Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Burt með símana úr bílunum
Ég heyrði frétt um að einhver vildi banna alla símanotkun í bílum á ferð, las hana ekki þannig að ég man ekki gjörla hvernig fréttin var. Þá verður líka að banna mönnum að drekka kaffi, snýta börnunum, mála sig, bölva umferðinni og láta hugann reika.
Ég hef reyndar löngum haft efasemdir um að handfrjálsi búnaðurinn bjargi miklu. Ég held að athyglisbresturinn sé í alvörunni stóra vandamálið í akstri.
Ég hef einu sinni lent í árekstri. Það var sannarlegur á-rekstur vegna þess að ég sem annar bíll á ljósum tók lauslega af stað sem fyrsti bíll. Ég held að fremsti bíllinn hafi einmitt verið í hugleiðingum frekar en að hafa hugann við aksturinn. En það var sannarlega ég sem rakst á.
Eftirlitið auðveldast til muna ef símarnir verða bara bannaðir með öllu. Nema hjá farþegunum auðvitað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Einkafyrirtæki með netaðgang læstan
Vinkona mín sem vinnur við innheimtu hjá einkafyrirtæki kemst ekki á t.d. Moggabloggið í vinnunni. Á það reyndi í gær en annars er hún lítið á rápinu í vinnutímanum. Ég veit ekki hvað fleira henni er bannað, nema það að msn-ið var tekið af öllum starfsmönnum fyrir stuttu af því að einhver misnotaði það. Það tefur fyrir henni því að áður gat hún átt í samskiptum við samstarfsfólk í innheimtu meðan hún var með viðskiptavin í símanum.
Lok lok og læs, allt í stáli. Það virðist vera auðvelt að meina fólki um aðgang.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 27. febrúar 2007
Raunasaga úr grunnskólastarfi
Ég hef mikla samúð með dugmiklum, metnaðarfullum og hugmyndaríkum kennurum sem eru á lélegu kaupi. Í augnablikinu hef ég samt meiri samúð með systur minni, bekkjarfulltrúanum fyrir hönd foreldra, sem skipulagði leikhúsferð hjá bekk dóttur sinnar, fékk afslátt í leikhúsinu, talaði við kennarann, samdi kynningartexta, talaði aftur við kennarann upp á að senda tölvupóst á alla, sú vísaði á annan kennara sem vísaði á skólastjórann - og í stuttu máli datt ferðin upp fyrir af því að boðleiðirnar urðu of langar og skrykkjóttar.
Systir mín er mjög fylgin sér en hún fékk alltaf þau svör að þetta yrði í lagi og svo var bara ekki gert það sem þurfti að gera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Bókin af náttborðinu
Stóridómur er fallinn, ég er búin að gefast upp á bók Auðar Jónsdóttur, Tryggðarpantinum. Ég vek athygli á að hún heitir svo, með r-i. Ég hljóp yfir einar 70 blaðsíður og tókst með herkjum að lesa þær síðustu 30. Þetta eru heilmikil vonbrigði því að mér hafði skilist að lesandi gæti fengið nýja sýn á sambúð ólíkra ríkja, bókin væri allegórísk. Og mér fannst varið í Fólkið í kjallaranum.
Ég veit ekki hvort það er til nokkurs að reyna að færa rök fyrir afstöðunni, sumar bækur ná manni bara ekki. Gísella er einhvers konar yfirstéttarstúlka sem lifir í vellystingum praktuglega þangað til allt í einu að allur auður er uppurinn. Til að fjármagna framhaldslíf sitt bregður hún á það ráð að leigja frá sér herbergi í húsinu sem hún erfði, konan sem ekki hafði deilt heimili með neinum frá því að amma hennar féll frá. Nei, þetta er ekki hægt, ég held að mér hafi einfaldlega þótt stærsta vandamálið það að höfundur sýndi ekki, heldur sagði frá. Mér var sagt að Gísella væri pirruð eða stressuð eða glöð - en ekki sýnt það. Kannski var höfundur of mikið að reyna að segja táknsögu frekar en að segja sögu sem hver og einn gæti lesið tákn í eftir eigin behag og smag.
Úff, mér finnst að Ingibjörg eigi ekki að reyna að lesa hana aftur!
Og gaman væri að heyra hvort Vilborg hefur líka lesið þessa.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Alzheimer eða heilabilun
Er það tvennt ólíkt? Eða er þetta eða notað í merkingunni það er? Eigi veit ég svo obbossla gjörla, eins og oft var sagt í áramótaskaupinu eitt árið.
En þetta heyrði ég sagt í dag. Og veit ekki hvað merkir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. febrúar 2007
118
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. febrúar 2007
Kenning mín um álverskosninguna heldur enn velli
Handahófskennd könnun mín á því hvort Hafnfirðingar muni greiða atkvæði með eða á móti stækkun álversins í Straumsvík heldur enn, þ.e. að hinir eldri séu heldur með og yngri á móti. Þeir sem eru orðnir fimmtugir muna vel hversu mikil lyftistöng álverið var fyrir 40 árum og meta það við það. Þeir sem eru undir þrítugu eru öðruvísi átthagabundnir, sjá fleiri tækifæri í því að halda landinu frá álverinu og endurvinna svæðið eftir kannski 20 ár eða svo þegar álverinu verður mögulega lokað.
Það eru sem sagt tvær firnaspennandi dagsetningar framundan, 1. mars þegar virðisaukaskatturinn verður lækkaður (reyndar byrjaður að lækka nú þegar sem er ánægjulegt) og 31. mars þegar kosið verður í Hafnarfirði.
Svo verður Diplómatti með fyrirlestur bráðum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. febrúar 2007
Bronwyn
Ég var skírð Bronwyn upp á velsku í gær. Bretarnir sem ég umgekkst lungann úr helginni og sem ég umskírði með jafngildum íslenskum heitum beittu sama bragði á mig. Það var um það bil það skemmtilegasta við heimsóknina.
Ég er greinilega ekki víkingur (og þaðan af síður þeir) því að mér varð kalt inn að beini á föstudaginn þegar ég hossaðist um Langjökul og ég er enn að þiðna. Kalda sjávarréttaborðið jók á hrollinn. Gunni og Doddi sem eru á myndinni voru alls óbrúklegir til varmagjafa og ef ég væri eigingjörn myndi ég óska mér hnatthlýnunar í auknum mæli og 25 stiga meðalhita á Íslandi - en ég veit að það kæmi ekki öllum heiminum jafn vel. Sniff.
Ferðalög | Breytt 26.2.2007 kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 24. febrúar 2007
Skólagjöld?
Skólaganga á að verða greidd með sköttum. Það finnst mér í aðalatriðum.
Hins vegar er ég farin að hneigjast til þess að hófleg skólagjöld fyrir framhaldsháskólanám væru í lagi, einkum þegar þau eru ávísun á vel launað starf. Auðvitað er ekkert öryggi í námskránni samt, ég geri mér grein fyrir því.
Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér, og er enn. Sjálf er ég fordekruð og þakka skattgreiðendum fyrir að borga brúsann. Ég var í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og háskóla, allt fyrir lágmarksþóknun. Ég tók meirapróf þegar ég var 19 ára (fékk skírteinið á tvítugsafmælinu) og mér skilst að ég hafi borgað fyrir það nám sjálf. Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands og veit ekki betur en að ég hafi borgað tvo þriðju af kostnaðinum við að mennta mig. Þegar ég hef farið á tölvunámskeið hef ég borgað úr eigin vasa.
Er ekki einhver ósamkvæmni í þessu? Það er það sem ég er að hugsa núna. Leikskólinn er fyrsta skólastigið, menn hafa haft fögur orð um að gjaldfrelsa hann en víðast hefur ekki orðið af því (þó á Súðavík ef mig misminnir ekki). Einkaháskólarnir taka skólagjöld (180-250 þúsund finnst mér ég hafa heyrt) en fá líka úr sarpinum.
Kenning mín er núna sú að ef maður borgar gjöld fyrir námið sitt geri maður meiri kröfur bæði til sjálfs sín og kennara sinna. En þá verður maður líka skýlaust að eiga rétt á lánum fyrir námsgjöldunum - og námið verður að vera metið til launa þegar maður ræður sig starfa þar sem menntunin nýtist.
Núna var ég að hugsa upphátt ... Háskóli Íslands var með útskrift í dag og rektor er með háleitar hugmyndir um að koma HÍ á lista yfir 100 bestu skólana. Gera allir nemendur og kennarar raunhæfar kröfur til sjálfra sín - og standa undir þeim líka?
Við megum ekki vera hrædd við að ræða opinskátt um væntingar okkar í þessum málum og leiðir til að uppfylla þær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Svo var ég að tala við smið
Hann sagði mér að námið í Iðnskólanum á sínum tíma (fyrir kannski 10 árum) hefði verið ótrúlega þunglamalegt, gamaldags og langt á eftir. Er þetta ekki annars tvöföld endurtekning? Honum var líka talsvert niðri fyrir. Hann heldur að einkavæðing IR gæti orðið til góðs. Ég hef áhyggjur af iðnnámi og áhugaleysi gagnvart því - en þýðir ekki einkavæðing að skólinn fer á markað og kaupendur ætli að græða, óhagkvæmt nám líði undir lok og atvinnulífið verði fátæklegra?
Er það ekki svoleiðis?
Af hverju jókst þá ekki fjölbreytnin í bönkunum, af hverju lækkuðu ekki gjöldin og af hverju stórbatnaði ekki þjónustan? Þar er ég reyndar þakklátust fyrir heimabankann minn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
You're smart, not to have euroed yet
Eitthvað svona sagði Breti við mig áðan og ég tek það ekki til mín persónulega ... Svo sagði hann að það ógáfulegasta sem Bretar hefðu nokkru sinni gert hefði verið að ganga í Evrópusambandið, nú gerðu þeir ekki annað en að taka við tilskipunum frá Þjóðverjum og fyrirmælum frá Frökkum.
Í kveðjuskyni sagði hann að Bretar horfðu til okkar öfundaraugum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Ísland - dýrast í heimi?
Ég man ekki betur en að það sé alltaf í 1.-3. sæti yfir dýrustu löndin, Noregur er líka ofarlega. Einhvers staðar heyrði ég útundan mér einhvern tala um að best væri að markaðssetja það sem dýrasta landið (fyrir ferðamanninn). Er það ekki góð hugmynd? Um leið og það er orðið afgerandi dýrast gera menn líka kröfur, ferðamenn til okkar og við til okkar. Það ætti að lyfta metnaðinum (og laununum hjá pöpulnum í ferðaþjónustunni).
Við eigum miðnætursól og milda vetur á sumrin, snjó, myrkur og norðurljós á veturna. Það er líka óþarfi að leyfa Finnum að einoka jólasveininn. Svo eigum við sjúklega góðan mat. Hann er það ekki allur, en ég endurtek að við eigum sjúklega góðan mat. Ég var einu sinni að vinna í matartjaldi á víkingahátíð í Hafnarfirði og þar runnu út flatkökur með lambakjöti, já, ekki hangikjöti, bara venjulegu guðdómlegu lambakjöti af sumargengnu. Og núna eru ábyggilega ýmsir á leiðinni hingað á Food & Fund. Svo er tónlistin mjög ... íslensk.
Lækkum bara áfengisgjaldið vegna þess að ferðamenn sjá engan sjarma við að borga 700-kall fyrir rauðvínsdreitil með lambinu. Setjum svo trukk í Ísland - dýrast í heimi. Go!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Geymslutími evru
Ef til vill myndi mjólkin geymast betur ef hún væri keypt fyrir evru (en ekki pund?). Geymslutími evru kvað vera langvinnari. Ég þarf að velta þessu fyrir mér.
En 1. mars nálgast óðfluga og athygli mín var vakin á því að sælgæti mun lækka meira en t.d. grænmeti. Ég fór því með verðlagssjána í Krónuna:
Rískubbar frá Freyju, 170 g, 12 kubbar: 289 kr.
Svartur ópal, salmíak, 40 g: 128 kr.
Hvítt maltesers, 165 g: 298 kr.
Wella-háralitur: 985 kr.
Ég sá líka bananasprengjurnar frá Nóa en þær voru dýrari en í Bónusi þannig að ég ákvað að láta þær eiga sig, hehe. Tilfinning mín er að Krónan sé dýrari en evran ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Geymslutími mjólkur
Er ekki ábyggilegt að hann lagast líka og lengist 1. mars, á degi hinna gullnu verðlækkana? Mér hafa fundist brögð að því undanfarið að mjólkin súrni á síðasta söludegi. Kannski er ísskápurinn að gefa sig ... en ég vil frekar að mjólkurframleiðandinn skaffi mér endingardrýgri mjólk.
Hmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Bóklestur
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
Annállinn sem gefinn var út í síðustu viku í fyrsta skipti
Ég var einhvern veginn ekki mjög forvitin um Krónikuna þótt mér virðist Pétur Gunnarsson telja mig í markhópnum en þar sem ég hnaut um hana í kvöld fletti ég henni vitaskuld. Vissulega var pistillinn um sjávarútveginn í Rússlandi forvitnilegur og sitthvað fleira smálegt en uppistaðan fannst mér vera skoðanir sem ég get nálgast mikið hraðar á blogginu.
Þar sem þetta var fyrsta blaðið er ég auðvitað umburðarlyndari en andskotinn, en línuskiptingar í næsta tölublaði mega ekki vera tölvugerðar, a.m.k. ekki ef tölvan er svona vitlaus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
Étinrexa
Manni er nú umhugað um íslenska tungu, framþróun hennar og fjölbreytileika. Ekki vil ég að hún staðni og tréni eins og uppþornuð vefsíða. Ég fékk í morgun tækifæri til að rifja upp hina góðu sögn étinrexa sem varð til í skrafli nýlega. Merkingin er augljós, að gera veður út af matnum sem manni er gert að borða í mötuneytinu, á oftast við um matvönd börn.
Ég sé nú að orðið myndi gera sig engu minna gildandi í fimbulfambi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
10 dagar til stefnu
Ekki dugir að kaupa bara í matinn fram að degi hinna miklu virðisaukaskattslækkana.
Johnson's baby oil með aloe, 200 ml: 520 kr. hjá Lyfju
Ég var búin að hugsa mér að gá að einhverjum fötum, en það er svo erfitt að bera saman peysu og peysu - nema sama peysan sé.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. febrúar 2007
Stokkum upp í skólakerfinu
Ég var einu sinni leiðbeinandi í grunnskóla og fannst það svo erfitt að ég ákvað að mennta mig til að verða kennari. Ég fékk nefnilega engan bjánahroll, bara áhuga, fór í kennslufræðina og kenndi svo nokkra vetur í menntaskóla.
Ég veit að ég var að sumu leyti óöguð, ekki í kennslunni en í undirbúningi og yfirferð. Ég held að það hafi að miklu leyti helgast af því að að ég hafði enga eiginlega vinnuaðstöðu, eitthvert skæni fyrir skrifborð og enga eigin tölvu. Fyrsti veturinn var 1995-6 og þá var tölvupóstur a.m.k. ekki orðinn almennur þannig að maður vann svo sem fyrst og fremst verkefnin á tölvuna. Og sat síðan heilu kvöldin við eldhúsborðið með stíla, ritgerðir og rauð augu.
Ástæðan fyrir að ég söðlaði um og fór í annað var að töluverðu leyti námsmatið. Ég veit að þetta hljómar eins og afsökun en mér þótt hroðalega leiðinlegt að reikna út einkunnir, halda utan um þær allan veturinn og þurfa síðan fyrir jól og á vorin að rökstyðja einkunnagjöfina með því að draga upp verkefnaskilin og tíunda litlu atriðin til að útskýra 7 í stað 8. Þegar svo vildi verkast.
Við Ásgerður sem kenndum einn vetur saman vorum (og erum held ég) sammála um að það væri full ástæða til að stokka upp í kerfinu. Menn fárast yfir löngum fríum kennara, en það er ekki eins hlaupið að því fyrir kennara að lengja hjá sér helgi og skreppa í borgarferð yfir vetrartímann eins og margar aðrar stéttir. Kennarar eru í langa fríinu á dýrasta ferðatíma. Kennarar panta tíma hjá lækni, tannlækni, tíma fyrir börnin líka þegar þeir eru ekki í kennslustund - af því að þá eru þeir í því sem margir kalla frí en er í raun undirbúningstími. Og undirbúningurinn græjar sig ekki sjálfur hjá metnaðarfullum kennurum. En auðvitað eru skussar í stéttinni. Of margir einblína á þá.
Ég myndi vilja sjá einhverjar breytingar í kerfinu. Mér finnst að kennarar ættu að fá góða vinnuaðstöðu í skólunum og hafa vinnuskyldu þar kl. 8-16 eða eitthvað þess háttar. Þá gætu menn auðveldar borið saman bækur sínar, unnið verkefni saman og ég hefði a.m.k. átt auðveldara með að klára vinnuna á eðlilegum tíma í stað þess að eyða of miklum tíma illa.
Ég hefði viljað eiga möguleika á að kenna tímana fyrir Pál ef hann hefði farið yfir verkefni fyrir mig. Ég hefði viljað geta skipt við Brynjólf og hann kennt Eglu í báðum bekkjum en ég ritun í báðum. Mér finnst ekki nauðsynlegt að sami kennari semji verkefni, leggi fyrir og meti til einkunna. Ekki nauðsynlegt, hmm.
Það sem ég vildi sjá núna áður en menn setja undir sig hornin í kjaraviðræðum er fersk nálgun. Og að lokum verð ég að segja að ég tróð ekki illsakir við nokkurn samkennara ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 19. febrúar 2007
Óskað eftir íslenskumælandi starfsfólki
Í atvinnuauglýsingablaði Moggans í gær er tekið fram í auglýsingu frá 101 hóteli að aðeins íslenskumælandi umsækjendur komi til greina sem þó þurfi að kunna ensku vel. Undanfarið finnst mér einmitt hafa færst í vöxt að auglýst sé eftir starfsfólki á pólsku. Þetta er reyndar í gestamóttöku - en ætli þetta þýði að ekki íslenskumælandi fólk hafi sótt mikið um störf í hótelgeiranum?
Eða kannski finnst auglýsandanum ástæða til að taka það fram af öðru gefnu tilefni? Eftir því sem ég fæ best séð er engri íslensku veifað á heimasíðu hótelsins, bara ensku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)