Dalalíf eða Icesave

Ég er búin með 1. bindi af Dalalífi. Ég skil ekki þá sem gagnrýna þessa miklu mannlífsstúdíu. Þóra í Hvammi er í valþröng milli hins skemmtilega og hins siðlega. Jón á Nautaflötum heillar alla sem hann hittir af því að honum er svo sama um hið rétta, hann lætur sig aðeins hið skemmtilega varða. Og kemst upp með það af því að hann er svo ógurlega fagur á að líta, og á reyndar mikið undir sér líka, hreppstjórasonurinn sjálfur. Það er hægt að gagnrýna hann Jón en boj-ó-boj, hvað það er auðvelt að skilja hann og hinar persónurnar - og finna til með þeim.

Sótti mér 2. bindi á bókasafnið í dag og fresta Icesave-lestri á meðan. Er ekki líka hrikalega langt í 9. apríl?


Í skugga góðverka

Það verður bara að hafa það ef ég hljóma eins og fúlimúli en ekki vildi ég verða fyrir góðverki. Skv. Snöru er góðverk

gott verk, verk til líknar e-m

en hvað er góðverk í raun? Þegar einhver aumkar sig yfir mann! Ef ég gerði mömmu og pabba góðverk [greiða] með því að fara í heimsókn og spila við þau ... vildi ég ekki vera þau að þiggja það góðverk. Ég vildi, í þeirra sporum, að ég vildi koma í heimsókn. Ef einhver kaupir bakkelsi og kemur með óvænt í vinnuna - er það góðverk? Er það ekki bara einhver að gera eitthvað óvænt (ef svo) og skemmtilegt fyrir stemninguna, fyrir sig og hina?

Er það góðverk að horfa eftir því að eitthvert barn sem á leið yfir sömu götu og maður sjálfur komist yfir götuna? Er það góðverk barns við foreldra sína að fara að sofa þegar það á að fara að sofa? Og ef börnum er innrætt að það sé góðverk að gera sjálfsagða hluti er hætt við að þau fari að heimta sérstaka umbun fyrir það.

Þessi að-því-er-virðist úrillska er í boði góðverkavikunnar. Úrillskan þýðir alls ekki að mér finnist að fólk eigi ekki að koma fallega fram við annað fólk og umhverfi sitt. Ég vildi bara að hvatinn væri að fólk langaði til að gera hið rétta og umbunin væri sú að hafa gert rétt. Mér finnst gaman að koma fólki á óvart ... já, ef einhver vill fremja á mér góðverk er það með því að gera mig hissa og koma mér til að hlæja.

Persónulegri verð ég ekki á veraldarvefnum.


Harðstjórar æsku minnar

Mér er Gaddafi í barnsminni og hann ætti þar af leiðandi að vera hrokkinn upp af standinum. En nú þegar hann er að terrorísera mannskapinn, allan heiminn og ekki lengur fyrst og fremst sínar 6,5 milljónir, kemst ég að því, þegar mér finnst að hann ætti að vera minnst 140 ára, að HANN ER EKKI ORÐINN SJÖTUGUR.

Þegar ég var þetta áminnsta barn forðum daga birtist í einhverju dagblaði heilsíða með myndum af öllum hugsanlegum leiðtogum heims, nafnlaust, og bróðir minn alvitur sagði mér og hlýddi mér yfir hvert einasta nafn. Seiseijá, síðan man ég eftir skúrkinum í Líbíu sem er enn í fullu fjöri, á sextugastaogníunda aldursári.


Um Aðra Líf (ég er ekki með hástafablæti)

Þá er ég búin með nýjustu bók Ævars Arnar Jósepssonar. Fyrst er að nefna titilinn sem er í nefnifalli, tjah, Önnur líf hélt ég en svo skildist mér að líklega snerist titillinn um stúlkuna Líf þannig að titillinn, sést ekki á bókarkápu, hlýtur að vera Önnur Líf. Bókin er strax orðin miklu skárri en glæpasagan Ég man þig sem ég las síðast. Reyndar er titillinn hræðilega áferðarljótur svona.

Nema hvað, góðkunningjar mínir, Katrín, Guðni og Árni, eru öxullinn í þessari bók að vanda. Þau eru breysk og broguð og full af fortíð sem ég kann að meta. Vegna smæðar íslensks samfélags er heldur ekki frítt við að þau séu klukkuð af samferðafólki sínu sem ýmist verður fyrir ofbeldi eða beitir því. Í lok sögunnar eru þessi þrjú mislöskuð og hafa ekki endilega náð stórkostlegum árangri í lífinu. Það verður eitthvað svo auðvelt að hafa samúð með og skilning á fólki sem ræður ekki örlögum sínum að fullu. Á prenti.

Sagan um hina baráttuglöðu Erlu Líf sem lætur ekki bjóða sér hvaða skít sem er náði fullum tökum á mér, og ekki síður fyrir það að hún þurfti að heyja marga hildi sem voru fyrirfram vonlausir. Hún tekur margar rangar ákvarðanir og geldur illilega fyrir það en á sinn hátt voru þær óumflýjanlegar. Fléttan gerir sig en mér til mikillar ánægju áttaði ég mig á henni um miðja bók. Næstum.

Meðfram glæpasögunni skýtur Ævar Örn náttúrlega föstum skotum á staðið samfélagið og meðvirknina í því.

Þrálátar slettur skrifaðar upp á íslensku bögga mig ekki baun. Hins vegar veit ég um eina sem hætti eða hugsaði a.m.k. um að hætta að lesa. Mín vegna mætti hann alveg slaka á í þessu sem og því að skrifa saman tvö eða þrjú orð. Skrýtið t.d. að sjá að minnstakosti (minnir það en er reyndar búin að láta bókina frá mér) og margt svona. Svo er náttúrlega púrítaninn í mér alltaf skammt undan og hvessti sig þegar bíllinn var sitt á hvað masda, Masda og Mazda. Ritháttur ýmissa annarra orða var líka með ýmsu móti þannig að bókin hefði alveg þegið einn lokalestur.

Breytir því samt ekki að ég húrraði mér í gegnum hana og var ekki svikin af sögunni.

Og þá er aftur komið að Dalalífi, lagði hana frá mér um daginn á bls. 85. Enn er enginn farinn að lepja kaffi af móð og ég bíð spennt eftir meintum kellingastílnum. Jón Trausti hvað?


Bað einu sinni í viku

Flestir sem ég þekki baða sig daglega eða svo gott sem. En er einhver ástæða til að fólk sem hreyfir sig lítið og svitnar ekki að ráði baði sig svo oft? Mér finnst reyndar munur á einu sinni eða tvisvar í viku en ég þekki líka fullorðið fólk sem vill ekki sjá bað oftar en einu sinni í viku.

Það eru sjálfsagt ýmsar brotalamir á elliheimilum en að garga sig hásan yfir þessu dæmi finnst mér ekki vinna með málstaðnum.


Smalalíf

Ekki aðeins er ég byrjuð að lesa Dalalíf (vísun í fyrirsögn) sem er löngu tímabært heldur ástundaði ég smalalíf í gær. Ekki í fyrsta sinni, að sönnu, en í fyrsta sinn á árinu. Ég fór með tæplega 50 Bretum á Langjökul (og sex vönduðum bílstjórum, seiseijá). Veður var fagurt og blítt, Skotar, Englendingar og Wales-búar rúntuðu um jökulinn (alls ósprunginn) á sleðum og slöngum. Já, fullorðnir karlmenn renndu sér glaðbeittir niður brekkurnar, snerust í hringi, köstuðust í snjóinn og brostu út að öxlum. Ég hef ekki tölu á hversu margir sögðu mér að þeir ætluðu að koma aftur og þá með fjölskyldurnar með sér.

Hins vegar höfðu mínir góðu vinir, bílstjórarnir, áhyggjur af eldsneytisverðinu. Það hækkaði frá því að við fórum úr bænum og þangað til við komum aftur í bæinn. Rekstrarkostnaður svona ökutækja er mikill og þegar eldsneytisverðið flöktir stöðugt upp á við, flöktir sem sagt ekki heldur stígur bara, þurfa ferðarekendur að bæta því með tímanum ofan á ferðirnar og þá gæti stofninn ofurskattaðir ferðamenn orðið ofurskattaðir ferðamenn sem hættu við að koma til Íslands og fóru í staðinn til Keníu. Þó höfðu bílstjórarnir fundið fyrir aukningu á árinu vegna hópa sem höfðu bókað til Egyptalands en ákváðu að setja öryggið á oddinn og koma til lands sem er ekki þekkt að óeirðum.

Ein fyrsta spurningin sem ég fékk þegar hópurinn kom til landsins var einmitt um eldsneytisverð og þótt það sé hér á bensínstöðvum áþekkt og í Bretlandi skilst mér að verðmyndun vegna bíla og reksturs þeirra sé að öðru leyti ósambærileg.

Þeir höfðu skiptar skoðanir á því hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið. Ég þorði ekki að spyrja þá um þorskastríðin en sumir voru nógu gamlir til að muna þau.

Rentokil vinnur á meindýrum!

Smalalífið var einfalt og gott enda úrvalshópur á ferð og flinkir hópstjórar.


Man ég þig?

Ég get varla munað titilinn á nýju bókinni hennar Yrsu þegar ég legg bókina frá mér og þá finnst mér hann vondur. Ég hefði viljað hafa eitthvað lýsandi að vestan, eitthvað sem vísaði á Hesteyri, eða þá Ísafjörð eftir atvikum. Hvernig hefði t.d. Hringsólað á Hesteyri hljómað? Látnir ganga aftur? Fortíðin er enn á Ísafirði? Ekkjur eru varhugaverðar? Fortíðin er framundan?

Mér heyrist fólk ekki amast við langa titlinum á bók Braga Ólafssonar þannig að þetta snýst varla um það að ná augum fólks í því tilliti. Nei, ég held að þetta varði stóra mál sögunnar, að sögurnar eru tvær.

Þær eru tvær og óskyldar framan af, alveg línulegar og óháðar þangað til í blálokin. Auðvitað veit lesandinn frá upphafi að þær munu ná saman í lokin en í hartnær 300 síður er fyrst sögð önnur sagan, síðan hin, síðan sú fyrri, síðan hin síðari. Mér leiðist sjálfvirkni og þótt sagan sé vissulega draugaleg og spennandi er hún svo yfirgengileg formúla að ég skil ekki þá almennu aðdáun sem hefur ómað út af þessari sögu. Að sönnu þakka ég fyrir að Þóra er ekki á staðnum því að hún er virkilega hundleiðinleg og karakterlaus persóna, að ógleymdri ritaranefnunni á lögfræðistofunni. Ég er svolítið veik fyrir íslenskum skáldsögum, ístöðulaus og þess vegna les ég aftur og aftur höfunda sem ég ætla ekki að gera. En nú töluðu menn hástöfum um að Ég man þig væri spennandi og svo draugaleg að fólk flýði í annarra manna faðma.

Ég las bókina í myrkri (það er nefnilega vetur) en aldrei sótti að mér hrollur, aldrei heyrði ég aukabrak í húsinu, aldrei missti hjartað úr slag. Auðvitað segir þetta meira um taugarnar í mér sem bilast bara þegar fólk nálægt mér leggur sig einfaldlega ekki fram, hvorki við nám né aðra vinnu, en ekki þótt einhver hleri opnist í skáldsögu.

Af því að þessi ritdómur er hvort eð er meira um mig en bókina ætla ég að rifja upp að mér varð sennilega síðast um og ó þegar ég sá Lömbin þagna í bíó og þó var komið fram á vor. Mér getur brugðið en ég verð ekki skelkuð í lestri.

Að þessu sögðu er ekki nema maklegt að ég ljóstri samt líka upp þeirri skoðun minni að plottið gengur að mestu leyti upp. Það eru krossristurnar og innbrotin sem ég fæ ekki almennilega botn í, en ég skil mannshvörfin, handanhrópin, svikin og sitthvað fleira sem ég vil ekki nefna af tillitssemi við þann sem á eftir að lesa Ég man þig.

Er ég kannski þegar búin að segja of mikið?


Mascarpone

Auðvitað ætti maður að vera að tygja sig á vetrarhátíð en veðurbræðin í gær dró svo úr mér máttinn að ég fór að lesa mér til um mascarpone. Mér var bent á vikugamla grein úr Fréttatímanum sem hlýtur að vera eftir Gunnar Smára Egilsson, því að hann skrifar matarpistlana í blaðið, en nafn hans kemur ekki fram. Þangað til annað kemur í ljós ætla ég að álykta sem svo að rétt sé farið með í pistlinum. Í myndatexta er talað um að það þurfi einbeittan menningarlegan brotavilja til að búa til mascarpone eins og gert er hjá MS á Selfossi og í greininni er talað um að hann sé meira eins og búðingur en ostur. Ég er sérstaklega ánægð með þetta fyrir mína hönd því að tíramisú sem ég bjó til um síðustu helgi var helst til lint - og ég neita að axla ábyrgðina á því ...

Tíramisú í vinnslu


Sólsetur að morgni

Ég las í gærkvöldi undurfallega bók, Sólin sest að morgni, eftir Kristínu Steinsdóttur. Hún er full af minningabrotum austan af fjörðum þar sem landslagið skiptir máli og setur svip sinn á geðslagið. Mælandi fléttar tíðarandann, söguna og bókmenntir saman við uppeldið og hvernig uppalendunum tekst til. Hún er ekki skaplaus og henni er ekki ætlað það heldur. Og henni er ekki orða vant og fyrir það þakka ég.

Dæmi (bls. 19):

Okkur systkinunum lærist snemma að láta enga eiga hjá okkur. Það er dyggð að kunna að svara fyrir sig. Hallgerður langbrók og Bergþóra létu aldrei sinn hlut fyrir neinum. Þær sendu þræla og drápu menn.

Við sendum tóninn.

Annars eru minningarnar allar í nútíð, þátíðin bankar táknrænt á þegar sólin sest um morguninn. Hrífandi.

Kristín er ekki systir mín þrátt fyrir sama föðurnafn. Við vorum hins vegar á sama tíma í Leiðsöguskólanum. Nú get ég virkilega hlakkað til að lesa Ljósu.


Mubarak er leiður

Nei, ég ætla ekki að þykjast vera í talsambandi við hann Hosni, enda voru net og önnur fjarskipti  m.a.s. tekin úr sambandi í Egyptalandi fyrir viku. Ég hef allt mitt vit um Mið-Austurlönd frá öðrum, aðallega úr fréttum. Í hádeginu í dag fór ég út í Lögberg og hlustaði á Boga Ágústsson tjá sig af perónulegri innlifun um Egyptaland, Jemen og löndin þar um kring. Bogi var áheyrilegur mjög og bráðfyndinn, ég verð að segja það. Og í fyrirlestrasalnum var áhugasamt fólk sem spurði af þekkingu, fólk sem hafði farið á vettvang, fólk sem lét sig málið varða.

En ég er að velta fyrir mér hvort öll þessi lýðræðisviðleitni hefði farið framhjá mér fyrir þremur árum. Fullt af fólki hefur lengi haft meðvitund um alheiminn en ég held að mín sé núna fyrst að vakna.

Og þá sennilega vegna þess að ég er alveg hætt að skilja íslenskt lýræði.


Fagurfræðileg innræting?

Amma borðar bara soðinn fisk og hakkað kjöt, kartöflumús, Frónkex og drekkur te. Hún er lágvaxin, grönn og veik í ristli.

                                                      -Sólin sest að morgni, bls. 12

Ég skellti upp úr þegar ég las þetta. Hún hefði betur sleppt öllu þessu MSG-i.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband