Vaxta-fokkings-munur bankanna

Er eitthvað óeðlilegt við arðgreiðslur fyrirtækja? Oft mætti ætla að svo væri af umræðunni að dæma.

Svo var spurt í leiðara Fréttablaðsins í gær.

Leiðarahöfundi finnst umræðan ósanngjörn og segir:

Við þær aðstæður sem nú eru í hagkerfinu, þar sem eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé er takmörkuð, hafa bankarnir skiljanlega ekki hvata til að ýta undir útlánaþenslu. Það gilda sömu lögmál um banka og önnur fyrirtæki í atvinnurekstri. Ef þeir geta ekki ávaxtað það eigið fé sem er langt umfram kröfur eftirlitsstofnana, þá standa góð rök til þess að fjármagnið komi að betri notum í höndum hluthafa í stað þess að það sé læst inni í bönkum. Við þurfum nefnilega á því að halda að beina þolinmóðu fjármagni í fjárfestingu og neyslu.

Áður er hann búinn að segja að hluthafar séu einkum íslenskir lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir.

Ég spyr: Ef bankarnir eru að sligast undan fé sem þeir geta ekki komið í vinnu, væri þá ekki rétti tíminn til að hætta að ofrukka viðskiptavini bankanna? Ég veit að fasteignavextir hafa lækkað og geri ráð fyrir að það sé tímabundið, bara nógu lengi til að krækja í marga nýja viðskiptavini sem sitja síðan uppi með þungar skuldabyrðar eftir nokkur ár, en á mörgum sparifjárreikningum eru innlánsvextir 0,05% og útlánsvextir (yfirdráttarvextir) 8,50%, sbr. mynd:

 

vaxtamunur febrúar 2021

 

Ég nenni ekki að reikna út hversu mörg þúsund prósent vextir þetta eru. Bankarnir eru því að svína á þeim sem höllustum fæti standa, lágtekjufólki og sjálfsagt barnmörgu fólki. En leiðarahöfundur vorkennir bönkunum og hluthöfunum.


Skatturinn og dráttarvextirnir hans

Fyrir mánuði fékk ég „hnipp“ frá Skattinum um að ég skuldaði honum peninga og hann lét að því liggja að þetta væri ítrekun. Upphófust þá miklar skriftir, leitir og útskýringar með tveimur starfsmönnum Skattsins. Skuldin og skýringin fannst en Skatturinn gekkst við því að hann hefði ekki innheimt hana eins og hann átti að gera og ég sagðist ekki tilbúin að borga hámarksdráttarvexti heldur lagði til að ég borgaði venjulega innlánsvexti, „gróðann“ sem ég hafði af því að draga greiðsluna.

Þá heyrði ég ekkert meir og hugsaði að þau hefðu séð sóma sinn í að fella skuldina niður. Ég er óheyrilega skilvís manneskja og borga alltaf það sem mér ber á réttum tíma. Einhver gæti hugsað og sagt að ég hlyti að hafa vitað af þessum ógreiddu opinberu gjöldum en ég skýrði það í fyrri færslum.

Nú hagar svo til að ég opna heimabankann minn á hverjum degi. Og núna rétt áðan blasti þetta við:

dráttarvextir

 

 

 

Ókei, upphæðin er lág og ég ætla að játa mig sigraða í þessu stríði af því að ég á við ofurefli að etja en ykkur að segja hef ég ekki fengið þessa markaðsvexti á upphæðina sem ég skuldaði. En hey, ríkissjóð munar um 2.129 kr. og þá er það mín ákvörðun að aumka mig yfir hann og henda út líflínu.

Hins vegar finnst mér undarlegt og ámælisvert að senda mér rukkunina með sama gjalddaga og eindaga OG sama dag og bæði gjalddagi og eindagi er. Rukkunin var nefnilega ekki þarna í gær.

Góða helgi.


Lífslokameðferð að vali lækna

Ég fæ svo mikinn hroll þegar ég les og heyri um dánartilfellið á Suðurnesjum. Ég þekki ekki til þess atviks en votta aðstandendum samúð mína og finn til með þeim.

Fyrir rúmum þremur árum dó mamma mín á Landspítalanum. Hún var eldhress til 28. október 2017. Þá skall hún á hnakkann á Kjarvalsstöðum þar sem hún var að kjósa til þings. Henni blæddi mikið. Ég var með henni og fór með henni á spítalann. Afsakið að ég segi það hreint út en sjúkraflutningamönnunum var eiginlega sama um hana, læknunum á bráðamóttökunni líka og næstum öllum í ferlinu sem fylgdi. Ég man ekki eftir neinum heilbrigðisstarfsmanni sem sýndi umhyggju eða neina natni en ég man að þegar hún fór að missa meðvitund í janúarbyrjun eftir millilendingu á Landakoti - sem var andstyggilegur staður - og fór á kvennadeild Landspítalans (þar sem skásta starfsfólkið var) var hún einfaldlega afskrifuð. Tvær konur með lækningaleyfi sem ég átti fund með á mánudegi sögðu af algjöru skeytingarleysi við mig og bróðurómyndina mína sem ég umgekkst þá enn að þetta væri búið og voru byrjaðar að jarða hana en þá var dýrleg kveðjuvika framundan. Svo missti hún endanlega meðvitund á föstudeginum og dó undir kvöld á laugardegi, 13. janúar 2018.

Ég fæ enn gráthviður þegar ég rifja upp síðustu mánuðina hennar mömmu en sem betur fer áttum við dýrlega síðustu viku á kvennadeildinni þar sem ég var næstum stöðugt hjá henni. Við stefndum til hennar öllu mögulegu fólki sem kvaddi hana af því að við vissum samt að lífið var að fjara út. 

En svei þessum læknum sem töluðu um hana eins og hlut.

Og svo þegar fólki í þessari stöðu er vikið í leyfi meðan verið er að rannsaka siðlaus vinnubrögð er það vafalaust á fullu kaupi hjá skattgreiðendum. Fólki er umbunað fyrir að fúska.

Svei.


Útskrift frá Háskóla Íslands

Ég útskrifaðist ekki í gær frá Háskóla Íslanda vegna þess að mér tókst ekki að klára ritgerð mína í þýðingafræði í tíma. Hins vegar er ég núna líka í öðru námi við HÍ, blaða- og fréttamennsku, og ákvað að gera sjónvarpsfrétt um þennan tímamótadag. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti sem nemendum er hleypt inn í Háskólabíó einum í einu til að sækja prófskírteinin sín og fá myndatöku, allt vegna sóttvarna.

Ég talaði við einn sem undirbjó daginn og svo þrjú sem voru að útskrifast og ég vona eiginlega að brautskráningarhátíðin verði eitthvað þessu lík framvegis. Hugsanlega væri hægt að eyrnamerkja einn klukkutíma í senn brautskráningarviðburði fyrir hvert svið. Ég hef þrisvar útskrifast frá HÍ, fyrst 1994, og hef aldrei mætt í brautskráningu vegna þess að mig langaði ekki að sitja í allt að fjóra tíma undir því að öllum útskriftarnemendum væru afhent prófskírteini sín. Hins vegar hefði ég ekki viljað missa af útskriftardeginum í menntaskóla vegna þess að það gerir maður bara einu sinni.

Svo heyrði ég nýlega að þótt útskriftarnemendur væru beðnir um að sitja sem fastast þangað til viðburðurinn væri búinn færu margir þeirra meðan kórinn væri að syngja og/eða settust ekki aftur þegar þeir væru búnir að sækja skírteinin sín upp á svið. Hvar er hátíðleikinn þá, spyr ég, ef mikil hreyfing er á salnum á meðan þeir síðustu sækja skírteinin?

Meðfylgjandi smáfrétt sem ég setti á YouTube í gær gerði ég 97% sjálf og þótt sitthvað megi laga jaðrar við kraftaverk að ég hafi gert hana næstum ein. Fyrir rúmri viku hélt ég að ég gæti ekki einu sinni stillt myndavélina á zebra og gula fókusinn, hvað þá stillt mér sjálf upp fyrir framan myndavélina og klippt svo allt aukaefni í burtu, lagt myndefni yfir talað mál, skrifað inn nöfn viðmælenda og búið til kreditlista, en þetta gerði ég samt í gær í Final Cut forritinu í Apple-tölvu í skólanum. 

Háskóli Íslands er akkeri og mikið óskaplega er ég þakklát fyrir að vera á dögum núna.


Umönnun fullorðinna

Ég horfði á magnaðan spjallþátt um umönnun foreldra og tengdi svo sterkt við umræðuna. Fólk segir söguna af því úrræðaleysi sem einkennir hreinlega öldrun. Ég ætla ekki að endursegja sögurnar sem aðstandendur segja en segi fyrir mína parta að þótt ég sé góð dóttir, nú án foreldra, sé ég mest í lífinu eftir að hafa ekki verið enn betri dóttir og unnið minni launavinnu meðan mamma og pabbi lifðu. Þau voru býsna hraust, og ég þakka fyrir það, en um leið og fólk er orðið áttrætt og þarf heilbrigðisþjónustu virðist sem kennitalan banni að nóg sé gert til að létta því lífið.

Mikið innilega vona ég að þetta breytist og það sem fyrst.


40% af ... hagnaði?

„Staðreyndin er bara sú að sjávarútvegurinn hefur greitt á umliðnum árum um það bil 20 prósent af hagnaði sem sjávarútvegurinn hefur greitt í auðlindagjaldið.“

Eitthvað í þessa veru heyrði ég líka framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segja í útvarpinu í dag, sem sagt að sjávarútvegurinn greiddi 20% af hagnaði. Ég hef reyndar líka heyrt talað um að sjávarútvegurinn greiði 10% en eins og við vitum er hægt að reikna út og suður þangað til maður fær ákjósanlega tölu.

Ef við látum okkur lynda að talan sé sú hærri, 20% af hagnaði, er hún samt til muna lægri en prósentan sem venjulegt launafólk greiðir af „hagnaði sínum“ til að standa straum af kostnaði við að reka samfélag.


Það sem allir vilja verða en enginn vera

Við viljum flest verða gömul en ekki endilega vera gömul. Þessi speki rifjaðist upp fyrir mér vegna skólagöngu minnar. Ég þarf að opna vælugluggann. Ég er að læra til blaðamanns og það er óborganlega skemmtilegt - en svo er eitt lítilræði sem ég vil bara kunna en helst ekki læra. Ég á að taka sjónvarpsviðtal og hlakka bara til þess en svo þarf ég að hlaða því inn í tölvu (myndefninu) og klippa það með forriti sem heitir Final Cut. Kennaranum finnst það svo einfalt að hann getur ekki útskýrt það fyrir manneskju sem hefur aldrei notað makka.

Það er ekki óalgengt umkvörtunarefni að kennarar geti ekki komið því til skila sem þeim finnst svo auðskilið sjálfum.

Ef hann ætlaði að útskýra fyrir mér - eða ég fyrir honum - leyndardóminn um kennimyndir sagna væri ég á grænni grein - en hann ekki - þannig að ég ætla ekki að fórna hér höndum yfir því hvað ég sé vitlaus. Ég þarf bara að segja þetta einu sinni upphátt. Þegar ég verð búin að læra þetta með að importa í libraryið og transporta í galleríið og nota svo einhverja effekta til að fletta viðmælandanum á samskeytunum horfi ég til 10. febrúar 2021 í forundran en akkúrat núna langar mig að ... lemja teppið.


Lífið með moltutunnu

Ég vildi að ég gæti flokkað allt sem ég hendi. Ég vildi að ég gæti hent meiru en ég geri. Ástæðan fyrir því að ég hendi minna en ég vildi er tvenns konar. Ég er ekki viss um að það nýtist öðrum, t.d. Rauða krossinum eða umhverfinu. Hin ástæðan er að ég er tilfinningalega tengd því sem ég veit að ég mun samt á endanum þurfa að farga. Ég er með stafla frá mömmu og pabba sem koma út á mér tárunum; bréf, myndir, föt og persónulega muni.

Í haust fékk ég mér moltutunnu í eldhúsið, bokashi. Ég er enn ekki komin með neina nothæfa mold en það styttist í það. Mér líður betur með að henda lífrænu ofan í hana, svo sem kaffikorgi, eplakjörnum, eggjaskurn og bananahýði. Svo er hægt að flokka pappír og plast þótt það sé ekki alltaf nógu einfalt. Í gær heyrði ég t.d. að á kassastrimlum í búðunum væri eitur, þá í prentinu. Ég hef einmitt huggað mig við það að strimillinn sem Bónus prentar handa mér í hverri búðarferð fer þó í pappírstunnuna en nú veit ég ekki hvað ég á að halda.

En svo verð ég að hrósa Reykjavíkurborg hástöfum. Um síðustu helgi sendi ég, eftir óformlegan húsfund, beiðni um að önnur gráa tunnan við húsið yrði tekin. Eldsnemma á mánudagsmorgni fékk ég svar um að það yrði gert við fyrstu hentugleika og á þriðjudegi var hún farin. 

En mikið vill meira, nú ætla ég að reyna að galdra til okkar tunnu fyrir lífrænan úrgang í stað þessarar gráu. 


Sænska - eða er það skánska?

Ég kláraði loks að horfa á sænska sakamálaþáttinn Leitina að morðingja í spilara RÚV. Hann var ekki eins spennandi og DNA sem er nú horfinn úr spilaranum. Ég held reyndar að DNA eigi eftir að koma í línulega dagskrá.

Nema hvað, Jakten på en mördare hefur sér það helst til ágætis að sænskan er ósvikin. Mér finnst alltaf gaman að hlusta á norrænu málin og það er sérstakur bónus þegar ég þekki ekki leikarana. Tímabilið nær yfir árin 1989-2004 sem endurspeglast í ritvél sem breytist í frumstæða tölvu og svo fyrstu farsímunum. Faxtækin voru enn við lýði. Ég man þetta allt.

En það sem mér fannst skondnast var að rannsóknarlögreglufólkið var síreykjandi og alltaf að drekka kaffi, fyrst úr plastmálum sem voru sett ofan í harðplasthaldara og svo úr alvörupostulíni.

Annað sem mér fannst áhugavert var að sjá hvað þau lentu oft í blindgötum og áþreifanlegum hindrunum hjá yfirmönnum. Aðalgaurinn vildi bara einbeita sér að því að leysa málin en hann rakst hins vegar ekki sérlega vel á gildisorðadögum eða í að fylla út eyðublöð og skrá 30 símtöl sem 30 yfirheyrslur. Hann lét þó ekki slá sig út af laginu.

Ég las allt Dalalíf fyrir tæpum 10 árum, þ.e. ég las öll bindin, allar 2.200 síðurnar, á árinu 2011. Ég beið spennt eftir allri kaffidrykkjunni sem mér finnst fólk tengja við Dalalíf. Hún var af skornum skammti. Hér var hins vegar nóg af kaffidrykkju - nema þegar þau fögnuðu stóru áfögnunum með því að fá sér viskí úr kaffibolluunum.

Eftir á að hyggja er þetta býsna góður þáttur. Norrænu raðirnar láta ekki að sér hæða.


Fréttir Stöðvar 2

Ég vil hafa mikið fréttaframboð og geta valið á milli án þess að kaupa áskrift að afþreyingarstöð eins og Stöð 2 er að mestu leyti. Mér finnst hins vegar leiðinlegt þegar fólk talar fréttir Stöðvar 2 niður vegna þess að margt er þar ágætlega gert. Ég hlusta á Bylgjuna meðan ég sýsla í eldhúsinu og held að ég eigi eftir að koma mér upp nýjum og miklu betri siðum. Ég sakna þess þó að sjá ekki Víglínuna.


YouTube-kynslóðin

Ég var búin að hugsa ýmislegt upphaf á þessari hugleiðingu um YouTube-kynslóðina, aðallega samanburð við hinar kynslóðirnar, t.d. kynslóð pabba sem lærði heilu ljóðabálkana utan að og kunni fram í andlátið. Pabbi hafði oft orð á því hvað honum fyndist dapurlegt að fólk lærði ekki lengur ljóð. En fólk veit sem er, að internetið geymir þau öll og að óþarft er að læra þau utan að.

Samt hef ég reyndar ekki fundið þessa ferskeytlu á netinu:

Hafragraut í heila stað
hefur þessi drengur,
gæna húfan hylur það
held ég ekki lengur.

Og þó! Ég gúglaði fyrstu línuna og fann hljóðdæmi! Neðsta línan er að vísu öðruvísi en kannski er mín útgáfa engu síðri.

Yngri kynslóðirnar kunna hins vegar að fletta upp og lesa sér til á augabragði um það sem mér finnst flókið tæknimál. Ef fulltrúi YouTube-kynslóðarinnar hefði ekki setið drjúga stund með mér um helgina að klippa þriggja kortera langa hljóðupptöku væri ég enn að reyta hár mitt - nema ég væri orðin alveg sköllótt.

Vonandi get ég núna sjálf notað Audacity við að klippa frétt fyrir föstudaginn. En ég þarf að gera fleira en að klippa fréttina ... ég þarf að finna mér viðmælendur, tala við þá og semja fréttina líka!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband