Miðvikudagur, 27. febrúar 2013
DV á hálum málfræðiís
Það er sjálfsagt tilviljun en mér finnst villum hafa fjölgað í blöðunum. Mönnum *lýst á eitthvað og *þeim langar í eitthvað annað. Allar málbreytingar byrja sem málvillur þannig að kannski er óþarfi að verða eitthvað hörundsár. Margar slettur hafa líka náð fótfestu, svo sem að fíla, og nú er sögnin að læka að ryðja sér til rúms.
En ég skellti eiginlega upp úr þegar ég las þetta á dv.is:
Á fæstum fjölmiðlum er ekki talið við hæfi að fólk sé að fjalla um hvert um annað og búa til frægðarmenni innanhúss.
Enn held ég að menn séu á einu máli um að tvær neitanir núllist út og verði hið gagnstæða. Þess vegna má skilja ádeiluna svo að á flestum fjölmiðlum sé talið við hæfi að menn fjalli hver um annan.
Ég er ekki viss um að fjölmiðlarnir töpuðu á því að hafa prófarkalesara í sínum röðum. Nema þeir geri stanslaust út á skemmtigildi handvammarinnar. Kannski er góður bisniss í því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 24. febrúar 2013
Kristin gildi eru heiðin
Nei, ekki ætla ég að þykjast vera vel að mér í kristnum fræðum eða trúarbrögðum yfirleitt en þykist þó vita að jólin séu upphaflega heiðinn siður sem kristnir hafi gert að sínum. Og núna snýst sá siður mest um frí eða ekki frí, minnst um kristin gildi, siðfræði, góða hegðun eða þennan guð.
Hins vegar er sjálfsagt að hafa mannkærleika, siðfræði, gott siðferði og almannahagsmuni í huga við lagasetningu og bara í allri daglegri umgengni. Og það allt tengi ég ekkert sérstaklega við kirkuna.
Mér datt þetta sisona í hug ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. febrúar 2013
Ein hraðasta gata í heimi
Ég veit, ég veit að ég á að tala við seljanda þjónustunnar en mér finnst samt skrýtið að þegar ég er búin að panta háhraðaþjónustu fyrir tölvuna hægi hún á sér. Ég er að manna mig upp í að hringja í ... þjónustuveitandann svokallaða. Ég fæ orðið daglega upp skilaboðin:
A problem with this webpage caused Internet Explorer to close and reopen the tab.
Og þetta er ekki einu sinni WikiLeaks!
Og núna kom:
Internet Explorer has stopped working
A problem caused the program to stop working correctly. Windows will close the program and notify you if a solution is available.
Þá vel ég Close Program og stundum lokast einhverjir gluggar og stundum ekki. Ætli Tal eigi svar við spurningunni: Af hverju gerist þetta? Og: Er hægt að komast fyrir þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. febrúar 2013
Þjónustusamningur milli Strætós og borgarinnar
Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp strætósögu gærdagsins. Væntanlega eru flestir sammála um að bílstjórinn hafi farið offari þegar hann vísaði smábörnum úr vagninum, smábörnum sem höfðu augljóslega farið í hina áttina á útrunnu strætókorti sem byggir á samningi milli leikskóla/ grunnskóla og borgarinnar. Hafi ég ekki tekið svakalega skakkt eftir var einmitt ferðalagið utan háannar sem er fyrst á morgnana og svo síðdegis þannig að það eru engin þrengslarök gegn því að nýta ferðina.
En jafnvel þótt kortið hafi verið útrunnið er samningurinn þekktur. Vissi bílstjórinn ekki af alhliða og almennu samkomulagi?
Þetta komst til tals í nærumhverfi mínu í dag og ég heyrði nokkrar svæsnar sögur af bílstjórum sem loka á unglinga og bera við að þeir megi ekki vera að neinu drolli. Ég rifjaði líka upp þegar ég fór daglega með strætó og bílstjórinn beið stöku sinnum eftir mér þegar hann vissi að ég kæmi en var alveg á síðustu stundum (og hann kannski aðeins með fyrra fallinu) þannig að menn eru misjafnir í þessari stétt eins og öðrum.
En svo er það framkvæmdastjórinn ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. febrúar 2013
Málfræði: ekki vera nísk á essin
Um daginn tók ég vel eftir að nokkrir Íslendingar segja skýrt og greinilega að eitthvað sé ATHYGLIVERT, ekki endilega allrar athygli vert, bara: Mér þykir það athyglivert. Það er auðvitað rökrétt, athygli er kvenkynsorð og tekur ekki s í eignarfalli.
Vandinn er bara að tungumálið er ekki alls staðar og alltaf rökrétt. Við tölum ekki um skipsstjóra, heimsspeki, dagsskrár eða eldhússbréf. Við tölum um fiskafla en botnfisksafla. Og bolfisksafla sem er sko ekki það sama, hehe.
Og það er algengara og hefðbundara að tala um að eitthvað sé athyglisvert. Þess vegna finnst mér tilgerðarlegt að heyra fólk segja athyglivert og kveða skýrt að. Það sama fólk segir nefnilega ekki hæðnilega, stríðnilega, samkeppniforskot, landhelgigæsla eða móðursýkihlátur.
Það eru örugglega fleiri skemmtileg orðadæmi sem ég man ekki eftir núna - en ég hvet alla til að vanda orðfæri sitt, tala rétt og fagurt mál og sletta ekki nema þeir viti hvernig þeir geta sagt það sama á íslensku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. febrúar 2013
Vorið fer fram úr sér
Ég las hjá einhverjum í dag að febrúar væri hinn nýi apríl. Mér finnst hann hitta naglann á höfuðið, a.m.k. hér sunnan heiða. Daginn lengir um sex mínútur á dag og það munar um klukkutíma á rúmri viku. Það er bjart og hlýtt að fara á fætur um sjöleytið á morgnana.
Það er byrjað að vora.
Að því sögðu leggst ég alfarið gegn öllum hrókeringum og forfæringum með landsklukkuna. Ef við færum hana fram eða aftur einu sinni verður það þá að vera í eitt skipti fyrir öll.
Mikið er gott að vita eitthvað fyrir víst á þessum viðsjárverðu og síbreytilegu tímum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 14. febrúar 2013
Handþvotti haldið til haga
Ekki vissi ég að maður ætti að nota edik í skolinu. En þú?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 11. febrúar 2013
Ef maður slasast eða veikist
Sjálf þekki ég fáa sem vinna í heilbrigðisgeiranum og heldur ekki sérlega marga sem hafa þurft ítrekað á þjónustunni að halda. Enn sem komið er. Flestir hafa samt þurft að fara á slysó um dagana, í aðgerðir, minni eða stærri, notið sérhæfðrar þekkingar og þjónustu.
Er líklegt að heil stétt sé hæpuð upp í uppsagnir og andóf? Ég á mjög bágt með að trúa því að hjúkrunarfræðingar séu á samkeppnishæfum launum þótt allt sé talið og séu í einhverju öðru stríði en heilbrigðri kjarabaráttu.
Mér finnst forgangsatriði að leysa deiluna á Landspítalanum. Hvernig gengur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2013
Ragnheiður Bragadóttir er ólíkt málefnalegri ...
... í Fréttablaðinu í dag.
Ekki get ég bætt neinu málefnalegu við enda ekki löglærð eins og lagaprófessorinn en mér finnst brýnt að halda þessari grein til haga, m.a. líka því að ætlun ákærða, hvatirnar, getur ekki ráðið refsinæmi verknaðarins. Sá sem verður fyrir brotinu, þolandinn, hlýtur að vera útgangspunkturinn.
Gerendur fengu nokkurra ára refsidóma fyrir brotið sem þykir sannað en það stendur í sumum að gangast við því að brotið hafi verið á kynfrelsi þolandans. Af hverju er það svo erfitt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. febrúar 2013
Ætlaður glæpur
Ef lög væru óvefengjanleg þyrftum við hvorki lögfræðinga né dómstóla. Lög eru hins vegar túlkanleg - og túlkuð, þess vegna þarf stundum að skjóta álitamálum til dómstóla. Þrátt fyrir íslensk lög og Evrópulög voru menn til dæmis ekki vissir um hvernig Icesave færi á mánudaginn var. Mér heyrast flestir hafa orðið hissa á fullnaðarsigri okkar. Sem var ánægjulegur, auðvitað.
Þar af leiðandi er auðsagt að lög eru ekki hafin yfir vafa, lög eru bókstafur sem þarf að túlka. Ef lagabókstafurinn væri einn og sannur væru aldrei sérálit. Það þarf sem sagt ekki að fara fleiri orðum um það að lög eru mannanna verk, ekki sending frá guði eða öðrum annars heims.
Þess vegna gekk fram af mér þegar ég hlustaði á lögmann á Bylgjunni í morgun tala um hæstaréttardóm sem var felldur fyrir helgi. Hann er á vef Hæstaréttar.
Það sem helst hefur farið fyrir brjóstið á okkur, pöbulnum, er um það bil þetta:
Á hinn bóginn voru þau A, EV, J og Ó sýknuð af ákæru um kynferðisbrot þar sem háttsemi þeirra hefði haft þann tilgang einan að meiða A.
Margt hefur verið skrafað um dóminn og þar sem ég er hallari undir efnisleg rök en tilfinningaleg ætla ég að reyna að einbeita mér að einu í minni spekúlasjón. Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson skyggnast inn í hug gerenda, túlka hann og hljóta þar af leiðandi að láta lagabókstafinn lönd og leið. Lög eru túlkuð, ég segi það einu sinni enn.
... því næst ráðist á brotaþola meðal annars með því að sparka í höfuð hennar, skera í fingur hennar með hnífi og slá hana með leðurkylfu, svo og með því að ákærði Elías Valdimar, sem hulið hafði andlit sitt, hafi stungið fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmt þar á milli ...
Æ, hann ætlaði bara að meiða hana.
Fram er komið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka ...
Einn gerandi fær samt fimm og hálft ár í fangelsi, hinir þrír fá fjögur ár.
Ingibjörg Benediktsdóttir var með sérálit (af því að dómar segja sig ekki sjálfir):
Með lögum nr. 40/1992 og nr. 61/2007 var ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot breytt þar sem gildandi lög um þau brot þóttu ekki veita þolendum brota nægilega réttarvernd. Var áhersla lögð á að tryggja friðhelgi, sjálfsákvörðunarrétt, kynfrelsi og athafnafrelsi brotaþola. Markmiðið var meðal annars að færa reglurnar til nútímalegs horfs og auka vernd barna og kvenna gegn kynferðisbrotum.
Og þá er ég komin hring því að ég hlustaði sem sagt á lögmanninn í útvarpinu í morgun. Honum fannst dómur karlanna eðlilegur af því að, þið vitið, gaurinn ætlaði bara að meiða fórnarlambið. (Sá sem rænir banka og fótbrýtur einhvern óvart í leiðinni ætti með sömu rökum bara að fá dóm fyrir auðgunarbrot ef hann næst. Og ef hann hafði byssu til að skjóta í viftuna en hitti óvart manneskju og varð að aldurtila - hann ætlaði bara að komast undan.) Tilgangur brotamannsins ræður túlkun dómaranna, ég get ekki skilið lögmanninn öðruvísi. Dómurinn snýst um gerandann af því að það er verið að dæma hann.
Svo spurði Kolla hvort lögmanninum þætti ástæða til að breyta lögunum.
Nei, það fannst honum ekki. Það er vegna þess að hann tekur afstöðu með brotamanninum. Held ég. Hann segir að það sé verið að gera veður út af engu. Ég skil lögmanninn svo að honum finnist mótmælendur sýna ofstæki. (Ég held að túlkun mín sé rétt hér.)
En er ekki nauðgun alltaf ofbeldisbrot?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. febrúar 2013
Þetta er aldrei búið ...
Nú er dómur fallinn og við sýknuð. Frábært. En hvað kostaði biðin? Hvað kostuðu allar löngu ræðurnar sem voru fluttar vikum saman? Var ekki allt í frosti á meðan?
Hvað kostar orðsporið? Og erum við alveg saklaus? Var kannski rétt að fara af stað með innlánasöfnun í Bretlandi og Hollandi á sínum tíma? Eru Björgólfur og Sigurjón klókir viðskiptamenn? Þurfti Seðlabankinn ekkert að leggja út? Tapaði ég ekki sparifé? Hækkuðu ekki skuldir heimilanna? Eru ekki gjaldeyrishöft? Var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki með lögheimili hér árum saman?
SpKef, Íbúðalánasjóður, verðbólga, gengi, matvælaverð - það fer svo mikill hrollur um mig við tilhugsunina um að við höldum að allt sé í himnalagi að ég held helst að ný ísöld sé runnin upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. febrúar 2013
11.30
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. febrúar 2013
Löggilding, ha?
Sem leiðsögumaður mætti ég á Dag menntunar Samtaka ferðaþjónustunnar á Hótel Natura í morgun. Þar voru margir færir fyrirlesarar og morgunstundin var skemmtileg í góðum félagsskap. En auðvitað hjó ég mest eftir því að aðalfyrirlesarinn talaði fjálglega um gildi menntunar, sagði marga sjálfsagða hluti um fyrirtækjarekstur (en meðvitaður um það og gerði það mjög skemmtilega) en lagði sem sagt mikið upp úr menntun, já, og framkomu, stöðugri bætingu í starfi, metnaði í rekstri og betri afkomu sem tengist öllu framantöldu.
Framkvæmdastjóri SAF sat þarna og hlýddi á eins og ég og nú hlýtur hún að fara að átta sig á nauðsyn þess að leiðsögumenn fái löggildingu starfsheitis. Hæft fólk flýr stéttina, með eða án menntunar ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)