Sunnudagur, 29. apríl 2012
Ef leiðsögumaður ...
Leiðsögumenn hafa árum saman barist fyrir því að fá löggilt starfsheiti. Helsti stopparinn er hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Það geta vel verið rök gegn löggildingunni og sumir góðir vinir mínir (sem ekki eru í ferðaþjónustunni) eru ekkert á því að við leiðsögumenn eigum að fá löggildingu.
Það eru til lélegir fagmenntaðir leiðsögumenn, já já, og það eru til óskólagengnir leiðsögumenn á heimsmælikvarða en við höldum samt að löggilding myndi meðal annars koma í veg fyrir þá sjóræningjastarfsemi að útlenskir hópstjórar sem hafa einu sinni komið til landsins kæmu síðan strax næsta ár sem leiðsögumenn án þess að vita nokkuð umfram það sem þeir heyrðu í sinni fyrstu ferð.
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, var í heimsókn á Bylgjunni í vikunni að tala um Kerið og aðkomu að því - eða ekki aðkomu því að Kerið er í einkaeigu þótt Vegagerðin hafi gert bílastæðið og ferðamálaráð stíginn. Og hún hafði orð á leiðsögumönnum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 26. apríl 2012
Viðbrögð við einelti
Ég er í bobba. Ég fordæmi einelti en ég er ekki alltaf viss um að fólk sé að tala um það sama. Ég heyrði í Stefáni Karli regnbogabarni í útvarpinu í morgun og hann lýsti hálfgerðri hryllingsmynd.
Þegar barn er lagt í einelti er það oft flutt í annan skóla í öðru hverfi frekar en að taka á gerandanum/gerendunum. Samt er það engin lausn. Samt er talað um að börn sem eru lögð í einelti hafi ekkert gert til að verðskulda það.
Það er eitthvað í röksemdunum sem gengur ekki upp.
Ef vandinn er ekki hjá barninu sem er lagt í einelti - sem ég er sammála um að verði fyrir einelti fyrir engar sakir - af hverju er þá ekki lausn að flytja barnið frá gerandanum?
Mér finnst að gerendur eigi að finna á eigin skinni að þetta er ekki gott. Gerandinn á að flytja í annan skóla ef hann sér ekki að sér.
Ég veit að ég er á hálum ís og geri ráð fyrir að sá einstaklingur sem er lagður í einelti fyrir engar sakir verði var um sig og eigi erfitt þótt hann sé fluttur til ef ekki er ráðist að rót vandans.
Já, það þarf að breyta gerendunum. En ef þolandinn er ekki sá seki (sammála því auðvitað) ætti hann að græða á flutningnum nema hann sé þegar orðinn svo skaddaður af eineltinu að það verði ekki aftur snúið. Og það væri fáránleg niðurstaða.
Kann ekkert á Olweus og ætti auðvitað ekki að játa þetta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. apríl 2012
Kræklingar eru matur
... enda enn r-mánuður, apríl.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 19. apríl 2012
Veður og sr. veður
Ég tek eftir því að íslensku veðurspánni fyrir Reykjavík og nágrenni ber ekki saman við þá norsku. Mér til mikillar gleði tökum við í gönguklúbbnum meira mark á þeirri norsku um helgina. Styttist þá ekki líka í norska yfirvaldið og norsku krónuna?
Er pólitík í veðurkortunum? Ja, ef það er pólitík í forsetaframbjóðendum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. apríl 2012
Nýja upprásin
Hvorki útrás né innrás, heldur er Esjustígur ansi fjölfarinn á fallegum vorkvöldum. Kannski oftar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. apríl 2012
Um ferðaþjónustuna á Sprengisandi
Ég missi (næstum) aldrei af Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar en nú hljóp aldeilis á snærið hjá leiðsögumanninum. Í dag, 15. apríl, talaði Sigurjón við Ólafíu Sigurjónsdóttur sem er nánasti vinur skemmtiferðaskipanna hjá Atlantik. Mér til undrunar hefur hún ekki áhyggjur af stóra skipadeginum 18. júní.
Svo talaði hann við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem er mjög bjartsýn gagnvart framtíðinni. Gott ef hún var ekki líka þeirrar trúar að náttúruöflin ætluðu að hafa sig hæg, a.m.k. á þessu ári. Já, ég skal taka undir það.
Þá kom Birkir Hólm Guðnason hjá Flugleiðum (ég sver að ég hélt að hann væri hjá Iceland Express) og var mjög kátur með að áfangastöðum hefði fjölgað (Denver er nýr) sem og vélum (úr 14 í 16 - virkilega hjá Icelandair?) og þeirrar trúar að ferðamenn sem stoppa fyrst stutt þegar þeir eru á leiðinni annað komi aftur. Það þarf að fjölga ferðamönnum utan háannar, október til maí.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri rak lestina, reifaði nýja lagasetningu um ferðamál sem er í vinnslu og talaði almennt um samþættingu innan greinarinnar.
Þau töluðu ekkert mikið um leiðsögumenn en þeir skipta samt miklu máli í upplifun margra ferðamanna til landsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2012
Biðlaun og eftirlaun forseta
II. kafli. Forseti Íslands.
2. gr. Fyrrverandi forseti Íslands á rétt á eftirlaunum að liðnum þeim sex mánuðum sem hann nýtur biðlauna, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1990.
Eftirlaunin nema 60% af launum forseta Íslands eins og þau eru ákveðin af kjararáði hverju sinni. Ef forseti hefur gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil eru eftirlaunin 70%, en 80% hafi hann gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil.
Þessi kafli er úr lögum nr. 141/2003 sem voru felld úr gildi með lögum nr. 12/2009.
Ef Ólafur Ragnar Grímsson hættir 31. júlí næstkomandi verður hann með 80% af launum sínum.
Um næsta forseta gildir hins vegar þessi grein úr lögum nr. 10/1990:
4. gr. Sá sem kjörinn hefur verið til og gegnt hefur embætti forseta Íslands á rétt til launa skv. 1. gr. í fyrstu sex mánuði eftir að látið er af embætti. Taki fyrrverandi forseti stöðu í þjónustu ríkisins fellur þessi launagreiðsla niður ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka sex mánaða tímans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. apríl 2012
Samkeppni spamkeppni
Nú er ég búin að sjá margar massaðar auglýsingar (eða þá sömu mörgum sinnum) frá Bauhaus sem ætlar líklega að veita öðrum smásölum samkeppni og hugsanlega líka að stækka markaðinn.
Þjóðverjar eru eins velkomnir og hverjir aðrir inn á markaðinn fyrir mér. Ég bara get ekki að því gert að ég efast alveg í botn um að þetta sé skynsamlegt. Húsið er höll að stærð, auglýsingarnar hljóta að vera rándýrar og uppbygging í steinsteypu og timbri er í hægagangi.
Ég get heldur ekki að því gert að ég tek talsvert mark á því sem maðurinn í Múrbúðinni sagði í útvarpinu í síðustu eða þarsíðustu viku: Menn segja að maður eigi að fagna samkeppni en ég óttast mest að Landsbankinn taki Bauhaus í fangið með haustinu því að bankinn má ekkert aumt sjá.
Já, Múrbúðin er í samkeppni við aðra á byggingavörumarkaði en ég held að hún sé í einkaeigu og ég held að verðlagning þar sé sanngjörn. Það er ekkert gagn að afslætti ef verðið hefur áður verið skrúfað upp í topp þannig að ég vil heldur sanngjarnt verðlag og engan afslátt.
Ég er bara ekki að fara að byggja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. apríl 2012
,,Aldrei fór ég suður"
Ég fór svo sem ekki vestur (landfræðilega meira í norður samt) til að fylgjast með rokkhátíð alþýðunnar en Inspired by Iceland færði mér tónleikana heim í stofu. Og þvílíkt sem það var gaman. Ekki allar hljómsveitirnar skemmtu mér, skárra væri það, en alveg áreiðanlega sjálfum sér og mörgum öðrum.
Ég var aðeins að velta fyrir mér umhverfinu sem tónlist sprettur úr. Það má vel vera að engin hljómsveitanna eða flytjendanna 32 sem eru á listanum fái greitt fyrir að koma fram, hvorki af aðgangseyri né beint úr sjóðum hins opinbera en vonandi eru nógu margir sem kaupa diskana eða einstök lög. Ég uppgötvaði Retro Stefson sem var þangað til í gærkvöldi bara nafn á blaði fyrir mér og ég mun sannarlega leggja eyrun betur við í framtíðinni.
Ég er að velta fyrir mér úrtöluröddunum vegna til dæmis listamannalauna. Það er nefnilega ekki alltaf svo einfalt að þeir borgi beint sem njóta. Ég fékk þessa tónleika alveg gefins. Ég borga hins vegar skatta og á sumt sem er líka alveg gefins, til dæmis heilbrigðisþjónustu, reynir lítið hjá mér. Hins vegar tek ég þátt í þeim kostnaði og það með glöðu geði. Tónleikunum er sjónvarpað á alheimsvefnum sem þýðir að ekki aðeins ég í Reykjavík heldur Unnar í London og leikhúsvinir hans geta fylgst með - og heillast. Þeir koma sumir og aðrir segja frá og taka þátt í veltu ferðaþjónustunnar.
Lífið er ekki alltaf svo einfalt að maður geti rukkað alla réttlátlega og nákvæmlega fyrir það sem þeir njóta. Og listageirinn á allt gott skilið, líka í efnahagslegu tilliti.
Mörg eru hrikalega flink með gítara og hljómborð, raddir og framkomu, og bjuggu til ógleymanlega stemningu. Líka fyrir mig sem hef slappt tóneyra og er þjökuð af bullandi lagleysi (að sögn).
Ég þakka Mugga, Mugison og öllum hinum páskalega fyrir allt dekrið og ætla í búðina eftir helgi til að kaupa disk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. apríl 2012
Strætó á páskum
Ég stefni á svakalegt ferðalag um páskana upp í 129 Reykjavík eða eitthvað álíka. Strætó fer ekki alla leið sem er allt í lagi fyrir mig því að ég ætla að taka hjólið með í uppsveitirnar og hjóla svo til baka eftir heimsóknina. En ég var ekki alveg viss um að allir vagnar tækju hjól þannig að ég fór að grúska í straeto.is. Og viti menn, ég fann þetta:
Heimilt er að ferðast með barnavagna og barnakerrur í vögnum strætó, meðan (og ef) rými leyfir.
Reiðhjól eru einnig leyfileg meðan (og ef) rými leyfir. Barnavagnar og hjólastólar hafa forgang og geta hjólreiðamenn þá átt það á hættu að vera vísað úr vagninum með hjól sín.
Látum vera þó að ég fái ekki að fara í vagninn ef svo óheppilega skyldi fara en að eiga það á hættu að vera úthýst ef barnavagn eða hjólastóll mætir finnst mér dálítið hæpið þótt ég skilji vitaskuld forganginn. Vitanlega.
Eitthvað segir mér samt að það reyni ekki oft á þetta. Og ég er ákveðin í að taka sénsinn en hafa borð fyrir borð og mæta klukkutíma of snemma í búðinginn. Verst að veðurspáin skuli ekki vera áreiðanlegri ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 2. apríl 2012
kjosa.betrireykjavik.is
Ég er sæmilega nýjungagjörn og tók því fagnandi að greiða atkvæði í íbúakosningunni (þótt Þrándur finni henni allt til foráttu). Í hverfinu mínu gat ég valið á milli 10 verkþátta - og ég valdi ekki hundagerðið í Öskjuhlíðinni.
Lokadagur á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)