Guðaveigar

Ég fór í bíó og sá nýja íslenska mynd sem mér skilst að sé í sama anda og Síðasta veiðiferðin sem ég sá aldrei. Hún er um fjóra drykkfellda presta sem eru gerðir út af örkinni til að finna messuvín sem er bæði óáfengt og vegan.

Þeir taka hlutverk sitt ekki sérlega hátíðlega heldur stefna ótrauðir á mikla drykkju í nokkra daga í góðu rauðvínshéraði og ætla svo að landa á lokametrunum einhverju sem biskupnum líki. Auðvitað fer ýmislegt úrskeiðis og er flest bráðfyndið.

Ég hef lengi haft mikið dálæti á Þresti Leó Gunnarssyni og hann bregst mér ekki. Fáir sækja messur prestsins sem hann leikur og hann er svolítið að missa trúna á sjálfan sig. Þá kemur presturinn sem Sveppi leikur meistaralega og dregur hann að landi.

Halldór Gylfason er frábær í sínu egóistahlutverki og Hilmir Snær alltaf traustur en voða mikið alltaf eins. Kannski var hans rulla líka klisjukenndust, maðurinn sem veit allt um rauðvín að eigin mati sem er síðan rekinn oftar á gat en samferðafólkið hefur áhuga á.

En stjarnan er Vivian Ólafsdóttir sem ég var að sjá í fyrsta skipti og ekki spillti Siggi Sigurjóns sem afi hennar. Hann var sko ekki eins og hann er alltaf!

Mér finnst Guðaveigar mynd sem maður á að sjá í bíó og leyfa sér að flissa að vitleysunni.

 


Óljós eftir Geir Sigurðsson - saga af lúða

Titillinn minn er ekki illa meintur þótt Leifur Tómasson sé sannkallaður lúði. Bókin nær að halda lesandanum allan tímann og það er ekki lúðalegt þótt aðalpersónan sé það, þótt Leifur sé tilþrifalaus, áhrifalaus, uppburðarlaus og framtakslaus. Á heilli mannsævi (67 árum) verður honum þó eitthvert smotterí úr verki, hann fer í nám til Þýskalands, landar háskólakennslu í faginu sínu af því að fyrir tilviljun er eftirspurn eftir þess konar þekkingu þegar hann kemur heim, hann eignast væna konu og með henni tvö gjörvileg börn og svo barnabörn. Hins vegar er hann óvinsæll kennari, eignast enga vini í vinnunni eða utan hennar, fær ekkert gefið út og stendur alltaf í skugganum af litla bróður sínum sem hefur slegið í gegn í Frakklandi og kemur einstaka sinnum til Íslands til að stafa geislum sínum á fjölskylduna.

Við starfslok er hann enn meira núll og nix en meðan hann var þó í starfi, búinn að missa Petru sína, á enga sjálfsmynd og börnin hans eru næstum búin að afskrifa hann. Á þriðja æviskeiðinu sparkar hann því sjálfum sér til Kína og þar gerast undarlegir hlutir sem eru í fjarstæðu sinni næstum trúverðugir af því að hann tekur aldrei neinar ákvarðanir um líf sitt, heldur veltist áfram í einhverju gruggi.

Öll bókin, tæpar 200 síður, er óður til tilvistarinnar eða skortsins á henni. Allt líf mannsins er bara dropi í heimssögunni og skiptir engan neinu máli nema hann sjálfan og hans nánustu og jafnvel varla það. Það er frekar niðurdrepandi tilhugsun fyrir okkur flest að við skiptum ekki máli, að þegar búið verður að hola okkur niður að jarðvistinni lokinni líði í mesta lagi nokkrir áratugir þangað til við verðum öllum gleymd. 

Bókin stingur ekki upp á neinum lausnum í þessu efni þannig að við verðum sjálf að finna okkur tilgang og sætta okkur við að við erum bara augnablik í eilífðinni, mismiklir lúðar með ósagðar sögur af tilþrifalitlu lífi.

Þá vil ég gera orð eins af gestum mínum í fyrndinni að mínum:

Kom og fer. Gaman á milli.


48 dagar

Mér finnst Vísir hafa brennt af í dauðafæri til að upplýsa lesendur. Ég hlustaði á Bylgjuna í morgun og heyrði Kristján Kristjánsson og Ingu Sæland vera með skæting hvort við annað. Mig grunar að þau hafi ekki verið að tala um nákvæmlega sama hlutinn, en deilan snýst um fjölda daga sem menn mega vera við strandveiðar.

Hún segist hafa rembst eins og rjúpan við staurinn við að fjölga dögunum upp í 48.

Hann segir að dagarnir séu 48 nú þegar.

Úr þessu var ekki skorið í þættinum. Vísir staðreyndagátaði ekki þegar hann skrifaði fréttina. 

Ég leitaði í lögum um stjórn fiskveiða og fann 6. gr. a:

Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu.

Þarna er fjögurra mánaða tímabil undir og ég er engu nær. Mig grunar nefnilega að sjómenn og aðrir kunnugir noti eitthvert orðalag sem ég hef ekki á hraðbergi þannig að ég veit ekki hvort annað hafði rétt fyrir sér og hitt ekki eða hvort bæði höfðu rangt fyrir sér. 

Veist þú í hversu marga daga menn mega vera á handfæraveiðum við strendur Íslands? Mögulega er spurningin röng og ég ætti frekar að tala um strandveiðar, krókaaflamark eða sóknarmark. 


Franska málið

Ég þarf ekki að hneykslast á franska eiginmanninum sem nauðgaði byrlaðri konunni sinni og hleypti tugum manna upp á hana, hann á sér engar málsbætur enda dæmdur til langrar fangelsisvistar og hinir nauðgararnir líka. Ég get reyndar ímyndað mér einn eða tvo háværa einstaklinga í íslensku bloggsamfélagi sem vorkenna honum og hinum en þeir eru klárlega í minni hluta.

Nei, erindi mitt hingað er að gera orð Maríu Rúnar Bjarnadóttur að mínum. Því miður finn ég ekki orðrétt það sem hún sagði enda góðar líkur á að ég hafi heyrt þau orð í útvarpinu en ekki lesið þau. Hún sagði, og takið nú vel eftir: Þeir sem tala hæst um að lækka skatta ættu að beita sér gegn ofbeldi, m.a. heimilisofbeldi. Þar er gríðarlegur kostnaður. Ekki aðeins erum við að tala um hið sjálfsagða, sársauka, vonleysi, atvinnumissi þess sem fyrir ofbeldinu verður og allar þær hugrænu afleiðingar, heldur einnig peningalegan skaða. Hugsið ykkur þetta franska mál sem hefur tekið langan tíma í kerfinu, fjöldann allan af yfirheyrslum, bæði hjá lögreglu og dómstólunum, tíma lögfræðinganna sem er greiddur af ríkinu.

Ég hef lesið nógu marga dóma um dagana til að vita að bætur sem fórnarlömbum eru dæmdar (og undir hælinn lagt hvort ofbeldismaðurinn er borgunarmaður fyrir) eru langtum lægri en þóknanir lögmannanna. Ég er ekkki að segja að þær séu óhóflegar miðað við vinnuframlagið en, guð minn góður, hugsið ykkur þá aftur vinnuna og tímann sem fer í að finna ofbeldismönnunum (já, og þeim sem eru skárri en verri) málsbætur.

Þannig að ég endurtek: Þeir sem tala hæst um að lækka skatta (sem ég er ekki á móti) ættu að beita sér af hörku gegn ofbeldi.  


Blönduð byggð

Ég er enn alveg ofandottin af hneykslun yfir þessu Haga-máli í Breiðholtinu. Hver í veröldinni hélt að það væri í lagi að byggja vöruhús þétt upp við stofuglugga íbúa? Ég næ þessu engan veginn og mér finnst einhver þurfa að axla ábyrgð en augljóslega mun kostnaðurinn falla á borgarbúa að einhverju leyti.

En upp úr 1990 átti ég heima í Ingólfsstræti. Alveg í miðbænum. Þegar ég keypti þá íbúð var svæðið skilgreint sem blönduð byggð. Einhverjum árum síðar voru skemmtistaðir orðnir svo brjálæðislega háværir í þrjár áttir að ég fékk heilbrigðiseftirlitið til að desilbelmæla hann. Hann var yfir mörkum en aðallega var bassinn truflandi. Ég var að bilast.

Ég leigði íbúðina frá mér og flutti. Leigjandinn hafði búið við járnbrautarstöð í New York og endaði á að kaupa hana. Ég varð að slá af kaupverðinu en ég losnaði úr þessari hávaðamengun og veit ekki hvernig staðan er í þessu húsi í dag.

Áður en ég gafst upp hafði ég samband við þáverandi borgarstjóra sem sagði skýrt og afdráttarlaust við mig: Einhvers staðar verða vondir að vera. Einhver annar borgarfulltrúi tók undir með því orðalagi að ég hefði valið mér þessa búsetu.

Ég segi enn og skrifa að ég var í góðri trú þegar ég festi kaup á íbúð í blandaðri byggð og ég er enn á því að borgaryfirvöld hafi á þeim tíma verið of umburðarlynd gagnvart atvinnulífinu. Ég er löngu búin að jafna mig á þessum vondu svörum og vondu stjórnsýslu en nú rifjaðist þetta upp. 


Þétting byggðar

Ég er hlynnt þéttingu byggðar en ef helmingurinn af því sem maður heyrir um þessa vöruhússbyggingu í Breiðholtinu er sannur yrði ég sturluð þarna. Ég myndi ganga af göflunum og væri reyndar löngu búin að því.

Ég heyrði viðtal við Dóru Björt Pírata í útvarpinu í vikunni og hún var alveg miður sín.

En hver er sannleikurinn í málinu? Stóð þetta alltaf til? Kostuðu íbúðirnar lítið í ljósi þess að þær yrðu hvorki fugl né fiskur? Ég á bágt með að trúa að fólk hafi ekki séð þetta í farvatninu. Ef ég hefði keypt íbúð þarna í góðri trú myndi ég heimta að ábyrgur aðili keypti íbúðina af mér á markaðsverði.


Það er ekki nóg að hlutir séu réttir ...

... þeir verða líka að líta út fyrir það. Sá gjörningur að veita leyfi til hvalveiða er svo mikil ögrun að ásetningur valdhafans getur ekki verið góður. Ef þetta er nánast formsatriði vegna þess að lög og reglur mæli fyrir um það hlýtur ráðherra næstu ríkisstjórnar að gera það áður en veiðitímabilið byrjar næsta sumar. Það getur ekki legið svo lífið á að starfsstjórn sem á að slökkva elda og bregðast við aðkallandi málum finni sig knúna til að gera það.

 


Útstrikanir og uppstrikanir

Nú er búið að birta listann yfir þá þingmenn sem fengu flestar útstrikanir en hvar er fréttin um þá kjósendur sem færðu Dag B. upp fyrir Kristrúnu hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður? 

Í óspurðum fréttum skal ég svo segja ykkur að ég vil borgarlínu og þéttingu byggðar. Ég vil fleiri hjólastíga og betri meðferð skattfjár.

Ég vil mannsæmandi laun handa öllum og ég vil að öryrkjum verði gert kleift að vinna eins og þrek þeirra býður. 

Ég vil ekki selja gullmolana okkar fyrir slikk.

Ég vil ekki offeita (e. obese) banka sem hækka vexti á útlánum þegar Seðlabankinn lækkar stýrivexti.

Ég vil rafmagn og þess vegna vil ég virkja en ég vil ekki virkja fram í rauðan dauðann til að geta selt stórfyrirtækjum rafmagn á spottprís.

Ég vil að stórútgerðir borgi hærra verð fyrir aflann.

Ef ég væri í pólitík hefði ég lagt mesta áherslu á húsnæðismál og samgöngur vegna þess að ég held að léleg geðheilsa og að sumu leyti líkamleg heilsa myndi skána ef fólk færi ekki stressað að sofa og stressað á fætur. Ég er sjálf vel haldin og get þess vegna leyft mér að hafa áhyggjur af hnatthlýnun, ofsafengnum veðrabrigðum, sökkvandi eyjum og öðru sem fólki finnst ekki tengjast efnahag. En loftslag og listir gera það samt.

Og hvað skyldi ég þá hafa kosið? Ég skipti nefnilega um skoðun kl. 15 á laugardaginn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband