Burtkvaðning Saddams Hússeins

Ég hélt að ég væri hlynnt dauðarefsingum. Samt man ég þegar Sjáseskú og frú voru tekin af lífi í Rúmeníu á jóladag eitthvert árið. Dauðarefsing er röng og eftir að hafa séð Saddam skattyrðast við hettuklæddu böðlana sér maður bara að allir tapa.

Búnaðarbankinn -> KB-banki -> Kaupþing

Það sem ég er fegin að ég forðaði mér úr mínum gamla banka þarna um árið þegar höfðingjarnir Hreiðar Már og Sigurður skömmtuðu sér sína rausnarlegu kaupréttarsamninga. Þeir drógu þá til baka um tíma en hálfu ári síðar eða kannski ári síðar nenntu fjölmiðlar ekki aftur að tala um ófélegheitin og þá skiluðu þeir öngvu aftur, eins og skáldið myndi segja.

Nei, og viti menn, í Blaðinu í dag er frétt um það að Búnaðarbankinn, æ nei, KB, sé byrjaður með og hyggi á frekari auglýsingaherferð vegna nafnbreytingar. Ja svei, og John Cleese tók að sér að leika og - hahhahha - Benedikt upplýsingafulltrúi sem áður var fréttamaður hjá RÚV segir kvikmyndastjörnuna hafa verið hóflega í launakröfum!

Eiginlega veit ég ekki hvernig ég á að koma orðum að því sem mér finnst. Reyndar held ég að allir hljóti að vera sammála mér (nema kannski Benedikt og kó) um að það sé fáránlegt að bankinn fari í auglýsingaherferð til að breyta KB (les: Kaupþingi banka) í Kaupþing, skælandi starfsmenn í einn dag yfir að vera að hætta hjá KB og hlæjandi næsta dag yfir að vera byrjaðir að vinna hjá Kaupþingi.

Áður en Hreiðar og Sigurður skandalíseruðu í mínum augum var ég reyndar byrjuð að flytja mig frá Búnaðarbankanum yfir í Spron en þeir ráku mig endanlega á braut. Og ef þeir hefðu ekki gert það þá hefðu þeir gert það núna. Má fólk ekki frekar fá hærri innlánsvexti, minni almennan vaxtamun og lægri þjónustugjöld en auglýsingamyndir með Monty Python og jólahauspoka á jólunum? Ég vona að bankarnir sem skila æðstu stjórnendum og hluthöfum milljörðum í hagnað fari að fá alvöru aðhald frá viðskiptavinunum sem fá neikvæða vexti og há þjónustugjöld.

Ég held ekki að Spron sé háheilagt fyrirtæki og vafalaust gæti einhvern hneykslað mig með einhverju hneykslanlegu þaðan en Spron borgar mér a.m.k. 12,1% innlánsvexti (Kaupþing 4,5%) og treður ekki upp á mig ávaxtakörfu á jólunum eða grillbursta þegar ég afmæli.

Ég veit um eina manneskju sem ætlar að kveðja KB á þessum tímamótum og skipta yfir í Spron. Vonandi eru samt fleiri búnir að ákveða það.


Maðurinn á bak við bláa skjöldinn

Nú er ég búin að eyða dýrmætu föstudagskvöldi í að lesa 1. bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hún varð innlyksa hér um síðustu helgi - ég á sko ekkert í henni - og það tók mig svolítinn tíma að koma mér í verkið. En ég varð sko ekki svikin, hún var meinfyndin, humm humm.

Og það sem er ekki minna fyndið er að skv. bókatíðindum er leiðbeinandi verð 10 kr. en mér skilst að útsöluverð sé 99 kr. Þetta snýst eitthvað um framboð og eftirspurn í markaðshagkerfi, vinsældir vörunnar og hvað fólk er þá tilbúið að borga fyrir hana.

Allt með öllu held ég að lestur 1. bindisins hafi verið góð upphitun fyrir lestur minn á þýðingu HHG á Frelsi og framtaki Friedmans. Ég held að ég geti bara farið að hlakka til.

Merkilega sem lítið hefur verið fjallað um þetta rit í fjölmiðlum.


Lest milli Reykjavíkur og annarra byggðarlaga

Af því að bróðir minn er að íhuga að flytja á Suðurnesin fór ég í enn meira mæli að velta fyrir mér almenningssamgöngum milli landshluta. Við vitum ekki hvernig strætó gengur á milli Keflavíkur og Reykjavíkur en mér skilst að strætó blómstri á milli Akraness og Reykjavíkur. Hreyfir einhver mótmælum við því? Svo geta menn flogið úr Vatnsmýrinni vestur, norður, austur og til Vestmannaeyja (þegar hvorki veður né skortur á flugumferðarstjórum er í veginum). En ansi oft grípa menn til einkabílsins enda er enginn sérstakur hörgull á honum. Einhverju sinni heyrði ég að í Reykjavík væru fleiri bílar en ökuskírteini.

Lausnin er LEST. Af hverju er ekki talað um lestarhugmyndina í neinni alvöru? Fyrir nokkrum árum var unnin skýrsla um kostnað við að koma upp lest milli Keflavíkur(flugvallar) og Reykjavíkur. Ef ég man rétt var kostnaðurinn reiknaður um 6 milljarðar króna og fyrir vikið var hugmyndin slegin út af borðinu. Nú er talan sjálfsagt hærri vegna áranna sem liðið hafa, en kostar ekki eitthvað álíka að bora Héðinsfjarðargöngin? Tvöföldun á vegum kostar líka nokkra aura og telst arðbær til lengri tíma litið. Nú þegar okkur fjölgar svo ört að við gætum verið orðin um 400 þúsund manns árið 2010 verður lestarhugmyndin æ raunhæfari. Það væri hægt að láta lest ganga milli Reykjavíkur og Keflavíkur, Reykjavíkur og Akureyrar o.s.frv. Lest er fljótgeng og veitir öruggt skjól fyrir misvindasömum íslenskum vetrum - já, og sumrum því að ekki hefur verið hægt að treysta á þau nema undanfarin örfá ár.


Sál í Straumi

Ég man eftir menningarmiðstöðinni Straumi. Meðan hún var og hét var hún dægileg og hafði sál. Ég held að hún hafi í sjálfu sér ekki tapað á nágranna sínum, en álverið er hins vegar milli tannanna núna. Að vonum.

Ég verð að játa að ég er hvorki 100% með eða á móti álveri/um. Ég bý heldur ekki í Hafnarfirði og hef ekki atkvæðisrétt í því máli. En mér finnst alveg frámunalega hallærislegt að dreifa Björgvini Halldórssyni í 8.000 eintökum, og alls ekki málefnalegt. Hvernig getur gjöf af þessu tagi verið málefnaleg? En þótt ég sé ekki í aðdáendaklúbbnum hans Bós hækka ég samt í græjunum þegar kemur að „Allt fyrir mig“ á Baggalútsdiskinum.

Ég skil vel að Alcan ætli að skýra sjónarmið sín og reyna að leggja gott inn hjá Hafnfirðingum en með þessari skrýtnu jólagjöf skutu þeir sig í einhverja löppina.

Og ekki orð um jólakveðjuna frá Dómínós. 


Kona tímaflakkarans

Já, hmm, þrátt fyrir að vera ástarsaga náði hún mér. Fyrst er Clare sex ára og Henry þrítugur, næst þegar þau hittast er hún 12 og hann 28 (eða eitthvað í þá veruna), hennar lífi vindur fram í eðlilegu tímaflæði en hann stekkur fram og til baka. Hún veit það sem hún er búin að upplifa og það sem henni hefur verið sagt, hann hins vegar veit stundum meira og stundum minna.

Og endirinn, ma'r, náði mér gjörsamlega.


Verst West Ham?

Já nei nei, eins og Kjartan myndi segja, ég hef engan áhuga á knattspyrnu, ekki einu sinni þótt liðið sé í íslenskri eigu. Já nei nei. Hins vegar eru hvorki Kraftavíkingurinn né Sterkasti maður Íslands íþróttagreinar í neinni alvöru og þess vegna getur maður horft á þá þætti. Og það gerði ég núna svikalaust, reyndar fyrir algjöra tilviljun.

Sætur, þessi Georg Ögmundsson, sérstaklega þegar hann kenndi öðrum um. Nei, í alvörunni, hann var rakið krútt. Svo fannst mér mjög rausnarlegt af Sigfúsi Fossdal að taka að sér að tapa, ekki myndu allir fórna sér svona. Og hann var að auki næstum ósýnilegur.

Nú hlakka ég mest til að sjá Vestfjarðavíkinginn og Sterkasta mann heims - verður það ekki örugglega um jólin líka?

Næsta mál á dagskrá er hins vegar FRIÐARGANGAN. Fáum friðsamleg jól og þó án allrar væmni.


Meira af auglýsingum

Ég er þeirrar skoðunar að auglýsingar hafi stundum upplýsingagildi. Ég hendi ekki óumbeðnum auglýsingapósti beint í ruslið (les: blaðagáminn). Mér þykja t.d. auglýsingarnar sem eru lesnar rétt fyrir fréttir á RÚV notalegar og tek örugglega eftir sumum. Hins vegar slekk ég á Útvarpi Sögu þegar auglýsingatímarnir hefjast þar, í og með af því að þeir standa yfir mínútum saman. Ég gæti verið í markhópi Útvarps Sögu, a.m.k. sumra dagskrárliðanna, en auglýsingarnar eru mjög hvimleiðar og stíla inn á fólk sem kann hvorki að fletta í pappírssímaskrá né á netinu. Og hverjir eru það? Ég spyr, engan þekki ég. Svo auglýsir stöðin einfaldar, ódýrar og - hvað? - áhrifaríkar! auglýsingar.

Ég skil svoooooooo vel að Útvarp Saga fjármagnar sig með auglýsingum. Það dugir samt ekki til, ég hvorki hlusta né versla við þá sem ná að eintóna símanúmer í eyrun á mér.


Bursta tennur AÐ MINNSTA KOSTI tvisvar á dag??

Neeeeeeeeeeeeeei. Hvernig vogar bankinn sér að auglýsa svona? Einhver banki er að reyna að gera foreldrum greiða meðan hann kostar einhvern dagskrárliðinn (kannski tannsmiði) og lætur einhverja fígúru segja að maður verði að bursta tennurnar a.m.k. tvisvar á dag.

Hey, ég gerði þau mistök í eina tíð, burstaði eins og landafjandi væri á hælum mér. Afleiðingin var að ég burstaði hálfan glerunginn af. Tannlæknirinn minn varð ókátur. Við verðum að bursta nóg og alls ekki of mikið.

Ef við burstum meira en nóg verða tennurnar eins og hundur Pavlovs.


Flugdrekahlaup

Mér er gjörsamlega hulið hvernig flugdrekahlaup getur verið stórmál í einhverju landi. En gott og vel, það vísar út fyrir sig. Nú er ég að lesa Flugdrekahlauparann sem fólk er búið að skæla yfir allt þetta ár og ég skæli frekar lítið. Ég skil alveg að flugdrekinn er táknrænn fyrir voðaatburðinn sem bitnar á Hassan snemma í bókinni en þessi titill getur ekki talist góður til að góma lesendur. Kannski var ég þess vegna svona lengi að taka við mér.

Og ég gafst í fyrra upp á Bóksalanum í Kabúl. Án rökstuðnings.

Sótti mér hagfræði fyrir byrjendur á bókasafnið í gær og geri ráð fyrir að eyða sunnudagskvöldinu í þá lesningu ... Örninn er hættur í sjónvarpinu, hehhe.


Tryggingafélagið svínar á mér

Ég er svo ósátt við að tryggingafélagið er búið að skuldfæra á kortið mitt tryggingar til heils árs án þess að vara mig við. Ég hélt að maður fengi alltaf reikninginn sendan heim með meira en mánaðar fyrirvara til að geta sagt upp hjá því tryggingafélagi ef maður teldi sig geta fengið betri samning annars staðar. Og að minnsta kosti ætti ég að fá sundurliðun. Ég bað um að hafa gjalddagann í janúar.

Ekki að það skipti máli hvort maður verslar við .... eða ... í þessum efnum. Samtryggingin er nógu mikil til að neytandanum blæðir alltaf.

Þannig líður okkur alltént.

Þetta snýst ekki um hvort ég hafi efni á 80 þúsund kallinum ...


12 mánuðir eða ár

Vika eða sjö dagar. Sólarhringur eða 24 tímar. Klukkutími eða 60 mínútur.

Skv. tölvuorðabók er sólarhringur á ensku „24 hours; solar day; calendar day“ og allan sólarhringinn „24 hours, at all hours“. Enskumælandi eiga ekki orð fyrir sólarhring sem þeir nota eins og við gerum. Þeir eiga reyndar orð fyrir klukkutíma og ár en brjóta hugtökin samt upp í þessar smærri einingar. Ég skil það ekki, og enn verr skil ég þegar menn tala um að eitthvað standi yfir í sex mánuði frekar en hálft ár, þ.e. á íslensku.

Á ensku er ekki hægt að segja „við Gummi“ - we Gummi? Nei, það er sem sagt ekki hægt. Ættum við þá endilega að fara að segja á íslensku „ég og Joe“ frekar en „við Joe“?

Það er nóg til af spennandi áhrifum erlendis frá þótt við látum vera að ráðast á grunnkerfi tungumálsins (tuttuguogfjórir sjö, 24-7, twentyfour seven).

Kommon!


Í Grapevine var þetta helst:

Útlendingar.

Ég les alltaf Grapevine sem kemur út tvisvar í mánuði á sumrin en einu sinni á veturna. Og nú hef ég greinilega tekið seint við mér því að nýjasta Grapevine er dagsett 1. desember.

Og ég las það fyrst í gærkvöldi.

Kannski átti það ekki að koma mér á óvart, en það gerði það samt, að uppistaðan var andóf og fordómar gagnvart þeim sem hafa áhyggjur af útlendingum á Íslandi. Ég er búin að vera mjög hugsi yfir stöðu útlendinga síðustu mánuðina og ég þekki engan sem fordæmir útlendinga fyrir að koma til Íslands. Hins vegar hafa ýmsir áhyggjur af aðbúnaði útlendinga, kjörum þeirra og að íslenskir atvinnurekendur svíni á þeim.

Að vísu mislíkar ýmsum að geta ekki talað íslensku við strætóbílstjórann og ég hef heyrt af fólki sem hefur hætt við að taka strætó af því að það fékk ekki svör um hvert vagninn var að fara.

Ég hef líka heyrt af fólki sem finnst leiðinlegt að geta ekki fengið svör í búðum og á veitingastöðum.

En ég hef engan heyrt formæla útlendingunum.

Alveg satt.

Og í síðustu viku lenti ég á spjalli við konu frá Litháen sem hefur búið hér í nokkur ár með litháískum manni sínum. Bæði tala íslensku. Henni var nokkuð niðri fyrir þegar hún sagði að íslensk stjórnvöld yrðu að setja reglur um það að skoða sakavottorð útlendinga sem vildu flytjast hingað því að litháísku glæpamennirnir sem hafa komið hingað hafa komið óorði á hina Litháana.

Eru það fordómar að vilja skoða feril fólks sem vill flytjast til landsins?

Mér finnst Grapevine ómissandi rödd í mínum heimi en ég hef aldrei verið ósammála áherslunum eins og nú.


Hiss vikunnar

Ég opna ekki munninn lengi til að þegja en ég gapti af undrun yfir ólátunum á Nørrebro í Kaupmannahöfn. Í Kaupmannahöfn! Lögreglan þaggaði niður í fólki með táragasi.

Næstu læti hljóta því að verða í ... Hafnarfirði, ha?


Sínum augum lítur hver á silfrið (eða Silfrið eftir atvikum)

Ég er mjög hugsi yfir stækkun þjóðarkökunnar.

Við búum orðið í markaðshagkerfi (ég er samt ekki búin með Hagfræði á 100 mínútum sem Tómas mælir með) og verðlagning ræðst þannig ekki af framleiðslukostnaði vöru, heldur kaupgetu fólks. Ef kakan er stækkuð og allir fá hlutfallslega jafn mikið af henni og meðan hún var minni getum við ímyndað okkur að launamaður með milljón fari upp í eina og hálfa og launamaður með 200 þúsund fari upp í 300 þúsund.

Sitja þeir hlutfallslega við sama borð?

Eða þýðir þetta að verðmyndunin tekur mið af launamanninum sem hækkaði um 50% - æ, það gerðu báðir - sem hækkaði um 50% af milljón?

Bónus segist bjóða betur (betur en hvað?). Ég keypti þar í þarsíðustu viku ósmurða innpakkaða kornstöng á 33 krónur. Hún bragðaðist svo vel að ég ákvað að kaupa mér aðra til smurnings í síðustu viku en þá kostaði hún skyndilega 59 krónur. Og ég keypti hana samt!

Er þetta af því að ég bý í markaðshagkerfi og Bónus veit að ég hef raunverulega efni á að borga 59 krónur fyrir vöru sem kostaði 33 krónur viku áður? Er það stóri bróðir sem fylgist með mér ...?


Nei, ég vil alls ekki vinna milljarð

Ekki bara af því að ég hef gjörsamlega nóg fyrir mig að leggja, nei, ekki bara þess vegna, heldur ekki síður vegna þess að mér finnst yfirtaksheimskulegt að einstaklingur, fjölskylda eða þess vegna ætt græði milljarð. Græði milljarð. Getur maður átt það skilið að græða milljarð? Hvort sem í hlut eiga rúpíur eða krónur.

 

Samt finnst mér svo ásættanlegt að söguhetjan í Viltu vinna milljarð? eignist hann af því að hann græddi hann löglega og af sóðafyrirtæki og svo er a.m.k. látið að því liggja að hann ætli að verja peningunum skynsamlega, gefa með sér og svona.

 

Þetta minnir mig á árið þegar ég síspurði fólk hvað það myndi gera ef það fyndi 35 milljónir í svörtum ruslapoka undir steini í Laugardalnum. Almennt fannst fólki ég heldur tíkarleg, að setja bara 35 milljónir í pokann, ekki veitti af 135 eða þaðan af meira, en ég man ekki betur en að flestir ætluðu að hætta að vinna og fara að lifa í vellystingum praktuglega. Ég vek athygli á að verðgildi hefur heldur daprast síðan þetta var, fermetraverð fasteigna var áreiðanlega almennt ekki orðið 100 þúsund kall.

 

Ég vildi a.m.k. verðskulda milljarðinn minn.

 

Kom vel á vondan

Seint í gærkvöldi hringdi síminn og maðurinn í hinu þráðleysinu sagði: „Ég er að hringja út af þýðingu.“ Hann var nýbyrjaður á Falli Berlínar eftir Anthony Beevor og þar sagði eitthvað á þá leið að jólin hefðu einkennst af ... vafningum?? eða lárviðarlaufum (þetta man ég sannarlega ekki) og svo hinni 'hljóðu nótt'.

Hvernig sem setningin raunverulega hljómaði rak mig engan veginn í rogastans og hélt að það væri bara ekkert að. Þá sagði hann: Vita ekki allir að hin hljóða nótt er Heims um ból?

Ég vildi að ég gæti skákað í því skjólinu að ég er hundheiðin - en ég get það ekki. Þótt ég sé sannarlega ekki kristilega þenkjandi á maður þó að þekkja bókmenntavísanir, einkum og sér í lagi þegar manni finnst aldeilis í lagi að gagnrýna til hægri og vinstri.

O jæja.

Svo ætla ég að plögga eins og Siggalára gerir iðulega. Ég fór á afmælissýningu Leikfélags Hafnarfjarðar í gær og sá Ráðskonu Bakkabræðra. Þar var margt öndvegisfólk sem ég þekkti ekki og ég hló mér til óbóta á sýningunni. Gísli, Eiríkur, Helgi ríða ekki við einteyming og ollu engum viðstöddum vonbrigðum leyfi ég mér að fullyrða. Og þar rakst ég óforvarandis á téða Sigguláru.


Addý frænka

Systurdóttirin Arnfríður
Varð að smella inn einni af henni. Hún fermist næsta vor svo að augljóslega er myndin orðin ansi gömul.

Ég synti kílómetrann í gær

Á leið í sund

Ég syndi oft kílómetra, stundum m.a.s. meira. Ég hafði einu sinni þá reglu að ef ég færi á bíl synti ég kílómetra en ef ég færi gangandi eða hjólandi synti ég bara hálfan. En núna er ég farin að synda helst aldrei minna en heilan. Og fara í gufubaðið á eftir. Og nú hefði ég betur gert það kannski þar sem ég er mjög slæm í mjóbakinu (sem aldrei gerist) og Kolbrún systir mín segir að gufan vinni á svoleiðis þreytuverkjum eftir slímusetur.

Kannski hefði ég frekar átt að fara heim og eyða klukkutímanum í að klára „Viltu vinna milljarð?“. En geri það fljótlega.


Fleiri myndir

Verst að ég verð 160 ára

Áfram!

Ég held að síðustu 40 árin verði kannski frekar leiðinleg af því að svo margir úr nánasta hring verða dauðir. Svo held ég að 40 árin þar á undan verði líka fremur dapurleg af því að litið verður á mig sem sjúkling, bara af því að ég verð orðin gömul og svo fjörgömul kerling. En það er ekkert samasemmerki þarna á milli.

Foreldrar mínir eru nú farnir að nálgast 160 og eru hraust og hress og ern og spræk og geta allt. Samt eru þau alltaf spyrt við hóp „aldraðra og öryrkja“ af því að það er trendið um þessar mundir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband