum að meta Ráðherrann II.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. nóvember 2024
Hvað ef Trump hefði unnið 2020?
Ef Joe Biden hefði ekki unnið 2020 og Bandaríkjamenn hefðu haft Donald Trump í stafni í átta ár samfleytt, já, hvað þá? Hvaða frambjóðendur hefðum við haft núna í Bandaríkjunum? Í Bandaríkjunum er hámarksseta átta ár og nú fær Trump seinni hlutann af sínum átta árum.
Fólk sem ég tek mark á spáir dómsdegi, afnámi lýðræðis og mannréttinda kvenna. Verður hægt að endurreisa samfélagið eftir fjögur ár af eyðileggingu?
Hvernig manneskja fæst í endurreisnina?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)