Ekki hægt að koma í orð

Það er svo margt sem er svo sjálfsagt að manni finnst óþarft að hafa orð á því. Hvernig finnst verkalýðsleiðtoga eðlilegt að hætta í starfi og fara út með tugi milljóna? Af hverju hótar útgerðin að hætta landvinnslu á Íslandi ef henni verður gert að greiða skatta og gjöld eins og aðrar atvinnugreinar gera? Umræðan um það mál hefur verið hávær í áratugi og ég hef hugsað þetta síðan ég var í Leiðsöguskólanum 2000-2001, hafði ekki áttað mig fyrr. Ég borga skatta og tek glöð þátt í samneyslunni. Gerir þú það ekki líka? Af hverju þá ekki fyrirtækin sem fengu ómælt fé að gjöf við frjálsa framsalið upp úr 1990? Einhverjir gamlir kvótahafar seldu sig út úr greininni, seldu gjafagerning, en fyrirtækin sem greiða sér milljarða í arð eftir að öll gjöld hafa verið greidd, búið að fjárfesta í skipum og veiðarfærum, húsum og flæðilínum, ættu að sjá sóma sinn í að borga til samfélagsins. Gerir Kári Stefánsson það ekki með glöðu geði?

Nei, þetta er allt svo sjálfsagt að það er ekki hægt að koma því í orð. Kenning mín er að erfiðast sé að rökstyðja það sem blasir við. Þegar niðurstaðan er ekki eins ljós fer maður meira ofan í saumana á öllum hlutum.

Í Bítinu spjölluðu tveir þingmenn um hið lífseiga vandamál.


Barnamálaráðherra II

Þó að ég hafi ákveðið að hugsa hér upphátt á fimmtudaginn er ég móttækileg fyrir nýjum rökum og bjóst allt eins við að ég myndi eitthvað skipta um skoðun. En eftir helgina er ég sannfærðari en ég var - en áfram opin fyrir nýjum upplýsingum og rökum - um að enginn glæpur hafi verið framinn í aðdraganda þess að nú fyrrverandi barnamálaráðherra og barnsfaðir hennar urðu foreldrar 1990.

Og viljinn til að fella keilur um trúnaðarleka úr forsætisráðuneytinu virkar svo fráleitur að ég á ekki til önnur orð um hann en þann að barnamálaráðherra bauðst að sitja fundinn meðan enginn vissi efni hans. 

Ég trúi ekki á guð en ég trúi á sanngirni og þessi orð eru sérlega viðeigandi: Sá yðar sem syndlaus er ...

Skyldi ekki eitthvað misjafnt koma upp úr óhreinatauskörfunni hjá þeim sem hafa galað hæst ef tauið yrði hengt á snúruna?


Barnamálaráðherra

Ásthildur Lóa gerði vel í að segja af sér ráðherraembætti, annars hefði enginn friður orðið um góð störf nokkurs í ríkisstjórninni, en ég vil segja þetta:

Árið 1990 urðu börn fyrr fullorðin, að lögum. Því miður finn ég ekki barnalög sem kveða á um aldurinn og ég man hann ekki, en það er klárt að börn hættu fyrr að vera skilgreind börn fyrir þessum áratugum.

Þess eru fjölmörg dæmi að 15-16 ára stelpur voru með 20-25 ára strákum og eignuðust með þeim börn. Það er sjaldgæfara að stelpan sé eldri. 

Þegar ég var einu sinni fararstjóri í sumarbúðum barna, árið var víst 1992, var þar 15 ára fullorðinslegur strákur sem dró einn fararstjórann, finnska konu, á tálar. Við vorum vissulega mjög bit á henni. 

En þessi fyrirsögn Heimildarinnar er fyrir neðan allar hellur:

Barnamálaráðherra eignaðist barn með barnungum pilti

Enginn lesandi sem ekki hefur séð eitthvað á undan lætur sér detta annað í hug en að núverandi barnamálaráðherra hafi NÚNA eignast þetta barn. Barnamálaráðherra eignaðist auðvitað ekki barn sem barnamálaráðherra.

Vísir er skömminni skárri:

Barna­málaráðherra eignaðist barn með tánings­pilti þegar hún var 22 ára

Þessi fréttaflutningur gerir samt í því að kasta skömm á viðfangsefnið frekar en að upplýsa lesendur um sannleikann. Og ég get alveg játað það að ég ætla ekki að sitja í neinum fílabeinsturni og benda fingri á ráðherrann fyrrverandi. 


Flug til Ísafjarðar, flug frá Ísafirði

Hvað verður um sjúkraflugið þegar Icelandair hættir að fljúga til og frá Ísafirði?

Og hvernig eiga ömmur Ísafjarðar að komast til læknis í Reykjavík?

Þessar fréttir dyndu varla á okkur ef annað flugfélag flygi til og frá Ísafirði. Eða flýgur einhver á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur þegar Bogi Nils selur vélina sem hentar þröngri aðkomunni á Ísafirði?


Nanna gagnrýnir RÚV á Vísi

Ég horfði á fyrsta matarsöguþáttinn á RÚV fyrir mánuði og mér fannst hann svo ótrúlega lélegur og óspennandi að ég hafði orð á því í spjalli við nokkrar vinkonur. Þær höfðu ekki horft nema ein sem var sammála mér þannig að ég vissi ekkert um almenna skoðun og veit svo sem ekki enn, en nú tjáir sig einn viðmælandi úr þáttunum. 

Helsti matargúrú samtímans býsnast yfir notkun myndefnis í þáttunum. Ég tók mjög eindregna ákvörðun um að horfa ekki á fleiri af þessum tilgerðarlegu og uppskrúfuðu þáttum þannig að ég vissi ekki hvort þetta hefði haldið áfram en mig grunar það eftir lestur þessarar skoðunar Nönnu.

Nú væri freistandi að nota ferðina og tala um lélega dagskrá RÚV en ég læt duga að segja:

- Fækkaðu endurtekningunum, Stefán.

- Hættu að láta kynninn (af spólum) kynna efni ofan í efnið, Stefán.

- En takk fyrir handboltann í janúar, Stefán.

Ég er ekki áskrifandi að Stöð 2 en ef ég þyrfti að velja á milli fréttatíma Stöðvar 2, sem er í opinni dagskrá, og RÚV myndi ég velja Stöð 2. Það eru margir fínir fréttamenn á RÚV en stundum vantar bara aðeins of mikið upp á (frásagnar)gleðina.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband